— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, hagfræðingur og fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, er flutt heim til Íslands ásamt manni sínum Helga Má Magnússyni eftir búsetu í Svíþjóð.

Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, hagfræðingur og fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, er flutt heim til Íslands ásamt manni sínum Helga Má Magnússyni eftir búsetu í Svíþjóð. Þar voru þau atvinnumenn í íþróttum í rúmlega þrjú ár en Helgi er landsliðsmaður í körfuknattleik. Þau KR-ingarnir komu sér fyrir í Vesturbænum á nýjan leik í sumar og Guðrún hóf störf á ný í Seðlabankanum í byrjun september. Knattspyrnuferill Guðrúnar fékk leiðinlegan endi þegar hún þurfti að leggja skóna á hilluna vegna afleiðinga sem höfuðhögg í beinni útsendingu hafði. Kristján Jónsson kris@mbl.is

Guðrún var um langt skeið fastamaður í landsliðinu sem íslenska þjóðin hefur fylgst svo grannt með á undanförnum árum. Hún lék með liðinu í lokakeppni Evrópumótsins í Finnlandi sumarið 2009 en þar má segja að örlögin hafi tekið í taumana. Guðrún fékk höfuðhögg í fyrsta leiknum á móti Frökkum sem dró dilk á eftir sér. Næstu mánuðina ríkti óvissuástand um hvort og hvenær hún næði fullri heilsu og knattspyrnuferillinn fékk á vissan hátt sorglegan endi.

Morgunblaðið fékk að forvitnast um þessa reynslu Guðrúnar sem virðist hafa tekið þessum skakkaföllum með jafnaðargeði þrátt fyrir allt. „Ég lenti í því að fá höfuðhögg þarna í fyrsta leiknum og oftast sem betur fer hafa svona högg í fótbolta litlar afleiðingar. Ég hélt bara áfram og spilaði allar mínúturnar í leikjunum þremur í Finnlandi. Ég taldi ekki að þetta væri neitt alvarlegt enda hjálpar adrenalínið til þegar maður spilar svona mikilvæga leiki “ sagði Guðrún sem fyrr um árið hafði gerst atvinnumaður hjá Djurgården í Stokkhólmi. Þar mætti henni lítill skilningur að mótinu loknu í Finnlandi.

Meiðsli sem sjást ekki á myndum

„Ég ætlaði að fá að hvíla aðeins eftir keppnina enda var ég hundslöpp þegar ég kom til baka. En ég var náttúrlega atvinnumaður og þjálfarinn sagði einfaldlega að fyrst ég spilaði alla leikina með landsliðinu þá hlyti ég að geta spilað með Djurgården. Þá var ég strax sett í fullar æfingar en var alls ekki í standi til þess. Ég keppti í mánuð til viðbótar og ég fann að minni högg á höfuðið eins og bara að skalla boltann í hornspyrnum og þess háttar höfðu meiri áhrif og ég varð slappari. Eftir á að hyggja var þetta ekki mjög gáfulegt,“ útskýrði Guðrún.

Í framhaldinu tók við tímabil þar sem Guðrún var með stanslausan höfuðverk en hún bjóst ekki við öðru en að það myndi lagast á nokkrum mánuðum. Hún var því ekkert að velta því fyrir sér hvort fótboltaferlinum væri lokið. „Meiðsli eins og þessi eru erfið. Það getur verið um smá blæðingu utan á heila að ræða, mar í rauninni, og það sést oft ekki á myndum. Ég fór til lækna bæði hér heima og í Svíþjóð en fékk misvísandi svör. Það var erfitt að finna réttan aðila. Ég þurfti að finna lækni sem hafði þekkingu á höfuðmeiðslum og að sama skapi gat sett sig inn í hvaða áhrif áframhaldandi íþróttaiðkun hefur á þau. Á endanum fór ég til íslensks læknis í Svíþjóð, Ólafs Sveinssonar. Hann greindi strax hvað var að og gat gefið mér ráðleggingar því hann hafði sinnt fleirum í sömu sporum. Það var samt sem áður ekki hægt að segja hversu langan tíma það tæki að ná bata því það er ólíkt eftir einstaklingum,“ sagði Guðrún og fyrir hana var hughreystandi að Ólafur hafði alltaf trú á því að hún næði fullum bata. Tilhugsunin um að vera með höfuðverk til æviloka hljómar ekki vel.

