Steinunn Kristjánsdóttir, dósent í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, stýrði umsvifamiklum uppgreftri á Skriðu á Fljótsdal.
Steinunn Kristjánsdóttir, dósent í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, stýrði umsvifamiklum uppgreftri á Skriðu á Fljótsdal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við uppgröft á klausturrústum á Skriðu á Fljótsdal komu í ljós meiri mannvirki en menn áttu von á og einnig gríðarstór kirkjugarður. Uppgröfturinn sýndi að á Skriðu hafði verið rekið klaustur af alþjóðlegri gerð og umsvifamikið sjúkrahús í tengslum við það. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Í vikunni kom út bókin Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing. Í bókinni er sagt frá uppgrefti á Skriðu í Fljótsdal sem var ein viðamesta fornleifarannsókn sem ráðist hefur verið í hér á landi um árabil.

Steinunn Kristjánsdóttir stýrði uppgreftrinum á Skriðu en þar var starfrækt Ágústínusarklaustur 1493-1554.

Steinunn nam fornleifafræði við Gautaborgarháskóla, lauk þaðan doktorsprófi árið 2004 og hefur fengist við rannsóknir á Austurlandi um árabil. Hún er dósent í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Steinunn segir að menn hafi ekki verið vissir um hvar klaustrið hafði staðið nákvæmlega, en undirbúningur rannsóknarinnar hófst 2002 og það ár var gerð forkönnun með jarðsjá og grafnir könnunarskurðir. Sú forkönnun leiddi í ljós að á Skriðu hefðu verið talsverð mannvirki og meiri en menn höfðu talið fram að því að sögn Steinunnar. Í kjölfar forkönnunarinnar var síðan metið að áratug þyrfti til að kanna rústirnar nánar og gekk eftir þrátt fyrir hrun og ýmsa óáran því uppgreftrinum lauk í sumar.

Mun meira mannvirki

Könnunarrannsóknirnar leiddu í ljós að mun meiri mannvirki hefðu verið á Skriðu en heimildir bentu til, en að sögn Steinunnar hafi uppgröfturinn leitt í ljós að þau voru enn stærri en fornleifafræðingar höfðu gert sér í hugarlund. „Við höfðum til að mynda ekki gert ráð fyrir gröfum í kirkjugarði á staðnum, en þær voru um þrjú hundruð þegar upp var staðið,“ segir Steinunn og bætir við að rannsóknin hafi skilað miklu meiri árangur en búist var við. „Það má í raun segja að þarna hafi komið í ljós týndur kafli úr Íslandssögunni, en við höfum mjög lítið vitað um klaustur á Íslandi. Sú mynd sem við höfum haft af munkaklaustrum er hoknir menn að skrifa á bókfell eða skinn, en á Skriðuklaustri má sjá að þetta var allt annað, þetta var klaustur eins og við sjáum annars staðar í Evrópu. Þannig fólst starfið að stórum hluta í líkn og lækningum, á Skriðu var spítali eins og í flestum klaustrum í hinum kaþólska heimi. Rannsóknin sýnir að þetta var klaustur sem var rekið á vegum kaþólsku kirkjunnar og stjórnin hefur komið frá Róm,“ segir Steinunn og segir að þó klaustrið hafi eðlilega borðið íslenskt svipmót hafi það verið í alþjóðlegri mynd.

„Það var reynt af fremsta megni að fylgja klausturhefðinni og má segja að það hafi tekist, því það er greinilegt að fólk hefur treyst þessari stofnun bæði í ljósi þess hve byggingarnar urðu stórar og miklar og alls þess fjölda sem sótti klaustrið. Þetta var heilmikið samfélag og fjöldi fólks starfaði við klaustrið. Ég tel að það hafi kannski verið þarna fimm til sex reglubræður hverju sinni en síðan starfsfólk, leikmenn og leiksystur, sjúklingar, vinnufólk og aðrir sem aðstoðuðu við reksturinn.“

