[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fólk vill fræðast og hverju samfélagi er mikilvægt að hafa aðgang að fjölbreyttum og skemmtilegum námskeiðum,“ segir Ásta Sölvadóttir í Garðabæ.

„Fólk vill fræðast og hverju samfélagi er mikilvægt að hafa aðgang að fjölbreyttum og skemmtilegum námskeiðum,“ segir Ásta Sölvadóttir í Garðabæ. Saman standa þær Ágústa Guðmundsdóttir að fræðslusetrinu Klifinu og bjóða þar áhugaverð og skapandi námskeið fyrir börn og fullorðna.

Skapa virkan vettvang

Á haustmisseri eru um það bil þrjátíu námskeið á dagskránni, fyrir unga sem eldri. Auk þess vinna Klifið og grunnskólar bæjarins að uppbyggingu Menntaklifsins, en markmið þess er að stuðla að miðlun þekkingar í skólasamfélaginu í Garðabæ. Er ætlunin að skapa þar virkan vettvang fyrir fræðslu, hugmyndir, aðferðir og reynslu.

„Við leggjum okkur eftir að bjóða ólíkum hópum fræðslu sem vekur áhuga og auðgar líf fólks. Heimurinn verður æ flóknari og því er fólki mikilvægt á hverjum tíma að afla sér nýrrar þekkingar,“ segir Ásta, sem lengi starfaði sem grunnskólakennari og er í meistaranámi í menntavísindum við Háskóla Íslands. Þar fékk hún hugmyndina að starfsemi Klifsins sem hefur fest sig vel í sessi á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan starfseminni var ýtt úr vör.

Myndlist og skapandi skrif

Meðal þess sem er á dagskrá Klifsins í haust eru leik- og myndlistarnámskeið fyrir börn ásamt skapandi skrifum, fjármálanámskeiði og Manga-teikninámskeiði fyrir unglinga. Þá eru á dagskránni námskeið þar sem kynslóðir koma saman og má þar nefna tálgun, leikfangasmiðju og þrívíddargrafík þar sem hægt er að grúska í tölvugrafík. Einnig eru á dagskrá gítar- og trommunámskeið fyrir fólk á öllum aldri.

Í Klifinu er hægt að læra fyrstu drættina í olíumálun sem og skyndihjálp en hið síðarnefnda er öllum bráðnauðsynlegt. Þá hefur handverksfólk nánast flykkst á endurvinnslunámskeiðið Nýju fötin keisarans. Þar lærir fólk á einni kvöldstund að flétta saman endurunið hráefni, til dæmis kaffi- og snakkpoka og fleira. Úr því má vefa töskur, skálar, buddur og nálapúða og fleira. Með þessu fá kaffipokarnir nýtt hlutverk svo úr verða fallegir og litríkir hlutir.

Til námskeiðsins koma þátttakendur með til dæmis kaffipoka, snakkpoka og flísatöng og eftir kvöldið er fólk fært í að minnsta kosti grunnatriðin. Námskeið þessi eru jafnan haldin á miðvikudagskvöldum og verða á dagskránni fram á haustið, eða svo lengi sem þátttakan er til staðar.

„Við bætum námskeiðum við ef þess þarf,“ segir Ásta.

Með starfsemi í Flataskóla

Starfsemi Klifsins verður æ fjölbreyttari. Segir Ásta starfseminni hafa verið mikill akkur í að fá til liðs við sig góða leiðbeinendur víða frá og það muni um slíkt. Þá sé starfsemin vel staðsett í Flataskóla við Vífilsstaðaveg. Þar hafi Klifið fengið til umráða kennslustofur í norðurálmu skólahússins, en þar fara flest námskeiðin fram, en annars staðar ef aðstæður krefjast þess. sbs@mbl.is