Elísabet Einarsdóttir fæddist á Kárastöðum í Þingvallasveit 8. júní 1922. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Mörk 17. september síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Einar Halldórsson, bóndi og hreppstjóri á Kárastöðum, f. 18. nóv. 1883, d. 19. des. 1947, og k.h. Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja, f. 7. júlí 1892, d. 25. febr. 1955. Systkini Elísabetar eru: 1) Halldór, f. 6. des. 1913, d. 1981. 2) Sigurður, f. 2. ágúst 1915, d. 1992. 3) Jóhanna, f. 21. nóv. 1916, d. 1978. 4) Guðbjörn, f. 2. nóv. 1918, d. 2000. 5) Björgvin, f. 8. maí 1921, d. 1985. 6) Guðbjörg, f. 10. maí 1925, d. 1927. 7) Geir, f. 9. jan. 1927, d. 1942. 8) Guðbjörg, f. 20. mars 1928, d. 2004. 9) Halla, f. 18. nóv. 1930, d. 2009. 10) Stefán Bragi, f. 12. mars 1933. Fósturbróðir Elísabetar var Árni Jón Halldórsson, f. 23. des. 1923, d. 2004.

Hinn 29. des. 1945 giftist Elísabet Jóhannesi Arasyni frá Ytra-Lóni á Langanesi, síðar útvarpsþul, f. 15. mars 1920, d. 26. sept. 2010. Foreldrar hans voru Ari Helgi Jóhannesson bóndi, kennari og söngstjóri, f. 5. des. 1888, d. 20. júlí 1938, og k.h. Ása Margrét Aðalmundardóttir húsfreyja, f. 5. sept. 1890, d. 9. nóv. 1983. Börn Elísabetar og Jóhannesar eru þrjú: 1) Ása leikskólakennari, f. 18. júní 1946. Barnsfaðir hennar er Jón Snorri Þorleifsson smiður, f. 3. júní 1929. Sonur þeirra er Einar Örn, f. 28. des. 1976, kvæntur Birnu Ósk Hansdóttur, f. 6. ágúst 1976. Börn þeirra eru Agnar Daði og Elísabet Ása. 2) Ari Jón læknir, f. 26. júlí 1947. Eiginkona hans er Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 8. okt. 1960. Synir þeirra eru Egill, f. 17. júní 1989, og Teitur, f. 23. júní 1993. Fyrri eiginkona Ara er Vilborg Sigríður Árnadóttir, f. 7. jan. 1946. Synir þeirra eru: a) Jóhannes, f. 12. sept. 1970, sambýliskona Bjarney Bjarnadóttir, f. 3. nóv. 1975. Börn þeirra eru Telma og Ari. b) Árni Gautur, f. 7. maí 1975, kvæntur Sólveigu Þórarinsdóttur, f. 28. nóv. 1980. Börn þeirra eru Vilborg Elísabet og Kristján Pétur. 3) Einar klarínettuleikari, f. 16. ágúst 1950. Sambýlismaður hans er Ívar Ólafsson bókasafnsfræðingur, f. 4. mars 1962. Fyrrverandi eiginkona Einars er Helga Egilson teiknari, f. 3. des. 1950. Sonur þeirra er Ólafur Daði, f. 14. júní 1972, kvæntur Ingibjörgu Agnesi Jónsdóttur, f. 8. okt. 1971. Börn þeirra eru Nína Ísafold, Fríða Lovísa og Viggó Jón.

Elísabet ólst upp á Kárastöðum á mannmörgu og gestkvæmu heimili. Ung lærði hún að leika á orgel og var um tíma organisti í Þingvallakirkju. Sautján ára settist hún í Samvinnuskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1941. Að námi loknu vann hún um tíma á skrifstofu hjá Eggerti Kristjánssyni stórkaupmanni. Þegar börnin voru komin nokkuð á legg hóf Elísabet störf í vefnaðarvöruversluninni Grund og starfaði þar um árabil. Loks vann hún við heimilsþjónustu hjá Reykjavíkurborg í nokkur ár. Heimili Elísabetar og Jóhannesar var alla tíð á Þórsgötu 25 í Reykjavík.

Útför Elísabetar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 27. september 2012, og hefst athöfnin kl. 15.

