Listhús Steingerður Jóhannsdóttir og Árni Emanúelsson eru að gera upp Hvítahúsið, gamla íshúsið í Krossavík við Hellissand á Snæfellsnesi.
Listhús Steingerður Jóhannsdóttir og Árni Emanúelsson eru að gera upp Hvítahúsið, gamla íshúsið í Krossavík við Hellissand á Snæfellsnesi. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Viðtal

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Öll okkar orka hefur farið í að laga húsið og við höfum ekki haft tíma til að vinna úr þeim fjölda hugmynda sem upp hafa komið,“ segir Steingerður Jóhannsdóttir sem ásamt manni sínum, Árna Emanúelssyni, er að gera upp gamla íshúsið í Krossavík við Hellissand, Hvítahúsið. Þau hafa opnað sýningarsal og minjagripasölu í húsinu og eru að innrétta listamannaíbúð. Hvítahúsið verður því listhús.

Þau festu kaup á húsinu fyrir þremur árum en það hafði staðið autt í áratugi. „Við förum oft í gönguferðir hingað í Krossavík og fylgdumst með þessu fallega og traustbyggða húsi sem vindurinn blés í gegnum. Við biðum eftir að einhver gerði eitthvað í málinu en þegar það gerðist ekki föluðumst við eftir því til kaups,“ segir Steingerður. „Við erum haldin húsahamingju,“ bætir Árni við og vísar til þess að þau hafa lengi unnið við að gera upp gömul hús í frístundum.

Þau áttu húsbíl og fóru mikið um landið en fundu þörf fyrir að eignast fastan samastað. „Okkur langaði að eignast sumarhús við sjóinn,“ segir Steingerður. Þau festu kaup á gömlu húsi á Hellissandi til að gera upp og hafa raunar gert upp annað hús á staðnum. Þau dvelja þar mikið á sumrin.

Verið að innrétta íbúð

Steingerður er áhugaljósmyndari og Snæfellsjökull og allt umhverfið í Krossavík togar hana til sín.

Frá upphafi var það ásetningur þeirra hjóna að veita öðru listafólki aðgang að þessu fallega umhverfi og því er tilgangurinn að koma upp listhúsi.

Þau eru komin vel á veg með viðgerðir á húsinu og hafa opnað sýningarsal og minjagripasölu. Í anddyrinu er lítil sýning um afa Árna, Gísla Stefánsson útvegsbónda og oddvita á Hellissandi. Þá eru þau að vinna í að innrétta listamannaíbúð á efri hæðinni. Listafólkið getur búið í húsinu, unnið og jafnvel haft sýningar á verkum sínum. Sjálf er Steingerður með sýningu á ljósmyndum í húsinu í sumar.

Þau stefna að því að ljúka viðgerðum fyrir áramót enda eru fyrstu listamennirnir búnir að boða komu sína í byrjun næsta árs.

Þau hafa lítið kynnt hugmyndir sínar í listheiminum en þó fengið ágætar undirtektir. „Við erum ekki aðeins að hugsa um myndlistarfólk, heldur einnig að tónlistarfólk geti fengið að njóta þeirrar einstæðu kyrrðar sem hér er.“

Kyrrð og friður

Hvítahúsið var byggt fyrir tæpum áttatíu árum sem íshús til að frysta beitu. Öflug útgerð var í Krossavík fyrstu áratugi tuttugustu aldarinnar sem þurfti sína þjónustu. Húsið, sem upphaflega hét Snæfell, var alltaf kallað Hvítahúsið. Það var ekki notað sem íshús nema í fáein ár en hafði staðið autt í áratugi þegar Árni og Steingerður fundu það. „Já, þetta er hús með sögu og sál. Hér er gott að vera, mikil kyrrð og friður,“ segir Steingerður og opnar dyrnar sem snúa að Snæfellsjökli.

ÞÝSKUR LISTMÁLARI DVELUR Í EITT ÁR Á HELLISSANDI:

Hjálplegur og góður nágranni

„Hann hefur verið hjálplegur og er auk þess skemmtilegur maður. Það var mikils virði að fá hann sem nágranna í sumar,“ segir Steingerður um þýska listmálarann Peter Lang sem verður næsti nágranni gesta Hvítahússins fram á vor.

Peter Lang ferðast um heiminn til að mála. Hann hefur þann háttinn á að flytja öll sín áhöld og efni í gámi og tjaldar í kring. Þannig hefur hann aðstöðu til að búa og vinna. Hann er aðeins eitt ár á hverjum stað og flytur þá hafturtask sitt og í stað efnanna verður í gámnum fjöldi stórra listaverka sem fara á sýningu. Gámurinn fer hins vegar til næsta lands og verður bækistöð listamannsins næsta árið.

Steingerður og Árni hafa verið í góðu sambandi við Peter Lang í sumar en hanner nú staddur úti í Þýskalandi vegna opnunar sýningar. Hann fór á strandveiðar með Árna og hefur ráðlagt Steingerði vegna sýningar hennar um Snæfellsjökul.

„Hann verður fyrsti gesturinn okkar í listamiðstöðinni. Hann ætlar að taka niður tjaldið í vetur og nýta okkar aðstöðu,“ segir Steingerður.