Það stendur ekki til að fara í pólitík, að sögn Þóru, en ekki vantar hugmyndirnar að öðrum verkefnum.
Það stendur ekki til að fara í pólitík, að sögn Þóru, en ekki vantar hugmyndirnar að öðrum verkefnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra Arnórsdóttir gerir upp kosningabaráttuna, er harðorð í garð forsetans, ætlar ekki í pólitík en er að ljúka við heimildarmynd og segir Íslendinga þurfa umræðu um óefnisleg verðmæti. Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is Myndir: Ómar Óskarsson omar@mbl.is

Mér líður afskaplega vel,“ segir Þóra Arnórsdóttir í sófakróknum á Holtinu, þar sem alltaf má treysta á næði fyrir skarkala sumars í miðborginni. Hér er næðið líka meira en heima, þar sem krakkarnir þrír og stundum sex hafa síst minna vægi en foreldrarnir og sú yngsta er einungis tveggja mánaða gömul, eins og alþjóð veit.

Heyra má að Þóra er ánægð með að hafa boðið sig fram, þó að hún hafi ekki náð kjöri í forsetakosningunum 30. júní. Hún fékk rúm 33% atkvæða, Ólafur Ragnar Grímsson hélt velli með tæp 53% og aðrir frambjóðendur fengu undir 10%. Það mættu því yfir 50 þúsund manns á kjörstað til að kjósa Þóru.

„Og það er það sem gerir þetta allt þess virði,“ segir hún. „Ég fékk sterkan stuðning frá ofboðslega stórum hópi, sem var stoltur af því að hafa tekið þátt og segir: „Ég veit að ég var í rétta liðinu.“ Það var svo mikil gleði 30. júní hjá öllu þessu fólki, sem hafði unnið baki brotnu. Auðvitað voru úrslitin vonbrigði, en ekki hvað! En samt get ég vel við unað. Þó að Ísland hafi ekki verið tilbúið í þessa breytingu núna, þá er gott að hafa tekið þátt. Upplifunin var sterk að horfa yfir salinn og sjá allt þetta fólk sem hafði tekið þátt af lífi og sál, hafði barist fyrir breytingum á samfélaginu. Þarna voru til dæmis gamlar handboltavinkonur mínar sem hafa aldrei skipt sér af kosningum, ekki einu sinni í nemendafélögum í menntaskóla! Þegar ég leit yfir hópinn hugsaði ég með mér: „Þetta skilaði einhverju.““

Hún hallar sér fram til áherslu: „Pétur, auðvitað var þetta skemmtilegt. Það var gaman að ferðast og hitta fólk um allt land. Það vita allir sem hafa tekið þátt í svona baráttu að þetta er ævintýri. Einn strákur á Selfossi átti flugvél og spurði hvort hann ætti ekki að fljúga okkur vestur, þannig að við fórum til Patreksfjarðar og Ísafjarðar síðasta kvöldið! Það var ótrúlegt að koma inn í kosningamiðstöðina og sjá allt þetta fólk vinna, alla að sama marki, og aldrei þannig að það væru öskur eða óp eða skellt hurðum – allt var gert af gleði. Og fólk flykktist inn í júní, sagðist komið í sumarfrí og spurði hvort það gæti ekki lagt eitthvað af mörkum. Gunni rafvirki, æskuvinur Svavars [Halldórssonar, eiginmanns Þóru], lofaði upp í ermina á konunni sinni að hún myndi baka, en hún var á næturvöktum, svo hann dró fram matreiðslubók Mikka Mús og bakaði muffins í fyrsta skipti á ævinni.“

Hún þagnar.

„Jú, þetta var mikil reynsla og tvímælalaust nokkuð sem ég sé ekki eftir. Dóttir mín á eftir að heyra endalausar sögur um fyrstu vikur ævi sinnar, sem hún er alls ómeðvituð um. Og hún hefur þegar ferðast vítt og breitt um landið.“

Hefðum mátt bregðast harðar við

Þóra fór vel af stað og lengi framan af voru skoðanakannanir jákvæðar. En svo fór að halla undan fæti. „Þessi byr sem við fengum í upphafi þýddi líka að Ólafur Ragnar Grímsson, sem er að nálgast sjötugt og búinn að vera forseti í 16 ár og vildi halda áfram, varð auðvitað óttasleginn,“ segir Þóra.

