ALÞJÓÐADÓMSTÓLLINN Lagadeilur um lögsögu Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur komið verulega við sögu í landhelgisbaráttu Íslendinga. Guðmundur Sv.

ALÞJÓÐADÓMSTÓLLINN Lagadeilur um lögsögu Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur komið verulega við sögu í landhelgisbaráttu Íslendinga. Guðmundur Sv. Hermannsson rekur þessa sögu í ljósi þess að undirbúningur virðist hafinn af hálfu íslenskra stjórnvalda að vísa þangað deilu við Norðmenn vegna fiskveiða við Svalbarða.

íkisstjórnin samþykkti á þriðjudag að leita álits viðurkenndra erlendra þjóðréttarfræðinga á réttarstöðunni á fiskverndarsvæði Norðmanna við Svalbarða. Fyrirhugað mun vera að leita til sérfræðinga sem eru vanir málarekstri fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og því virðist ríkisstjórnin vera að undirbúa málssókn gegn Norðmönnum fyrir dómstólnum.

Íslendingar hafa aldrei rekið mál fyrir dómstólnum því þegar Bretar og Þjóðverjar kærðu þangað útfærslu landhelginnar í 50 mílur árið 1972 neituðu Íslendingar að viðurkenna lögsögu dómstólsins í málinu og héldu ekki uppi vörnum. Það mál var þó annars eðlis en Svalbarðadeilan nú.

Dæmir í milliríkjadeilum

Alþjóðadómstóllinn í Haag kom fyrst saman 1946 sem arftaki Fasta milliríkjadómstólsins. Samþykktir Alþjóðadómstólsins eru hluti af sáttmála Sameinuðu þjóðanna og því eru aðildarríki SÞ sjálfkrafa aðilar að dómstólnum. Ríki geta skuldbundið sig til að hlíta lögsögu dómstólsins um allan lagalegan ágreining varðandi túlkun samninga en Ísland hefur ekki gengist undir þetta ákvæði fremur en meirihluti aðildarþjóða SÞ.

Stærstur hluti mála er fyrir dómstólnum vegna þess að ríki gera með sér samkomulag um að vísa ágreiningsefnum þangað. Í mörgum tilfellum er einnig í gildi milliríkjasamningur milli ríkja sem kveður á um að deilumálum skuli vísað til dómstólsins. Þannig eru í gildi samningar milli Norðurlandaþjóðanna, sem gerðir voru árið 1930 í tilefni af Alþingishátíðinni, þar sem löndin skuldbinda sig til að leggja innbyrðis réttardeilur sínar fyrir Fasta alþjóðadómstólinn eða gerðardóm. Á þessum grundvelli telja sérfræðingar að Íslendingar geti vísað Svalbarðadeilunni til Alþjóðadómstólsins.

Umdeilt fiskverndarsvæði

Svalbarðadeilan snýst í raun um það hvort Norðmenn hafi rétt til að úthluta fiskveiðikvóta á hafinu umhverfis Svalbarða. 40 ríki eiga aðild að svonefndum Svalbarðasamningi og samkvæmt honum hafa Norðmenn full yfirráð yfir eyjunum og er heimilt að grípa til verndaraðgerða sem eiga þó að koma jafnt niður á borgurum aðildarríkjanna. Þau ríki eiga svo jafnan rétt til veiða á landi og sjó innan fjögurra mílna lögsögu og til að nýta auðlindir á eyjunum.

Norðmenn hafa síðan lýst yfir 200 mílna fiskverndarsvæði umhverfis Svalbarða og vísað í því sambandi til laga um efnahagslögsögu Noregs. Telja Norðmenn sig eina hafa rétt til að stjórna þar fiskveiðum og úthluta kvótum. Deilurnar nú snúast einkum um það hvort Norðmenn eigi að hafa eignarrétt á fiskinum á þessu svæði, en síður um rétt þeirra til að stjórna þar fiskveiðunum út frá norskum fiskverndarlögum.

4, 12 og 50 mílur

Alþjóðadómstóllinn í Haag tengdist að nokkru leyti útfærslu íslensku landhelginnar í fjórar mílur árið 1952. Skömmu áður hafði dómstóllinn kveðið upp úrskurð í landhelgisdeilu milli Noregs og Bretlands vegna þess að Norðmenn höfðu dregið beinar grunnlínur milli ystu annesja, eyja og skerja og þvert fyrir mynni flóa og fjarða. Fjögurra mílna landhelgi Íslendinga var svo ákveðin út frá grunnlínum sem dregnar voru á sama hátt.

Í deilu Íslendinga og Breta sem fylgdi í kjölfarið bauðst ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar til þess að vísa málinu til Alþjóðadómstólsins en Bretar höfnuðu því. En árið 1961 var málskotsréttur til dómstólsins hluti af samningum milli Íslendinga og Breta til að leysa langvinnar deilur vegna útfærslu íslensku landhelginnar úr fjórum mílum í tólf.

Með samningnum viðurkenndu Bretar 12 mílna landhelgi Íslands og íslenska ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún myndi halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis um útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland. Ríkisstjórn Bretlands yrði tilkynnt um slíka útfærslu með sex mánaða fyrirvara og risi ágreiningur um slíka útfærslu skyldi honum, ef annar hvor aðili óskaði, skotið til Alþjóðadómstólsins. Samskonar samningur var gerður við Þjóðverja.

