Magnús Bjarnfreðsson fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi í V-Skaftafellssýslu 9. febrúar 1934. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 30. ágúst 2012.

Magnús var sonur Bjarnfreðs Ingimundarsonar, f. 12.9. 1889, d. 16.3. 1962, og Ingibjargar Sigurbergsdóttur, f. 3.11. 1893, d. 20.7. 1945. Fósturforeldrar hans voru Páll Pálsson, f. 4.7. 1901, d. 5.9. 1991 og Magnea Guðrún Magnúsdóttir, f. 21.11. 1900, d. 17.9. 1994, Efri-Vík í Landbroti. Alsystkini Magnúsar voru Björn Gísli, f. 1913, Vilborg, f. 1915, Sigurbergur, f. 1916, Haraldur, f. 1917, Guðjón, f. 1919, Lárus, f. 1920, Aðalheiður, f. 1921, Jóhanna, f. 1922, Ólöf, f. 1924, Ingibjörg, f. 1925, Eygerður, f. 1927, Ármann, f. 1928, Aðalsteinn, f. 1929, Steindór, f. 1930, Valdimar, f. 1931, Sveinn Andrés, f. 1935, Ólafur, f. 1936, Vilmundur Siggeir, f. 1939, Þóranna Halla, f. 1942. Á lífi eru Ólafur, Valdimar, Steindór og Ólöf.

Magnús kvæntist fyrri eiginkonu sinni, Bryndísi Guðjónsdóttur 1958, f. 9.10. 1939. Þau skildu. Foreldrar hennar voru Guðjón J. Brynjólfsson og Sigríður Steindórsdóttir. Sonur Magnúsar og Bryndísar er Guðjón, f. 16.5. 1960. Eiginkona hans er Sigrid Guðrún Hálfdánardóttir, f. 6.6. 1960. Börn þeirra eru Inga María, f. 11.2. 1980, Katrín Ósk, f. 31.3. 1983, Linda Dögg, f. 11.11. 1989, Bryndís, f. 25.1. 1989, Magnús, f. 21.9. 1990.

11. ágúst 1964 kvæntist Magnús eftirlifandi eiginkonu sinni Guðrúnu Árnadóttur, f. 15.5. 1937. Foreldrar hennar voru Árni Árnason og Sólveig Einarsdóttir frá Stóra-Vatnsskarði í Skagafirði. Börn Magnúsar og Guðrúnar eru Árni, f. 4.6. 1965. Unnusta hans er Berglind Bragadóttir, f. 6.5. 1974. Börn þeirra eru Guðrún Magnea, f. 11.6. 1983, Elvar Andri, f. 14.7. 1993, Sara Dögg, f. 31.3. 1994, Árni Páll, f. 31.8. 1996, og Sandra Karen, f. 30.1. 2001. Páll, f. 12.3. 1971. Eiginkona hans er Aðalheiður Sigursveinsdóttir, f. 20.10. 1973. Börn þeirra eru Magnús Már, f. 21.12. 1998 og Pétur Arnar, f. 5.2. 2004. Ingibjörg, f. 28.12. 1973. Eiginmaður hennar er Skúli Geir Jensson, f. 11.9. 1971. Börn þeirra eru Aldís, f. 25.3. 1993, Óðinn Karl, f. 30.3. 1999, Kristín, f. 7.9. 2006, og Guðrún Regína, f. 23.2. 2010.

Að loknum barnaskóla stundaði Magnús nám við ML og MR hvaðan hann útskrifaðist með stúdentspróf. Hann nam efnafræði í Þýskalandi en hóf svo störf sem þulur við Ríkisútvarpið 1957. Hann var síðar ritstjóri Frjálsar þjóðar og Fálkans og blaðamaður á Tímanum en réðist til Sjónvarpsins 1966 og vann að undirbúningi fyrstu fréttaútsendinga þess. Magnús varð þjóðþekktur frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpinu þar sem hann starfaði til ársins 1976. Hann var bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi 1974-1978, starfaði að menningar- og félagsmálum fyrir bæinn í kjölfarið og var m.a. einn forvígismanna byggingar Listasafns Kópavogs, Gerðarsafns. Eftir Magnús liggja þrjár bækur, Þá læt ég slag standa, Þorpsskáldið Jón úr Vör og Í ríki óttans. Magnús starfaði að kynningarmálum og almannatengslum, en lauk starfsævi sinni hjá Happdrætti Háskóla Íslands.

Útför Magnúsar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 7. september 2012, kl. 13.

Elsku pabbi.

Skilur þá leiðir að sinni. Það er ólýsanleg sorg og söknuður sem fylgir því að kveðja þig, því þótt aðdragandinn hafi verið langur og okkur öllum ljóst að leið að sólarlagi, kom kallið samt á óvart. En um leið gleðst ég yfir því að þrautir þínar hafa verið frá þér teknar, það skiptir mestu máli.

Það var ómetanlegt að vera þér samferða, eiga þig að föður en ekki síður vini. Alltaf til staðar, traustur og yfirvegaður. Hreinskiptinn og hlýr.

Á nærri hálfrar aldar samvist hefur ýmislegt verið reynt. Við höfum farið gegnum gleði og sorg, hlátur og grát. Stundum var leiðin á fótinn, stundum gekk allt í haginn en alltaf átti ég þig að. Fyrir það þakka ég af heilum hug.

Fyrir löngu las ég við þig gamalt viðtal, þú varst þá þulur í útvarpinu. Þú lýstir því að mestu skipti í beinni útsendingu að fara ekki á taugum þótt eitthvað færi úrskeiðis og gerðir það þannig: „Þegar fátið byrjar, þá er fjandinn laus“. Ég sagði þér það líklega aldrei en þessarar setningar hef ég ótal sinnum minnst og hún oft komið mér að gagni. Og mér finnst hún fela í sér lífsspeki sem lýsir þér svo vel.

Aldrei skorti áhuga þinn á málefnum líðandi stundar. Síðast í sumar lagðir þú mikið á þig til að fara að velja þér forseta og aðeins rúmum sólarhring fyrir andlátið sátum við síðast og ræddum pólitík.

Þeir voru líklega teljandi á fingrum annarrar handar fréttatímarnir sem þú misstir af í gegnum tíðina, enda minnumst við þess með brosi á vör hvernig allt datt í dúnalogn á heimilinu þegar leið að fréttum í útvarpi og sjónvarpi.