„Vandinn er sá að það er ekki há prósenta af þeim sem fá höfuðhögg sem lenda í þessu. Það er mjög erfitt að vera í ástandi sem maður veit ekki hvernig á að vinna sig út úr. Þetta var auðvitað ekkert auðvelt. Ég sökkti mér þó ekki í þunglyndi og var ekki að leiða hugann að því hvort þetta gæti orðið til frambúðar. Ég hugsaði með mér að þetta myndi einhvern tíma taka enda eins og Óli læknir hafði sagt mér. Spurningin væri bara hversu langan tíma það myndi taka. Hann benti mér líka á að svona óvissuástand bitnar oft á andlegu hliðinni og ég gerði mér grein fyrir því og reyndi að vera jákvæð.“

Hreyfði sig nánast ekkert í eitt ár

Batinn tók sinn tíma og Guðrún segir að í rauninni hafi liðið tvö ár þar til hún gat farið að stunda einhverja líkamsrækt án þess að fá höfuðverk. „Fyrsta árið hreyfði ég mig nánast ekki neitt en annað árið fór ég aðeins að hreyfa mig. Ég var þá orðin mun betri en ég gat samt ekki farið á fótboltaæfingar án þess að versna. Ég var farin að venjast því að vera með höfuðverk en ég sá þó framfarir með tímanum. Reynir Björnsson, læknir kvennalandsliðsins, lét mig fá dagatal þar sem ég merkti við þau einkenni sem ég var með á hverjum tíma og þannig fylgdumst við með yfir lengri tíma. Fyrstu mánuðina var ástandið mjög slæmt en svo var ég orðin sæmileg nema þegar álagið jókst, annaðhvort í vinnunni eða vegna hreyfingar. Rétt eftir meiðslin var ég að demba mér í sænskuna í vinnunni og var í 75% starfi. Þegar ég kom heim var ég alveg búin á því og þurfti einfaldlega að leggjast fyrir. Ég gat ekki verið mikið innan um fólk því það tók mikið á höfuðið. Ég fékk stundum mígrenisköst en aðallega var ég með stöðugan hausverk. Mér finnst best að lýsa því þannig að mér leið eins og það væri ský inni í hausnum á mér, stanslaus þoka. Ég gerði oft tilraunir til að hreyfa mig en þá versnaði höfuðverkurinn og ég svaf mjög illa eftir áreynslu. Líkaminn stífnaði upp við hreyfingu því hann var að koma í veg fyrir aukinn hristing á hausinn. Ég fékk því mikla vöðvabólgu sem líklega jók á höfuðverkinn. Vöðvabólga getur á hinn bóginn einnig aukist við enga hreyfingu. Þetta var því eins konar vítahringur,“ útskýrði Guðrún en sem betur fer hefur birt til hjá henni og í dag er líf hennar að komast í eðlilegt horf á ný.

„Þegar tvö ár voru liðin fannst mér ég vera orðin góð. Þá var ég ófrísk og var ekki að hreyfa mig mikið hvort sem var. Það er eiginlega fyrst núna, þremur árum seinna, sem ég er farin að stunda einhverja hreyfingu að ráði og það gengur vel,“ sagði Guðrún og hún er byrjuð að spila innanhússfótbolta með „old girls“ og er einnig í svokölluðu víkingaþreki. Guðrún segir það blunda í sér að láta reyna á hvort hún geti gert meira en segist ekki vera í aðstöðu til þess í augnablikinu.

Hvíldin hefði hjálpað mikið til

Eftir þessa reynslu er Guðrún vitaskuld margs fróðari um höfuðhögg og afleiðingar þeirra. Þó höfuðáverkar séu flóknir og afleiðingarnar einstaklingsbundnar er líklegt að Guðrún hefði getað sloppið mun betur frá höfuðhögginu sem hún fékk í Frakkaleiknum ef hún hefði fengið svigrúm til að jafna sig. Ekki er þó á henni að heyra að hún sé á nokkurn hátt bitur vegna þess.

