3. september 2012 | Árnað heilla | 503 orð | 4 myndir

Jónína Kristín Berg, myndmenntakennari og Þórsnesgoði – 50 ára

Borgfirskt náttúrubarn

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónína fæddist á Akranesi en ólst upp í Giljahlíð í Flókadal í Borgarfirði.
Jónína fæddist á Akranesi en ólst upp í Giljahlíð í Flókadal í Borgarfirði. Hún var í grunnskólanum á Kleppsjárnsreykjum, stundaði myndlistarnám við Myndlistarskóla Reykjavíkur, stundaði síðar nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1985, útskrifaðist þaðan 1989, stundaði síðan nám við grafíkdeild skólans og lauk þeim prófum 1990, stundaði nám í uppeldis- og kennslufræði við KHÍ og lauk prófum til kennsluréttinda.

Jónína lærði nudd og ilmkjarnaolíufræði við Lífsskólann – Aromatherapyskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 2002.

Jónína ólst upp við almenn sveitastörf í Giljahlíð í Flókadal, var í fiskvinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað 1980-85, var síðan aftur í fiskvinnslu á Austfjörðum og stundaði þar kennslu eftir námið í KHÍ og starfaði við einstaklingsmiðaða þjálfun fyrir fjölfatlaða hjá Þroskaþjálfun í Kópavogi á árunum 2001-2004.

Ilmakjarnaolía og augnlestur

Jónína flutti í Borgarnes árið 2004, hóf þá störf sem myndmenntakennari við grunnskólann í Borgarnesi og hefur kennt þar síðan.

Auk kennslunnar hefur Jónína unnið við ilmkjarnaolíumeðferð, nudd, heilun og augnlestur (lithimnugreiningu sem snýst um greiningu á heilsufari með athugun á litum og mynstrum í augum).

Jónína hefur svolítið fengist við myndlist í seinni tíð og tekið þátt í samsýningum.

Jónína hefur setið í stjórn Bandalags íslenskra græðara og sinnt ýmsum félagsstörfum fyrir félagssamtök græðara. Þá hefur hún verið meðlimur í kvæðamannafélaginu Iðunni um langt árabil.

Jónína fylgdist nokkuð með Ásatrúarfélaginu frá stofnun þess og kynntist ung Sveinbirni Beinteinssyni sem var góðkunningi móður hennar. Hún gekk í Ásatrúarfélagið 1988 og hefur verið virkur þátttakandi í því síðan. Hún hefur setið í Lögréttu frá 1992 (ráð stjórnar og goða), hefur séð um blótshald á Vesturlandi frá 1995, er Vesturlandsgoði frá 1996 og var sett allsherjargoði 2001-2002.

Engin algild guðfræði

– Jónína, fjöldi fólks lítur svo á að Ásatrúarfélagið geti vart verið alvörutrúfélag, því varla trúi nokkur maður á Þór og Óðin og tilvist Valhallar. Hvað segir þú um þessa afstöðu?

„Má ekki segja svipaða hluti um flest trúarbrögð? Er ekki fjölmargt í flestum trúarbrögðum sem erfitt er að trúa á í bókstaflegasta skilningi? Ég held það.

Ásatrúin er hins vegar mjög einstaklingsbundinn trúarsiður þar sem mismunandi þættir hafa missterka skírskotun hjá hverjum og einum. Rauði þráðurinn í ásatrúnni er virðingin fyrir náttúrunni, landinu, sögunni og arfleifð okkar. Og eitt meginatriðið í okkar trú er virðing fyrir trúarbrögðum annarra. Sum okkar líta á goð eða gyðjur sem vini sína en aðrir líta á þau sem persónugervinga fyrir náttúruöfl eða skapgerðareinkenni.

Við segjum ekki fólki til um það hvernig það eigi að ná sambandi við eða upplifa þessi duldu öfl. Við höfum enga algilda guðfræði í þeim efnum en það held ég að sé einmitt kosturinn við ásatrúna.“

Fjölskylda

Börn Jónínu eru Jón Bjarnason, f. 14.7. 1982, rennismiður í Neskaupstað en kona hans er Pálína Fanney Guðmundsdóttir; Sigurbjörg Ösp Rúnarsdóttir Berg, f. 2.4. 1996, framhaldsskólanemi í Svíþjóð.

Bræður Jónínu: Jóhannes Berg, f. 5.11. 1964, vélvirki og bílstjóri hjá Ístaki, búsettur í Mosfellsbæ; Þorsteinn Berg, f. 1960, d. 1963.

Foreldrar Jónínu eru Jens Meinhard Berg, f. 1.10. 1925, búfræðingur, búsettur í Borgarnesi, og Sigríður Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, f. 23.1. 1924, húsfreyja í Borgarnesi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.