Ljúfar minningar streyma fram. Ég minnist ferðalaganna sem fjölskyldan fór í. Oftast austur í Efri-Vík eða norður að Vatnsskarði. Ég skildi það ekki þá, en þarna lærði ég meira um landið okkar en nokkurs staðar annars staðar, fyrr eða síðar. Örnefni, staðarnöfn, fjöll og sveitir, ár og vötn. Þjóðsögur og sagnir. Þú varst náttúrugreindur, minnugur, fróður um margt og ekki síst landið þitt. Bókelskur mjög.

Áhugi þinn á barnabörnunum, viðfangsefnum þeirra og framgangi var ósvikinn. Ég gleymi því aldrei þegar ég kom til ykkar mömmu, nýorðinn 17 ára og stundi því upp að ég yrði pabbi innan tíðar. Viðbrögðin yfirveguð og notaleg. Nokkrum mánuðum síðar var Guðrúnu Magneu, fyrsta barnabarninu, tekið af ykkar yndislegu hlýju og alla tíð hefur hún og síðar hin barnabörnin öll, átt stóran sess í ykkar lífi.

En fyrst og síðast varstu góður pabbi. Áhugi þinn á öllu því sem við börnin þín tókum okkur fyrir hendur var sannur og ósvikinn. Árum saman töluðum við saman í síma, svo að segja á hverjum degi. Oft þáði ég góð ráð. Skipti þá engu hvort um var að ræða málefni tengd starfi eða leik, alltaf þótti mér gott að leita til þín og alltaf var það sjálfsagt mál. Nú verður hlé á því en við tökum upp þráðinn síðar.

Ég kveð þig að sinni, elsku pabbi, með bæn sem þið mamma kennduð mér sem barni

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Árni Magnússon.

Þegar ég kveð Magnús tengdaföður minn rifjast upp minningar um góðan mann. Ég gleymi aldrei okkar fyrstu kynnum í Lundarbrekkunni. Það var hlý hönd og gott hjartalag sem bauð mig velkomna. Magnús var vandaður maður sem endurspeglast einna best í fjölskyldu hans og ævistarfi. Undanfarin þrettán ár höfum við búið í sama húsi og hist nánast á hverjum degi. Magnús vildi alltaf fá fréttir af sínu fólki í leik og starfi. Það var hægt að treysta honum fyrir hugrenningum sínum, hann var traustur vinur. Fyrir syni okkar Páls þá Magnús og Pétur er ómetanlegt að hafa fengið að alast upp með afa sínum og ömmu sem alltaf hafa tekið þeim opnum örmum, hlustað á sigra og sorgir, samfagnað og hughreyst. Sameiginlega munum við geyma minningu um ástríkan og skemmtilegan afa.

Að eðlisfari var Magnús varfærinn maður, stundum óþarflega raunsær þegar spennandi var að taka áhættu eða fara ótroðnar slóðir. En einmitt þess vegna var hann ráðagóður og því gott til hans að leita. Stundum vorum við ósammála og þá var stutt í stríðnina. Sérstaklega var gaman að takast á um pólitíkina. Hann fylgdist náið með störfum barna sinna. Hann var til staðar, hlustaði og studdi syni sína á hinum pólitíska vettvangi og í öðrum störfum. Hann talaði aldrei um það en þegar gustaði um þá bræður tók hann það nærri sér en var ávallt til staðar.

Magnús var lítillátur gagnvart störfum sínum. Hann talaði mjög sjaldan um liðna tíma að fyrra bragði og stundum þurfti að draga upp úr honum sögur og frásagnir sem hann þó glaður sagði af sér og samferðamönnum. Það var eins og hann hefði enga þörf fyrir að tala um liðna tíma og þau merkilegu spor sem hann og samstarfsfélagar hans stigu t.d. í upphafi sjónvarpsins. Aðrir munu segja þá sögu og vafalítið gefa honum meira vægi en ef hann sjálfur væri til frásagnar. Hann var hættur sem fréttamaður í sjónvarpi þegar við kynntumst en fréttaþyrstari mann hef ég aldrei þekkt. Þá starfaði hann við fréttasendingar, hlustaði á alla fréttatíma, las öll blöð, tók það helsta saman og sendi frá sér í lok dags til Íslendinga búsettra og á ferðalögum erlendis. Fréttaþorstinn var reyndar litlu minni eftir að fréttasendingum lauk.

Magnús safnaði ýmsum hlutum, bókum, myndum, myntum og kortum. Hann var vandlátur á bækur og engan hef ég séð lesa eins og hann. Magnús gat skautað og flett í gegnum bækur á ógnarhraða og var fljótur að sjá hvort eitthvað var í þeim bitastætt. Þessi mikli áhugi á fróðleik og fólki í bland við stálminni gerði hann að fróðleiksnámu, þar sem sjaldan var komið að tómum kofunum.

Þrátt fyrir langvinn og erfið veikindi skipti það hann miklu máli að fá að vera sem lengst heima og gekk það eftir. Guðrún annaðist Magnús af alúð og af einstökum dugnaði. Betri lífsförunaut gat Magnús ekki valið sér.

Þegar kemur að kveðjustund er sorgin þung því væntumþykja og kærleikur var það sem einkenndi vináttuna. Skilið er eftir skarð sem ekki verður fyllt en minningin lifir.

Aðalheiður

Sigursveinsdóttir.

Fyrir nokkru sat ég inni í eldhúsi heima hjá ömmu og afa í Logó. Pabbi og afi sátu við eldhúsborðið að spjalla svo ég ákvað að kíkja aðeins í Moggann og eins og stundum áður þá fór ég að lesa minningargreinarnar. Eftir svolitla stund tók afi eftir því að ég var komin með tár í augun og spurði mig hvers vegna. Ég sagði honum hvað ég var að lesa og hann sagði: „Maður á ekkert að vera að lesa þessar minningargreinar, þær eru alltaf svo sorglegar.“

Þannig ég ætla að minnast afa með gleði í hjarta og bros á vör.

Ég man að ég fór reglulega til afa og við spiluðum manna og rommí tímunum saman. Hann kenndi mér líka rómverskar tölur og las reglulega upp úr Njálu fyrir mig.

