17. júní 1994 | Daglegt líf (blaðauki) | 933 orð

Þessir ungu

krakkar búa yfir ótrúlegu hugmyndaflugi ÞAÐ mátti heyra saumnál detta í smíðastofu Foldaskóla fyrir skömmu þar sem fram fór sumarnámskeið Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur í nýsköpun fyrir 9, 10 og 11 ára krakka. Einbeitingin skein úr hverju

Þessir ungu

krakkar búa yfir

ótrúlegu hugmyndaflugi

ÞAÐ mátti heyra saumnál detta í smíðastofu Foldaskóla fyrir skömmu þar sem fram fór sumarnámskeið Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur í nýsköpun fyrir 9, 10 og 11 ára krakka. Einbeitingin skein úr hverju andliti á meðan hönnunarvinnan stóð yfir og ekki var áhuginn minni þegar kom að því að útfæra hlutina í endanlegri mynd. Þátttakendur voru fjórtán talsins úr hinum ýmsu skólum borgarinnar, en fyrir utan hönnunar- og smíðavinnu gerðu krakkarnir eitt og annað sér til dundurs utan dyra þegar þannig viðraði.

Gísli Þorsteinsson er smíðakennari í Foldaskóla og mikill áhugamaður um nýsköpun barna. Einnig liðsinntu á námskeiðinu Bragi Einarsson hugvitsmaður og Valdór Bogason smíðakennari í Hamraskóla. Foldaskóli er móðurskóli fyrir nýsköpun á Íslandi, en undanfarin 3 ár hefur verið haldin svokölluð nýsköpunarkeppni grunnskólanema. Þar hafa nemendur sannað getu sína til að kljást við raunveruleg verkefni og koma með einfaldar og gagnlegar lausnir á þörfum umhverfisins. Áhersla hefur verið lögð á að koma nýsköpunarnámi og -starfi inn í grunnskólakerfið og tryggja breyttum viðhorfum framgang. Í Foldaskóla hefur verið þróað starf með nemendum bæði í formi skyldunáms, vals og námskeiða og getur hæglega verið fyrirmynd fyrir aðra skóla sem áhuga hafa á slíku starfi.

"Hérna byrjaði þetta allt og hér hefur mesta gróskan verið. Nú viljum við miðla öðrum skólum af okkar reynslu. Um 120 krakkar tóku þátt í nýsköpun í skólanum í vetur og nemendur úr Foldaskóla áttu hvorki meira né minna en 520 hugmyndir af þeim 700 hugmyndum, sem bárust í Hugvitskeppni grunnskólanema í ár. Jarðvegur hér er því afar góður og við vonum að þetta muni skila sér út í þjóðfélagið í auknum atvinnutækifærum. Við viljum hvetja þessa krakka til dáða enda búa þeir yfir ótrúlegu hugmyndaflugi. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Við erum m.a. að reyna að koma á samskiptum við krakka erlendis sem eru að fást við líka hluti og vitum nú af nokkuð öflugum félagasamtökum ungra hugvitsmanna í Argentínu, Svíþjóð og Kúveit," segir Gísli.

Þetta er í annað sinn sem ÍTR stendur fyrir slíku sumarnámskeiði, en í fyrra var Litli uppfinningaskólinn, eins og hann var þá kallaður, til húsa í Ketilstaðaskóla í Mýrdal.

Á námskeiðinu veltu þátttakendur sköpunargáfunni fyrir sér, hvernig alvöru hlutir verða til, hvernig söluvara verður til og hvernig framleiðsluferlið gengur fyrir sig. Ýmis hugtök voru jafnframt brotin til mergjar, svo sem hugmynd, líkan, frumgerð, prófun, mynsturvernd, markaður, markhópur, hönnun, eiginleikar, rannsóknir, nýjung, réttvörpun, skávörpun og mælikvarði og snið.

Félag ungra uppfinningamanna

Ungir hugvitsmenn stofnuðu fyrir skömmu eigið félag, m.a. til að efla nýsköpun á Íslandi. Það hefur hlotið nafnið Félag ungra uppfinningamanna og var Einar S. Einarsson, 15 ára nemi í Foldaskóla, kjörinn fyrsti formaður þess, en hann hefur verið ötull uppfinningamaður á síðustu árum. Allir sem eru innan við tvítugt, og hafa ýmist tekið þátt í keppni eða notið kennslu á sviði hönnunar, eiga kost á að ganga í hið nýja félag. Því er jafnframt ætlað að styrkja samstarf ungra uppfinningamanna, taka að sér verkefni fyrir atvinnulífið, koma á framfæri hugmyndum félaga, stofna til samskipta við erlend félög, taka þátt í alþjóðlegum sumarskólum í nýsköpun og samkeppni hér og erlendis og koma upp funda- og vinnuaðstöðu fyrir félaga.

Félagar hafa flestir sótt námskeið í nýsköpun með kennara og hugvitsmann sem leiðbeinendur. Þeir hafa fengið þjálfun í teikningu og aðstoð í að búa hlutina til. Aðaláherslan hefur verið á gagnlegan og söluvænan nytjahlut með mynsturvernd eða einkaleyfi í huga auk þess sem verkefni hafa borist frá atvinnulífinu. Bestu hugmyndunum úr árlegro hugvitskeppni grunnskólanna er reynt að koma í framleiðslu með aðstoð nýstofnaðrar þróunardeildar Tækniskóla Íslands og iðnaðarráðuneytis. Nú er verið að vinna að sölu nokkurra hugmynda og eru þó nokkrar þeirra komnar á framleiðslustig, t.d. kassi undir símaskrá sem er hugmynd 8 ára pilts úr Foldaskóla.

Jóhanna Ingvarsdóttir Morgunblaðið/Emilía FJÓRTÁN ungir uppfinningamenn tóku þátt í sumarnámskeiði ÍTR. Hér eru þau í smíðastofunni ásamt Braga Einarssyni hugvitsmanni, Gísla Þorsteinssyni og Valdóri Bogasyni smíðakennurum.

VILBORG Gísladóttir með salt- og piparstauk úr akrýlplasti sem hún hannaði og smíðaði sjálf.

GÖMUL hugmynd í nýjum búningi. Hamstrahjól úr plexígleri og vírneti eftir Jóhann Erni Vilmundarson. Hjólið er hugsað sem leikfang fyrir hamstra.

HULDA Lárusdóttir var að búa til nótnastatív, sem hún vildi hafa bæði vatns- og vindhellt.

VEIÐIHENDI er dæmi um mjög frjótt ímyndunarafl höfundarins Kjartans Freysteinssonar. Fimm önglar hanga niður úr hverjum putta og ef það bítur á einhvern þeirra, byrjar hendin að vinka veiðimanninum.

EINAR S. Einarsson, 15 ára, er nýkjörinn formaður nýstofnaðs Félags ungra uppfinningamanna, en félaginu er m.a. ætlað að efla nýsköpun hér á landi og koma á samskiptum við erlend félög á þessu sviði. Einar hefur verið ötull uppfinningamaður á síðustu árum. Hann hefur t.d. hannað skurðarbretti fyrir einhenta og svokallaða ísletingja. Um er að ræða hólk fyrir veiðistöngina sem svo flautar þegar fiskur bítur á.

GUÐRÚN Lárusdóttir er yngst þeirra, sem hefur verið í nýsköpun. Hún er aðeins sjö ára og vílar það ekki fyrir sér að teikna í þrívídd.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.