[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður ólst upp í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1972, Diploma í ítölsku frá Universitá per gli Stranieri í Perugia á Ítalíu, B.Sc.Econ.

Sigríður ólst upp í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1972, Diploma í ítölsku frá Universitá per gli Stranieri í Perugia á Ítalíu, B.Sc.Econ.-prófi frá London School of Economics 1977, MA-prófi frá Fletcher School of Law and Diplomacy 1978 og var styrkþegi við Harvard Russian Research Center 1987.

Utanríkisþjónustan frá 1978

Sigríður var leiðsögumaður ferðamanna á Íslandi 1971-78 og íslenskra ferðamanna á Ítalíu 1974 og 1975, fulltrúi í utanríkisþjónustunni 1978, sendiráðsritari í Moskvu 1979-81, fulltrúi í utanríkisráðuneytinu 1981, varafastafulltrúi hjá Evrópuráðinu í Strassborg 1982-83, blaðafulltrúi utanríkisráðuneytisins 1983-86, sendiráðunautur frá 1984, í sendiráði Íslands í Bonn frá 1987 og sendifulltrúi þar 1988-91, sendiherra Íslands í Svíþjóð og Finnlandi með aðsetur í Stokkhólmi, 1991-96 og jafnframt sendiherra í Namibíu, Slóveníu, Eistlandi og Lettlandi; prótókollstjóri í utanríkisráðuneytinu 1996-99 og jafnframt sendiherra í Namibíu, Mósambík og Suður-Afríku. Hún var sendiherra í Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal og Andorra San Marion frá 1999 og fastafulltrúi Íslands hjá OECD í París, FAO í Róm og UNESCO í París, starfaði í utanríkisráðuneytinu 2004-2007 og um skeið 2008 og 2012, en hefur verið í tímabundnu leyfi til að sinna atvinnuleitendum.

Nýttu kraftinn!

Í árslok 2008 ákvað Sigríður að nýta sér reynslu sína af efnahagsörðugleikum Finna og Svía, nýta þekkingu sína á sviði atvinnulífs, fyrirtækja og samningagerðar og nýta áhuga sinn á mannauðsstjórnun og sálfræði, í því skyni að skapa hvatningu og stuðning fyrir atvinnuleitendur. Frá því Sigríður og María Björk Óskarsdóttir stofnuðu Nýttu kraftinn hafa 850 manns nýtt sér vinnumiðlunarátakið. Stofnuð hafa verið hátt í tuttugu fyrirtæki vegna starfseminnar og um 75% þeirra sem útskrifast þaðan, hafa fengið atvinnu, stofnað fyrirtæki eða hafið nám á meðan á ferlinu stóð.

Sigríður var formaður Grimshaw Club of International Relations í London School of Economics 1976-77, formaður sendinefndar Íslands á Kvennaráðstefnu SÞ í Nairobí í Kenía 1985, ritari nefndar um samskipti Íslands og Vestur-Íslendinga 1983-86, ritari stjórnar Listvinafélags Hallgrímskirkju 1983-86, frumkvöðull að stofnun Félags kvenna í embættisstörfum í stjórnarráðinu og félagi í Rotarýklúbbi Stockholm Djurgården 1991-96, félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur frá 1996 og forseti 2006-2007.

Hún sat í nefnd um aðkomu ríkisins að skipulagi og fjármögnun ferðaþjónustu 2008, í stjórn Alliance Francaise frá 2008, var varaformaður stjórnar Stofnunar Árna Magnússonar 2006-2010 og varamaður í stjórn Oxymap frá 2009.

Fjölskylda

Eiginmaður Sigríðar er Kjartan Gunnarsson, f. 4.10. 1951, lögfræðingur og fyrrv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hann er sonur Gunnars Axels Pálssonar, f. 31.8. 1909, d. 15.4. 1991, hrl., og Guðrúnar Jónsdóttur, f. 9.6. 1922, d. 3.7. 1980, ritara.

Sonur Sigríðar og Kjartans er Kjartan Gunnsteinn Kjartansson, f. 5.7. 2007.

Systkini Sigríðar eru Stefán Valdemar, f. 25.10.1953, ljóðskáld, doktor og prófessor í heimspeki í Lillehammer í Noregi; Sigurður Ármann, f. 6.4. 1955, hagfræðingur, ráðgjafi á sviði efnahags- og atvinnumála í forsætisráðuneytinu, en kona hans er Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir, geðhjúkrunafræðingur Landspítala og klínískur lektor við HÍ; Valborg Þóra, f. 10.8. 1960, leikskólakennari og hæstaréttarlögmaður, gift Eiríki Thorsteinsson kvikmyndagerðarmanni; Árni Þorvaldur, f. 4.3. 1962, sagnfræðingur og upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brüssel.

Foreldrar Sigríðar eru Ármann Snævarr, f. 18.9. 1919, 15.2. 2010, prófessor, háskólarektor og hæstaréttardómari, og k.h., Valborg Sigurðardóttir, f. 1.2. 1922, uppeldisfræðingur og fyrrv. skólastjóri Fósturskóla Íslands.