á lýðveldistíma Í eftirfarandi grein Sigríðar Th. Erlendsdóttur um kvenréttindi á lýðveldistímanum kemur m.a. fram að 32 konur hafa verið kjörnar á alþingi á þeim ríflega sjö áratugum sem liðnir eru frá því að fyrsta konan tók þar sæti. I egar litið er

Kvenréttindi

á lýðveldistíma

Í eftirfarandi grein Sigríðar Th. Erlendsdóttur um kvenréttindi á lýðveldistímanum kemur m.a. fram að 32 konur hafa verið kjörnar á alþingi á þeim ríflega sjö áratugum sem liðnir eru frá því að fyrsta konan tók þar sæti.

I

egar litið er um öxl er erfitt að verjast þeirri hugsun að blómaskeið kvenréttindabaráttunnar hafi verið tveir fyrstu áratugir þessarar aldar. Þá voru sett á nokkrum árum lög sem breyttu réttarstöðu íslenskra kvenna og mörkuðu tímamót. Um er að ræða lög um kosningarétt og kjörgengi giftra kvenna til sveitarstjórna 1907 og 1909, lög um jafnrétti í menntunarmálum og embætta 1911, lög um kosningarétt og kjörgengi kvenna til Alþingis 1915 og loks skilyrðislaust lagalegt jafnrétti 1926. Þessir áfangar hafa hlotið sérstakan sess í sögu íslenskra kvenna sem mikilvæg spor á leið til jafnréttis. Frumkvæði að ofangreindri lagasetningu áttu konur með Bríeti Bjarnhéðinsdóttur (1856­1940) í fararbroddi. Undir hennar forystu bundust konur samtökum, hrundu af stað fjöldahreyfingu, börðust fyrir rétti sínum í ræðu og riti og ruddu öllum hindrunum í burtu.

Eftir að hafa hlotið kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna voru konur fljótar að taka við sér. Kvenfélög í Reykjavík buðu fram kvennalista við bæjarstjórnarkosningarnar veturinn 1908 undir forystu Kvenréttindafélags Íslands og unnu víðfrægan sigur, komu fjórum konum í bæjarstjórn Reykjavíkur sem þá var skipuð 15 mönnum. Líklega einn mesti pólitíski sigur íslenskra kvenna fyrr og síðar. Þær sinntu fjölbreyttum málaflokkum á þeim vettvangi, ekki einungis mennta-, heilbrigðis- og félagsmálum, heldur enn fremur framfaramálum á borð við vegamál, vatns- og gasmál.

Konur buðu fram kvennalista við sveitarstjórnarkosningar í Reykjavík, á Akureyri og Seyðisfirði alls níu sinnum á tímabilinu 1908­1921. Árin 1922 og 1926 buðu konur fram kvennalista til Alþingis og komu fyrstu konu á þing 1922, Ingibjörgu H. Bjarnason (1867­1941). Kvennalistar komu ekki aftur fram fyrr en 1982 og 1983 með tilkomu Kvennaframboðs og Kvennalista.

Þakklæti sitt fyrir kosningaréttinn 1915 létu konur í ljós með því að hefjast handa um söfnun fyrir Landspítala. Þær unnu sleitulaust að fjársöfnun þar til spítalinn tók til starfa 1930. Á þeim átta árum sem Ingibjörg H. Bjarnason sat á þingi, leiddi hún Landspítalamálið fram til sigurs á þeim vettvangi. Þáttur íslenskra kvenna og kvenfélaga og frumkvæði þeirra í stofnun og rekstri sjúkrahúsa og heilsugæslu alla þessa öld er stórmerkur.

II

Því hefur verið haldið fram að hin eiginlega kvenréttindabarátta hafi liðið undir lok eftir að formlegt jafnrétti var í höfn. Almennt var talið að ekki væri lengur þörf fyrir sérstaka kvenréttindabaráttu og þótti flestum nóg að gert. Talað er um áratugina 1920­1960 sem "þöglu árin" eða hléið. Í fljótu bragði virðist eins og tímabilið hér á landi hafi verið tíðindalítið og hægt hafi miðað að því er snerti stöðu kvenna. Er það hugsanlega einkum vegna þess hve lítt þokaðist í stjórnmálaþátttöku kvenna. Þegar betur er að gáð kemur hins vegar í ljós að það kraumaði undir og að konur héldu vöku sinni. Það voru áhersluatriðin sem breyttust.