Ég á eftir að sakna afa ótrúlega mikið en ég veit að hann er kominn á betri stað.

Ég elska þig, afi.

Sara Dögg Árnadóttir.

Elsku afi.

Ég trúi því varla að þessi stund sem ég er búin að kvíða svo fyrir sé runnin upp, þrátt fyrir langan aðdraganda er maður aldrei tilbúinn að kveðja í hinsta sinn. Ég veit þó, afi minn, að þú ert hvíldinni feginn eftir langa baráttu.

Í hjarta mínu geymi ég margar yndislegar minningar. Mér eru sérstaklega minnisstæðar sumarbústaðarferðirnar með ykkur ömmu, þar leyfðir þú mér fyrstur allra að keyra og sat ég þá í kjöltunni á þér og stýrði allan afleggjarann upp að bústað, eins göngutúrarnir okkar þar sem þú kenndir mér nöfnin á öllum þeim blómum og fuglum sem á vegi okkar urðu, svo hlýddir þú mér yfir á bakaleiðinni, ég tók svo sérstöku ástfóstri við tjaldinn þar sem hann var þinn uppáhaldsfugl. Þú reyndir einnig að fá mig til þess að lesa hluta af Íslendingasögunum og spurðir mig svo út úr með misgóðum árangri, ég kunni svo vel að meta þær í seinni tíð. Hákarlinn var okkar sælgæti og fékk ég oftast bita þegar ég kom í heimsókn, oft hlógum við að því þegar ég sem smástelpa bað þig að fela hákarlinn svo hinir krakkarnir kæmust ekki í hann.

Alltaf gat ég leitað til þín ef mig vantaði svör við hinum ýmsu spurningum um lífið og tilveruna því jafn gáfaðan mann mun ég sennilega aldrei hitta aftur á minni lífsleið. Mig minnir að þér hafi aðeins einu sinni verið boðið að spila með í Trivial og komst þá enginn að fyrr en þú varst kominn með allar þínar kökur.

Frá því að ég man eftir mér hef ég verið mikil afastelpa og hef ég alla tíð litið mikið upp til þín og verið svo stolt af því að vera barnabarn Magnúsar Bjarnfreðssonar, sagði ég öllum í óspurðum fréttum að þú værir afi minn.

Ég er svo þakklát fyrir ferðina sem við fórum saman í fyrra austur á Klaustur og skoðuðum æskustöðvar þínar og alla leiðina frædduð þið amma okkur Bjössa um allt það sem fyrir augun bar, við fjölskyldan höfum ákveðið að fara þangað árlega í þína minningu. Einnig er ég þakklát fyrir Kolaportsferðirnar okkar þar sem þú og amma gátuð flett upp í hinum ýmsu bókum, við náðum okkur svo í hákarl og reyktan rauðmaga og borðuðum þegar heim var komið.

Elsku afi, takk fyrir allar yndislegu stundirnar sem við höfum átt saman, takk fyrir að sýna öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur ómældan áhuga og takk fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig og mína fjölskyldu.

Elsku afi, ég veit og trúi að þú sért kominn á betri stað og við munum öll hugsa vel um ömmu þar til þið hittist aftur.

Þín afastelpa sem saknar þín svo sárt,

Guðrún Magnea.

Ég man varla eftir að hafa verið til án þess að Magnús væri hluti af fjölskyldunni, ég var ekki nema 4 ára þegar þau Gunna föðursystir mín giftust, þá fannst mér að hún væri nú hálfgerð stelpa, ég ku hafa sagt að hann hefði frekar átt að giftast Gunnu Þ. hún væri miklu meiri frú.

Þegar ég var 8 ára fór ég til Reykjavíkur og var hjá þeim á Sunnuveginum dálítinn tíma, þetta var nú engin smáupplifun fyrir stelpuskott norðan frá Vatnsskarði sem hafði aldrei séð stærri borgir en Sauðárkrók.

Þarna sá ég sjónvarp í fyrsta skipti og þar var Magnús aðalmaðurinn, las fréttir með sinni dásamlegu rödd, og heimaf yrir stanslausar hringirngar eða eitthvað að skrifa og lesa. Eitthvert kvöldið var hann að lesa blöðin og þá kenndi hann mér að teikna Óla prik (á spássíu Tímans).

Miklum heilabrotum olli það hvernig hann kæmist inn í sjónvarpið. Ég fékk að gista í sér herbergi sem ég var ekki vön, og var það hálffullt af bókum, sem mér þótti afar notalegt.

Á þessum tíma gerðust stóratburðir í þjóðfélaginu, hægri umferðin gekk í gildi, og Kristján Eldjárn var kosinn forseti, alltaf var nóg um að vera á Sunnuveginum, margir komu og með mörgu þurfti að fylgjast, og Magnús auðvitað aðalmaðurinn.

Ég átti víst að heita að líta eftir Árna litla frænda mínum en held ég hafi sloppið frekar létt frá því.

Þó að stundum liði töluverður tími milli heimsókna til ykkar bæði í Lundarbrekku og Logasali var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Þrátt fyrir heilsuleysi síðustu árin og án efa mikla þrautagöngu, var Magnús alltaf skemmtilegur og ótrúlega vel að sér um alla hluti ættfræði, veðurfar, atvinnumál, landslag, pólitík eða bara það sem bar á góma í það og það skiptið. Hann spurði líka reglulega um börnin mín hvað þau væru að gera og hvernig þau hefðu það.

Á öllu mögulegu hafði hann áhuga, síðast bað hann mig að ganga úr skugga um að varðveittar væru gamlar húsateikningar eftir langafa minn, sem honum fannst skipta máli að ekki glötuðust.

Mér þótti afar vænt um að þið skylduð koma norður þegar við Gunnar giftum okkur 17. júní 2000.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en leyfi mér að segja að héðan sé horfinn mætur maður.

Elsku Gunna mín, Gunna Þ., Guðjón, Árni, Palli, Ingibjörg og fjölskyldur, Guð styrki ykkur og blessi minningu Margnúsar Bjarnfreðssonar.

Með innilegri samúðarkveðju frá fjölskyldu minni.

Sólveig Þorvalds.

Elsku Gunna mín og fjölskylda.

Hjá ykkur er skarð fyrir skildi,

skuggaleg haustsins ský.

