„Ég var þannig gerður að ég skildi þá sem áttu minna, hafði sjálfur brotist áfram,“ segir Kjartan Sveinsson arkitekt.
„Ég var þannig gerður að ég skildi þá sem áttu minna, hafði sjálfur brotist áfram,“ segir Kjartan Sveinsson arkitekt. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Sveinsson byggingatæknifræðingur er einn afkastamesti og virtasti hönnuður Íslendinga. Hann er sestur í helgan stein á 86. aldursári og ræðir uppvöxtinn, kreppuna, pólitíkina, þvottastöðina, húsin og auðvitað glæsibifreiðina. Guðný Sigurðardóttir

Kjartan bíður blaðamanns úti á tröppum í Garðabæ. Hann er hár og reffilegur þar sem hann stendur keikur klæddur svörtum terlínbuxum, hvítri skyrtu og með svört breið axlabönd. „Vertu velkomin,“ segir hann hressilega og tekur þéttingsfast í hönd blaðamanns.

Vissulega hafa árin mótað andlitið, hárið gránað og þynnst, en fáum dytti í hug að hér færi maður kominn vel á níræðisaldur. Það hefur alltaf gustað af Kjartani og hann talar tæpitungulaust um menn og málefni – hann segist þó orðinn mildari með árunum. Og bætir við þegar inn er komið: „Hvernig datt þér í hug að tala við eldgamlan ruglaðan karl?“

Kjartan og eiginkona hans, Hrefna Kristjánsdóttir, hafa hreiðrað um sig í litlu raðhúsi. Út um stofugluggann blasir við stórbrotinn hraunjaðarinn í bakgarðinum. „Okkur líður miklu betur hér en í þessum stóru húsum,“ segir Kjartan afdráttarlaust. Þótt húsið sé látlausara en hjónin eiga að venjast hafa þau búið sér fallegt heimili þar sem glæsileg antikhúsgögnin njóta sín vel. Kyrrðin í umhverfinu tónar við hlýleikann sem einkennir heimilisbraginn.

Mótunarárin

Þegar Kjartan var ungur íhugaði hann að verða listamaður. Hann á ekki langt að sækja hæfileikana, fæddist með blýantinn í hendinni eins og hann segir, en móðir hans var afar listræn. Falleg mynd hennar af Dettifossi prýðir stofuna. Þegar betur er að gáð er myndin fagurlega útprjónuð úr fínofinni ull. Móðuramma Kjartans kembdi ullina og spann.

Foreldrar Kjartans voru Sveinn Jónsson frá Prestbakka á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu og Guðný Pálsdóttir frá Kleif í Fljótsdal í Suður-Múlasýslu. Kjartan er fæddur á Búðareyri við Reyðarfjörð og er elstur þriggja systkina. Fjölskyldan fluttist til Ólafsfjarðar, þegar Kjartan var sex ára, þar sem Sveinn varð kaupfélagsstjóri. „Kreppan var í algleymi, fátæktin og vesaldómur mikill,“ segir Kjartan um þjóðfélagsástandið á fjórða tug síðustu aldar. „Fólk hafði kannski vinnu í þrjá mánuði yfir síldarvertíðina. Móðir mín sendi mig með mat á fátæk heimili. Unga fólkið hafði ekkert að hlakka til.“ Sveini var sagt upp fyrir að lána matarlausum heimilum vörur út á óveiddan fisk. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur þar sem Sveinn keypti verslunina Báru í kjallara við Garðastræti 14 og leigði litla íbúð á Tjarnargötu 47.

Kjartani er hlýtt til fólks og nefnir iðulega heppni eða gæfu í sömu andrá og hann ræðir menn sem hann kynntist á lífsleiðinni. Eftir ferminguna vann hann sem mjólkurpóstur með hest og kerru hjá Gísla Gíslasyni silfursmið á Laugavegi 171, þar sem nú er Hvítasunnusöfnuðurinn. Þá var engin byggð þar fyrir neðan og rak Gísli mikið myndarbú með kýr, hesta, refi og minka. Hann átti einnig réttinn að laxveiði í Grafarvoginum sem hann keypti af Einari Benediktssyni þjóðskáldi. „Ég var bara heppinn að koma til þessa góða fólks. Þarna fékk maður góðan mat en líka mikla vinnu. Þarna lærði maður að vinna,“ segir Kjartan og leggur þunga í orð sín.

