13. júní 2012 | Aðsent efni | 982 orð | 1 mynd

Þegar rökin þrýtur

Eftir Steingrím J. Sigfússon

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Eftir Steingrím J. Sigfússon: "Síðan hvenær varð það syndsamlegt athæfi að mati Morgunblaðsins að einstaklingar legðu fram hlutafé til atvinnuuppbyggingar?"
Það liggur mikið við hjá Morgunblaðinu að sverta mannorð undirritaðs þessa dagana. Ekki virðast reglubundnir níðdálkar blasins, Staksteinar og leiðarar, þar sem undirritaður er sagður koma títt við sögu, duga. Ef til vill átta höfundar sig á því að sómakært fólk gefst upp við lesturinn og mun þess að sögn gæta allverulega í minnkandi áskrifendafjölda. Morgunblaðið grípur því í viðbót til þess úrræðis sem alla jafnan hefur verið talið lægsta stig umræðu og til marks um að rökin eru þrotin, að hjóla í manninn. Á tímum Evrópukeppni í knattspyrnu er samlíkingin nærtæk. Víðtækari útgáfa þessarar aðferðar er að taka ekki aðeins viðkomandi einstakling fyrir heldur fjölskyldu hans líka og skiptir þá ekki máli hvort lífs eða liðnir eiga í hlut. Oft hef ég velt því fyrir mér hvernig eigendum blaðsins líði, standandi með fé sínu og kostar víst sitt, fyrir því að blað þessarar gerðar komi út. En það er önnur saga.

Morgunblaðið hefur nú endurunnið 15-20 ára gamlar upplýsingar um að ég hafi um skeið átt hlutafé í Hraðfrystistöð Þórshafnar. (Sjá Morgunblaðið laugardaginn 9. júní sl.) Og ekki bara ég heldur bræður mínir tveir og faðir minn heitinn. Rúsínan í pylsuendanum hjá Mogga er svo að ég hafi látið þessa hlutafjáreign ráða afstöðu minni til auðlindamála. Allt er þetta á þvílíku lágkúrplani hjá blaðinu og tilgangurinn svo dapurlega augljós, nú mitt í yfirstandandi glímu um sjávarauðlindina, að svör af minni hálfu við þessum málflutningi sem slíkum væru ofrausn.

Hitt er annað að mér er annt um að sagan af stuðningi heimamanna við uppbyggingu atvinnulífs á Þórshöfn og við Þistilfjörð, og minn hlutur þó í litlu væri þar með talið, sé ekki svert. Af þeirri sögu er ég stoltur og vil gjarnan deila broti með þeim sem eiga haldbetri upplýsingar skilið en mannorðsatlögur Moggans. Stutta útgáfan af henni er svona:

Hraðfrystistöð Þórshafnar

Heimamenn í byggðarlaginu stofnuðu Hraðfrystistöð Þórshafnar á félagslegum grunni í júní 1969 í því skyni að auka atvinnu og treysta byggð. Fyrirtækið efldist og varð að burðarás atvinnu til sjós og lands með skipakaupum, uppbyggingu fiskvinnslu, bæði saltfiskvinnslu og frystingu, uppbyggingu öflugrar loðnubræðslu, kúfiskvinnslu um árabil og er á leið urðu veiðar og vinnsla á uppsjávarfiski að þungamiðju starfseminnar. Þessi ferill var að sjálfsögðu ekki áfallalaus en útkoman engu að síður að í dag er rekin blómleg starfsemi á Þórshöfn og milljarða útflutningsverðmæti þaðan leggja sitt til þjóðarbúsins árlega. Nú síðustu árin er reksturinn hluti af starfsemi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum sem stendur myndarlega að málum.

En þá að hinu mikla hneyksli sem Morgunblaðið hefur nú uppgötvað u.þ.b. 15 árum á eftir öðrum fjölmiðlum. Að undirritaður og fleiri úr minni fjölskyldu áttu um tíma hlutafé í fyrirtækinu. Það kom svona til í mínu tilviki og ég hygg mjög margra annarra.