Gjarnan ég, Gunna mín, vildi

gefa þér sólskin á ný.

Ég man þegar mættir þú forðum,

með Magnús þinn sveitina í.

Og erfitt að lýsa með orðum,

en alls ekki gleymi ég því.

(Benedikt Benediktsson)

Mig setti hljóðan, þegar Gunna frænka mín hringdi 30. ágúst og sagði „Jæja, Benni minn, þá er þetta búið“. Ég vissi að Magnús var búinn að berjast við veikindi sín hart og lengi. Mér varð hugsað 48 ár til baka er þú komst norður til að gifta þig. Hafði aldrei séð mannsefnið, vissi reyndar að hann var fæddur landsbyggðarmaður og framsóknarmaður sem spillti nú ekki fyrir hjá gamla fólkinu á Vatnsskarði.

Við vorum uppalin saman eins og systkini þó bræðrabörn værum svo ég var eðlilega svolítið gagnrýninn á piltinn. Það reyndist nú óþarfi, maðurinn fjallmyndarlegur og varð okkur vel til vina frá fyrstu tíð.

Já, Magnús minn, manndómsvígsluna í sveitinni fékkstu vorið 1968 þegar við rákum stóðið fram á Eyvindarstaðaheiði. Eitthvað varstu nú búinn að æfa þig í hestamennskunni dagana á undan og allt gekk vel og úr varð ótrúlega skemmtileg ferð. Síðan komu ferðirnar með börnin og „Flóru Íslands“ í Hesthúshvamminn og veiðiferðir í Myllulækinn. Allt eru þetta góðar minningar sem ekki fellur á.

Elsku Gunna, börn, tengdabörn og afkomendur, ástarkveðjur til ykkar frá fjölskyldunni á Stóra-Vatnsskarði.

Lengjast skuggar, laufin falla,

ljós í glugga ósköp smátt.

En Drottinn huggar eflaust alla,

er einatt bjuggu í friði og sátt.

(Benedikt Benediktsson)

Benedikt á Vatnsskarði.

„Vinir mínir fara fjöld,“ varð Hjálmari Jónssyni skáldi frá Bólu að orði við dánarfregn og flestir kunna framhald vísu hans. Þetta er gangur lífsins. Við vitum öll hvert stefnir og aðeins eitt í lífi okkar er öruggt. Samt erum við ekki viðbúin og fyllumst trega og söknuði þegar nánir vinir hverfa yfir móðuna miklu, jafnvel þótt viðkomandi hafi átt við heilsuleysi og þungbæran sjúkdóm að stríða. Þannig varð okkur við þegar við fréttum andlát Magnúsar Bjarnfreðssonar, skólabróður og vinar. Við höfðum sterkan grun um hvert stefndi en söknuðurinn og treginn varð þá þegar djúpur og sár.

Við Magnús kynntumst í Menntaskólanum í Reykjavík um miðbik síðustu aldar eða árið 1952. Svo vildi til að við þrír skólabræðurnir fengum leigð herbergi hver í sínu húsinu í Miðstræti. Þaðan var stutt í heimsóknir, stutt í skólann og stutt á Laugaveg 11 en þar hafði Magnús gaman af að koma og spjalla. Stundum var vík milli vina, jafnvel um nokkurra ára skeið en þeim mun hlýrri voru endurfundir og síðustu árin áttum við einstaklega notalegar stundir saman, oftast á heimili þeirra hjóna Magnúsar og Guðrúnar í Kópavoginum. Það voru nánast ljúfar helgistundir yfir kaffi og kræsingum með glettnislegu spjalli um heima og geima. Aldrei var kímnin og glensið langt undan því Magnús hafði græskulausan en leiftrandi húmor og einstaka frásagnarfimi sem einkenndu hann öðru fremur ásamt brennandi áhuga á mönnum og málefnum hvort sem var í söglegu samhengi eða líðandi stundar. Síðast hittumst við þar á notalegu heimili þeirra hjóna um verslunarmannahelgina. Það var ógleymanleg og dýrmæt stund.

Við tókum vel eftir skólabróður okkar og vini, Magnúsi Bjarnfreðssyni, þegar hann hóf fréttamennsku og fréttaflutning í nýstofnuðu sjónvarpi á Íslandi. Þetta hefur áreiðanlega verið mikil áskorun fyrir hann því miklu skipti fyrir íslenskt þjóðlíf að sæmilega tækist til. Engum blöðum er um það að fletta að farsællega var af stað farið. Þar fór saman þekking á viðfangsefninu og heiðarleg yfirvegun ásamt einstaklega notalegri og skemmtilegri framkomu. Á fréttir sem Magnús vann og las var hægt að reiða sig og þær komust skýrt og vel til skila. Síðar ræddum við oft við Magnús um viðburði sem við þekktum sjálfir úr hringiðunni. Þar var ekki komið að tómum kofunum, málin krufin frá ýmsum hliðum af víðsýni og þekkingu, auk þess sem nánast var hægt að fletta upp í minni Magnúsar eins og orðabók. Í nútímanum, þegar sjónvarp er orðinn eins mikill hluti af daglegu lífi fólks og raun er á, er ekki lítils virði fyrir Sjónvarpið og alla landsmenn að hafa notið hæfileika manns eins og Magnúsar þegar heimdraganum var hleypt.

Að leiðarlokum viljum við og konur okkar Rúna og Lilla koma á framfæri innilegu þakklæti fyrir þá gæfu að kynnast Magnúsi Bjarnfreðssyni og eignast vináttu þeirra Guðrúnar konu hans. Slíkar gjafir í lífinu eru ómetanlegar. Við vottum Guðrúnu, börnunum og aðstandendum Magnúsar innilega samúð okkar og biðjum Guð að blessa okkur öllum minningu þess góða drengs, Magnúsar Bjarnfreðssonar.

Lárus Jónsson,

Lýður Björnsson.

Magnús Bjarnfreðsson var fróður maður og vitur, en honum var einnig gefinn sá hæfileiki, sem því miður alltof fáir búa yfir, að miklast ekki af því.

