Ég benti á það í öðru bindi ævisögu Halldórs Kiljans Laxness 2004, að sögulok í Heimsljósi eru mjög lík og í einni kunnustu smásögu Einars H. Kvarans, „Vonum“.

Ég benti á það í öðru bindi ævisögu Halldórs Kiljans Laxness 2004, að sögulok í Heimsljósi eru mjög lík og í einni kunnustu smásögu Einars H. Kvarans, „Vonum“. Ólafur Kárason Ljósvíkingur hverfur upp í íslenska jökulinn, eftir að hann lendir í ástarsorg, eins og Ólafur Jónsson vinnumaður hverfur á sléttuna í Kanada, þegar hann fær ekki stúlkunnar, sem hann ætlaði að hitta þar vestra. „Sléttan ómælilega, endalausa, sem er full af friði og minnir á hvíldina eilífu.“ Í báðum sögum er gefið í skyn, að söguhetjan hafi stytt sér aldur.

En sögulok í annarri íslenskri skáldsögu minna á erlent verk. Hinni miklu skáldsögu Önnu Karenínu eftir rússneska skáldjöfurinn Lev Tolstoj lýkur svo (8. hluti, 19. k.): „En líf mitt hefur nú, hvað sem mun bera mér að höndum, öðlast tilgang, sem það var áður án. Ekki aðeins líf mitt sem heild, heldur einnig sérhver stund þess, hefur nú öðlast ótvíræðan tilgang, — tilgang í þjónustu hins góða. Og nú á ég það undir sjálfum mér, ætíð og alls staðar, að gefa lífi mínu þennan tilgang.“

Gunnar Gunnarsson lýkur svo Aðventu , sem er ein kunnasta saga hans ( Fimm fræknisögur , bls. 12): „Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.“

Í Heimsljósi og Vonum bíður söguhetjan ósigur og hrökklast inn í sjálfa sig, verður að engu. Önnu Karenínu og Aðventu lýkur hins vegar báðum á því, að brýnt er fyrir lesendum, að tilgangur lífsins sé að láta gott af sér leiða, þótt ekki hafi allir skilning á því og þurfi oft að öðlast hann með sárri lífsreynslu. Þetta kemur ekki á óvart. Tolstoj var mjög áhrifamikill höfundur, þá er Gunnar Gunnarsson var að stíga fyrstu skref sín út á skáldskaparbrautina, og margt er líkt með skoðunum þeirra á eðli og tilgangi lífsins.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is