Íslenskar konur höfðu farið tvær leiðir í tilraunum sínum til að láta að sér kveða í þróun samfélagsins. Annars vegar reyndu þær að hafa áhrif með því að færa hefðbundin kvennastörf út af heimilunum og bundust samtökum um mannúðar- og góðgerðarstörf. Flest íslensk kvenfélög falla undir þennan flokk. Kvenfélagasamband Íslands var stofnað 1930 með heill heimilanna, félagsþroska og samstöðu kvenna að leiðarljósi. Til marks um velgengni sambandsins er að skömmu eftir stofnun þess rann upp blómatími húsmæðraskólanna hér á landi. Nú eru um 25 þúsund félagsmenn innan vébanda Kvenfélagasambandsins. Hins vegar er um að ræða Kvenréttindafélag Íslands sem stofnað var 1907 til að berjast fyrir stjórnmálaréttindum íslenskra kvenna með fyrrgreindum árangri. Í KRFÍ eru nú um 40 félög og á fimmta hundrað félagsmanna. Styrkur félagsins felst í ákvörðun, sem tekin var á landsfundi 1944, að allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi eiga fulltrúa í stjórn þess. Jafnréttismál hafa í æ ríkara mæli komið til kasta Kvenfélagasambandsins og fulltrúar þess átt aðild að stjórnskipuðum nefndum sem fjalla um jafnrétti kvenna og karla. Kvennasamtökin þrjú KÍ, KRFÍ og Bandalag kvenna í Reykjavík eiga saman og reka Kvennaheimilið Hallveigarstaði en hafa haft takmörkuð not af húsinu fyrir margþætt félagsstörf sín því að meginhluti hússins hefur verið leigður út frá upphafi af fjárhagsástæðum. Samvinna þeirra er bakland kvennabaráttunnar á lýðveldistíma.

Konur í ofangreindum samtökum tóku nú til hendinni við uppbyggingu velferðarkerfis svo að allir, jafnt konur sem karlar, gætu nýtt þau réttindi og uppfyllt skyldurnar sem breytt og bætt löggjöf felur í sér. Það væri ef til vill ekki sanngjarnt að þakka konum einum tryggingalöggjöfina eins og hún er nú en víst er að konur höfðu þar veigamiklu hlutverki að gegna og áttu frumkvæði að nær öllum réttarbótum sem snerta konur og börn. Það munaði um verkalýðsforingjann Jóhönnu Egilsdóttur (1881­1982) þegar hún beitti sér í tryggingamálum á fimmta og sjötta áratug. Ljóst er að kvenréttindabaráttan hefur staðið sleitulaust alla þessa öld. Það er óslitinn þráður. Órofið samhengi milli gömlu kvenréttindahreyfingarinnar og hinnar nýju sem hóf göngu sína hér á landi á síðari hluta sjöunda áratugar.

III

Um 1940 hófst barnasprengingin á Íslandi, eða það sem á ensku er nefnt "The Baby Boom". Fæðingartíðni snarhækkaði og stóð svo stöðugt fram um 1960. Þá varð líklega sú mesta bylting sem orðið hefur í allri sögu kvenna; nýjar getnaðarvarnir komu fram með tilkomu pillunnar í kringum 1960. Þar var komið að þáttaskilum og konur gátu nú í fyrsta sinn skipulagt barneignir sínar og þar með líf sitt og starf. Sagnfræðingar hafa bent á að öruggar getnaðarvarnir, sem gera konum kleift að ákveða hvenær og hve mörg börn þær eignist, marki í raun aldahvörf í sögunni.

Lýðveldissumarið 1944 var verðlaunaljóð Huldu, Unnar Benediktsdóttur Bjarklind, "Hver á sér fegra föðurland", á allra vörum. Á glæsilegum landsfundi Kvenréttindafélags Íslands á Þingvöllum voru settar fram kröfur um að konur hefðu sama rétt og karlar til allrar vinnu, sömu laun fyrir sams konar vinnu og sömu hækkunarmöguleika og þeir. Gifting eða barneign skyldi engin hindrun vera fyrir atvinnu né ástæða til uppsagnar. Þarna kom í fyrsta sinn fram krafan um fæðingarorlof sem verið hefur baráttumál kvenna fram á þennan dag. Árangur þeirrar baráttu er að samkvæmt núgildandi lögum um fæðingarorlof er öllum verðandi mæðrum tryggður réttur til allt að sex mánaða orlofs frá störfum vegna meðgöngu og fæðingar barns.