Deilt um samning

Það var ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem færði út landhelgina 1958 en viðreisnarstjórnin svonefnda gerði þessa samninga. Ólafur Thors þáverandi forsætisráðherra sagði á Alþingi að hann teldi einna mesta ávinning af samkomulaginu við Breta að þaðan í frá myndi ekki ofbeldi eða hervald skera úr um hvort aðgerðir Íslendinga yrðu virkar, heldur alþjóðalög og réttur eins og hann væri á hverjum tíma, að mati óvilhallra dómara. Og í ályktun Landssambands íslenskra útvegsmanna var því sérstaklega fagnað að ríkisstjórn Breta skuldbyndi sig til að hlíta úrskurði alþjóðadómstóls um frekari útfærslu landhelginnar.

Stjórnarandstöðuflokkarnir Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur, sem höfðu verið í ríkisstjórn þegar landhelgin var færð út 1958, gagnrýndu samningana hins vegar harðlega, sérstaklega ákvæðið um Alþjóðadómstólinn. Hermann Jónasson formaður Framsóknarflokksins sagði á Alþingi að með ákvæðinu um Alþjóðadómstólinn væru Íslendingar að éta ofan í sig að þeir hefðu haft heimild til að færa út landhelgina án samþykkis Breta og lofuðu að gera það aldrei aftur.

Lúðvík Jósepsson þingmaður Alþýðubandalagsins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sagði meðal annars í þingræðu að Ísland hefði afsalað sér einhliða rétti til frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar og taldi það algera blekkingu að halda því fram að raunverulega væri hægt að láta Alþjóðadómstólinn skera úr um deilur varðandi stærð landhelginnar. Ástæðan væri sú, að engin alþjóðalög væru til um víðáttu landhelgi.

Lífshagsmunamál

Undir lok sjöunda áratugarins hófst viðreisnarstjórnin handa við að undirbúa frekari útfærslu landhelginnar. Í mars 1971 var reynt að ná samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um stefnu í málinu en stjórnarandstæðingar kröfðust þess að landhelgissamningunum við Breta og Þjóðverja yrði sagt upp. Ríkisstjórnin vildi hins vegar ekki ganga eins langt.

Ný vinstri stjórn tók við völdum um mitt árið 1971 og í febrúar 1972 samþykkti Alþingi samhljóða þingsályktunartillögu um útfærslu landhelginnar í 50 mílur þar sem sagði að ákvæði samninganna við Breta og Þjóðverja teldust ekki lengur bindandi fyrir Íslendinga. Í apríl vísuðu Bretar formlega deilumálinu um gildi samninganna frá 1961 til Alþjóðadómstólsins. Mánuði síðar vísuðu Þjóðverjar sínum samningi til dómstólsins.

Íslenska ríkisstjórnin lagði áherslu á að forsendur samningsins frá 1961 væru brostnar vegna gerbreyttra aðstæðna. Sagði Ólafur Jóhannesson þáverandi forsætisráðherra í þingræðu að ólíklegt væri að samningarnir hefðu verið gerðir hefðu menn þá séð fyrir framvinduna í fiskveiðum, fiskveiðitækni og réttarskoðun í landhelgismálum. Og í bréfi Einars Ágústssonar utanríkisráðherra til dómstólsins í lok maí 1972 segir að þar sem samningnum hafi verið slitið hafi dómstóllinn ekki lögsögu í málinu.

Mjög var um það deilt meðal íslenskra stjórnmálamanna hvort Íslendingar ættu að verja málið fyrir Alþjóðadómstólnum. Lúðvík Jósepsson segir í bók sinni Landhelgismálið að alþýðubandalagsmenn hafi talið að ef Íslendingar viðurkenndu lögsögurétt dómstólsins væri úti um allar tilraunir til að stækka lögsöguna um sinn, og ef Íslendingar sendu fulltrúa til að taka þátt í málarekstri fyrir dómnum yrðu þeir óhjákvæmilega að hlíta úrskurði hans. Jóhann Hafstein formaður Sjálfstæðisflokksins sagði hins vegar í viðtali við Morgunblaðið á þessum tíma, að með því að senda málsvara sinn gætu Íslendingar engum rétti glatað en aðeins styrkt réttarstöðu sína.

Mættu ekki

Utanríkisráðherra tilkynnti Alþjóðadómstólnum formlega 29. júlí 1972 að Íslendingar viðurkenndu ekki lögsögurétt dómstólsins í landhelgismálinu og myndu því ekki taka þátt í málflutningi fyrir dómnum. 17. ágúst kvað dómstóllinn síðan upp bráðabirgðaúrskurð um að Íslendingar ættu að hætta við að framfylgja reglugerð um útfærslu landhelginnar. Í febrúar árið eftir úrskurðaði dómstóllinn að hann hefði lögsögu í málinu á grundvelli samninganna frá 1961. Og árið 1974 kvað dómstóllinn upp efnisdóm í málinu, sem að hluta til var hliðhollur Íslendingum þar sem útfærslan í 50 sjómílur var ekki talin almennt brot á þjóðarétti. Meginniðurstaða dómsins var þó sú að Íslendingar yrðu að virða söguleg réttindi Breta og Þjóðverja á Íslandsmiðum og veita þeim tímabundin veiðiréttindi innan landhelginnar í samræmi við það.

En þegar hér var komið sögu höfðu aðstæður gerbreyst. Samið hafði verið við Breta og Þjóðverja í lok ársins 1973 um lausn landhelgisdeilunnar og undirbúningur að 200 mílna fiskveiðilögsögu var þegar hafinn.

Alþjóðadómstóllinn fjallar um landhelgisdeilu Íslendinga og Breta. Sæti Íslands eru auð.

Útfærsla landhelgi lífshagsmunir

Engin alþjóðalög til um víðáttu landhelgi