Matt Ridley Mannkynið finnur sífellt nýjar leiðir til þess að bregðast við.
Matt Ridley Mannkynið finnur sífellt nýjar leiðir til þess að bregðast við. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Ég er kominn til þess að hressa ykkur við,“ sagði breski rithöfundurinn Matt Ridley á íslensku í upphafi fyrirlesturs síns í Öskju á föstudaginn, en hann fjallaði um ástæður þess af hverju fólk ætti að vera bjartsýnt á framtíðina. Byggði Ridley fyrirlesturinn á bók sinni, The Rational Optimist , eða skynsami bjartsýnismaðurinn. Fyrirlestur Ridleys var sá fyrsti sem haldinn er á vegum hins nýstofnaða Rannsóknaseturs um nýsköpun og hagvöxt og sóttu hann um 90 manns.

Þó að takmarkið væri, líkt og sagði í byrjun, að hressa áheyrendur við sagði Ridley að þetta væri hræðilegur tími til þess að vera á lífi. Svo virtist sem fréttirnar væru uppfullar af hörmungum og framtíðin liti út fyrir að vera svört, einkum í Evrópu. Þegar litið væri til allrar heimsbyggðarinnar kæmi hins vegar í ljós að ástandið væri ekki jafn slæmt og af er látið. Þegar farið væri yfir alla helstu tölfræði kæmi í ljós að mannkynið væri heilbrigðara, ánægðara, gáfaðra, hreinna, velviljaðra, frjálsara, friðsælla og jafnara en nokkru sinni fyrr í skráðri sögu mannsins. Spurningin væri þá hvernig þetta væri mögulegt.

Frá örvaroddum til tölvumúsa

Útskýring Ridleys var sú að mannkynið stundaði með sér skipti, hvort það væru viðskipti með vörur og þjónustu eða skipti á hugmyndum og uppfinningum. Ridley nefndi sem dæmi að Neanderdalsmenn hefðu haft stærri heila en nútímamaðurinn, en þeir hefðu aldrei þróað með sér slík skipti, öll þeirra tækni hefði verið staðbundin innan hvers ættbálks. Þeir hefðu því orðið undir í samkeppni við nútímamanninn sem gat nýtt sér nýsköpunarmátt allrar tegundarinnar með skiptum í staðinn fyrir að treysta bara á staðbundna reynslu eins ættbálks. Ridley tók dæmi af tveimur hlutum sem báðir eru hannaðir til þess að komast fyrir í mannshendinni. Annar var örvaroddur frá steinöld, og hinn var tölvumús. Hinn fyrri hefði verið búinn til með sköpunarkrafti eins einstaklings, en hinn síðari hefði orðið til fyrir tilstuðlan fjölda einstaklinga, en enginn þeirra gæti búið til tölvumús upp á eigin spýtur.

Ridley fór yfir ýmsa spádóma um hrakfarir mannkynsins og útskýrði meðal annars hvers vegna spádómar um fæðuskort vegna offjölgunar mannkyns hefðu ekki ræst. Þá nefndi hann hnatthlýnun af mannavöldum, sem væri vandamál, en að hlýnunin hefði ekki verið jafnhröð og menn hefðu spáð. Þá væri mannkynið sífellt að finna nýjar leiðir til þess að bregðast við.

„Við erum ekki sitjandi skotmark,“ sagði Ridley. „Með því að fara frá gáfum einstaklingsins sem gat búið til örvarodda til gáfna heildarinnar sem býr til tölvumýs þá höfum við gefið okkur bjarta framtíð, svo lengi sem við klúðrum henni ekki,“ sagði Ridley að lokum.