Það var engu líkara en að konur vöknuðu af dvala því að blaða- og tímaritaútgáfa íslenskra kvenna í kringum lýðveldisstofnun er hin merkasta og ruddi braut nýjum hugmyndum. Vorið 1944 hóf göngu sína Melkorka, tímarit kvenna. Skeleggar greinar í blaðinu hristu upp í konum sem fram að þeim tíma höfðu lítið hugsað út í margt sem þar kom fram. Melkorka kom út til 1962. Árið 1945 kom fyrst út ársritið Embla og flutti ritsmíðar kvenna. Á aldarfjórðungsafmæli kosningaréttar íslenkra kvenna, 19. júní 1940, hóf göngu sína Nýtt kvennablað sem kom út til 1967. Tímarit Kvenfélagasambands Íslands, Húsfreyjan, hefur komið út frá 1950 og ársrit Kvenréttindafélags Íslands, 19. júní, frá 1951. Á Akureyri ritstýrði Halldóra Bjarnadóttir (1873­1981) ársritinu Hlín til 1967.

Jafnréttisbaráttunni var haldið áfram á mörgum sviðum. Bar þar hæst kröfuna um launajafnrétti sem jafnan var eitt af höfuðviðfangsefnum þeirra kvenna sem fremstar stóðu í kvenréttindabaráttunni. Hins vegar einkenndust "þöglu árin" af starfi að velferðarmálum. Konur voru teknar til við að búa til velferðarríkið ef svo má að orði komast.

Ekki var einungis stefnt að launajafnrétti kynjanna heldur einnig rétti kvenna til vinnu. Fram yfir síðari heimsstyrjöld var það nánast viðtekin regla að konur hættu vinnu við giftingu. Þá hafði um nokkurt skeið orðið vart við áróður gegn útivinnandi konum og kom sú stefna greinilega fram í launatöxtum. Fyrir kom að vinnuveitendur sögðu konum upp starfi ef þær giftust og þær raddir gerðust æ háværari að svipta bæri konur starfi við giftingu. Á vinnumarkaðinum ríkti sú stefna að skipta störfum í kvenna- eða karlastörf og starfsmat byggðist á að meta til launa eftir því hvort kynið sinnti verkinu. Hefur sú stefna reynst lífseig.

IV

Óþarft ætti að vera að minna á að fram undir lýðveldisstofnun voru vinnukonur langfjölmennasta stétt launavinnandi kvenna á Íslandi. Þegar sú stétt leið undir lok og fram í sótti fjölgaði konum mest í handverki og iðnaði og þær hópuðust í verslanir og skrifstofur. Jafnframt varð sá siður almennur að greiða konum lægri laun en körlum. Undantekning voru kennarar sem fengu launajafnrétti í lög 1919.

Áfangasigrar í launamálum unnust hægt og sígandi. Árin 1945 og 1954 komst inn í launalög opinberra starfsmanna ákvæði um sömu laun fyrir sömu störf, fyrir atbeina kvenna og kvennasamtaka. Reyndin varð hins vegar sú að lögin voru þverbrotin og lögskipað launajafnrétti dugði skammt.

Árið 1957 var samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 100 frá 1951 um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf lögfest hér á landi. Hefur þessi samþykkt reynst heilladrjúg og orðalagið "jafnverðmæt störf" enn við lýði í síðari endurskoðun jafnréttislaganna frá 1991. Þar með hafði ríkisstjórnin skuldbundið sig til að vinna að því að koma á launajafnrétti. Þrátt fyrir það var allan 6. áratug lagt fram á þingi hvert frumvarpið á fætur öðru um launajafnrétti sem ekki voru útrædd eða dagaði uppi. Samkvæmt lögum um launajöfnuð, sem tóku gildi 1961, áttu laun kvenna að hækka á árunum 1962­1967 til jafns við karla í mörgum starfsgreinum og sértaxtar, sem víða giltu fyrir konur, voru afnumdir. Þrátt fyrir lögin vantaði mikið á að konur og karlar fengju sömu laun fyrir sömu störf. Meðal ríkisstarfsmanna voru til að mynda 90% kvenna í lægri launaflokkum en aðeins um helmingur karla og í efstu launaflokkum voru nær eingöngu karlar. Meðal mikilvægustu orsaka launamisréttis kynjanna voru gerð launaflokkanna og skipan karlastarfa og kvennastarfa í ákveðna flokka. Árið 1973 var Jafnlaunaráði komið á fót en það má telja undanfara jafnréttislaganna.

