19. júní 1994 | Sunnudagsblað | 1578 orð

Kampavínssósíalistinn

Breski spennusöguhöfundurinn Ken Follett nýtur ríkidæmisins sem metsölubækurnar hans hafa veitt honum. Nýjasta bók hans heitir Fallvölt gæfa eftir Arnald Indriðason ann er kallaður kampavínssósíalisti í Bretlandi. Spennusögur hans hafa gert hann

Kampavínssósíalistinn

Breski spennusöguhöfundurinn Ken Follett nýtur ríkidæmisins sem metsölubækurnar hans hafa veitt honum. Nýjasta bók hans heitir Fallvölt gæfa

eftir Arnald Indriðason

ann er kallaður kampavínssósíalisti í Bretlandi. Spennusögur hans hafa gert hann moldríkan og hann nýtur ríkidæmisins en hann er líka sósíalisti og mörgum finnst eins og það eigi illa saman. Menn segja að Ken Follett sé svar Verkamannaflokksins við Jeffrey Archer. Hann skrifaði nýlega undir samning þar sem hann fékk 14 milljónir dollara fyrir tvær næstu bækur. Um jólin síðustu kom önnur þeirra út í Bretlandi, Fallvölt gæfa eða A Dangerous Fortune", söguleg skáldsaga sem gerist á 30 ára tímabili á síðustu öld og segir af örlögum heilmikils bankaveldis.

Fyrir fjórum árum skipti Follett yfir úr njósnasögunum, sem gert höfðu hann frægan, í miðaldasögu, Pillars of the Earth", um byggingu kirkju í Bretlandi á þrettándu öld. Lesendur hans vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Höfundur Nálaraugans og Lykilsins að Rebekku kominn aftur í miðaldir. Bókin seldist vonum framar og Follett skýrði málið með þeim orðum að allt sé breytingum háð. Heimurinn er sífellt að breytast; stjórnmál eru ekki eins hörð og óbilgjörn og þau voru," sagði hann og ýjaði að því að njósnarar væru að fara úr tísku. Fólk skrifar enn og talar við mig um Nálaraugað en Pillars of the Earth" snerti það meira."

Hann reyndi að gera framhald miðaldasögunnar en ekkert varð úr því svo hann sneri sér að Nótt yfir vatni, spennusögu úr seinni heimsstyrjöldinni, og datt oná hugmyndina að sögunni í Fallvaltri gæfu. Það gerðist á sunnudagsmorgni. Ég las grein í blaði um stóran fjárfestingarbanka í London sem varð gjaldþrota árið 1890 og ég fór að hugsa um það hvernig það hafi verið fyrir bankaeigendurna að selja hús sín, reka þjónaliðið og flytja í öllu lágreistara umhverfi úthverfanna. Gjaldþrot er svo persónulegt. Ég vildi kanna áhrif þess á fólk."

Follett var tvö ár með bókina, sem kemur út í bókaklúbbnum Nýjar metsölubækur hjá Vöku/ Helgafelli í lok júní og á almennan markað í haust. Annað árið fór í heimildarvinnu en hitt í skriftir. Eftir að ég er byrjaður að skrifa geri ég aðeins minniháttar breytingar á textanum." Bókin gerist á viktoríutímanum og það sem kom Follett mest á óvart var hversu gjörspillt tímabilið var. "Virðulegir menn sátu veislur heilu kvöldin í sínu fínasta pússi, skiluðu síðan konunum sínum heim og eyddu nóttinni við fjárhættuspil, dópreykingar og í hóruhúsabrölt." Ein af bókunum sem hann las var Precariously Privileged" eftir Zuzanna Schornfield, dagbækur konu sem vill svo til að bjó í húsi Folletts í London á níunda tug síðustu aldar.Hún var svo sjálfstæð að hún átti í erfiðleikum með að finna sér mann. Hún nældi sér í kærasta um síðir og lýsir því hvernig þau rífast við kvöldverðarborðið um eitthvað sögulegt atriði og læðast svo í bókaherbergið að flétta upp í alfræðiorðabók og laumast auðvitað til að kyssast. Siðavendnin var svo stórkostleg á þessu tímabili. Jafnvel borðfætur voru sveipaðir klæðum."

Ken Follett er 45 ára gamall. Foreldrar hans eru afar trúaðir og hann sótti kirkju þrisvar hvern sunnudag í æsku og tvisvar í viku að auki. Hann sótti háskóla í London árið 1967 - er af hinni margumræddu '68 kynslóð - og lauk námi í heimspeki. Hann kvæntist 18 ára og eignaðist son og fimm árum seinna dóttur og fór í blaðamennsku vegna þess að hann hafði áhuga á stjórnmálum og hélt hann gæti orðið ágætur höfundur. Þegar Follett lítur til baka segist hann aðeins hafa verið "sæmilegur blaðamaður".

Það var eingöngu af peningalegum ástæðum sem hann byrjaði að skrifa skáldsögur. Hann þurfti 200 pund til að eiga fyrir viðgerð á bílnum sínum og sá í sjónvarpinu að einhver náungi hafði fengið 200 pund greidd fyrirfram fyrir fyrstu bókina sína. Fáeinum mánuðum síðar fór hann með handrit að skáldsögu sinni til sama útgefanda, fékk sín 200 pund og gat látið gera við bílinn. Hann skrifaði 10 bækur undir dulnefni á næstu fjórum árum, mest á kvöldin og um helgar. Hann hætti í blaðamennsku og tók að starfa hjá litlu útgáfufyrirtæki. Árið 1977 lauk hann við fyrstu metsölubókina, Nálaraugað, sem varð að vinsælli bíómynd með Kate Nelligan og Donald Sutherland í aðalhlutverkum. Bókin seldist í tíu milljónum eintaka. Follett hefur þá skýringu á vinsældum þessarar bókar umfram þær sem hann hafði samið áður að í henni kom fram tilfinning fyrir hversdagslífinu í stríðshrjáðu Bretlandi og hún var mun betur byggð upp en fyrri bækur mínar".