„Hann dró fram allt sem hann mögulega gat og var alveg sama hvaða ráðum var beitt. Að því leytinu er ekki gott að fá svona góða byrjun, því þá er ógnin orðin svo mikil. Það var magnað að fylgast með því hvernig hann brást við. Hann tímasetti fyrsta viðtalið þannig að ég var komin fimm daga fram yfir og beið eftir því að dóttir mín kæmi í heiminn á mæðradaginn. Svo var hann búinn að kortleggja mína styrkleika, að ég hefði verið í fjölmiðlum, væri fjölskyldumanneskja og hefði engar pólitískar tengingar, og hann tók það kerfisbundið fyrir.

Hann hjólaði svo rækilega í fjölmiðlana að við höfum varla heyrt frá þeim síðan. Svo réðst hann á Svavar á ótrúlegan hátt. Ég sé fyrir mér ráðabruggið, þar sem það hefur verið rætt, að fólk væri ósátt við að hann ætlaði ekki að sitja út kjörtímabilið: „Já, kennum Svavari um það! Frábær hugmynd!“

Og viðbrögðin hjá RÚV þegar forseti lýðveldisins sakaði stofnunina um misnotkun og starfsmenn um óheilindi – öh, ekki svaravert. Mér fannst það lélegt og undarlegt að stofnunin skyldi ekki bregðast við. Og svo voru það pólitísku tengingarnar: Tökum Samfylkinguna og ESB og smyrjum því á hana, þá er þetta komið. Sá áróður var ofboðslega sterkur, heyrði ég frá sjálfstæðismönnum, sem unnu fyrir mig víða.

Ég tala nú ekki um þegar blað eins og Morgunblaðið gefur því lögmæti í Staksteinum, grínmyndum og ritstjórnargreinum. Þar sagði að Ólafur Ragnar hefði „upplýst“, og vísað var í viðtalið við hann, að Jóhanna Sigurðardóttir hefði leitað að forsetaframbjóðanda í tvö ár og niðurstaðan hefði verið Þóra Arnórsdóttir. Orð hans voru tekin trúanleg um það. Ég var meira að segja nefnd fulltrúi annars stjórnarflokkanna, sem er mikil vanvirðing við þann fjölbreytta hóp sem studdi mig. Þannig að eitthvað gengur mönnum til. Ég viðurkenni hins vegar það vanmat að mér datt aldrei í hug að nokkur tæki mark á þessu, þetta var svo augljós leið til að reyna að láta kosningarnar snúast um annað en þær ættu að gera.

En stuðningsmenn mínir og ég vorum ekki tilbúin að fara inn á þennan völl. Ég veit ekki hvernig hefði farið ef við hefðum tekið leðjuslaginn. Auðvitað á að leiðrétta lygar, það sem rangt er farið með, og áreiðanlega hefði mátt ganga lengra í því. Það er ekki hægt að reka svona baráttu óháð sitjandi forseta eftir svona langa setu á Bessastöðum. Fólk þekkir hann og á að geta metið hann af verkum hans. En af viðbrögðum hans að dæma, hefðum við mátt bregðast harðar við.“

Hún verður íhugul.

„Svo játa ég líka, að þrátt fyrir að ég sé hress og allt það, þá er ég ekki ofurmanneskja. Ég fann alveg að ég var ekki á fullum krafti fyrstu vikurnar eftir fæðinguna. Ég tók tíu daga hvíld eftir að barnið fæddist og fram í júní var ég að safna kröftum og komast af stað. Ég var komin á fljúgandi ferð þegar kom að kjördegi, hefði þegið mánuð í viðbót, þá hefði þetta náðst! Þá hefði ég verið búin að ná vopnum mínum.“

Baklandið ekki flokkspólitískt

Hún þvertekur fyrir að framboð sitt hafi átt upptök innan Samfylkingarinnar og segir bakland sitt ekki flokkspólitískt. „Á fundinum í Hafnarborg voru 300 manns, vinir frá því í barnaskóla, fjölskyldur okkar og annað samferðafólk sem vildi sýna stuðning. Auðvitað eigum við vini með pólitískar tengingar, ég úr Alþýðuflokknum í gamla daga, sumir hverjir eru enn í Samfylkingunni, og Svavar úr Sjálfstæðisflokknum. Við vildum endilega hafa sem breiðast pólitískt litróf. En herferðin gegn okkur gekk út á að tengja okkur því sem er verulega óvinsælt, Jóhönnu Sigurðardóttur og ríkisstjórninni, sem nýtur jú ekki mikilla vinsælda.