Á hinn bóginn þarf ekki að draga í efa að skýringuna á því hve árangurslítil baráttan fyrir launajafnrétti var er að finna í viðhorfum til launavinnu kvenna. Rótgróin viðhorf voru þau að giftar konur ættu ekki að vinna utan heimilis nema brýna nauðsyn bæri til, heimilin og börnin liðu fyrir þá ráðabreytni og karlar voru taldir fyrirvinnur heimilanna. Þeim fannst sér meira að segja stórlega misboðið ef þeir gátu ekki séð fjölskyldu sinni farborða. Tekjur einnar manneskju áttu að duga til framfærslu fjölskyldunnar og konur höfðu því ekkert að gera við kaup á við karla. Þessi viðhorf voru við lýði alls staðar, jafnt í verkalýðsstéttum sem öðrum stéttum og ekki síst meðal kvenna sjálfra. Þegar Ísland fullgilti, 1962, samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 111 um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs frá 1958 var um þriðjungur kvenna á Íslandi á vinnumarkaði. Og þegar Ísland fullgilti, sumarið 1985, samning Sameinuðu þjóðanna frá 1979 um afnám allrar mismununar gagnvart konum voru yfir 80% kvenna launavinnandi.

V

Á fáum sviðum hefur önnur eins breyting orðið og á menntun kvenna. Ef litið er á nemendafjölda og fjölda útskrifaðra úr menntaskólum og Háskóla Íslands eru konur orðnar fjölmennari en karlar. Konur með háskólapróf eða aðra sambærilega menntun hafa undanfarin ár verið á hraðri leið inn í embættismannastéttina. Hins vegar er það ljóst að aukin menntun hefur, enn sem komið er, ekki reynst þeim það frelsisafl sem þær höfðu vonað. Nægir í því sambandi að nefna hlutfall þeirra í valdastöðum og laun.

Enda þótt íslenskar konur hafi haft rétt til prestsembætta frá 1911 var það ekki fyrr en 1974 að fyrsta konan, Auður Eir Vilhjálmsdóttir, var vígð. Með vígslu hennar urðu þáttaskil. Hún gekk síðan í gegnum þá eldraun að bíða þrisvar lægri hlut í prestskosningum. Mátti hún þola slíkt umtal og róg að varla eru dæmi um slíkt. Nú, tveimur áratugum síðar, er svo komið að fleiri stúlkur innritast í guðfræðideild en piltar og kvenguðfræðingar eru orðnir yfir þrjátíu talsins.

Stór hópur kvenna hefur verið í fremstu víglínu skálda og rithöfunda á síðustu árum og blómatími kvenna í listgreinum er hér og nú.

Þegar komið var fram um 1970 fengu mörg af þeim málum, sem lengi hafði verið barist fyrir, nýjan byr í kjölfar þeirrar bylgju frelsis og uppreisnar gegn ríkjandi ástandi sem gekk yfir Vesturlönd á sjöunda áratug. Konur urðu meðvitaðri um stöðu sína og misræmið milli veruleikans og þess sem þær óskuðu sér.

