V. St. skrifar um ráðstjórnarafmælið í Lesbók Morgunblaðsins 20. nóv.

V. St. skrifar um ráðstjórnarafmælið í Lesbók Morgunblaðsins 20. nóv. 1927, þar sem er að finna þessa klausu, sem ég vitnaði til í síðasta Vísnahorni:

„Þegar brydda tók á bolsahreyfingunni nyrðra, hraut hagyrðingi einum þessi staka af munni:

Upp er skorið engu sáð,

allt er í vargaginum.

Þeir, sem aldrei þekktu ráð,

þeir eiga að bjarga hinum.“

Brynjólfur Steingrímsson sendi mér netpóst af þessu tilefni með svohljóðandi athugasemd: „Þessi vísa er eftir afa minn Egil á Húsavík og Friðrik á Halldórsstöðum og er ein af kersknisvísum þeirra félaga og frænda, sem þeir gerðu um sveitunga sína á unglingsárum. Ég hef aldrei heyrt það að þessi vísa sé gerð af póltískum ástæðum.“

Nauðsynlegt er, að þessi athugasemd komi fram, en breytir ekki hinu, að vísan hafði sterka pólitíska skírskotun á sínum tíma.

Vísan hefur verið öðrum eignuð en þeim félögum, svo að mér þykir rétt að vitna í grein Bjartmars Guðmundssonar á Sandi í Morgunblaðinu 27. júní 1973:

„Staka þessi er eftir Egil Jónasson, sem heima átti í Hraunkoti í Aðaldal, þegar hún varð til, og Friðrik Jónsson póst og bónda á Helgastöðum.

Þetta er einhver allra fyrsta ferhenda, sem á flot fór eftir Egil. En Friðrik var þá alkunnur hagyrðingur í Þingeyjarsýslu. Mun seinni helmingurinn hafa orðið til á undan hinum. Vísan þótti vel gerð og fór strax víða og lærði ég hana einhvern tíma á árunum kringum 1920. Enginn getur víst sagt um, hvernig eignarrétti þeirra félaga að þessari sameign var háttað. Samt tel ég líklegt, að Friðrik hafi átt öllu meira af efniviðnum. En handbragðið gaf vísunni vængi meira en efnið, og þó hvort tveggja. Hún varð mér sérstaklega minnisstæð vegna þess, að hún var ein sú allra fyrsta, sem frá Agli fór út fyrir heimabyggðir.“

Enn skrifar Bjartmar:

„Ekki verður sagt að miklu muni á orðunum „illa sáð“, „aldrei sáð“ og „engu sáð“. Samt ber rétta orðið af hinum. Og oftast er það svo, að hársbreiddin ein skilur á milli feigs og ófeigs á sviði orðlistarinnar.

Vel er að þetta tækifæri hefur gefist til að koma því rétta um þetta á framfæri. Stundum hafa Agli Jónassyni verið eignaðar vísur, sem hann ekki á. Í annan stað er þetta ekki í fyrsta skipti, sem öðrum hefur verið eignað það sem hans er. Jafnvel hefur komið fyrir að einhver og einhver hefur í ógáti eignað sjálfum sér vísu eftir hann, þótt undarlegt megi teljast.

Einu sinni sagði hann líka:

Léttu blaðri lokið er,

ljóðaþvaðrið dvínar,

hinir og aðrir eigna sér

ígangs fjaðrir mínar."

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is