Skynsamur bjartsýnismaður Breski rithöfundurinn Matt Ridley mun flytja fyrirlestur í dag í Öskju um hvers vegna hann telur rétt að líta með skynsamlegri bjartsýni á framtíð mannkyns.
Skynsamur bjartsýnismaður Breski rithöfundurinn Matt Ridley mun flytja fyrirlestur í dag í Öskju um hvers vegna hann telur rétt að líta með skynsamlegri bjartsýni á framtíð mannkyns. — Ljósmynd/Matt Ridley
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Matt Ridley, einn kunnasti rithöfundur Breta, heldur í dag fyrirlestur í Háskóla Íslands um efni nýjustu bókar sinnar, The Rational Optimist, eða Skynsami bjartsýnismaðurinn, sem kom út árið 2010.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Matt Ridley, einn kunnasti rithöfundur Breta, heldur í dag fyrirlestur í Háskóla Íslands um efni nýjustu bókar sinnar, The Rational Optimist, eða Skynsami bjartsýnismaðurinn, sem kom út árið 2010. Í henni heldur Ridley því fram að mannkynið þurfi alls ekki að örvænta. Þess bíði björt framtíð ef það heldur rétt á sínum málum.

Ridley segir að hann sé skynsamur bjartsýnismaður vegna staðreynda. „Ég tók eftir því fyrir nokkrum árum að svartsýnismenn höfðu stöðugt rangt fyrir sér. Þeir bölsýnismenn sem ég hafði tekið mark á þegar ég var ungur höfðu sagt mér að heimurinn væri að farast á marga vegu“. Þeir hefðu hins vegar allir haft rangt fyrir sér. Offjölgun mannkyns hefði ekki leitt til þeirra hörmunga sem spáð var, né heldur væri núna matarskortur eða olíuskortur. Þá hefði, svo eitt dæmi til sé nefnt, árþúsundaveilan í tölvukerfum ekki haft nein áhrif, þvert á spár. Allt þetta leiddi til þess að Ridley fór að efast meira um svartsýnina að baki þessum spám.

„Ég horfði þá á það sem var að gerast í raun og veru og komst að því mér til mikillar undrunar að um mína daga hafa rauntekjur meðalmanneskju þrefaldast, barnadauði minnkað um tvo þriðju og meðallífslíkur aukist um einn þriðja. Þetta eru ótrúlegar breytingar á velmegun mannkynsins og þær halda ótrauðar áfram, þrátt fyrir kreppuna núna,“ segir Ridley og bendir á að þó að hart sé í ári í Evrópu núna sé ástandið ekki svo slæmt t.d. í Afríku, þar sem, svo dæmi sé nefnt, barnadauði hafi minnkað um 6% á síðasta ári. Ridley segir því að þessar staðreyndir og fleiri hafi gert hann að bjartsýnismanni.

Sameinar Adam Smith og Darwin

Hvað skynsemina varðar segir Ridley að hann telji sig geta skýrt út hvers vegna lífskjör fólks batna og þróast til betri vegar. „Það verður ákveðin þróun á menningarsviðinu þar sem hugmyndir mætast um það hvernig fólk geti best unnið fyrir hvað annað og þannig sparað sér tíma í því að uppfylla þarfir sínar og þrár.“ Ridley segir að þessar hugmyndir dreifi sér með því að mætast og æxlast og þær bestu þeirra lifi af í gegnum menningarlegt náttúruval. Þannig sé hægt að sameina þekkingu og reynslu fjölmargra manna í gegnum kynslóðirnar í einn sameiginlegan reynslusjóð. Með aukinni sérhæfingu sem þessu fylgi spari hver einstaklingur sér tíma til að afla sér lífsgæða og geti nýtt orku sína meira til þess að njóta þeirra. Ridley nefnir sem dæmi að árið 1800 hafi það tekið hvern einstakling sex klukkustundir að vinna sér inn fyrir kostnaðinum sem fylgi einum klukkutíma af manngerðu ljósi, en í dag sé sá tími um hálf sekúnda.

Ridley segir að með því að sameina hugmyndir Adams Smith og Charles Darwin sé útkoman sú að framfarir verði til hjá almenningi en séu ekki fyrirskipaðar af stjórnvöldum ofan frá. „Í heildina hefur þessi heimssýn gert mig hrifnari af því hvernig skipti á hugmyndum og vörum, einkum á frjálsum markaði, hafa haft áhrif á nýsköpun mannkyns og stuðlað að framþróun.“ Ridley segir að það þýði ekki að markaðurinn sé það eina sem þurfi til í mannlegu samfélagi, en að engu að síður sé það mjög mikilvægt að tryggja það að frjáls viðskipti geti þrifist.

Spurður um hlýnun jarðar, sem oft er sögð vera ein helsta ógnin við framtíð mannkyns, segir Ridley að hann telji ekki að það sé ástæða til að óttast. „Bæði vísindin og hagfræðin á bak við hnatthlýnun segja mér það að í fyrsta lagi er vandinn ekki jafnslæmur og haldið er fram og í öðru lagi að þau úrræði sem helst eru lögð fram til þess að bregðast við vandanum valda meiri skaða á framtíð mannkynsins en hlýnunin.“ Hann er bjartsýnn á að mannkynið muni finna lausn á hlýnun jarðar þegar þess muni þurfa.

Fyrirlestur Ridleys verður haldinn í stofu 132 í Öskju í dag og hefst kl. 17:30. Fundarstjóri verður Ragnar Árnason prófessor, en fyrirlesturinn er í boði Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands.

MATTHEW RIDLEY

Hefur selt hátt í milljón bækur

Matt Ridley fæddist árið 1958 og lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-háskóla 1983. Hann var vísindaritstjóri tímaritsins The Economist frá 1984 til 1987, þegar hann varð fréttaritari blaðsins í Bandaríkjunum og síðar ritstjóri frétta vestanhafs. Ridley skrifar nú reglulega um vísindi fyrir The Wall Street Journal og er vinsæll fyrirlesari.

Ridley hefur gefið út sex bækur, sem fjalla aðallega um þróunarkenninguna og áhrif hennar á mannlegt samfélag. Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, nefndi bók Ridleys, The Origins of Virtue eða upphaf dyggðarinnar sem eina af þeim bókum sem hefðu haft hvað mest áhrif á sig. Bækur Ridleys hafa selst í hátt í einni milljón eintaka.