Nýja kvennahreyfingin hóf göngu sína hér á landi á sjöunda áratug. Nýjar hugmyndir voru þá teknar að setja mark sitt á kvenréttindabaráttuna. Til marks um það má nefna að Svava Jakobsdóttir rithöfundur skrifaði tvær bækur sem hiklaust má telja þýðingarmiklar í þessu samhengi. Það eru bækurnar Tólf konur (1965) og Veisla undir grjótvegg (1967). Báðar bækurnar eru smásagnasöfn sem vekja athygli á innantómu lífi kvenna sem búa sér til gerviþarfir og reyna með þeim hætti að gefa lífi sínu tilgang. Enginn vafi er á því að þessar bækur ásamt leikriti Svövu, Hvað er í blýhólknum? (1970), hafa vakið stóran hóp íslenskra kvenna til umhugsunar um stöðu sína. Óumdeilanlega sló Svava nýjan tón og fram komu byltingarkenndar skoðanir sem marka upphaf nýju kvennahreyfingarinnar hér á landi. Víst er að þær rumskuðu hressilega við konum í Kvenréttindafélagi Íslands þar sem Úurnar létu til sín taka í kringum 1968. Þær hófust handa og könnuðu efni í skólabókum og barnabókum, enn fremur launakjör kvenna og karla í bönkum. Í ljós kom að hefðbundinni verkaskiptingu kynjanna var viðhaldið í bókunum og að lítið jafnrétti ríkti í launakjörum í bönkum. Nýtt afl í réttindabaráttu kvenna kom fram þegar Rauðsokkur litu dagsins ljós 1970. Þær lögðu áherslu á málefni eins og frjálsar fóstureyðingar, dagvistarmál, fæðingarorlof, fyrirvinnuhugtakið og margt fleira. Hugmyndum sínum komu þær á framfæri í blaði sínu Forvitin rauð. Rauðsokkahreyfingin var í upphafi þverpólitísk en þáttaskil urðu 1974 þegar það varð ofaná að berjast með vopnum stéttabaráttu, jafnréttisbaráttan yrði ekki skilin frá baráttu annarra undirokaðra hópa. Rauðsokkum fækkaði og vaxandi innbyrðis átök ollu því að fleiri hurfu á braut og hreyfingin var formlega lögð niður 1982.

VI

Árið 1975 markar tímamót í sögu íslenskra kvenna. Að frumkvæði kvennahreyfinga á Vesturlöndum boðuðu Sameinuðu þjóðirnar til alþjóðakvennaárs 1975 og næsta áratug kvennaáratug. Það er skemmst frá því að segja að blómaskeið gekk í garð. Hinn 1. janúar 1975 stofnaði Anna Sigurðardóttir ásamt tveimur öðrum konum Kvennasögusafn Íslands. Hefur safnið aukið skilning á því að konur eigi sér sögu og að gera þurfi hlut þeirra í þjóðarsögunni skil. Hinn 24. október 1975 lögðu tugþúsundir íslenskra kvenna niður vinnu, heima og heiman, og komu saman um allt land til að leggja áherslu á vinnuframlag kvenna og hrópuðu: "Áfram stelpur!" Talið er að um 90% íslenskra kvenna hafi lagt niður vinnu þann dag til að minna á að þjóðfélagið er óstarfhæft án vinnuframlags þeirra. Þær vöktu heimsathygli. Útifundurinn á Lækjartorgi var höfuðviðburður dagsins en talið var að þar hafi verið um 25 þúsund fundarmenn. Samstaðan, sem þarna myndaðist, varð lyftistöng fyrir jafnréttismálin, umræða um stöðu kvenna varð ofarlega á baugi og átti beinan þátt í að móta viðhorf fólks til jafnréttismála. Konur höfðu sannað vinnuframlag sitt svo ekki varð um villst. Ungar, menntaðar konur sem voru á vinnumarkaði samhliða því að stofna fjölskyldu og heimili, hin nýja kona nútímans, festu sig í sessi. Kynslóðin sem uppskar af starfi formæðranna. Á lokaári kvennaáratugar, tíu árum síðar, var enn haldinn útifundur á Lækjartorgi. Þar var höfuðáhersla lögð á launamálin en þörf á úrbótum brann á konum því að launamunur karla og kvenna hafði lítið breyst. Síðsumars 1985 var haldin ráðstefna um íslenskar kvennarannsóknir sem telja verður undanfara Rannsóknarstofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands sem stofnuð var 1990 til að efla og samhæfa rannsóknir í kvennafræðum.