„Nú er ég búin að kynna mér þetta vel og það sem gildir er að hvíla alla vega í viku eða tíu daga eftir heilahristing. Annars nær þetta ekki að jafna sig og hættan er þá sú að minnstu högg fari að telja meira. Ég hef örugglega fengið heilahristing einu sinni eða tvisvar til viðbótar þegar ég fór að spila aftur í Svíþjóð, bara við það að skalla boltann í leikjum. Það endaði auðvitað með því að segja þurfti stopp og ég lauk ekki tímabilinu,“ sagði Guðrún og spilaði því sinn síðasta fótboltaleik haustið 2009.

Hún segir þessa reynslu geta kennt íþróttafólki, þjálfurum og sjúkraþjálfurum að taka þurfi höfuðmeiðsli alvarlega og fylgjast vel með þeim. „Ég lærði það alla vega og vonandi geta einhverjir nýtt sér það. Oftast líður þetta fljótt hjá en hafa þarf í huga að þessi staða getur einnig komið upp.“

Guðrún fjárfesti í góðri menntun áður en hún hélt til Svíþjóðar og notaði meðal annars fótboltann til að liðka fyrir því. Hún tók BS-gráðu í fjármálum með hagfræði sem aukafag frá Notre Dame-háskólanum í Indianaríki í Bandaríkjunum. Þar var hún á skólastyrk og spilaði með firnasterku liði skólans sem var bandarískur háskólameistari.

„Fótbolti er ein aðalkvennaíþróttin í Bandaríkjunum. Landsliðið þeirra er eitt það besta í heimi og landsliðskonurnar koma oft beint úr háskólaboltanum. Liðið var mjög sterkt og ég hef líklega aldrei verið í liði þar sem samkeppnin var jafn mikil. Nokkrar úr liðinu hafa leikið landsleiki fyrir bæði Bandaríkin og Kanada. Okkur tókst að verða meistarar síðasta árið mitt og það var mjög gaman. Leiðin að titlinum er löng enda eru á milli 200 og 300 lið í efstu deild háskólaboltans.“

Frá seðlabanka til seðlabanka

Guðrún bætti við sig mastersgráðu í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands og var að vinna í Seðlabankanum þegar hún og Helgi ákváðu að fara til Svíþjóðar árið 2009. Til að byrja með fékk hún sex mánaða leyfi frá störfum í bankanum til þess að einbeita sér að fótboltanum. Með því móti gat hún spilað eitt tímabil í Svíþjóð og verið í góðu formi í lokakeppninni í Finnlandi þar sem hún var jafnbesti leikmaður Íslands í keppninni þrátt fyrir höfuðmeiðslin.

„Ég var að starfa með gjaldeyrsforðann þegar allt hrundi og þá var mjög mikið að gera hjá okkur og ég missti stundum af æfingum. Þegar þetta fór aðeins að róast eftir áramótin fékk ég leyfi í vinnunni til að fara út og ætlaði þá að koma til baka eftir hálft ár. Helgi fékk í millitíðinni samning hjá körfuboltaliði í Svíþjóð. Ég athugaði þá hvort ég fengi vinnu hjá Seðlabankanum í Svíþjóð og það gekk eftir. Ég var örugglega mjög heppin að komast að þar en ég var með meðmæli frá bankanum hérna heima. Ég var ráðin upphaflega til sex mánaða en þeir buðu mér fastráðningu í framhaldinu,“ sagði Guðrún og hún segir það ekki hafa verið mikil viðbrigði að vinna í seðlabanka erlendis.

