Þórir Jónsson fæddist í Húnavatnssýslu 18. apríl 1922. Hann lést 14. júlí sl.

Foreldrar hans voru Jón Kristófersson kaupmaður f. 1888 frá Köldukinn í Húnavatnssýslu og Jakobína S. Ásgeirsdóttir húsfreyja úr Steingrímsfirði á Ströndum f. 1891. Dóttir þeirra og systir Þóris var Ásgerður f. 1920, d. 1938.

Við fráfall móður sinnar fluttist Þórir 3 ára í fóstur að Þingeyrum í Húnavatnssýslu til þeirra hjóna Jóns Pálmasonar og Huldu Á. Stefánsdóttur. Þar bjó hann við hlýju, umhyggju og gott atlæti uns hann á þrítugsaldri, hleypti heimdraganum og freistaði gæfunnar í Reykjavík. Dóttir þeirra Jóns og Huldu er Guðrún f. 1935. Börn hennar eru Hulda Sigríður, Anna Salka, Stefán Jón og Páll Jakob. Þessi hópur bast Þóri traustum fjölskylduböndum.

Kona Þóris í nær hálfa öld var Sigríður Hanna Guðmannsdóttir f. í Reykjavík 18. júní 1932. Hún lést 8. júlí 2008. Foreldrar hennar voru Guðmann Hannesson bílstjóri, f. 1912, og Rannveig Filippusdóttir húsmóðir, f. 1900. Þau eru bæði látin.

Sonur Þóris og Sigríðar er Jón f. 1964. Dóttir Jóns er Helena Margrét f. 1996.

Fararskjótar urðu viðfangsefni Þóris ævilangt. Bifreiðar voru hans lifibrauð, í fyrstu akstur en síðar viðhald og viðgerðir. Hestar voru hans áhugamál. Eftir að til Reykjavíkur kom hélt hann mörg hross en var vandlátur í þeim efnum. Hann hafði dálæti á bleikum og gráum hrossum og ekki kom til greina annað en að rækta þau sjálfur og temja. Honum lét illa að láta hross frá sér fara í annarra hendur og því gat stóðið orðið stórt. Hann var glöggur á hesta og átti marga afbragðs reiðhesta á sínum hestamannsferli.

Eftir fráfall Sigríðar, konu Þóris, hrakaði heilsu hans. Hann hélt heimili einn þar til hann fluttist á hjúkrunarheimilið Skjól fyrir nær ári. Þar naut Þórir umhyggju starfsfólks þar til hann lést þar.

Útför Þóris fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, þriðjudaginn 24. júlí 2012 kl. 11 árdegis.

Þórir Jónsson lifði tímana tvenna. Hann fæddist árið 1922 í Húnavatnssýslu. Móðir hans, Jakobína Ásgeirsdóttir af Ströndum, féll frá þegar hann var einungis 3ja ára. Faðir hans, Jón Kristófersson frá Köldukinn, þurfti að sjá á eftir syni sínum til vandalausra sem þótti ekki tiltökumál á þeim árum. Hann ólst upp hjá Huldu Á. Stefánsdóttur og Jóni Pálmasyni á Þingeyrum í Húnavatnssýslu.

Það hefur líklega haft mótandi áhrif á ungan dreng að vera ekki í nánum tengslum við foreldra sína, en lífið var svo sem enginn leikur. Hann kynntist eiginkonu sinni, Sigríði Guðmannsdóttur, og átti með henni gott líf í hartnær 50 ár. Lengst af bjuggu þau ásamt einkasyninum Jóni á Miklubraut 40 í Reykjavík en síðar í Lækjarsmára 8 í Kópavogi.

Ég var 17 ára þegar ég var farin að venja komur mínar á heimilið hjá Siggu og Tóta á Miklubrautinni enda myndarlegur og skemmtilegur strákur sem þau áttu. Tóti lét sér ekki bregða þó það bættist unglingur við kvöldverðarborðið og var alltaf vinsamlegur. Sigga eldaði dýrindismat og sagðar voru skemmtisögur við matarborðið. Kepptust þeir feðgarnir við að segja frá kynlegum kvistum og mikið hlegið.

Þegar eiginkonunnar naut ekki lengur við bjargaði hann sér í matargerðinni. Hann vildi halda í gamlar hefðir, lambakjöt og hrossakjöt voru lostæti en honum þótti ekki mikið til koma ef kjúklingur var á borðum, það taldist ekki til mannamatar, hvað þá heldur pasta eða pitsur.

Tóti var nægjusamur í öllu og fannst óþarfi að hafa mikið tilstand. Æskuárin hafa haft sitt að segja í því viðhorfi. Hann var mikill hestamaður, í hesthúsinu voru hans bestu stundir. Þegar hann vitjaði hestanna í haga horfði maður á eftir honum hlaupandi um móana léttum á sér eins og unglingsstrák langt fram eftir aldri.