Eitt það erfiðasta sem Kjartani finnst hafa hent hann í lífinu, var að faðir hans hafði engin ráð á að kosta hann til náms. „Mig dreymdi alltaf um að verða arkitekt því að ég hafði alltaf haft hæfileika til að teikna.“ Í staðinn lærði hann húsasmíði hjá Tómasi Vigfússyni, mikilsvirtum byggingameistara. „Ég gat ekki verið heppnari með meistara. Auk þess sem Tómas var mesti ágætismaður sem ég hef kynnst þá var hann með svo fjölbreytt verkefni. Ég lauk prófi og var hæstur á prófinu. Satt að segja skil ég það ekki því að ég var ekkert hneigður fyrir smíði en hún hefur nýst vel við teikningarnar.“ Skömmu eftir útskriftina sá hann hvar Norræna félagið auglýsti eftir iðnmenntuðum Íslendingi til árs framhaldsnáms í sænskum lýðháskóla.

Örlög Kjartans voru ráðin. Hann var valinn úr hópi 50 umsækjenda. Í skólanum uppgötvaði hann að unnt væri að komast í sænskan tækniskóla án stúdentsprófs. Hann einsetti sér að komast í slíkan skóla og safnaði fyrir náminu á einu og hálfu ári. „Ég hef kostað allt mitt sjálfur frá 13 ára aldri.“

Verkin tala

Þegar Kjartan kom heim, útskrifaður byggingatæknifræðingur frá Katrineholms Tekniska skola, voru afar fáir með þá menntun og lítið um arkitekta. Kjartan þáði vinnu hjá Húsameistara Reykjavíkurborgar og var svo heppinn að vinna þar með „miklum ágætismönnum og snillingum“, arkitektunum Einari Sveinssyni og Gunnari Ólafssyni. Hann átti að vera jafnt í byggingaeftirliti og á teiknistofunni. Gunnar sá hins vegar að hann hafði sérstæða hæfileika og setti hann alfarið á teiknistofuna. Kjartan segist hafa lært mikið af þessum hæfileikamönnum. Hann teiknaði meðal annars með þeim Borgarspítalann í Fossvogi og nokkrar skólabyggingar, Vogaskóla, Laugalækjarskóla og fleiri. „Við Einar náðum ótrúlega vel saman. Nokkrir arkitektar unnu þarna en það gekk þannig til að ég var kominn í flest stóru verkefnin, þótt ég væri ekki arkitekt. Það er ekki nóg að vera arkitekt; þú verður að hafa hæfileika.“

Kjartan hætti hjá borginni árið 1960 þar sem hann var farinn að teikna mikið sjálfur. „Ég teiknaði tæplega fimm þúsund einbýlishús og raðhús og um tíu þúsund íbúðir í fjölbýlishúsum, Hótel Örk og fleira. Trúlegast var ég vinnufíkill... Jú, ég viðurkenni það – ég var vinnufíkill!“ Spurður um vinsældirnar nefnir Kjartan árið 1963. Hann skilur ekki hvernig það atvikaðist en þá var Safamýrin að byggjast upp og hann teiknaði þar nánast annað hvert hús. Hann hafði alltaf lagt mikið upp úr góðu skipulagi á húsunum og eitt telur hann skipta miklu: það að koma fram við annað fólk eins og maður vill að komið sé fram við sig.

„Ég átti svo gott með samskipti og var sanngjarn með verð á teikningum, kannski einum of. Ég var þannig gerður að ég skildi þá sem áttu minna, hafði sjálfur brotist áfram. Það er gaman fyrir mig núna, á þessum aldri, að hitta menn sem eru mér svo þakklátir fyrir hvað ég teiknaði góð hús fyrir fjölskylduna og hvað þeir fengu mikið fyrir þau.“

Vinsæll byggingatæknifræðingur fór ekki varhluta af gagnrýni, ekki síst frá arkitektum. „Það var hart deilt á mig í þessum bransa en á bak við alla gagnrýnina voru peningar. Það er ósköp eðlilegt að þeir hafi verið skúffaðir yfir því hvað ég teiknaði mikið. Hins vegar gekk það út í öfgar hvað ég var rægður og rakkaður niður. En verkin tala.“

Kjartani finnst lítið til um arkitektúrinn í dag, „þessi flötu þök, gler og vitleysa. Þessi opnu rými. Það er ekki einu sinni hægt að sjóða sér siginn fisk án þess að íbúðin öll lykti!“ segir hann og bandar frá sér hendinni orðum sínum til áherslu.