„Ég vann við að greina fjármálamarkaði með fjármálastöðugleika að leiðarljósi í Svíþjóð. Munurinn á því að vinna í Seðlabankanum í Reykjavík eða í Stokkhólmi felst aðallega í muninum á Íslendingum og Svíum. Þeir eru rosalega skipulagðir og mjög fundaglaðir. Það er jákvætt að vera með gott skipulag en það má heldur ekki fara út í öfgar.“

Aftur í Vesturbæinn

Guðrún og Helgi Már eignuðust sitt fyrsta barn hinn 30. september í fyrra, soninn Ara Má Helgason. Guðrún sótti um auglýst starf hjá Seðlabankanum og var boðið starfið. Þá tóku þau þá ákvörðun að flytja heima til Íslands þó þeim hafi líkað vistin vel í Stokkhólmi. „Við kunnum rosalega vel við okkur í Stokkhólmi og borgin er náttúrlega ótrúlega skemmtileg. Við vorum hins vegar búin að vera í Svíþjóð í nokkur ár og okkur fannst þetta ágætur tími til að flytja aftur heim. Aðstæður breytast líka þegar það er komið barn í spilið en þá er gott að hafa fjölskylduna nálægt. Þegar ég fékk aftur starf í Seðlabankanum var kominn ágætur grunnur að þessu. Helgi er einnig búinn að mennta sig og hefur áhuga á að fara að vinna við eitthvað annað en að spila körfubolta, en tækifærin til þess voru ekki mikil samhliða körfunni þarna úti,“ sagði Guðrún Sóley Gunnarsdóttir við Morgunblaðið og kveðst ánægð með að vera komin aftur heim.

FIMMFALDUR ÍSLANDSMEISTARI MEÐ KR

„Er mjög sátt með ferilinn“

Guðrún Sóley Gunnarsdóttir lék yfir 100 leiki fyrir landslið Íslands

Guðrún Sóley segist ekki velta sér mikið upp úr því hversu leiðinlegan endi fótboltaferill hennar fékk þegar hún var á hátindi ferilsins. „Ég var búin að spila fótbolta í fjöldamörg ár og hef unnið nokkra titla. Ég spilaði með íslenska landsliðinu og náði að spila með því þegar það komst í lokakeppni í fyrsta skipti. Ég er mjög sátt með minn feril þó ég hafi þurft að hætta svona skyndilega. Auðvitað hefði verið gaman að ná fleiri landsleikjum og geta gert þetta eða hitt en svona var þetta bara,“ sagði Guðrún þegar Sunnudagsmogginn spurði hana hvort ekki hafi verið erfitt að sætta sig við þessa niðurstöðu.

Guðrún er fædd 15. september árið 1981. Hún var því 28 ára þegar hún lék sína síðustu fótboltaleiki. Þá hafði hún verið lykilmaður í vörn Djurgården á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. Þar lék Guðrún 17 leiki og skoraði 2 mörk í hinni sterku sænsku atvinnumannadeild. Í september 2009 stóð henni til boða að spila með Chicago Red Stars í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Guðrún er uppalin í KR og lék 97 leiki með liðinu í efstu deild frá 1996-2005 og skoraði 8 mörk. Hún lék aftur með liðinu sumarið 2008 og bætti þá við 18 leikjum og 2 mörkum. Í millitíðinni spilaði hún með Breiðabliki í Kópavoginum. Hún spilaði 27 deildaleiki fyrir Blikana og skoraði 6 mörk.

Guðrún lék með öllum landsliðum Íslands. 13 leiki með U-17 ára landsliðinu. 7 leiki með U-19 ára landsliðinu og skoraði 3 mörk. 17 leiki fyrir U-21 árs landsliðið og 65 A-landsleiki og skoraði hún einu sinni fyrir landsliðið.

Guðrún afrekaði það að verða NCAA-háskólameistari í Bandaríkjunum með liði Notre Dame-skólans. Guðrún varð fimm sinnum Íslandsmeistari með KR og varð þrívegis bikarmeistari með félaginu. Hún varð tvöfaldur meistari með liðinu árið 1999.

Þess má til gamans geta að Guðmundur Reynir Gunnarsson, leikmaður bikarmeistara KR, er bróðir Guðrúnar. Hann hefur einnig leikið með öllum fjórum landsliðunum í knattspyrnu.