Ég hef hitt Jóhönnu, en ekki oft á ævinni. Ég tók viðtal við hana fyrir tveimur árum og var gagnrýnd fyrir að vera dónaleg við hana! Fólkið í baklandinu kom alls staðar að, en hinsvegar sýndu skoðanakannanir að stór hluti stuðningsmanna Samfylkingarinnar styddi mig, rétt eins og meirihluti framsóknarmanna ætlaði að kjósa Ólaf Ragnar. Þá spyr maður: Er hann handbendi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar?“

Þóra segir að hópur sem myndaðist á facebook, Betri valkost á Bessastaði, hafi gert óflormlega skoðanakönnun þar sem hún hafi orðið efst. „Þá var ég spurð hvort nafnið mætti vera með í Gallup-skoðanakönnun, sem þau ætluðu að gera, en ellefu nöfn voru athuguð. Ég sagði: „Jú, jú, af hverju ekki?“ Það voru mín tengsl við hópinn, allt og sumt. Annað er hrein og klár lygi.

Ef þú hugsar þetta skrefi lengra, þá er verið að gera ráð fyrir því að ég, 37 ára manneskja, ófrísk og í frábæru starfi, sé tilbúin að umsnúa mínu lífi og starfi og Svavar og allt okkar fólk taki þátt í því, í einhverjum annarlegum pólitískum tilgangi. Þetta er alveg fáránlegt. Ég veit að þetta er nokkuð sem konur upplifa oft þegar þær sækjast eftir stöðum: „Já, þessi er á bakvið hana.“ Eins og þær geti ekki verið sjálfs sín ráðandi. Það hljóti alltaf vera annarlegur tilgangur.“

Árásir Ólafs Ragnars

Gagnrýni Ólafs Ragnar beindist að því að Svavar hefði unnið frétt um forsetakosningarnar, sem flutt var á RÚV 20. mars, en þá hefði Þóra verið búin að samþykkja að kannaður yrði stuðningur við framboð sitt. Hann sagði að það hefði verið „sérhönnuð og klippt frétt, að sá efasemdum í minn garð, til að skapa tortryggni út í mitt framboð.“

„Þessar árásir á Svavar voru lítilmannlegar og það er einsdæmi að ráðist sé með þessum hætti á maka frambjóðanda,“ segir Þóra. „En Ólafur Ragnar lét sig hafa það og reyndi að klína eigin orðum á Svavar. Á blaðamannafundinum 4. mars þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að bjóða sig fram í fimmta sinn, óskaði hann eftir skilningi á því ef hann léti af embætti áður en kjörtímabilið væri úti. Þetta voru hans eigin orð, þetta er til skjalfest í fréttum allra helstu fjölmiðla landsins,“ segir Þóra.

„Ólafur Ragnar gerði engar athugasemdir við allar þessar fréttir. Stöð 2 talaði reyndar um í fréttum sínum þetta kvöld að það væri á miðju kjörtímabili sem hann ætlaði að hætta, en það var bara þeirra túlkun á orðum hans og hann gerði heldur ekki athugasemd við það. Manna á milli held ég að fólk hafi talað um að hann ætlaði að hætta eftir tvö ár, það var hins vegar ekki sagt í fréttum RÚV.

Svavar vann sjónvarpsfrétt hálfum mánuði síðar um ýmis tæknileg atriði varðandi kosningarnar, auglýstan kjördag, meðmælendafjölda í hverjum fjórðungi og líka um hvað myndi gerast ef forseti hætti áður en kjörtímabil hans væri úti. Þetta var fyrsta sjónvarpsfrétt Svavars um forsetakosningarnar, vel unnin og fullkomlega eðlileg frétt sem hann vann að beiðni vaktstjóra. Tvö ár voru ekki nefnd þar. Hver sem er getur sannreynt það með því að horfa á fréttina. Samt hamraði Ólafur Ragnar á þessu aftur og aftur í viðtölum og á fundum í maí, löngu eftir að búið var að gera hann afturreka með þessi ósannindi.

