Upp úr aldamótunum 1900 urðu þrír læknar þjóðkunnir, sem allir hétu Guðmundur og voru úr Húnaþingi. Fyrir þeim var borin djúp virðing, og urðu ýmis ummæli þeirra fleyg. Guðmundur Magnússon fæddist í Holti í Ásum 1863 og var prófessor í læknisfræði.

Upp úr aldamótunum 1900 urðu þrír læknar þjóðkunnir, sem allir hétu Guðmundur og voru úr Húnaþingi. Fyrir þeim var borin djúp virðing, og urðu ýmis ummæli þeirra fleyg.

Guðmundur Magnússon fæddist í Holti í Ásum 1863 og var prófessor í læknisfræði. Í fyrirlestri í Hjúkrunarfélagi Reykjavíkur 1905 sagði hann, að „flestir færu með kroppinn á sér eins og óhreinar flíkur. Þær eru þvegnar í því skyni að gera þær hreinar og óhreinka þær svo aftur. Eins fara menn til læknis, ef þeir eru sjúkir, í því skyni, að þeim batni, svo þeir geti aftur spillt sér og sýkst að nýju.“ Aðalatriðið er eins og Guðmundur sagði að koma í veg fyrir sjúkdóma, ekki að glíma við þá.

Guðmundur Björnson (eins og hann stafsetti ættarnafn það, sem hann tók sér) fæddist í Gröf í Víðidal 1864 og var lengi landlæknir. Hann var um skeið bæjarfulltrúi í Reykjavík og sagði á bæjarstjórnarfundi 17. maí 1904: „Vatnsleiðsla í bæinn er orðin það lífsspursmál, að vér verðum annaðhvort að flytja bæinn að vatni eða vatn að bænum.“ Fyrir daga vatnsveitunnar ógnuðu margvíslegir smitsjúkdómar Reykvíkingum.

Guðmundur Hannesson fæddist á Guðlaugsstöðum í Blöndudal 1866 og var lengi prófessor í læknisfræði. Hann sagði í Skírni 1913: „Bestu ráðin til þess að takmarka sjúkdómana eru meiri þekking og meiri hirðusemi. Næst þessu gengur sennilega aukin velmegun. Bláfátækum mönnum eru oft flestar bjargir bannaðar. Þeir geta ekki bætt húsakynni sín sem skyldi og verða oft að láta sér lynda lakari föt og fæði en æskilegt væri. Hver sem bætir efnahag alþýðu er jafnframt besti læknir.“ Hér horfði Guðmundur af víðum sjónarhól og benti í raun á, að hagvöxturinn er afkastamikill læknir.

Í krafti vísindalegrar þekkingar og bætts efnahags tókst Guðmundunum þremur úr Húnaþingi og öðrum framfaramönnum af aldamótakynslóðinni að berjast við og jafnvel kveða niður barnaveiki, sull, skyrbjúg, taugaveiki og aðra sjúkdóma, sem herjað höfðu öldum saman á Íslendinga.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is