Bandaríski rithöfundurinn Gore Vidal lést 31. júlí á þessu ári. Hann átti fáa sína líka um meinfyndni, sem beindist ekki síður að honum sjálfum en öðrum. Vidal sagði til dæmis í viðtali við Sunday Times Magazine 16. september 1973: „Í hvert skipti sem einhverjum vini mínum gengur vel, deyr eitthvað inni í mér.“
Í sama viðtali sagði Vidal: „Mér finnst sjálfsagt að taka aftur upp vöndinn, en aðeins sem einkamál fullorðins fólks.“
Vidal var vinstrisinni og hafði ýmislegt að segja um forseta Bandaríkjanna. Til dæmis kallaði hann Ronald Reagan „stórsigur líksmurningarlistarinnar“ í Observer 26. apríl 1981.
Í viðtali við Sunday Times 4. júní 1989 var Vidal spurður, hvað hefði breyst, hefði Níkíta Khrústsjov, einræðisherra Ráðstjórnarríkjanna, verið skotinn til bana 1963, en ekki John F. Kennedy forseti. Vidal svaraði að bragði: „Við getum aldrei verið viss um gang sögunnar, en ég tel fullvíst, að Aristóteles Onassis hefði ekki kvænst ekkju Khrústsjovs.“ Þau okkar, sem muna aftur á öndverðan sjöunda áratug, skilja þessa gamansemi. Nína Khrústsjova var stórskorin, digur og hrukkótt, en Jacqueline, ekkja Kennedys, þokkafull, svo að af bar. Aristóteles Onassis var forríkur grískur skipaeigandi, sem hafði yndi af að umgangast fagrar konur og fræga menn.
Anthony Powell segir eina sögu af Vidal í endurminningum sínum (bls. 428). Á rithöfundaþingi í Sofíu í Búlgaríu skoðuðu þeir saman ljósmyndir af einhverjum fundanna. Powell sá, að Vidal sat við hlið indversks fulltrúa. „Ég sit alltaf við hliðina á mönnum með vefjarhatta,“ sagði Vidal. „Þá kemst ég á fleiri ljósmyndir.“
Aðra sögu af Vidal hef ég ekki fundið traustar skráðar heimildir um. Á stjórnarárum Reagans á hann að hafa sagt: „Hafið þið heyrt um eldinn í bókasafninu í Hvíta húsinu? Þetta var ægilegt. Báðar bækurnar brunnu, og Reagan hafði ekki litað nema aðra þeirra.“
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is