Á þessum árum gerðist hann sófakommi. Hann gekk í Verkamannaflokkinn en tók aldrei neinn þátt í stjórnmálastarfinu fyrr en árið 1979 þegar kona að nafni Margaret Thatcher komst til valda. Síðan hefur hann starfað ötullega bak við tjöldin og þótt hann sé ekki ánægður með allt í starfi flokksins hefur hann ávallt verið dyggur stuðningsmaður. Hann leggur hreinlega fæð á Thatcher og verður seinastur til að viðurkenna að hún hafi verið framúrskarandi forsætisráðherra. Hann hefur svipaðar skoðanir á konungsfjölskyldunni. Það er leiðinlegasta fólk í allri London," lætur hann hafa eftir sér.

Follett hefur álíka tekjur og vinsæl kvikmyndastjarna í Hollywood og mörgum Bretanum þykir það ekki samræmast yfirbragði Verkamannaflokksins. Hann á hús í London, íbúð í Cannes, villu í Toskaníu á Ítalíu, rekur tvær skrifstofur og hefur þriggja manna starfslið á heimili sínu. Hann bendir á að hinn raunverulegi tilgangur með því að vera kampavínssósíalisti sé að vilja kampavín fyrir alla.

Follett er ekki sérlega frumlegur rithöfundur og hann er fyrstur til að viðurkenna það. Hann er ekki að monta sig af hæfileikum sínum og tekur gagnrýni á frásagnarstíl sinn ekki alvarlega. Hann telur sig skrifa ágæta og einfalda ensku og það nægir honum. Ég er ekki upphafsmaður að neinu. Það eina sem ég hef gert, sem nálgast að vera frumlegt, eru kvenpersónurnar sem gegna alltaf mikilvægu hlutverki og eru sterkir persónuleikar." Það á einmitt vel við um Fallvalta gæfu þar sem tvær af fimm aðalpersónunum eru konur. Önnur er Ágústa, sem öllu ræður bakvið tjöldin í bankanum, en hin Maisie, fátæk gyðingastúlka sem á betri tíð í vændum. Sagan hefst árið 1866 þegar ungur piltur bíður bana í einkaskóla undir dularfullum kringumstæðum. Atburðurinn á eftir að draga dilk á eftir sér næstu 30 árin en höfuðpersónur harmleiksins eru Hugh Pilaster, frændi hans, Edward, erfingi auðæfa Pilaster-bankans, og Mickey Miranda, sonur voldugs landeiganda í S- Ameríku. Ágústa er móðir Edwards og bruggar samsæri til að koma veiklunduðum eiginmanni sínum í bankastjórasætið en Maisie kynnist leyndardómum Pilaster-fjölskyldunnar í gegnum Hugh.

Follett hefur orðið mjög vinsæll í Bandaríkjunum en Nótt yfir vatni náði þriðja sæti metsölulista The New York Times" og var á listanum í þrjá mánuði. Aðeins Jeffrey Archer og Barbara Taylor Bradford seljast í viðlíka mæli sé miðað við breska höfunda en það er ekki mikil samkeppni á milli þeirra að sögn Folletts. Það er þá allt í gamni." Falltvölt gæfa var í svipaðan tíma á metsölulistunum vestra og seldist innbundin í hálfri milljón eintaka í Bandaríkjunum. Viðbrögðin í Bretlandi voru ekki söm. Hún var í tvær vikur á metsölulista og seldist í 60.000 eintökum en líkur eru á að hún seljist í milljónum þar þegar hún kemur út í vasabroti. Kenn Follet veltir ekki mikið vöngum yfir þvi af hverju hann sé vinsælli utan heimalandsins. Meira að segja seldist þrisvar sinnum meira af bókinni á Ítalíu en í Bretlandi. Ég held að markaðssetningin sé betri, sérstaklega í Bandaríkjunum."

Næsta saga Folletts mun fjalla um breska fanga sem sendir voru til amerísku nýlendnanna á átjándu öld. Þetta voru morðingjar sem gátu valið á milli hengingar og nýlendnanna og sumir völdu henginguna." Hann kynnir sér ætíð vel sögusviðið, sem hann velur sér, eins og fram kemur í ýmsum smáatriðum bóka hans. Sagnfræðin veitir mér andagift. Hún gefur mér hugmyndir." Hann nefnir sem dæmi að hann hafi kynnt sér kolaiðnaðinn fyrir næstu bók. Námumenn leituðu að metangasi með því að skríða á maganum með logandi kerti í hendi sem þeir lyftu hægt til að vita hvort gasið hefði safnast upp við loftið. Ef það var raunin varð loginn á kertinu bláleitur en ef námumennirnir gættu sín ekki sprakk allt í loft upp. Þetta kalla ég dramatískt sögusvið."

Hann skrifar 60 síðna söguþráð áður en hann byrjar á nýrri bók og lætur umboðsmann sinn, útgefanda og fjölskyldu lesa hann. Hann vill heyra gagnrýni á það sem hann er að gera. Sjáðu til, ég skrifaði tíu bækur sem enginn las áður en ég sló í gegn þannig að nú keppist ég sífellt við að gera bækur mínar stórfenglegar. Ég vil skrifa það sem fólk vill lesa en ekki hamra á einhverjum boðskap."

Sagnfræðin gefur honum hugmyndir; breski spennusöguhöfundurinn, Ken Follett.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.