7. júní 2012 | Viðskiptablað | 855 orð | 1 mynd

1000 milljarða innlendur gjaldeyrir

Holberg Másson

Holberg Másson frumkvöðull
Holberg Másson frumkvöðull
Aflandskrónur eru í eigu einkaaðila, þannig að 45% afföll eru ekki mæling á greiðsluhæfni ríkissjóðs.
Íslenskar krónur eru lögeyrir á Íslandi. Þetta á þó ekki við um svokallaðan „innlendan gjaldeyri“, þetta eru hinar svokölluðu „aflandskrónur“. Það er ekki hægt að nota aflandskrónur til að kaupa sér ís, bensín eða borga íbúð. Þessir peningar komu til vegna spákaupmennsku erlendra í vaxtamunarviðskiptum sem Seðlabankinn ýtti undir með hávaxtastefnu sinni og svokallaðra „froðu eigna“ gömlu bankanna. Vandamálið er kallað snjóhengja, 1000 milljarðar sem færu í að kaupa eignir á íslenska markaðnum myndu setja allt á annan endann, eða rústa genginu.

Gengið myndi sennilega hrynja um 50-60% í það minnsta frá því sem það er í dag ef þessum aflandskrónum væri flestum breytt í evrur.

Lítil umræða hefur verið um viðfangsefnið og skortur hefur verið á einföldum framkvæmanlegum tillögum sem hægt er að framkvæma strax. Hér á eftir er sett fram hugmynd um lausn á aflandskrónuvandanum byggð á umræðum á Alþingi og tillögum SA. Hugmyndin gengur út á að skattleggja strax þessar aflandskrónur og breyta þeim yfir í langt ríkisskuldabréf í evrum, í reynd þýddi þetta afföll uppá um 45% á aflandskrónur.

Aflandskrónur eru í eigu einkaaðila, þannig að 45% afföll eru ekki mæling á greiðsluhæfni ríkissjóðs, en nýlega samþykktu kröfuhafar um 50% afföll af grískum ríkisskuldabréfum. Með þessari aðgerð væri Íslenska ríkið einungis að skera aflandskrónueigendur úr eigin snöru. Með þessari aðgerð gætu allir eigendur aflandskróna komið þeim í að vinna fyrir sér, erlendir bankar geta til dæmis fært sem eign íslensk ríkisskuldabréf í evrum en ekki aflandskrónur. Í kjölfarið væri auðveldara að afnema gjaldeyrishöftin.

Friðrik Már Baldursson flutti á morgunfundi SA þann 16. maí erindi um afnám gjaldeyrishafta. Í því erindi kom fram að um 1000 milljarðar, aðallega í eigu erlendra aðila, væru læstir inni hér á landi og m.a. vegna vaxtagreiðslna væri þetta vandamál að versna um 50 milljarða á ári. Telur Friðrik Már að of hægt gangi að leysa þetta vandamál vegna lítils hvata einstakra aðila að taka þátt í áætlun Seðlabankans.

Hugmyndin er að aflandskrónur verði lagðar af 31. desember 2012 með lögum, íslenska ríkið leysi til sín/kaupi allar aflandskrónurnar. Eitt væri látið yfir alla ganga, hvernig sem þeir öfluðu sér aflandskróna, í hvaða formi sem þær eru í dag, reiðufé, verðbréf, eða annað form og hvort sem um væri að ræða íslenska eða erlenda aðila, lögaðila jafnt sem einstaklinga.

Íslenska ríkið byrji á því að skattleggja þessar aflandskrónur með 20% útgönguskatti. Margir eigendur aflandskróna geta dregið slíkan kostnað frá sköttum sínum og myndi því ekki kosta þá mjög mikið.

Mörg erlend ríki hafa síðustu ár leyst gjaldeyrisvandamál sín með slíkum sköttum, þó það sé ekki vinsælt er þetta þekkt leið og góð lausn á erfiðu máli. Þessi skattur myndi gefa íslenska ríkinu einskiptisskatttekjur að upphæð 200 milljarðar.

Íslenska ríkið myndi kaupa allar aflandskrónurnar eftir að búið væri að draga útgönguskattinn frá, án undantekninga, með greiðslum í skuldabréfi gefnu út í evrum. Gengið væri 238,8 kr. fyrir hverja evru, sem er það meðalgengi sem kom fram í síðasta aflands krónukaupaútboði Seðlabankans, í maí. Greiðslurnar væru í formi ríkisverðbréfa í nýjum flokki í evrum, með jöfnum árlegum afborgunum, með 3,5% vöxtum, til 25 ára. Bréfin væru skráð á markaði og væru ekki bundin, þ.e. aðilum væri frjálst að selja þau.

Þeir kröfuhafar sem hafa ekki ennþá fengið greitt frá gömlu bönkunum hefðu 5 ár til að gera upp þau viðskipti eða gætu afhent þær íslenska ríkinu á hrakvirði, gegn greiðslu í samskonar evru ríkisverðbréfum. Þar sem aflandskrónur væru aflagðar um næstu áramót myndu eigendur þeirra ekki fá neina vexti á þær eða eignir tengdar þeim frá og með næstu áramótum.

Það sem næst fram með þessu er að stærsta einstaka vandamálið í að leysa gjaldeyrishöftin væri frágengið, væntanlega eru þá færri vandamál eftir. Ekki verður séð að æskilegt sé að leysa þessi mál með samningum við alla kröfuhafa, lögin myndu setja alla eigendur aflandskróna við sama borð, aflandskrónurnar væru ekki lengur til, allir fengju sömu kjör, greitt með ríkisskuldabréfunum í evrum.

Með þessu móti myndi íslenska ríkið skulda um það bil 545 milljarða króna, sannarlega í evrum en íslenska ríkið fengi fyrir það 800 milljarða í aflandskrónum, sem endurgreiddar eru á 25 árum með sanngjörnum 3,5% vöxtum í evrum sem væri þá hluti af endurfjármögnun íslenska ríkisins. Þessi nýju evru ríkisskuldabréf ættu að vera góður kostur íslenskum fjárfestum og ætti að vera hægt að kaupa þau með venjulegum íslenskum krónum. Íslenska ríkið myndi nota þessar 800 milljarða sem það var að kaupa til að borga upp aðrar íslenskar skuldir sínar.

Afborganir af evru skuldbréfunum væru 22 milljarðar ISK á ári, auk vaxta að upphæð 19 milljarðar fyrsta árið, sem lækka eftir því sem skuldabréfin eru greidd niður. Með þessari aðgerð gæti íslenska ríkið leyft sér að greiða upp flest önnur gjaldeyrislán sem tekin voru til gjaldeyrisvarna því ákveðið rekstraröryggi væri komið í lánamál ríkisins.

Núverandi kostnaður íslenska ríkisins við gengisvarnir er nálægt sömu upphæð eða um 40 milljarðar ISK. Íslenska ríkið gæti fært til tekna 200 milljarða einskiptisskatt og hefði möguleika á að hagnast á gengismun á evru ríkisskuldabréfinu, ef gengið lækkaði ekki of mikið á næstunni, það ætti að hjálpa til í rekstri ríkisins. Einnig mætti nota þessar krónur til þess að greiða niður krónuskuldir ríkissjóðs.

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.