Svo var hann farinn að bakka með þessar árásir á Svavar í sjónvarpsviðtalinu á RÚV í júní, sagði spurninguna ekki við hæfi og spurði hvort ekki ætti að tala um annað. Talandi um smjörklípur, þá dró hann með þessari framkomu athygli frá eigin orðum um að hætta, sem hann hafði hvergi gert athugasemdir við. Það er alvarlegt ef forseti lýðveldisins vegur svona að starfsheiðri fréttamanns. Það er verið að segja að hann hafi verið að misnota aðstöðu sína, sem er ósatt.“

Heyra mátti sums staðar að Þóra hefði gengið of langt er hún ætlaði að taka orðið í lok þáttarins á RÚV eftir að frambjóðendur höfðu komið með lokasvar, þar á meðal hún. „Almennt var ég nú gagnrýnd fyrir að svara alltaf spurningum og virða tímamörk,“ segir hún. „Þrátt fyrir alla mína reynslu í fjölmiðlum misskildi ég að þættinum væri að ljúka. Þetta var ekkert flóknara en það. Allt í einu áttaði ég mig á að þættinum var að ljúka: „Ha, er þetta búið? En mig langaði...“

Áróður vegna ESB

– Var þetta óheiðarleg kosningabarátta?

„Ég veit að margt getur gerst í hita leiksins og ég hef ekki séð nema toppinn á ísjakanum af því sem gekk á Netinu, en auðvitað var hún það að nokkru leyti. Ég verð að segja að ég hefði kosið að ýmsir hefðu farið fram af meiri hófsemd, bæði í ræðu og riti, sýnt andstæðum skoðunum og frambjóðendum meiri virðingu, rétt eins og ég talaði um að væri nauðsynlegt í allri þjóðamálaumræðunni. Ég vil líka taka fram að mér dettur ekki í hug að eigna einstökum frambjóðendum allt sem frá stuðningsmönnum þeirra kom, enda væri það ósanngjarnt. En af því að þetta eru ekki þingkosningar, þar sem flokkar bjóða fram, heldur forsetakjör, þá er enn frekar vegið að persónum til að draga úr trúverðugleikanum. Ég held reyndar að Svavar, sem var ekki einu sinni í framboði, hafi fengið að kenna mest á því.“

Hún hristir höfuðið.

„Og þessi stöðugi áróður vegna ESB. En það rugl. ,,Ef Þóra verður forseti, þá treður hún okkur inn í ESB, bara einhvern veginn.“ Það er magnað að hægt sé að reka svona áróður án þess að fólk segi: Nei, heyrðu nú! Og hvar voru hinir gagnrýnu fjölmiðlar? Okkar stuðningsfólk varð áþreifanlega vart við þetta og varð frekar leitt yfir þessu.“

Þóra tekur þó undir að ýmislegt hafi unnið með Ólafi Ragnari frá hans forsetatíð, svo sem afgerandi afstaða varðandi Icesave, sem þjóðin felldi síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Unga fólkið man ekki eftir sér öðruvísi en með hann sem forseta,“ segir Þóra. „Til að fá þau til að kjósa nýjan frambjóðanda þarf að gefa þeim ástæðu til að breyta og það er meira fyrir því haft, auk þess sem það er erfitt á þessum árstíma þegar allir eru hættir í skólunum, farnir að vinna og út að grilla í góða veðrinu. Að sjálfsögðu var við ramman reip að draga. Við vissum að þetta yrði aldrei auðvelt og ekkert gefið í því – engan veginn.“

– Aldur þinn var líka nefndur, að þú værir of ung?