Ekki eiga margir fullorðnir menn auðvelt með að rökræða við táningsstelpu á jafningjagrundvelli en þegar ég var á þeim aldri átti ég margar samræður við Magnús um hvaðeina, frá sögu til náttúrufræði. Aldrei skynjaði ég annað en að Magnúsi þætti jafngaman og mér að spjalli okkar og ekki breyttist það eftir að ég komst á fullorðinsár. Ég og foreldrar mínir áttum margar samverustundir með Magnúsi og Guðrúnu, konu hans, bæði á heimili þeirra og okkar, og einnig ferðuðumst við oft með þeim um Ísland og alltaf gat ég stólað á það að eiga eftirminnileg samtöl við Magnús.

Eflaust má fara mörgum orðum um opinbera arfleifð Magnúsar og hans þátt í mótun íslenskra fjölmiðla en með þessum orðum mínum vil ég kveðja góðan vin sem kenndi mér svo margt og þá einna helst mikilvægi gagnrýnnar hugsunar og það er nokkuð sem ég fæ seint fullþakkað.

Guðrúnu, Guðjóni, Árna, Páli, Ingibjörgu og fjölskyldunni allri vil ég senda mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Inga Þóra Ingvarsdóttir.

Traustur vinur er örugg vörn,

finnir þú slíkan áttu fjársjóð fundinn.

Traustur vinur er verðmætari öllu,

á engan kvarða fæst gildi hans metið.

Svo segir í Biblíunni og lýsir á ljóslifandi hátt áratuga vináttu okkar Magnús Bjarnfreðssonar, sem hefur kvatt þetta líf og haldið á vit nýrra heima, eftir langa og erfiða glímu við heilsuleysi. Við kynntumst í Skuggasundinu fyrir margt löngu, þar vorum við blaðamenn á Tímanum undir traustri stjórn Indriða G. Þorsteinssonar, sem var einn fremsti blaðamaður landsins. Með okkur Magnúsi tókst traust og gegnheil vinátta sem aldrei féll skuggi á.

Magnús var jafnvígur fréttamaður hvort sem var á dagblaði, útvarpi eða sjónvarpi. Það er hægt fullyrða, að öðrum ólöstuðum, að hann var einn allra besti fréttamaður og fréttaþulur í sögu Sjónvarpsins.

Við vorum herbergisfélagar á Tímanum og þar var áhugavert að fylgjast með Magnúsi sem átti í fórum sér þéttriðnasta net heimildarmanna á landinu. Hann þekkti þá alla vel, þótt suma sæi hann aldrei. Hann gat hringt hvenær sem var í fréttavini sína til að afla fregna. Svona var þetta líka á fréttastofu Sjónvarpsins þar sem við störfuðum. Magnús var afar naskur á hvar frétt væri að finna. Það skipti engu máli hvort viðkomandi væri bóndi, sjómaður, kennslukona, kaupfélagsstjóri eða eitthvað annað. Hann fann það einhvern veginn á sér ef viðkomandi „lumaði á frétt.“ Þetta lék enginn fréttamaður eftir honum hvorki á Tímanum né á upphafsárum Sjónvarpsins.

Magnús var lengst af maður landsbyggðarinnar og þeirra sem yrkja jörðina og nýta sjávarfangið. Hann var mikill réttlætismaður að eðlisfari og studdi lengst af Framsókn. Magnús fylgdist grannt með pólitíkinni og landsmálunum, en að sama skapi hafði hann lítinn áhuga á erlendum málefnum. Við eyddum löngum stundum í að ræða pólitík dagsins og oft hitnaði hressilega í kolunum. Þeir sem ekki þekktu okkar hafa eflaust haldið að við værum svarnir óvinir en því fór víðs fjarri. Við höfðum bara óskaplega gaman af að takast hressilega á um pólitíkina. Hann Framsókn en ég hinum megin við túnfótinn. Á þessum árum kom það aldrei fyrir að fréttamenn Sjónvarpsins rugluðu saman eigin skoðunum og faglegum fréttaflutningi.

Eftir að við hættum að starfa saman á Sjónvarpinu héldum við uppteknum hætti og sjaldan leið vikan án þess að við töluðum ekki oft saman símleiðis. Síðasta símtalið var eftir að lokasprettur lífs hans hófst á líknardeild LÍ. Símtalið, eins og hin, snérist um þjóðmálin.

Magnús var einstakur maður og eftirminnilegur. Ég var mjög lánsamur að eignast hann sem vin. Hann var sannur blaðamaður sem lét sannleikann og réttlætið ráða för í fréttaskrifum. Nú þegar hann er allur finn ég mikið tómarúma og sakna sárlega símtala okkar. Magnúsi er í raun best lýst með orðum frelsarans: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns“.

Við Áslaug sendum Guðrúnu og fjölskyldu okkar innilegustu vinar- og samúðarkveðjur á sorgarstundu.

Jón Hákon Magnússon.

Á nokkuð langri lífsleið eignast maður sæg af kunningjum en ekki marga vini. Magnús Bjarnfreðsson var vinur minn. Ég á eftir að sakna hans. Sakna þess að geta ekki lyft símanum og rætt stöðuna. Tekið svolitla rispu um pólitíkina þar sem við vorum ótrúlega oft sammála – einkanlega seinni árin. Sakna þess að geta ekki hlegið með honum og hneykslast svolítið yfir ýmsu dagsins fánýti.

Kynni okkar Magnúsar spönnuðu hartnær hálfa öld, allt frá því snemma á sjöunda áratugnum, þegar blaðamenn á Tímanum og Alþýðublaðinu snæddu stundum í Alþýðuhúskjallaranum þar sem á boðstólum var saltkjöt og sveitamatur og skeiðarnar voru eins og ausur og annað bestikk eftir því.

Nokkrum árum síðar lágu leiðirnar saman í nýjum fjölmiðli – Sjónvarpinu. Þá voru fréttamenn fjórir, tveir á hvorri vakt. Seinna fjölgaði fréttamönnum dálítið.

Magnús var fréttamaður af lífi og sál. Það var upplifun að fylgjast með honum þegar mikið gekk á. Fréttir voru klukkan átta og þá varð að setjast fyrir framan myndavélina eftir ellefu tíma törn og lesa fréttirnar. Stundum held ég að klukkuna hafi vantað eina, tvær mínútur í átta þegar Magnús reif síðasta blaðið úr ritvélinni, rauk í gegnum sminkið og inn í stúdíó og byrjaði að lesa rétt eins og hann hefði átt einstaklega rólegan og náðugan dag.