Málarekstur og pólitík

Þau hjón ráku Þvottastöðina í Sigtúni í áratugi. Ævintýrið hófst 1965 þegar maður, „þekktur fyrir ýmislegt miður gott“, bað Kjartan að teikna þvottastöð fyrir þá nokkra félaga. Fór svo að þau Hrefna keyptu hlut í fyrirtækinu. Þetta voru allt peningalausir menn nema Kjartan og smám saman varð hann ábyrgur fyrir öllu. Reksturinn gekk illa og fór í þrot.

„Það sem bjargaði mér úr þessum kröggum var að ég teiknaði mikið. Svo hafði ég góðan endurskoðanda og lögfræðing, menn sem ég á ákaflega mikið að þakka. Úr varð að við Hrefna keyptum Þvottastöðina á uppboði. Félagarnir kærðu mig en það eina sem kom út úr sakadómi var að ég hefði verið kjáni að láta plata mig út í svona miklar ábyrgðir.“ Eftir þessa lexíu gjörbreyttu hjónin rekstri Þvottastöðvarinnar. Hrefna sá alfarið um reksturinn í 37 ár eða þar til þau settust í helgan stein til að njóta ellinnar.

Kjartan hefur aldrei tekið þátt í pólitík. „Ég hef náttúrlega alltaf verið í Sjálfstæðisflokknum og minn uppáhaldsstjórnmálamaður er Davíð Oddsson. Það var sko foringi! En það sem er í dag: Ég segi bara: Guð blessi Ísland. Þessi litla þjóð. Ég er farinn að halda að við eigum mestu óráðsíumenn og gangstera miðað við höfðatölu!“ Kjartani er heitt í hamsi. Honum finnst skelfilegt hversu margir eiga erfitt og hvernig farið er með gamla fólkið. „Það virðast til nógir peningar í Evrópusambandið eða afskriftir hjá stórskuldugum vitleysingum, en svo er ekki hægt að afskrifa skuldir hjá venjulegu fólki sem hefur lent í miklum vandræðum. Þetta er klíkuþjóðfélag. Hefur alltaf verið!“ segir hann ákveðið.

Talið berst að kjörum unga fólksins. „Lífsbaráttan hefur alltaf verið hörð en nú var lánum haldið að fólki. Fisléttum lánum. Fólk, sem langaði til að eignast eitthvað, og hefði aldrei getað eignast neitt nema með láni, það náttúrulega freistaðist og keypti hluti sem það hafði ekki ráð á.“ Kjartan telur mikla erfiðleika framundan og vonar að þjóðin sleppi út úr þessum hremmingum en til þess þurfi hún sterkan foringja. „Þjóðfélagið þarf á manni eins og Davíð Oddssyni að halda. Það kemst enginn með tærnar þar sem hann er með hælana. Þótt ég sé sjálfstæðismaður er ég ekkert alltof hrifinn af öllu í Sjálfstæðisflokknum, en ég segi þetta því að ég held að Davíð verði bara að koma aftur. Það er maður sem gekk til verka. Og mér finnst ósanngjarnt hvernig hann er dæmdur í dag. Ég á bara ekki orð yfir það.“ Auðséð er að Kjartani er misboðið.

Lincoln árgerð '78

Kjartan er haldinn bíladellu og hefur átt glæsibifreiðar. Skemmtilegastur er Lincolninn, árgerð 1978, sem hann á ennþá. „Hann hefur náttúrlega alltaf verið umvafinn bómull,“ segir Kjartan og brosir drjúgur með sig.