„En það er líka allt í lagi,“ svarar hún. „Mér finnst sjálfsagt að fólk segi að ég sé of ung og ætli ekki að kjósa mig þess vegna. Það er þó staðreynd, annað en að ég sé handbendi Jóhönnu eða að maðurinn minn sé svona og svona. Það er ekki ástæða, því það er ósatt. En ef fólk vill hafa forseta sem er eldri, þá má það auðvitað hafa þá skoðun. Ég sagði þvert á móti að þetta væri einmitt rétti tíminn fyrir kynslóðaskipti. Það var ástæðan fyrir því að ég ákvað að bjóða mig fram. Hún var einmitt sú að ég er búin að vinna sem fréttamaður í mörg ár og finn svo greinilega hvað andrúmsloftið er neikvætt og þungt. Við getum gert svo mikið til að breyta því. Ég er alls ekki að segja að erfiðleikunum sé lokið, en það skiptir máli hvernig við tökumst á við þá, eins og í lífinu sjálfu, hvort við erum bein í baki eða hnípin af ótta við framtíðina. Framtíðinni fylgir alltaf óvissa, sem við þurfum að takast á við. Þessi þjóð hefur alla möguleika á að rífa sig upp. Og það er mikilvægt að tala líka um óefnisleg verðmæti, gildin og hvernig samskipti við eigum. Mig langaði til að hafa áhrif á það og vona að það hafi tekist.“

Stefnir ekki á pólitík

Þóra segist enn vera að fá símtöl frá erlendum fjölmiðlum, sem séu að velta framboði hennar fyrir sér og finnist það áhugavert. „Það hefur verið skemmtileg reynsla, en ég hefði kannski betur eytt minni tíma í það. Ef það hefði verið kosið í Evrópu allri hefðum við rúllað þessu upp,“ segir hún og hlær.

– Hvert stefnirðu?

„Þetta er mjög góð spurning. Satt best að segja er ég ekki viss. Ég er í fæðingarorlofi og þarf að klára heimildarmynd, sem við Ásdís frænka erum að taka upp í Ísafjarðardjúpi. Hún fjallar um síðustu ábúendurna í Djúpinu. Ég veit það er gildishlaðið og mér er illa við að segja það, en þannig er það bara. Það er reyndar verið að byggja upp öfluga ferðaþjónustu bæði í Heydal og í Ögri, og ef til vill verður sú grein til að efla byggð á ný, en búskapur virðist vera að líða undir lok. Það eru örfáir bæir eftir í byggð. Við förum einmitt á Ögurball um helgina að mynda. Þá fer Aðalsteinn á Strandseljum í sérstakan galla, hann er æviráðinn dyravörður og stendur vaktina. Við erum búin að eiga löng viðtöl við þá sem eru eftir, frá Skutulsfirði og innar og ætlum að reyna að klára myndina fyrir áramót. Ég veit ekki hvernig það gengur.

Við höfum velt fyrir okkur að flytja út í einhvern tíma, Svavar hefur hug á að fara í doktorsnám og við viljum gjarnan gefa börnunum færi á að búa erlendis. Það gæti verið áhugavert að starfa hjá alþjóðastofnun, ég er menntuð á því sviði og kenndi kúrs í háskólanum um hlutverk þeirra og stefnumótun. Svo gæti líka dottið í okkur að fara í ferðaþjónustu. Við rákum bændagistingu í fyrrasumar vestur í Önundarfirði og komumst að því að við erum nokkuð góð í því. Okkur vantar bara fjárfesta með okkur af því maður leggur ekki fyrir í digra sjóði á RÚV launum.

En eins og er, þá erum við að vinna í garðinum, sem hefur setið á hakanum, og ég held að nágrannarnir séu ánægðir að sjá okkur loksins úti í beði. Svo held ég að ég sé búin að þvo 47 þvottavélar!“

Og Þóra geislar af heilbrigði. „Ég hef orðið vör við þegar ég hitti fólk, að það hefur áhyggjur af því hvernig mér líði og hvort ég taki þetta nærri mér – þetta sé svo mikið spennufall. En það er ekki í boði heima hjá mér. Það eru alltaf svo mörg verkefni.“

– Hvað um pólitík?

„Að ég fari í pólitík? Nei,“ svarar hún og hristir höfuðið.

– Af hverju ekki?

„Mig bara langar ekki til þess. Það heillar mig ekki.“

– Ekki strax?

