Stefanía Guðmundsdóttir leikkona fæddist 29. júní 1876. Hún fluttist ung með foreldrum sínum til Seyðisfjarðar og ólst þar upp fyrstu árin. Móðir hennar lést þegar hún var sex ára, upp frá því flutti faðir hennar til Vesturheims ásamt syni sínum.

Stefanía Guðmundsdóttir leikkona fæddist 29. júní 1876. Hún fluttist ung með foreldrum sínum til Seyðisfjarðar og ólst þar upp fyrstu árin. Móðir hennar lést þegar hún var sex ára, upp frá því flutti faðir hennar til Vesturheims ásamt syni sínum. Stefanía varð eftir heima og ólst upp hjá náfrænku sinni Sólveigu Guðlaugsdóttur. Þær fluttu til Reykjavíkur 1890 þar sem Sólveig hóf rekstur matsölu á heimili sínu.

Stefanía lauk ekki formlegu leikaraprófi frá viðurkenndri stofnun og hafði ekki lifibrauð af listinni frekar en aðrir á þessum tíma. Miðað við aðstæður steig hún þó eins langt skref í þá átt og frekast var unnt.

Sautján ára gömul kom hún fram í fyrsta skipti á sviðinu í Gúttó 30. janúar 1893. Ritstjóra Ísafoldar fannst mikið til hennar koma og taldi meinlegt, ef tilsagnarleysið yrði til að drepa niður slíka hæfileika.

Stefanía var í senn fremsta leikkona Íslands um sína daga og einn helsti burðarás Leikfélags Reykjavíkur. Hún naut aðdáunar og var „prímadonna“, þó með jákvæðum formerkjum. Hún var einn fremsti brautryðjandi faglegra vinnubragða meðal sinnar kynslóðar.

Hún vísaði einnig veginn í ýmsum efnum, til dæmis reyndi hún að efla hér á landi vísi að listdansi, stóð fyrir fyrstu barnasýningunni, fór í leikferðir bæði innanlands og til Vesturheims og veitti ungum leikurum tilsögn.

Hún ferðaðist víða, í Kaupmannahöfn hreifst hún af ballettsýningum og danslist. Hún gerði sér grein fyrir hversu góð dansæfingin er fyrir líkamlega þjálfun leikarans og hélt uppi danskennslu. Haustið 1914 varð hún fyrst til að dansa tangó opinberlega í Reykjavík sem þótti mjög djarft.

En fáir njóta eldanna sem kveikja þá fyrstir. Sama ár og Þjóðleikhúslögin voru samþykkt stóð Stefanía í síðasta skipti á sviði.

Stefanía giftist Borgþóri Jósefssyni og eignuðust þau sjö börn.

Stefanía lést 16. janúar 1926, þá fjörutíu og níu ára gömul.