Svo var það röddin. Magnús hafði þessa óviðjafnanlegu sterku, skýru og vel mótuðu rödd sem þjóðin kynntist fyrst þegar hann var útvarpsþulur. Röddin naut sín enn betur í sjónvarpi. Svo var hann svo traustvekjandi að ég hef það fyrir satt að margir tryðu Magnúsi miklu betur en okkur hinum sem lásum fréttir.

Hann átti sinn þátt í að breyta fréttaflutningi. Einu sinni sat hann inni á gömlu kaffistofunni yfir þrjóskum ráðherra sem mætti með tilbúnar spurningar.

Magnús tók ekki við. Samtalið varð dálítið langt. Magnús vann og ráðherrann stakk spurningalistanum í vasann. Margir vissu hvar Magnús stóð í pólitík. Aldrei man ég til þess að honum hafi verið núið því um nasir að gera betur við þann flokk sem hann fylgdi að málum en aðra flokka. Líklega galt flokkur hans þess frekar en naut að Magnús var í þessu starfi. Magnús Bjarnfreðsson var gegnheill og góður maður. Traustur vinur, stálgreindur, glöggskyggn og minnugur. Hann var ekki bara fréttamaður, því á þessum árum gengu menn í allt. Hann stjórnaði umræðuþáttum og gerði fjölda þátta um ýmis efni, ekki síst náttúru landsins og öræfi. Skaftafellssýslurnar, heimaslóðirnar áttu mikið í honum.

Þegar við vorum að stæla svolítið um pólitík okkur til gamans kom hann oft með sjónarhorn sem voru svo augljós, einföld og sannfærandi að öll vopn voru slegin úr höndum kratans. Magnús var sveitamaður í eðli sínu í allra bestu merkingu þess orðs. Hann var jarðbundinn og þekkti samfélagið frá mörgum hliðum. Allt voru það eiginleikar sem gerðu hann að góðum fréttamanni.

Magnús Bjarnfreðsson var drengur góður. Það var gott að eiga vináttu hans. Guðrúnu, eiginkonu hans, afkomendum og ástvinum öllum sendum við Eygló innilegar samúðarkveðjur.

Eiður Svanberg Guðnason.

Traustur félagi og góður samstarfsmaður í bæjarstjórn Kópavogs fyrr á árum er látinn. Magnús Bjarnfreðsson hafði lengi átt við erfið veikindi að stríða og er því eflaust hvíldinni feginn. Við Magnús kynntumst fyrst árið 1967 þegar Byggingarsamvinnufélag Kópavogs hóf sitt endurreisnartímabil og byggði fjölbýlishúsið í Lundarbrekku 2-4, en þar áttum við báðir heimili ásamt fjölskyldum okkar í nokkur ár. Synir okkar voru á svipuðum aldri og urðu góðir leikfélagar. Einnig vildi það til að við Magnús urðum félagar í Lionsklúbbi Kópavogs og kom það í okkar hlut að ganga saman í hús í okkar hverfi og bjóða til sölu ljósaperur, en það var á þeim tíma ein aðal fjáröflunarleið Lionshreyfingarinnar. Mér er sérstaklega minnisstætt hvað okkur gekk vel við sölustarfið og var það að ég tel mest Magnúsi að þakka þar sem hann var orðinn þjóðkunnur maður vegna starfa sinna við sjónvarpið, en það hafði eflaust einhver áhrif á fólk að sjá jafn vinsælan sjónvarpsmann standa við útidyrnar hjá sér, jafnvel þó að erindið væri eingöngu að bjóða til kaups ljósaperur.

Mörgum eru minnisstæð störf Magnúsar sem fréttamanns, fréttaþular og dagskrárgerðarmanns hjá íslenska sjónvarpinu á bernskudögum þess en hann átti stóran hlut að því, ásamt öðrum góðum mönnum, hvað vel tókst til við að koma á fót íslensku sjónvarpi.

Árið 1974 lágu leiðir okkar Magnúsar enn á ný saman á allt öðrum vettvangi. Þannig skipuðust mál að við urðum báðir fulltrúar Framsóknarflokksins á sameiginlegum I-lista Framsóknarflokks og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Kópavogi um vorið og settumst eftir kosningarnar saman í bæjarstjórn. Það er skemmst frá því að segja að samstarf okkar var mjög ánægjulegt og vonandi farsælt fyrir bæjarfélagið, en þar bar engan skugga á og ríkti á milli okkar gagnkvæmt traust og vinátta.

Magnús var mikill baráttumaður og fylginn sér í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var einstaklega vel ritfær, hvort heldur áttu í hlut greinar í blöð um bæjarmálefni Kópavogs og fleira, eða ævisöguskráningar í bókarformi. Sem dæmi um baráttu og keppnisskap Magnúsar er að fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 1978 kaus hann af sjálfsdáðum að skipa þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins sem þá var baráttusæti, en hann hafði áður skipað fyrsta sætið og leitt flokkinn í bæjarmálefnum Kópavogs. Þetta var djarfleg ákvörðun, en flokkurinn hafði í þá daga aldrei náð inn þremur fulltrúum í bæjarstjórn. Því miður náðum við ekki markmiðum okkar þrátt fyrir mikla vinnu flokksfélaga og annarra góðra stuðningsmanna.

Ég kveð hér minn gamla góða vin og samstarfsmann og votta Guðrúnu og börnunum, þeim Guðjóni, Árna, Páli og Ingibjörgu ásamt fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Magnúsar Bjarnfreðssonar.

Jóhann H. Jónsson.