„Ég held kannski, og þú hefur ábyggilega skilning á því, að þegar maður hefur unnið lengi á fjölmiðlum og er vanur því að greina frá öllum hliðum allra mála, þá verður aðalatriðið að viðmælendur geti fært rök fyrir afstöðu sinni, sama hvaða flokki þeir tilheyra. Ég hef bara ekki áhuga. Eins og ég sagði margoft í kosningabaráttunni, þótt Morgunblaðinu hafi ekki þóknast að prenta það, þá var framboðið ekki flokkspólitískt og mér er hjartanlega sama hvaða flokka fólk kýs. Það sem skiptir mig máli er að fólk sé gott og heiðarlegt. Um það snerist mitt framboð og þannig fólk stóð að því.“

Börnin jarðsamband

Það heyrðust efasemdarraddir um að Þóra næði að sinna skyldum forsetaembættisins samhliða barnauppeldinu. „Það hefði bara gengið eins og það gengur núna,“ segir hún. „Það er eins og fólk gleymi því að við höfum bæði verið í annasömum störfum. En okkur hefur tekist að púsla því saman, eins og allar barnafjölskyldur gera. Það hefur verið yngt upp í kjöri á þjóðarleiðtogum víða og þeir hafa jafnvel eignast börn í embætti, en það sem þeir hafa átt sammerkt er að vera karlmenn. Það hefur aldrei þótt meiriháttarmál eða frágangssök.

Ég held einmitt að það sé tvímælalaust betra. Ef eitthvað er, þá eru börnin jarðtengingin. Svavar hefði verið heima og þetta hefði verið samvinnuverkefni. Við erum líka með sterkt fjölskyldunet. Ég sá því aldrei af hverju börnin ættu að vera vandamál. Og úr því við treystum okkur til þess veit ég ekki af hverju aðrir höfðu áhyggjur. Það voru líka meðmæli að Ástríður dóttir Vigdísar og Sigrún Eldjárn voru báðar miklir stuðningsmenn og þær þekkja það að eiga foreldri sem er forseti. Er ekki bara gaman að hafa líf og fjör? Ég held að fjölskyldulífið hefði ekkert breyst neitt ógurlega, krakkarnir hefðu áfram þurft að taka til í herberginu sínu.“.

– Ferðu aftur eftir fjögur ár?

„Nei, þetta var rétti tímapunkturinn. Þetta var tækifærið. Svo verð ég farin allt annað eftir fjögur ár. En ég get auðvitað tekið Ólaf Ragnar á þetta og sagt: „Nei ég hef aldrei sagt að ég ætli ekki aftur fram. Þetta er áróður hjá þér. Þetta er einhverjum öðrum að kenna!“ segir Þóra og hlær.

– Ertu hægri krati?

„Ég aðhyllist heilbrigða skynsemi.“

– Geturðu núna sagt til um hvort þú vilt ganga í ESB?

„Nei, ég get það ekki, enda liggur enginn samningur fyrir,“ svarar hún. „Í hreinskilni sagt. Harðir andstæðingar ESB segja að allir verði að hafa skoðun á þessu máli núna og greina þjóðinni frá því. Ég held að meginþorri þjóðarinnar sé neikvæður í garð ESB, enda held ég að ekkert ríki gangi þar inn eins og staðan er. Við vitum ekki hvernig málin þar eiga eftir að þróast. Ef til þess kemur, þá bíður það næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort eigi að leiða þetta til lykta og þá verður það þjóðarinnar að meta samninginn sem liggur á borðinu og stöðuna í Evrópu.“

Peningamálin á hreinu

Þóra var sá frambjóðandi sem lagði mesta fjármuni í kosningabaráttuna, en hún segir ómaklegt að gera veður út af því. „Reglurnar eru svo skýrar og umræðan um „peningaöfl“ í því sambandi er bara rugl. Síðast þegar ég grennslaðist fyrir um þetta höfðu sjö lagt fram meira en 200 þúsund, bæði fyrirtæki og einstaklingar, en annars var algengasta framlagið 3 þúsund og næstalgengast 5 þúsund krónur. Svona safnaðist þetta saman. Mér sýnist að engar skuldir muni standa eftir, enda var engu eytt nema til væri fyrir því.