Þetta er tveggja dyra dreki, Lincoln Continental Mark V, sérstök afmælisútgáfa. Bíllinn er einn af rúmlega fimm þúsund sem framleiddir voru í tilefni af 75 ára afmæli Ford. Litlir demantar eru felldir inn í hliðarrúður bílsins og upphaflega var fangamark Kjartans gyllt á hurðirnar en nafn hans stendur ennþá á mælaborðinu. Bíllinn er með 460 kúbika átta sílindra vél en fjórir hljóðkútar halda henni hljóðri.

Blaðaskrif urðu um Lincolninn á sínum tíma. Talað var um að hann hefði kostað tólf árslaun verkamanns. Eigandinn staðfestir það. Eftir langan og strangan dag á teiknistofunni naut Kjartan þess að láta líða úr sér á götum borgarinnar á hljóðlátum drekanum.

Lífið og trúin

Nú býður Kjartan upp á kaffi í eldhúsinu og kallar á Hrefnu okkur til samlætis í spjallið. Hann hefur lagt smekklega á borð, bollastell og fat með fallega röðuðum kökusneiðum, og spjallið heldur áfram á meðan við gæðum okkur á trakteringunum. „Ég verð að segja alveg eins og er, að ég er ánægður með lífsstarfið,“ segir hann rólega. „Þegar ég lít yfir ævina þá get ég ekki sagt annað en að ég hafi verið mikill gæfumaður. Mín mesta gæfa var að ég skyldi kynnast henni Hrefnu minni. Ég á henni allt að þakka. Hún kom inn í líf mitt á erfiðum tíma. Maður lenti í óreglu og vitleysu og hún bjargaði mér út úr þessum ræfildómi öllum. Hún stóð eins og klettur á bak við mig í erfiðleikunum með Þvottastöðina, fyrir utan hvað hún er myndarleg húsmóðir og ég hef hvergi fengið betri mat. Okkur kemur vel saman,“ segir hann eins og til útskýringar og Hrefna samsinnir því. „Það er svo sterkt tilfinningasamband á milli okkar. Við erum alltaf eins og nýtrúlofuð. Það má aldrei hæla henni en mér þykir lofið gott.“ Kjartan lítur glettinn á Hrefnu. Bætir síðan við að þau hafi aldrei rifist. Þá grípur Hrefna sposk fram í: „Ég hlýt að hafa skammað þig.“ Kjartan kímir og svarar að bragði: „Ja, það hefur þá verið mér að kenna!“

Og Kjartan þakkar Guði gæfuríka ævi. Þótt hann segist enginn trúmaður, hann trúi til dæmis ekki á Biblíuna, þá trúi hann því að eitthvað stjórni þessu öllu. Hann viðurkennir ekki þróunarkenninguna. Meistari sköpunarverksins sé hér einhvers staðar. Það hefur komið fyrir að hann finni fyrir einhverju óútskýranlegu, þess vegna sé hann svona viss.

„Ég hef fengið hjálp við teikningarnar,“ segir hann. „Við upplifðum það, ég og byggingameistari sem ég teiknaði mikið fyrir. Ég hélt á penna þegar allt í einu gerðist það skrítna,“ segir Kjartan íbygginn og gerir stutt hlé á máli sínu til áherslu.

„Loftið varð rafmagnað og höndin á mér fór af stað á blaðinu. Bara eins og henni væri stýrt! Við heyrðum þennan bjölluhljóm sem deyr út og litum hvor á annan. „Heyrðir þú bjölluhljóminn?“ spurði hann. Þá fórum við að skoða teikninguna. Þar lá á borðinu lausnin á því sem við höfðum legið yfir. Þetta var heldur fastheldinn byggingameistari og þarna voru komnar tröppur niður í stofuna sem ég vissi að hann vildi ekki. Ég sagðist breyta þessu. „Hér verður engu breytt,“ sagði hann. „Þetta er kraftaverk.“ Og þetta eru bestu íbúðirnar sem hann hefur byggt!“ Frásögninni lýkur með snarpri handahreyfingu. Svo hallar Kjartan sér aftur í stólnum. Skimar eilítið í kringum sig líkt og hann leiti að verkefni. Hann er langt í frá saddur lífdaga.