Magnús Bjarnfreðsson var einn af áttavitunum í bernsku sjónvarpsins. Hann gaf fréttunum afar traustvekjandi yfirbragð með sinni djúpu og hlýju rödd. Ekki er of sagt að hann hafi átt einna drýgstan þátt í því að skapa fréttastofunni það álit meðal almennings sem henni var lífsnauðsyn. Seinna stofnaði hann ásamt nokkrum félögum auglýsinga- og almannatengslastofu. Tveir okkar voru með honum í því kompaníi og sá þriðji vann þar. Það gefur augaleið að hann var ekki síður traustur í ráðgjöf til fyrirtækja. En fyrst og fremst var Magnús Bjarnfreðsson mikil manneskja. Alltaf var hægt að leita ráða hjá honum og tali við hann og ráðum fylgdi aldrei neinn eftirþanki. Aldrei hætti hann samt að vera fréttamaður. Einn okkar spurði hann eitt sinn hvort hann væri alveg hættur að hugsa um fréttir. „Já,“ svaraði hann „en ég geng nú alltaf út að glugga, þegar ég heyri í sírenu.“ Hann missti aldrei forvitnina og áhugann á mönnum og málefnum. Það var hressandi að hringja í hann og velta með honum vöngum um pólitíkina og málefni dagsins. Nokkrir okkar voru samstarfsmenn Magnúsar á fréttastofu sjónvarpsins og einn okkar reyndar á Tímanum. Aldrei bar nokkurn skugga á þau samskipti. Við vorum líka svo heppnir að eiga þess kost í nokkur ár eða áratugi að hitta Magga, drekka með honum kaffi eða eta snarl og ræða það sem efst var á baugi. Í þeim umræðum eins og öllum samskiptum okkar við Magga komu vel fram eðliskostir hans. Aldrei hallmælti hann nokkrum manni og allir dómar hans um fólk mótuðust af velvild, skynsemi og hógværð.

Um Magnús Bjarnfreðsson mátti með sanni segja hið sama og sagt var um annan mann: „Hann var Skaftfellingur.“

Við þökkum að leiðarlokum áratuga vináttu við Magnús Bjarnfreðsson og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Björn Vignir Sigurpálsson,

Helgi H. Jónsson,

Kári Jónasson,

Sigurður G. Tómasson,

Vilhelm G. Kristinsson.

Drengskaparmaður, er orðið sem lýsir Magnúsi Bjarnfreðssyni heitnum vel, og veit ég ekki fallegra orð á íslenskri tungu um mannkosti.

Leiðir okkar lágu saman á vettvangi Framsóknarflokksins í Kópavogi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Ég kornungur og ákafur í pólitík en Magnús miðaldra, gætinn og hygginn – en hugmyndaríkur mannvinur.

Magnús kom nokkuð skyndilega í stjórnmálin í Kópavogi og við ungir framsóknarmenn vorum ýmsir mjög gagnrýnir á val sjónvarpsmanns í forystuframboð – manns sem við þekktum lítið sem ekkert, nema auðvitað röddina og andlitið.

Til þess að fá einhverjar upplýsingar um manninn hringdi ég í Ólaf Ragnar Grímsson, sem ég þekkti vel þá og vann nokkuð með.

Ég spurði Ólaf: Hvers konar maður er Magnús Bjarnfreðsson.

Ólafur svaraði: Hann er sánd.

Og það var Magnús Bjarnfreðsson svo sannarlega.

Hvortveggja merking enska orðsins átti við hann. Frábær fjölmiðlarödd ásamt vandaðri framkomu og vinnubrögðum og svo hin merkingin orðsins sem er heiðarleiki og heilsteyptur, falslaus maður.

Eitt sinn lá mér óvenjumikið á og flutti langa ræðu á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Félagsheimili Kópavogs. Sú ræða mæltist vægast sagt misjafnlega fyrir, svo illa reyndar að nokkrir gengu út og aðrir sungu ættjarðarlög til þess að minni líkur yrðu til þess að heyrðist í mér.

Ákveðnir sléttgreiddir menn í góðum holdum sem sváfu vel á nóttu urðu til þess að leggja að Magnúsi að þessi strákur yrði rekinn úr Framsóknarflokknum fyrir kjafthátt, dónaskap og vinstri villu.

Magnús var snöggur til svars og var svarið lengi í minnum haft.

Svar hans var einfalt og snaggaralegt: „Over my dead body“, og svo hafði enginn orð um það meir.

Ég átti seinna eftir að starfa með Magnúsi um hríð í bæjarmálapólitík í Kópavogi. Á það samstarf okkar bar aldrei skugga enda var alveg sama um hvað var deilt og hve harkalega Magnús gat alltaf lægt öldur eða ósætti með bráðfyndnum vitsmuna húmor sínum – eða snjöllum málamiðlunartillögum sem þó breyttu engu um markmiðið.

Ég man eiginlega best eftir Magnúsi sem glöðum mannvini og miklum húmorista – en einbeittum hugsjónamanni.

Og mikið lifandis ósköp var gaman að fá sér í glas með kallinum, sjófróðum, stálminnugum sögumanninum og smáhrekkjóttum brandarakallinum – enda var hann vinamargur og vinsæll.

Hvað ætli hann hafi tælt marga til þess að prufa töfradrykkinn, viskí blandað í nýmjólk?

Aldrei gleymi ég því þegar hann reyndi eitt sinnið að hætta að reykja og gekk með sígarettur, vindla og pípuna allt í jakkanum, bara ef svo illa myndi fara að reykbindindið brysti.

Já, Magnús var skemmtilegur maður og gott að eiga hann að félaga.

Það var mikil eftirsjá að honum úr pólitík þó ekki fyrir annað en það eitt að hann var vammlaus og gegnheiðarlegur sem lagði ekki illt til nokkurs manns.

Ég ætla að leyfa mér að vona að Magnús endurfæðist fljótlega sem samskonar maður, landinu okkar til heilla, því þannig heiðursmann sárvantar okkur.

Ég sendi eiginkonu hans dýpstu samúðarkveðjur.

Pétur Einarsson.

