17. júní 1994 | Daglegt líf (blaðauki) | 807 orð

Bústaðir álfa

í Elliðaárdal kortlagðir ÁLFAR hafa alltaf verið okkur hugleiknir, þjóðsögur okkar og menningararfleið er full af sögum af álfum. Það kannast flestir við strákinn sem henti grjóti í álfaklett, og manninn sem heillaðist af álfameyju, og fleiri álfasögur.

Bústaðir álfa

í Elliðaárdal kortlagðir

ÁLFAR hafa alltaf verið okkur hugleiknir, þjóðsögur okkar og menningararfleið er full af sögum af álfum. Það kannast flestir við strákinn sem henti grjóti í álfaklett, og manninn sem heillaðist af álfameyju, og fleiri álfasögur. Enn eru álfar áhrifamiklir á Íslandi. Breyta hefur þurft skipulagi framkvæmda, bygginga og vega vegna þeirra. Nærtækt dæmi er Álfhóllinn á Álfhólsvegi í Kópavogi, og fleiri slíkar raskanir verða á okkar mannlegu framkvæmdum.

Álfabyggð í Elliðaárdalnum kortlögð

Álfar hafa áhrif á fleiri sviðum. Á döfinni er að gera nýtt álfakort yfir Elliðaárdalinn á vegum Ferðamálanefndar Reykjavíkur. Margrét Theodórsdóttir sem á sæti í nefndinni segir hugmyndina vera þá að fólk geti virkjað ímyndunaraflið og upplifað ævintýri jafnframt því sem það nýtur útiverunnar í náttúrunni.

Álfar eru órjúfanlega tengdir menningu okkar og sögu, flest allir Íslendingar eru sagðir trúa á álfa, huldufólk og tröll, og jafnvel þó að margir neiti slíkum átrúnaði, gefa þeir oft hornauga sérkennilegum klettum og landslagi sem er einhvernveginn til þess fallið að álfar eigi sér þar búsetu.

Umsjón með verkinu hefur Kolbrún Oddsdóttir landslagsarkitekt og Erla Stefánsdóttir sem er höfundur. Erla er sjáandi og hefur verið höfundur fleiri álfakorta, eins og álfakorts Hafnarfjarðar og nýs álfakorts yfir Ísafjörð. "Þetta er aðferð til þess að njóta og tengjast náttúrunni. Álfar eru náttúruvættir og eru til í alls kyns myndum, allt frá örsmáum dvergum upp í margra kílómetra stórar ljósverur, sumar eru eins og sólargeislar, sem ekki er hægt að sjá, heldur finnast eins og hiti á kinn. Aðrir álfar eins og huldufólk eru í mannsmynd og mörgum svipar til mynda í ævintýrabókum."

Kolbrún segist hafa kynnst Erlu fyrst þegar hún var að vinna að framkvæmdum við útivistarsvæði í Fossvoginum, "þar var eitthvað sem hamlaði framgangi verksins, verkfæri skemmdust og dularfullir atburðir gerðust. Erla var þá kölluð til, hún komst að því að verið var að raska bústað lítilla jarðdverga. Þá var stígnum sem unnið var við beint annað eftir leiðsögn Erlu, og þá gengu framkvæmdirnar snurðulaust fyrir sig".

Álfaskoðunarferðir farnar um Hafnarfjörð

Erla hefur haft álfaskoðunarferðir fyrir Íslendinga eftir korti sínu í Hafnarfirði. Hún segir að fólk sem komi í ferðirnar hafi oft orðið vart við eitthvað, og þó að sumir hafi ekki orðið varir við neitt þá finnist fólki þetta ævintýralegt og skemmtilegt, og að það njóti útiverunnar á annan hátt en áður.

Erla segir að til þess að geta notið kortsins þurfi að slappa af og fara í eins konar hugleiðslu, þannig er hægt að komast í tengsl við náttúruna og sjá og finna fyrir álfabyggðinni.

Álfar eru misjafnir eins og mannfólkið, Erla kortleggur aðeins byggðir vinsamlegra og kátra vera sem styggjast ekki við umgang manna.

Sérstök stemning í álfabyggðum

Að sögn Erlu er sérstök stemmning þar sem álfar eru, sem fólk verður vart við, þó að það sjái þá ekki. "Heildarspil náttúrunnar sem er öll lifandi hefur þessa stemmningu. Álfar geta verið alls staðar, það er ekkert eitt einstakt "álfalegt" landslag til, heldur fara bústaðir álfa eftir orkulínum sem eru eins konar lífæðakerfi jarðarinnar, þær geta verið kílómetra breiðar."

En afhverju álfakort yfir Elliðaárdalinn? Kolbrún Oddsdóttir landslagsarkitekt svarar þessu; "Það var búið til lítið kort yfir Elliðaárdalinn fyrir sex árum, sem nú er uppselt. Þar eru kortlagðir góðir hvíldarstaðir og meiri fjölbreytni býðst íbúum í hverfunum í kring til að nýta útivistarsvæðið. Að auki hefur þetta ferðamannagildi. Ferðamönnum finnst þessi átrúnaður Íslendinga vera forvitnilegur, landslagið seiðandi og ævintýralegt og þeir líta á Ísland út frá sterkri náttúru þess. Þetta er kortlagning ævintýranna, og þó að fólk komi ekki auga á álfana þá vinnur ímyndunaraflið."

Áætlað er að byrja á kortlagningu í júlí í sumar og að það komi út um jólin. Kostnaður við verkið mun verða ein til ein og hálf milljón króna. Í þeirri upphæð er undirbúnings-, hönnunar-, og prentunarkostnaður. "Þetta er mikil og skemmtileg vinna sem hefur sérstök áhrif á mig" segir Kolbrún.

Það er nýbúið að kortleggja álfabyggð á Ísafirði, og mun það kort koma út nú fyrir Jónsmessu.

Þórdís Hadda Yngvadóttir

teikning Erla Stefánsdóttir Álfar eru til í alls kyns myndum, allt frá örsmáum dvergum upp í margra kílómetra stórar ljósverur.

teikning Erla Stefánsdóttir Huldufólk er í mannsmynd.

teikning Erla Stefánsdóttir Mörgur álfum svipar til mynda í ævintýrabókum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.