Það var á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Bústaðakirkju að kvöldi sunnudagsins 9. mars 1997 að ég sá Elísabetu Einarsdóttur fyrst. Ég var um þær mundir að stíga mín fyrstu skref inn í fjölskyldu hennar. Ég sé hana ennþá fyrir mér þar sem hún stóð, þessi hávaxna og myndarlega kona, í anddyri kirkjunnar og las tónleikaskrána. Úr svip hennar mátti lesa festu og styrk en jafnframt hógværð og góðvild. Nokkru síðar hófust kynni okkar, góð kynni sem aldrei bar skugga á. Eftir að ég settist að í Reykjavík í árslok 2001 var ég tíður gestur á heimili Elísabetar og Jóhannesar á Þórsgötu 25 enda aðeins yfir götuna að fara. Margan spóninn og bitann þáði ég hjá Elísabetu, oft graut á laugardögum og kvöldmat á sunnudögum. Slík var umhyggja hennar fyrir fjölskyldunni. Ekki eru síður dýrmætar minningar úr eldhúsinu á Þórsgötu þar sem við sátum stundum tvö yfir góðgerðum og spjölluðum saman en Elísabet kunni þá list öðrum fremur að finna umræðuefni við hæfi. Við náðum vel saman enda sprottin úr svipuðum jarðvegi, þ.e.a.s. íslenskri sveit, þó að aldursmunur okkar væri fjörutíu ár og hún kæmi að sunnan en ég að norðan.

Elísabet var greind kona og vel að sér og bar svo mikla persónu að eftir var tekið. Heimili sínu sinnti hún af alúð enda einstaklega samviskusöm. Þar var gestkvæmt og öllum tekið opnum örmum. Elísabet var handlagin og myndarleg í sér, saumaði fötin á börnin sín meðan þau voru lítil og um árabil prjónaði hún lopapeysur og fleira eða svo lengi sem heilsan leyfði. Elísabet var afar bókhneigð en jafnframt býsna vandlát á bókmenntir. Það var henni mikil blessun í ellinni að geta lesið þegar hún þurfti að liggja út af löngum stundum vegna slitgigtar sem þjáði hana hin síðustu ár. Að lokum voru líkamlegir kraftar á þrotum en andinn var ríkur og skopskynið gott allt til hinstu stundar.

Ég kveð kæra tengdamóður með virðingu og þökk. Þökk fyrir allt sem hún var mér þau fimmtán ár sem að við áttum samleið. Guð blessi minningu Elísabetar Einarsdóttur og vaki yfir fjölskyldu hennar sem hún unni svo mjög.

Ívar Ólafsson.

Mikið væri gaman að vera að fara í graut til ömmu Betu á laugardaginn. Þórsgata 25 var ekki bara heimilið hennar og afa Jóa heldur athvarf okkar allra í fjölskyldunni. Fastur punktur í tilverunni sem alltaf var hægt að treysta á að yrði á sínum stað, að þau yrðu þarna og maður alltaf velkominn.

Heimilið var nánast óbreytt frá því að ég man fyrst eftir mér. Þá var langamma Ása á hæðinni fyrir neðan, Jonni bróðir hans afa fyrir ofan og Ása systir pabba og Einar Örn í kjallaranum. Maður upplifði þetta myndarlega stóra hvíta hús sem nokkurs konar ættaróðal. Reyndar voru þrjár afasystur úr móðurætt í þremur næstu húsum og seinna við pabbi í húsinu á móti þannig að það var eins og stórfjölskyldan hefði eignað sér þessa stórkostlegu götu í Þingholtunum.

Á hverjum einasta laugardegi bjó amma til grjónagraut í hádeginu. Þá var opið hús og allir þeir sem vildu og höfðu færi á að mæta gátu komið og fengið sér einhvern þann besta graut sem hægt er að hugsa sér, lifrarpylsu, ristað brauð og kaffi. Nánasta fjölskylda, vinir, gestir, kærustur og síðar eiginkonur og börn – það voru allir velkomnir í þessa einstöku hefð þar sem allir gátu hist reglulega með óformlegasta hætti og spjallað um allt og ekkert, hlegið og gantast og notið nærveru hver annars. Amma og afi voru dugleg að rifja upp sögur af okkur öllum á yngri árum, þylja ljóð eða vitna í Laxness. Það var með ólíkindum hvað þau gátu munað og farið með orðrétt. Maður upplifði þetta svo oft að maður finnur nánast lyktina af grautnum, kanilsykrinum, finnur áferðina á borðdúknum, heyrir hljóminn í dyrasímanum og Hallgrímskirkjuklukkurnar hringja, sér hana sitja brosandi á kollinum við endann á borðinu svo hún geti staðið upp til að bæta í grautinn hjá okkur eða fært okkur kaffi.

