Heidi Jaeger Gröndal fæddist árið 1922 í Berlín. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir þann 22. júlí sl.

Heidi var dóttir hjónanna Dr. Werner Jaegers og Dóru Dammholts. Dr. Werner var prófessor í grískum fornbókmenntum við Berlínarháskóla og seinna Harvard háskóla. Heidi fluttist með föður sínum, og Ruth Jaeger seinni konu föður síns til Bandaríkjanna árið 1936. Heidi var næstyngst fjögurra systkina. Elstur var Erhard Jaeger. Þá kom Otto Jaeger, þá Heidi og síðast hálfsystir Terese. Þau eru nú öll látin. Heidi tók kennarapróf frá Wheelock College. Hún var kvænt Benedikt Gröndal fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra.

Heidi og Benedikt varð þriggja barna auðið. Þau eru Jón sem er sérkennari, Tómas sem kenndi fjölmiðlafræði í Gautaborg en dó fyrir 12 árum og Einar sem er háskólakennari í austurlenskum lækningum í San Diego í Bandaríkjunum. Hún á þrjú barnabörn. Þau eru Haukur Geir, Heiða og Benedikt og fimm langömmubörn.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hennar.

Merkiskonan Heiða Gröndal hefir lokið lífshlaupi sínu með sóma. Ævi hennar var að mörgu leyti óvenjuleg. Hún var fædd Heidi Jaeger í Þýzkalandi, flutti síðan með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna þar sem faðir hennar, Werner Jaeger, varð prófessor við Harvard háskólann. Hún var vinnandi í bókasafninu og þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Benedikt Gröndal, sem stundaði nám við skólann. Síðan giftust þau og fluttu til Íslands skömmu eftir seinna stríðið.

Það má ímynda sér erfiðleikana, sem urðu á vegi þessarar ungu, erlendu konu frá vel stæðu menningarheimili, þegar hún hóf búskap sinn í kjallara við Blönduhlíðina í ókunnugu smáríki þar sem íbúarnir töluðu framandi tungumál. Hún og Benedikt höfðu lítil efni, en hann starfaði sem blaðamaður. Stór fjölskylda hans tók hinni bandarísku tengdadóttur afar vel og var allt gert til að hjálpa ungu hjónunum.

Heiða stóð við bakið á eiginmanni sínum, þegar hann klifraði upp stiga stjórnmálanna og náði þar góðum árangri. Þau klifruðu líka upp úr kjallaranum við Blönduhlíð og komust í betra og stærra húsnæði, enda veitti ekki af, því þau eignuðust þrjá mannvænlega syni. Á nokkrum árum náði hún tökum á íslenzkunni, enda var hún mjög klár í kollinum og vel menntuð.

Hún var mjög blátt áfram og laus við alla sýndarmennsku. Samskipti hennar við fólk það, sem hún kynntist í gegnum stjórnmálabaráttu Benedikts, voru ávallt góð og hún var alltaf hrein og bein í allri sinni framkomu. Tengdafjölskyldan var mjög ánægð með Heiðu og hún var þar hvers manns hugljúfi. Greinarhöfundur passaði oft elzta soninn, þegar hjónin þurftu að fara út á kvöldum. Þetta voru ánægjulegar stundir, því Heiða launaði honum með gómsætum smákökum á ameríska vísu og heimatilbúnum rjómaís.

Benedikt og Heiða voru sannkallað heimsfólk og ferðuðust mjög víða. Þau dvöldu erlendis í mörg ár á sendiherratíma Benedikts í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Oft komu þau til Flórída og eru minningarnar um þær heimsóknir dýrmætar. Hjónin voru náttúruunnendur, sem dáðust mjög af flóru Sólarríkisins og sér í lagi fugladýrðinni þar.

Nú, þegar komin er kveðjustundin, minnumst við góðrar konu og skemmtilegrar, sem umgekkst samferðamenn sína með virðingu og leysti af hendi hlutverk sitt sem stoð og stytta eiginmanns og móðir sona þeirra með sóma. Hún reyndist hinu nýja landi sínu góð dóttir. Við vottum öllum afkomendum hennar samúð okkar. Lifi minning Heiðu.

Erla Ól. og Þórir S. Gröndal,

Ragnheiður Gröndal

og fjölskyldur þeirra.