Maðurinn þarf að fá að njóta sín til að framfarir haldi áfram óáreittar

Rithöfundurinn og dýrafræðingurinn Matt Ridley er bjartsýnni en gengur og gerist. Og hann er ekki bjartsýnn að ástæðulausu, bjartsýni hans er jákvæð niðurstaða rannsókna og reynslu liðinna ára. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að staða mannsins fer sífellt batnandi og að fyrir því eru skynsamlega ástæður.

Ridley hefur ritað bók um þetta efni og ræddi það einnig á fundi Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt fyrir helgi. Áhugavert er og lærdómsríkt fyrir þá sem sjá óleysanleg vandamál í hverju horni að kynnast viðhorfum Ridleys sem bendir ekki aðeins á fjölmörg dæmi um batnandi hag mannkynsins í gegnum árin og árþúsundin, heldur líka á skýringarnar á þessum batnandi hag.

Ridley færir rök fyrir því að það sem hafi skilið manninn frá öðrum dýrum – og hér kemur námsgráða í dýrafræðum sennilega til góða – sé geta mannsins til að eiga skipti á vörum og hugmyndum. Þetta hafi ýtt undir framfarir og það hversu gott maðurinn hafi það nú miðað við fyrri tíð. Helsti dragbíturinn séu miklar hömlur sem ríkisvaldið hafi sett og nefnir hann löng tímabil í sögu Kína sem dæmi.

Viðhorf Matts Ridleys eru í senn hressilegt og jákvætt innleg í umræðuna – og í anda kenningarinnar dæmi um skoðanaskipti sem án efa munu hafa jákvæð áhrif á þá sem þeim kynnast.