Tóti var af þeirri kynslóð sem ekki þótti ástæða til að fara til útlanda en ferðaðist þeim mun meira um landið sitt. Hann hafði gaman af því og var vel að sér um allar helstu sveitirnar, Húnavatnssýslan í mestu uppáhaldi. Þær voru ófáar ferðirnar sem hann fór með fjölskyldu sinni og ef leiðin lá norður var ekki við annað komandi en að keyra að Þingeyrum, á hans æskuslóðir.

Forfeður okkar Jóns áttu heima við sömu götu, í Aðalgötunni á Blönduósi. Það voru því sameiginlegir þræðir sem bundu fjölskyldur okkar saman og margt hægt að rifja upp og ræða. Tóti var ekki mikið fyrir að trana sér fram, hann var hæglátur og yfirvegaður. En hann hafði gaman af að segja sögur í fárra manna hópi.

Afi Tóti hafði gaman af að hafa sonardótturina, Helenu Margréti, í heimsókn. Hún var svo heppin að fá að vera oft hjá ömmu sinni og afa í Lækjarsmáranum. Hann átti nægan tíma til að gefa henni sem eru nú ekki lítil verðmæti þegar allir eru á harðahlaupum í önnum hversdagsins. Hann gaf henni hest með nafninu Kolbrún og heimsótti hún afa og Kolbrúnu í hesthúsin þegar hún var yngri. Hún sá á eftir ömmu Siggu fyrir fjórum árum þegar hún lést eftir erfið veikindi og núna á eftir afa Tóta. Hún á góðar minningar sem lifa með henni um góðviljað og hjartahreint fólk.

Margrét og Helena.

Ég hverf í huganum langt aftur í tímann og hugsa til lítils fjögurra ára drengs, sem kom að Þingeyrum til foreldra minna Huldu Á. Stefánsdóttur og Jóns S. Pálmasonar vorið 1926. Hann hafði skömmu áður misst móður sína og hafði faðir hans Jón Kristófersson frá Köldukinn, kaupmaður og organisti við Blönduóskirkju, óskað eftir því að drengurinn yrði á Þingeyrum fram að Krossmessu árið eftir. Að þeim tíma ætlaði Jón að vera búinn að útvega sér ráðskonu, sem annast skyldi heimili hans á Blönduósi. En þegar ráðskonan var fundin, hafði tekist svo góð vinátta milli drengsins og fósturforeldranna, sérstaklega móður minnar, að þau máttu ekki hvort af öðru sjá. Svaraði drengurinn því til, þegar komið var að sækja hann, að Hulda mætti ekki missa sig og fór því hvergi.

Þórir eða Tóti eins og hann var kallaður af vinum sínum og velunnurum ólst síðan upp á Þingeyrum í góðu yfirlæti. Hann gekk í skóla með krökkunum í sveitinni og átti sín hross sem hann hirti framúrskarandi vel. Hann var um fermingu þegar ég kom til skjalanna og var hann mér góður. Sérstaklega er mér minnisstætt þegar hann smíðaði, málaði og veggfóðraði kassa sem ég notaði sem dúkkuhús.

Á stríðsárunum flutti Tóti til Reykjavíkur og vann sem bílstjóri í fjallaferðum á vegum Guðmundar Jónassonar í töluverðan tíma og kynntist hinni ólýsanlegu fegurð hálendisins sem og vísindamönnum sem ferðuðust þar um á þeim tíma. Hann ók einnig mörgum á Skíðasvæðið í Jósepsdal, svo fátt eitt sé nefnt. Síðar rak Tóti bifreiðaverkstæði ásamt öðrum, jafnframt því sem hann fór aftur að hafa afskipti af hrossum. Þá iðju stundaði hann eins lengi og kraftar leyfðu.

Tóti átti afbragðskonu, Sigríði H. Guðmannsdóttur, sem fjölskylda mín hafði miklar mætur á en hún lést fyrir fjórum árum. Einkasonur þeirra er Jón Guðmann og dóttir hans Helena Margrét. Þá fóstruðu Tóti og Sigga dóttur mína Önnu Sölku í nokkurn tíma. Verður sú góðvild seint fullþökkuð.

Tóta var alla tíð mjög umhugað um fósturforeldra sína og sinnti mörgum viðvikum fyrir þau. Sem dæmi má nefna að móðir mín hafði ákveðið fyrir andlátið að láta jarðsetja sig á Þingeyrum og þegar hún lést í Reykjavík í marsmánuði 1989, bauðst Tóti strax til að aka með kistuna norður yfir heiðar. Fjölskyldunni þótti vænt um þetta fallega boð og vissi að enginn myndi leysa það verk betur af hendi en hann.

Nú er komið að leiðarlokum. Ég og fjölskyldan mín þökkum Tóta samfylgdina. Vertu kært kvaddur kæri fósturbróðir.

Guðrún Jónsdóttir.