Hraðfrystistöð Þórshafnar átti í umtalsverðum rekstrarerfiðleikum eins og mjög mörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki á árunum 1988-1990. Stjórnvöld höfðu árin þar á undan byggt á svonefndri fastgengisstefnu sem hljómar ágætlega þar til því er bætt við að genginu var sem sagt haldið föstu í umtalsverðri verðbólgu. Afkoma útflutningsstarfseminnar versnaði því jafnt og þétt uns svo var komið að velflest fyrirtækin voru að verða gjaldþrota á árinu 1988. Eitt stykki ríkisstjórn sprakk í beinni útsendingu sökum þess að hún kom sér ekki saman um viðbrögð. Ný ríkisstjórn fór í umfangsmiklar aðgerðir til að endurreisa grundvöll útflutningsgreinanna og nauðsynlegt reyndist að endurfjármagna mörg fyrirtækjanna. Þar á meðal var Hraðfrystistöð Þórshafnar. Opinber sjóður í eigu ríkisins eignaðist 49% hlutafjárins við fjárhagslega endurskipulagningu. Heimamenn höfðu hins vegar fullan hug á því að endurheimta forræði yfir fyrirtækinu og færa það aftur í heimabyggð. Fyrst var hlutafé aukið heimafyrir með þátttöku sveitarfélaganna og lækkaði þá eignarhlutur ríkisins. Því næst var safnað liði og starfsmenn og fyrrverandi starfsmenn (undirritaður er meðal þeirra), aðrir heimamenn og brottfluttir voru hvattir til að taka þátt í kaupum á eignarhlut ríkisins aftur heim. Ríkið fékk með kaupum heimamanna sitt til baka með hagnaði eins og almennt varð eftir hina vel heppnuðu aðgerð (sjóðasukkið sem ónefndur maður kallaði svo) og heimaaðilar endurheimtu fullt forræði yfir fyrirtækinu.

Ef minnið svíkur ekki þá urðu á annað hundrað einstaklingar við þessu kalli. Menn skráðu sig fyrir hlut eftir efnum, ástæðum og vilja og þeim sem ekki áttu handbært fé bauðst lán til kaupanna. Þannig var það í mínu tilviki. Ég tók lán fyrir því hlutafé sem ég lagði fram og borgaði af því samviskusamlega vexti og afborganir allt þar til yfirtökuskylda myndaðist í fyrirtækinu og ég eins og flestir aðrir lét hlut minn af hendi. Ég greiddi þar með upp lánin og eftir varð vissulega nokkur afgangur, en ekki sú fjárhæð að það ætti að valda þeim andvökum sem þekkja hærri tölur, t.d. um taprekstur Morgunblaðsins undanfarin ár. Ef ekki hefði komið til yfirtökunnar og heimamenn hefðu enn forræði fyrirtækisins í sínum höndum, geri ég ráð fyrir að ég ætti áfram þennan litla hlut. Og vel að merkja fyrir áhuga sakir. Síðan hvenær varð það syndsamlegt athæfi að mati Morgunblaðsins að einstaklingar legðu fram hlutafé til atvinnuuppbyggingar? Nema það sé bannað ef aðrar hvatir en gróðahyggja liggja að baki?

Fjallalamb líka

Ég er stoltur af því að hafa í þessu tilviki eins og fleirum reynt að leggja mitt litla af mörkum í þágu atvinnuuppbyggingar á mínum heimaslóðum. Ég á með sama í huga lítinn hlut í Fjallalambi, sláturhúsi og kjötvinnslu bændanna á norðausturhorninu. Það eiga einnig bræður mínir, bændurnir á Gunnarsstöðum. Vill kannski Mogginn kafa ofaní það hneyksli næst? Verst að það verður heldur ekki beinlínis ný frétt. Á heimasíðu Vinstri grænna hafa frá því fljótlega eftir stofnun flokksins og löngu áður en slíkt var lögskyldað, verið öllum aðgengilegar upplýsingar um hlutafjáreign mína og hagsmunatengsl eins og annarra þingmanna flokksins. Ættingjar Moggans urðu eitthvað seinni til í því tilviki.

Dæmi nú hver fyrir sig. Annars vegar um minn hlut í þessu máli og hins vegar um blaðamennsku Morgunblaðsins, þ.e.a.s. ef viðeigandi er í þessu tilviki að nota það orð.

Höfundur er efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.