Það er erfitt að koma orðum að hversu mikilvæg hún var okkur öllum og hversu mikið okkur þótti vænt um hana. Hún var svo einstaklega góð, auðmjúk og falleg kona sem var alltaf til staðar fyrir okkur. Hornsteinninn í fjölskyldunni og fasta landið undir fótum okkar í lífsins ólgusjó. Ég mun sakna hennar sárt en á sama tíma þakka ég innilega fyrir að hafa átt svona góða ömmu og að hafa haft þessa einstöku manneskju í lífi mínu.

Daði Einarsson.

Elsku hjartans Beta, farin og ekkert verður aftur eins.

Beta var móðursystir mín. Mamma mín var fyrst af systrunum til að eignast heimili í Reykjavík, í Nóatúni 18, sem var eins og miðstöð fyrir fólk sem var að fara eða koma að austan. Mörg systkinanna byrjuðu sín fyrstu skref á mölinni í Nóatúni. Ég held að Beta hafi búið í Nóatúni í þrjú ár. Það var afar gestkvæmt á bernskuheimili mínu, margt og mikið skrafað. Það sem mér fannst þó best af öllu var þegar nokkur systkinanna voru samankomin og rifjuðu upp gamla daga. Þá buldu við hlátrasköllin og það tók einn við af öðrum við sagnagerðina og töluðu fleiri en einn í einu því það mátti ekkert missa úr og svo var hlegið og hlegið. Það besta við allt saman var að það var alltaf verið að segja sömu sögurnar og alltaf jafn mikið hlegið.

Einkenni Kárastaðasystkinanna voru góðar gáfur, glaðværð og hæverska. Það var ekki þeirra háttur að hreykja sér. Margt mætti fleira telja, eins og t.d. sögur af börnum í fjölskyldunni sem allir elskuðu. Hún Beta átti fjársjóð af slíkum sögum.

Utan til í túninu á Kárastöðum er örnefni sem kallast „Gvendarkrókur“. Þegar verið er að vitna til einhvers einkennis hjá ættingjum sem er áberandi, t.d. eins og hæverska úr hófi, þá er gjarnan sagt, já það er Gvendarkrókurinn.

Of mikil skyldurækni, sektarkennd í óhófi, allir góðir kostir sem prýða mega eina manneskju, en eru svona heldur í óhófi, það er allt kennt við Gvendarkrókinn. Beta hafði gaman af því þegar börnin hennar og aðrir voru að fíflast með Gvendarkrókinn.

Heimili þeirra hjóna, Betu og Jóhannesar, á Þórsgötu 25, þá er þau voru flutt á efri og stærri hæð í húsinu, minnti um margt á höfðingsskapinn á Kárastaðaheimilinu. Þar var gestkvæmt og þangað komu bæði háir sem lágir og öllum var tekið með alúð að hætti húsfreyjunnar. Aldrei man ég eftir að Beta segði frá gestakomu sem hún hefði eiginlega ekki mátt vera að að sinna. Hún mátti alltaf vera að því að sinna fólki.

Ein lítil langömmustelpa sagði um hana: „það er svo skrítið með hana ömmu að hún er alltaf með einhverjar áhyggjur, en aldrei af sjálfri sér, bara alltaf af öðrum“ og það eru orð að sönnu. Henni fannst lengi vel alveg aukaatriði hvernig henni sjálfri liði, ef bara allir aðrir hefðu það gott. Sú móðurlega umhyggja sem hún sýndi mér hefur verið mér alveg ómetanleg í lífinu. Svo ómetanleg að ég veit ekki hvernig mér og börnunum mínum hefði stundum farnast í lífinu ef hennar hefði ekki notið við. Öllum börnunum mínum þrem þykir svo undur vænt um hana og ég reyni að taka hana mér til fyrirmyndar á köflum.

Það er dapurlegt að sitja hér og skrifa minningarorð um hana Betu. Nú hefur orðið til tómarúm hjá mér og fjölskyldu minni sem varla verður fyllt. Við erum svo þakklát fyrir að hafa notið hennar mildi og umhyggju og að hún hefur litað líf okkar allra.

Það hefur verið mikil gæfa fyrir mig og börnin mín, að hafa verið þér samferða allt okkar líf.

Vertu kært kvödd.

Fanney Edda Pétursdóttir.