Það var því alþjóðlegt samstarf sem varð til þess að flýta fyrir setningu laga um jafnrétti kynjanna. Árið 1976 tóku fyrstu jafnréttislögin gildi og Jafnréttisráð var stofnað samkvæmt þeim. Varð Ísland fyrst Norðurlanda til að setja lög af því tagi. Mikið skorti á vilja stjórnvalda til að framkvæma þau og reyndust þau því ekki það haldreipi sem vænst hafði verið. Í kjölfar stöðuveitinga 1981 þar sem talið var að ráðherrar hefðu gengið fram hjá konum, sem sérfróðir umsagnaraðilar töldu hæfastar í störfin, lagði Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður fram á þingi tillögu til breytingar á jafnréttislögunum um að skuldbinda tímabundin forréttindi konum til handa. Skoðanir voru skiptar og frumvarp Jóhönnu náði ekki fram að ganga en hleypti nýju lífi í umræður um jafnrétti kynjanna. Tvívegis hafa jafnréttislögin verið endurskoðuð, 1985 og 1991. Helstu nýmæli voru þau að nú skyldi beinlínis bæta stöðu kvenna en ekki aðeins stuðla að jafnrétti og í þeim er nú ákvæði um heimild til að veita konum tímabundin forrettindi til að flýta fyrir þróun í átt til jafnréttis.

Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands 1980, fyrst kvenna í heiminum kosin þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum. Sú hvatning og fyrirmynd, sem Vigdís hefur verið með framgöngu sinni og reisn, hefur reynst mikilvæg fyrir íslenskar konur.

Lengst af var þátttaka kvenna í stjórnmálum lítil og olli það konum, sem létu sig réttindi kvenna varða, þungum áhyggjum. Við upphaf kvennaárs voru konur aðeins 4% sveitarstjórnarmanna. Straumhvörf urðu í íslenskum stjórnmálum með tilkomu Kvennaframboðs í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík og á Akureyri 1982 og Samtaka um Kvennalista við alþingiskosningarnar 1983. Konum í sveitarstjórnum fjölgaði úr 6,1% 1978 í 12,5% 1982 og voru orðnar tæp 22% 1992, hæsta hlutfallið er í kaupstöðum, yfir 30%. Hins vegar eru fáar konur í nefndum og æðstu valdastöðum. Lengst af lýðveldistímanum voru aðeins þrjár konur á Alþingi, eða 5%, og tvívegis, 1938­1946 og 1953­1956, sat engin kona á þingi. Með tilkomu Kvennalistans 1983 í Reykjavík, Reykjaneskjördæmi og á Akureyri urðu þær níu talsins, eða 15%. Áhrif Kvennalistans eru ótvíræð því að konum hefur jafnframt fjölgað á listum hinna flokkanna. Málgagn Kvennalistans er Vera, tímarit um konur og kvenfrelsi sem komið hefur út í rúman áratug.

Nú sitja 15 kjörnar konur á þingi, eða 24% þingmanna. Er það mun lægra hlutfall en á þingum hinna ríkja Norðurlandanna, til dæmis eru konur 33% danskra þingmanna og 38,5% finnskra þingmanna. Á þeim ríflega sjö áratugum sem liðnir eru frá því að fyrsta konan var kjörin hafa 32 konur verið kjörnar á þing. Þess ber þó að geta að margar konur hafa setið á Alþingi og í sveitarstjórnum sem varamenn í tímans rás.

Þrjár konur hafa setið á ráðherrastóli frá því að stjórnin fluttist inn í landið 1904. Auður Auðuns var dóms- og kirkjumálaráðherra 1970­1971, Ragnhildur Helgadóttir var menntamálaráðherra 1984­1985 og heilbrigðis- og tryggingaráðherra 1985­1987 og Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið félagsmálaráðherra frá 1989. Á þessu sama tímabili hafa 97 karlar gegnt ráðherraembætti.

Eitt af því sem sett hefur svip sinn á síðustu ár er hve margar konur hafa sótt fram til frægðar, áhrifa og valda á æ fleiri sviðum sem áður voru eingöngu skipuð körlum. Nægir að nefna að konur skipa nú stöður hæstaréttardómara, forseta Alþingis, prófessora, sýslumanns og sendiherra. Um leið og við fögnum okkar eigin áföngum ættum við að heiðra minningu þeirra sem gerðu okkur það kleift.

Höfundur er sagnfræðingur.

AUÐUR Auðuns, ráðherra 1970-1971, borgarstjóri 1959-1960 ásamt Geir Hallgrímssyni.

RAGNHILDUR Helgadóttir, ráðherra 1984-1987.

JÓHANNA Sigurðardóttir, ráðherra frá 1989.

ÞRÍR forsetar: Guðrún Erlendsdóttir, forseti Hæstaréttar, Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, og Salome Þorkelsdóttir, forseti Alþingis. KVENNAFRÍDAGURINN 24. október 1975. Póstkort sem Kvenréttindafélag Íslands lét gera.