Magnús Bjarnfreðsson var örlagavaldur í lífi mínu. Hann studdi mig til ævistarfs míns og sýndi í verki og orði að hann hafði trú á mér. Fyrir það er ég honum ævinlega þakklátur. Hann var formaður bókasafnsstjórnar í Kópavogi þegar ég sótti þar um starf forstöðumanns Bókasafns Kópavogs árið 1976. Hann sýndi í verki áhuga sinn á framgangi safnsins og það var fyrir hans eljusemi og framsýni að safnið fékk húsnæði í Fannborg 3-5 árið 1981. Hann studdi við hverjar þær framfarir sem urðu í starfsemi þess og fylgdi eftir ákvörðunum bókasafnsstjórnar í bæjarstjórn þar sem hann átti sæti um árabil. Hann hafði fullan skilning á tölvutækninni og studdi framfarir í þeim efnum. Hann lagði sig fram um að efla hag og viðgang safnsins á öllum sviðum og var ötull talsmaður þess að bóka- og blaðasafn Ólafs Ólafssonar læknis var keypt til þess að auðga safnkostinn. Hann vann fagmannlega í hvívetna og hafði mikinn metnað fyrir hönd bókasafnsins – og ekki aðeins þess heldur menningarinnar í Kópavogi. Greinargerð hans um framtíð menningarinnar í Kópavogi var lögð til grundvallar þeirri uppbyggingu hennar sem orðið hefur með árunum á Hálsinum. Ég bar mikla virðingu fyrir Magnúsi. Hann var málafylgjumaður og um leið sáttasemjari. Sannur diplómat og stjórnmálamaður eins og þeir gerast bestir. Hann vann ekki sjálfum sér heldur hugsjónum samvinnunnar og menningarinnar. Hann mælti með ráðningu minni án tillits til stjórnmálaskoðana minna, sem voru öndverðar við hans. Síðar gekk ég til liðs við flokk hans. Það var fyrst og fremst vegna þess álits sem ég hafði á Magnúsi og trúði því að fleiri í hans flokki væru eins.

Magnús unni íslensku máli og vandaði mál sitt svo að til fyrirmyndar var. Í mínum huga var hann einn albesti þulur Ríkisútvarpsins, fyrr og síðar. Eftir Magnús liggja bækur. Þar á meðal er bókin Þorpsskáldið Jón úr Vör, um skáldið og hagyrðinginn Jón Gunnar Jónsson, vönduð bók þar sem rakin er lífsganga skálds, sem setti svip sinn á mannlífið og bókmenntirnar. Sú bók er óbrotgjarn minnisvarði um vandvirkni Magnúsar og skilning á skáldskap. Í handriti er til ágrip hans af sögu Bókasafns Kópavogs sem vonandi kemst á prent innan tíðar. Allt sem Magnús skrifaði var á góðu, vönduðu íslensku máli og án málalenginga. Óskandi hefði verið að heilsa hans hefði leyft honum að skrifa meira.

Ég kveð góðan mann með mikilli virðingu og er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast honum. Hann var mér góður og engan hef ég heyrt hallmæla honum. Eftirlifandi konu hans, Guðrúnu Árnadóttur, sendi ég hugheilar samúðarkveðjur svo og börnum þeirra hjóna og fjölskyldum þeirra.

Hrafn A. Harðarson.

Ungir og frískir frumherjar settu mikinn svip á starf Sjónvarpsins þegar það tók til starfa fyrir tæpri hálfri öld. Magnús Bjarnfreðsson var einn þeirra og varð fljótt að einum af öflugustu og traustustu liðsmönnum frétta- og fræðsludeildar. Hann hafði mjög gott vald á íslenskri tungu, traustvekjandi og yfirvegaða framkomu og þann sjaldgæfa og mikilvæga kost að geta talað mjög skýrt með sinni frábæru djúpu röddu þótt hann talaði hratt. Það var unun að starfa með Magnúsi og njóta þess með honum að eiga skaftfellskar rætur. Hann var meðal brautryðjenda í því að fara út á land og ein fyrsta ef ekki fyrsta heimildarmyndin um íslenska náttúru, sem gerð var á vegum sjónvarpsins var „Öræfaperlan“ sem Magnús gerði um umhverfi Landmannalauga. Þá var svart-hvíti tíminn hjá Sjónvarpinu en samt var það sett efst á blað að sinna íslenskri náttúru þar sem hún er hvað mögnuðust og litfegurst. Síðar áttum við gott samstarf við gerð litmyndar um Skaftáreldana og bundumst ævilöngum vinaböndum.

Með samúðarkveðjum til hans nánustu vil ég að leiðarlokum tjá þakklæti mitt fyrir glaðar stundir fyrri ára og kynnin af góðum dreng.

Ómar Ragnarsson.

Frjáls þjóð hét blað Þjóðvarnarmanna sem varð helsti vettvangur okkar manna misserisbil fyrir borgarstjórnarkosningar 1962. Því ritstýrði Magnús Bjarnfreðsson frændi minn. Hann hafði þá um hríð verið eitt helsta stolt ættarinnar, djúp rödd hans og fallegt mál hafði glatt unga sem aldna í frændgarðinum, meðan hann var þulur í útvarpinu. Nú var hann sestur í ritstjórastól. Það var ekki laust við að litlir frændur væru hálf smeykir við hann, hann var náttúrlega klæddur uppá eins og aðrir menntamenn, hávaxinn og höfðinglegur og hafði verið úti í heimi. En um leið og við litlir drengir kynntumst honum hreif hann okkur eins og aðrir Bjarnfreðssynir og –dætur, hann hló nefnilega sams konar innilegum dillandi hlátri eins og hitt frændfólkið úr Meðallandi. Það var unnið dag og nótt – og pápi settist inn á kontór með Magnúsi frænda. Frjáls þjóð hafði bækistöðvar við Ingólfsstræti og skrifstofur Magnúsar ilmuðu af prenti og pólitískri spennu, það var töfrandi ilmur, fjör í baráttunni, aðlaðandi og dramatískt andrúmsloft og auðvelt að ánetjast því.

Til að byrja með voru væntingar miklar, listinn hlyti að fá þrjá menn inn. Það sæu auðvitað allir réttmæti málstaðarins, Frjáls þjóð! En það er skemmst frá því að segja að þjóðin þekkti ekki vitjunartíma sinn frekar en fyrri daginn og atkvæðin dugðu ekki til neins. Þessar kosningar gleymdust.

En það var sama hvaða gata var gengin, framsóknar fram eftir veg, að þessi pólitíska eldskírn fylgdi með í farteskinu. Og með Magnúsi var gaman að rifja upp gamla daga, úr sögu ættar og þjóðar. Hann stendur mér í dag fyrir hugskotssjónum eins og daginn þegar ég hitti hann fyrst; brosmildur og frjálslegur í fasi, sveiflandi bláum rykfrakka, með glampa í augum, fulltrúi Frjálsrar þjóðar.

Óskar Guðmundsson

í Véum.

HINSTA KVEÐJA

Áfram þjóta árin
sem óðfluga ský.
Og tíðin verður tvenn og þrenn,
og tíðin verður ný.
En það kemur ekki mál við mig,
ég man þig fyrir því.
(Jóhann Jónsson.)
Þín
Guðrún.