Háskóli Íslands hélt í fyrra upp á hundrað ára afmæli sitt, en hann var stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, sem fæddist eins og flestum er kunnugt á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811.

Háskóli Íslands hélt í fyrra upp á hundrað ára afmæli sitt, en hann var stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, sem fæddist eins og flestum er kunnugt á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811. Jón skrifaði í Ný félagsrit 1841: „Það er sannreynt í allri veraldarsögunni, að með hnignun málsins hefur þjóðunum hnignað.“ Enn mælti Jón: „Þar í lýsir sér hinn rétti þjóðarandi, að hann hermir ekki eftir neinu öðru, heldur velur sér með skynsemi það, sem best á við og hentugast er á hverri tíð.“

Fræg er síðan sagan, sem birtist í Sunnanfara 1893, af Grími Thomsen, er hann hitti belgískan stjórnarerindreka. Erindrekinn spurði Grím: „Hvaða mál er talað á Íslandi?“ Grímur svaraði: „Þar er töluð íslenska.“ Þá sagði viðmælandinn drembilega: „Ég átti ekki við dónana, heldur hvaða mál heldra fólkið talaði.“ Grímur svaraði kurteislega, en þurrlega: „Það talar auðvitað belgísku.“

Grímur reyndist forspárri en hann vissi sjálfur. Nú vilja hinar talandi stéttir læra belgísku og horfa til Brüssel. Hinar vinnandi stéttir halda sig við íslenskuna og telja, að Reykjavík dugi fullvel sem höfuðstaður landsins, enda settist hér að fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, og hér bjó líka sá maður, Skúli Magnússon, sem tók forystu um að hrífa okkur upp úr eymdinni, sem hlotist hafði af því að skríða í skjól erlends valds á þrettándu öld.

Í yfirlýsingu, sem íslenska nefndin í samningum við Dani 1918 lagði fram á fyrsta fundinum í júlíbyrjun það ár, segir: „Þessi atriði, sérstök tunga og sérstök menning, teljum vér skapa oss sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfstæðis.“ Þessir menn vildu ekki fremur en Jón Sigurðsson herma eftir öðrum þjóðum, heldur velja sér með skynsemi það, sem best ætti við og hentugast væri. Þeir töluðu ekki belgísku, heldur íslensku.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is