Gífurlegt rusl safnaðist saman í fjörunni við strandstað Víkartinds. Hreinsunarstarf tók 14 mánuði.
Gífurlegt rusl safnaðist saman í fjörunni við strandstað Víkartinds. Hreinsunarstarf tók 14 mánuði. — Morgunblaðið/Rax
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hreinsunarstarf var gífurlega umfangsmikið en alls þurfti að flytja um 4.600 tonn af brotajárni.“

Flutningaskipið Víkartindur strandaði 5. mars 1997 skammt austan Þjórsárósa. Liðsmenn Landhelgisgæslunnar unnu þrekvirki þegar þeir björguðu 19 skipverjum Víkartinds. Skipverjarnir voru hífðir um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-Líf. Um hálftíma tók að hífa skipverjana um borð og voru þeir fluttir í land í einni ferð. Aðstæður voru afar erfiðar á vettvangi, vindur hvass og haglél. Að sögn Benónýs Ásgrímssonar var vindátt hagstæð sem hjálpaði mjög við björgunaraðgerðir þyrlunnar. Til marks um veðurofsann sáu björgunarmenn í landi ekki þegar skipverjarnir nítján voru hífðir í land þrátt fyrir að skipið væri aðeins 100-150 metra frá landi. Að auki voru þyrlur varnarliðsins kallaðar til aðstoðar en þær komust ekki á loft vegna veðurs.

„Það er hæpið að björgunarsveitir í landi hefðu komið mönnunum í land án þyrlunnar, fyrr en skipið rak að landi. Þyrlan sannaði sig með glæsibrag,“ sagði Jón Hermannsson, svæðisstjóri björgunaraðgerða, í samtali við Morgunblaðið 6. mars 1997.

Aðalvél Víkartinds bilaði fyrir hádegi sama dag og skipið strandaði. Varðskipið Ægir var komið á vettvang rúmlega tveimur klukkustundum seinna. Skipstjóri Víkartinds hafnaði hinsvegar margsinnis ábendingum Landhelgisgæslunnar um að tímabært væri að óska aðstoðar. Það þótti sæta furðu bæði innan Landhelgisgæslunnar sem og Eimskips sem hafði skipið á leigu. Skipstjórinn gaf þó eftir að lokum og Ægir gerði tvær árangurslausar tilraunir til að koma dráttartaug í skipið. Í seinni tilrauninni varð Ægir fyrir broti með þeim afleiðingum að einn skipverja féll fyrir borð og lést.

Víkartindur var um 9.200 tonn að stærð og var nýbyggt þegar það strandaði. Mengunarslysi var afstýrt en olía lak ekki í teljandi magni frá skipinu, og sem betur fer tókst að bjarga um 95% þeirrar olíu sem var um borð eða rúmlega 400 tonnum. 14 mánuðir liðu frá því Víkartindur strandaði þar til hreinsunarstarfi og niðurrifi skipsins lauk. Hreinsunarstarf var gífurlega umfangsmikið en alls þurfti að flytja um 4.600 tonn af brotajárni úr fjörunni ásamt rúmlega 1.000 tonnum af annarskonar úrgangi. Mikil vinna fólst í að ná saman timbri, pappír og fleiru og koma því á urðunarstað. Einnig fólst gífurleg vinna í því að tína smærra rusl sem rak á Háfsfjöru. Björgunarsveitir, íþróttafélög, starfsmannafélög og fleiri hópar tóku m.a. að sér að ganga um fjöruna og tína smærra rusl sem rekið hafði á land.

Hringrás tók að sér að rífa skipið og þótti það erfitt verkefni. Sandurinn í fjörunni torveldaði verkið og válynd veður hjálpuðu ekki til. Hringrás notaðist við stóra brotvél sem klippti járnið niður og setti það í gáma sem jarðýta dró síðan að flutningabílum.

Heimir Snær Guðmundsson heimirs@mbl.is