Öll klaustur eru eins

„Sú gamla mynd sem við höfðum haft af klaustrunum á íslandi skýrist eflaust af því hversu heimildirnar eru fátæklegar og rýrar. Það eru nánast engar heimildir til um klaustur á Íslandi nema um kaup og sölu jarða og nánast ekkert til um daglegt amstur og hlutverk þeirra. Hvað það varðar er svolítið merkilegt að menn skuli ekki hafa horft meira til klaustra í öðrum löndum til að fá einhverja mynd af þeim hér líka því menn gátu ekki rekið klaustur að eigin geðþótta. Auðvitað hlaut þetta að vera hér eins og annars staðar, menn þurftu að fylgja tilteknum reglum,“ segir Steinunn og bætir við til skýringar að segja megi að klaustrin hafi verið eins og flugstöðvar eru í dag. Þær fylgja allar ákveðnum reglum varðandi skipulag þó hver hafi sinn stíl. „Öll klaustur höfðu sinn stíl eftir aðstæðum eða yfirmanni, en þó að engin tvö séu eins þá eru þau eins í grunnatriðum. Vissulega var klaustrið á Skriðu byggt úr torfi og grjóti, en það var vegna þess að það var það byggingarefni sem var tiltækt. Í öllu öðru reyndu menn að fylgja hefðinni og þó Skriðuklaustur hafi ekki litið út eins og nokkurt annað klaustur var það samt alveg eins. Stofnun eins og Skriðuklaustur verður að vera traust til þess að einhver skipti við hana og það er greinilegt með Skriðuklaustur að fólk treysti stofnuninni og leitaði til hennar og gaf henni fjölda gjafa.“

Ekki fornleifaskýrsla

Þegar bók Steinunnar, Sögunni af klaustrinu á Skriðu, er flett sést fljótlega að hún er ekki hefðbundin fornleifaskýrsla, textinn er líflegur og fræðandi í senn, enda greinilegt að skrifað er fyrir leikmenn ekki síður en fræðinga. Hún hefur bókina þannig á því að lýsa því er hún kemur fyrst austur á Skriðuklaustur og fléttar síðan frásögn af uppgreftrinum inn í frásögn hennar af ferlinu öllu og vangaveltum um klausturlífið. Hún segist þó ekki slá af fræðilegum kröfum, „en reyni að hafa þetta meira svo að almenningur geti skilið þetta og meðtekið og hafi gaman af líka. Markmiðið er ekki að telja upp steina eða torfflyksur heldur leiði ég lesandann inn í uppgröftinn og fæ hann með mér.

Ég þráaðist lengi við að hafa bókina svona, en Gísli bróðir minn, sem leiddi mig í gegnum þetta, beinlínis sagði að enginn nennti að lesa skýrslur og hann vildi að frásögnin yrði í leynilöggustíl. Mér fannst það ómögulegt, en svo gaf ég mig, ákvað að prófa og þá var ég bara sátt við útkomuna. Það er misskilningur hjá fornleifafræðingum að halda að þeir geti ekki matreitt svona rannsóknir ofan í fólk án þess að túlka þær, en þeir sem vilja geta farið í frumgögn og skýrslur,“ segir Steinunn og þegar ég nefni við hana að af myndum að dæma sé ekki beinlínis skemmtilegt að fást við fornleifafræði skellir hún upp úr og segir að það sé öðru nær. „Þetta er spennandi starf og sérstaklega það sem við vorum að fást við fyrir austan, það var svo margt sem kom okkur á óvart. Við vorum til dæmis gáttuð þegar við uppgötvuðum þetta með spítalastarfsemina og alla þá sjúkdóma sem glímt var við í klaustrinu. Vissulega leið manni oft illa að hugsa til þess hvað fólkið sem leitaði í klaustrið þurfti að þola mikla erfiðleika og þjáningar.“

Þó uppgreftri á Skriðu sé lokið og honum lýst í bókinni eru rannsóknirnar fráleitt búnar, enn á eftir að gera heilmikið að sögn Steinunnar. „Það eru engar stórar breytingar á niðurstöðunni framundan, en við eigum eftir að bæta heilmiklu við, það á eftir að greina töluvert af dýrabeinunum, frjókornum og fræjum. Ég er svo að vinna að enskri útgáfu bókarinnar sem verður fornleifafræðilegri og hef fengið tilboð um útgáfu á henni 2014.“

Sögufélag gefur bók Steinunnar út. Í verkinu eru yfir 150 ljósmyndir, kort og teikningar.

Í haust var haldin Skriðuklausturshátíð í Fljótsdal og af því tilefni opnaði Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fullfrágengið minjasvæði. Við það tækifæri var guðsþjónusta haldin í rústum kirkjunnar og biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédikaði, en þess var einnig minnst að 500 ár voru liðin frá því Stefán Jónsson Skálholtsbiskup vígði klausturkirkjuna.