Mér fannst það koma úr hörðustu átt þegar Ólafur Ragnar talaði um mitt framboð sem 2007 framboð. Maður sem eyddi 90 milljónum að núvirði í að markaðssetja sig árið 1996 og enginn veit hver lagði fram það fé. Þar námu skuldirnar tugum milljóna og aldrei verið upplýst hver greiddi þær. Ég er stolt af því hvernig haldið var utan um peningamálin hjá okkur og er með pottþéttan bankamann, lögfræðing og endurskoðanda sem sjá um það. Þetta eru fyrstu forsetakosningarnar eftir nýju lögunum og við erum með allt á hreinu í þeim efnum. Uppgjörið fer til Ríkisendurskoðunar og við munum reyna að senda það sem fyrst. Stóru línurnar liggja fyrir og við erum rétt við núllið. Ef það verður afgangur geri ég eins og Vigdís, þá rennur það til góðgerðarmála. Það varð afgangur hjá henni og ég gæti trúað að það hafi verið í fyrsta skipti sem afgangur hefur verið á kosningasjóði.“

– Slagorð þitt var „Sameinumst“, en er ekki líka heilbrigt að tekist sé á á torgi hugmyndanna?

„Þetta er ekki í andstöðu hvort við annað,“ segir hún. „Þá værum við komin í Brave New World. Það skiptir máli hvernig við skiptumst á skoðunum. Við þurfum að valda því, án þess að það verði hávaðarifrildi. Við eigum að geta verið á öndverðri skoðun við einhvern án þess að leggja á hann fæð. Ég kynntist því í samtölum við fólk að margir hafa lokað sig af, fylgjast ekki með fréttum, lesa ekki blöð, af því að þeim þykir umræðan svo ömurleg. Og fólk er ekki tilbúið að taka þátt, því þá er von á gusunum til baka. Þetta er slæmt fyrir lýðræðið.

Á hinn bóginn snýst þetta ekki bara um að ræða einstök mál. Ég vildi vekja athygli á því, að undanfarin misseri höfum við talað ákaflega mikið um það sem hægt er að setja verðmiða á, því vissulega töpuðum við miklum efnislegum verðmætum. Víst þarf fólk að geta framfleytt sér og sinni fjölskyldu, ég vil ekki gera lítið úr því, en mér finnst eins og okkur hafi borið af leið. Við höfum alltaf litið á okkur sem heiðarlega og vinnusama þjóð, síðan tóku yfir á góðærisárunum græðgi, klókindi og mikið dramb. En við getum sannarlega sameinast um að ræða hvernig samfélag við viljum. Þann 27. júní var Stonewall-dagurinn hjá samkynhneigðum og sama dag voru samþykkt lög um transfólk. Við Svavar litum inn til Samtakanna 78 á Laugaveginum og ég hugsaði með mér: Mikið er frábært að hér geti komið saman allskyns fólk, transfólk, hommar, lesbíur, að þessi fjölbreytileiki fái að njóta sín. Hér, ólíkt því sem gerist víða erlendis, fær fólk að vera eins og það vill vera, án þess að eiga nokkuð á hættu. Af hverju er þetta svona? Af því að við höfum ákveðið það. Fólk horfir til Íslands varðandi jafnréttismál, af því að við höfum ákveðið að feta þessa leið.

Eftir hrun hefst uppbygging og þá er sjálfsagt að taka afstöðu til þess hvernig á að standa að henni. Frá þjóðfundunum báðum kom langur listi af gildum, hugmyndum og viðmiðum sem þverskurður þjóðarinnar vildi leggja áherslu á og efst á blaði var heiðarleiki. Það er nauðsynlegt að byggja upp þann félagsauð, heiðarleika og traust. Þetta snýst um á hverju við byggjum, á hvað við getum sæst og sameinast um, án þess að vera sammála um öll mál. En að þessu öllu sögðu tek ég fram að ég óska Ólafi Ragnari Grímssyni að sjálfsögðu alls hins besta í hans mikilvæga starfi næstu árin.“

Hún fær sér vatn.

„Ég þarf að fara að ná í trjákurlara. Við ætlum að fara í garðinn. Svavar er búinn að saga niður hekk eins og ég veit ekki hvað.“