Daði Jónsson Kveðja frá félögum í Umf. Breiðabliki Á morgun mánudaginn 16. maí
1988 verður gerð frá Kópavogskirkju útför félaga okkar Daða Eysteins Jónssonar, sem látinn er langt um aldur fram. Mig langar í þessum línum að minnast Daða sem félaga, knattspyrnumanns og Kópavogsbúa.
Þegar slíkur félagi sem Daði hverfur svo snögglega og ótímabært þyrlast upp í huga manns ótal myndir af frammistöðu hans innan, sem utan vallar. Mig langar að velta hér upp nokkrum í minningar- og þakklætisskyni fyrir allt, sem hann gaf okkur og var okkur. Við munum ætíð minnast Daða fyrir glaðværð hans og græskulaust gaman.
Daði byrjaði ungur að árum að æfa með og keppa fyrir Breiðablik í frjálsum íþróttum, aðallega spretthlaupum, handbolta og knattspyrnu, sem varð þó ofan á þegar fram liðu stundir.
Þegar ég, undirritaður, tók að æfa með 4 fl. félagsins árið 1963 var það Daði sem leiðbeindi okkur fyrstu skrefin. Frá fyrstu spyrnu var hann félagi okkar strákanna og þannig minnist ég hans alla tíð. Daði sat á þessum árum í stjórn knattspyrnudeildar. Ég tók sæti í stjórninni 1965, þá 15 ára gamall. Þrátt fyrir lágan aldur, eða kannski fyrir æsku sakir, var mér, græningjanum, falin gjald kerastaðan. Flestir stjórnarmenn voru mér miklu eldri nema Daði og til hans gat ég auðveldlega leitað, sem ætíð tók vel mínum vandræðum.
Á sjöunda áratugnum myndaðist í knattspyrnunni í Breiðabliki harður kjarni, sem var ákveðinn í að komast upp í 1. deild og leika þar meðal bestu knattspyrnuliða á Íslandi. Það voru kappar eins og Grétar, Jón Ingi, Simbi, Helgi, Júlli, Raggi, Maggi Njalli, Steini Karls, Logi, Sigurjón Hrólfs, Gimmi Þórðar, Dúmmi og Daði. Fleiri mætti nefna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að ná 1. deildar sætinu fyrr en 1970 en þá með glæsilegum sigri í 2. deildinni. Þá voru þeir Daði, Dúmmi (Guð mundur) og Guðmundur Þórðarson einir eftir af gömlu körlunum, þ.e. eldri en 25 ára.
Daði lék lengst af sem hægri kant maður. Spilaði hann þá stöðu af miklu öryggi og hélt henni lengi vel þó að yngri og léttari menn teldu sig sjálfkjörna í kantinn. Eftir heimsmeistarakeppnina 1966 fóru íslensk lið smátt og smátt að breyta leikaðferð sinni og fækka framlínumönn um. Daði var enn sá sterkasti á hægri vængnum en færði sig afturí bakvarðarstöðuna eða "fúllbakk" eins og það hét í þá daga. Var hann þar kominn við hliðina á Dúmma tvíburabróður sínum, sem lék stöðu miðvarðar.
Á þessum árum fórum við í keppnisferðalag að Reykjaskóla í Hrútafirði til að taka þátt í forkeppni landsmóts UMFÍ. Leikið var á laugardegi og vannst sá leikur með erfiðismunum. Um kvöldið fréttu menn af skemmtun í Miðgarði. Seint og um síðir var ákveðið að létta sér uppeftir erfiðan dag og storma á skemmtunina. Þegar við komum á staðinn var allt uppselt og var okkur vísað frá. Daði taldi þetta ófært og tók að sér að tala við ballhaldara. Skömmu síðar kom hann til baka og tilkynnti okkur að við færum allir innog það ókeypis. Í þessari ferð sem öðrum var Daði hrókur alls fagnaðarog það sem fararstjórarnir réðu ekkivið leysti hann af hendi.
Það væri lengi hægt að halda slíkum minningum áfram. Slíkur fé lagi innan og utan vallar sem Daði er vandfundinn. Við höfum haldið hópinn nokkrir gamlir Breiðabliksmenn og leikið okkur í boltanum nokkuð reglulega. Síðustu árin mætti Daði aðeins endrum og sinnum einsog fleiri. En alltaf létti yfir hópnum þegar Daði mætti, kæti hans var ætíð smitandi. Og aðeins fyrir nokkrum vikum áttum við ánægjulega knattleiksstund í Digranesi.
Ég vil fyrir hönd allra félagsmanna senda vinum og vandamönnum samúðarkveðjur vegna fráfalls Daða. Fyrir okkur eldra Breiðabliks fólk voru Bára og Daði eins fastur punktur og félagið sjálft. Börn þeirra feta nú í fótsporin, María og Kristrún, sem verið hefur einn frambæri legasti leikmaður okkar í kvennaknattspyrnunni og Atli, sem leikur í 5. aldursflokki.
Dúmmi, við sendum þér og Kristínu sérstakar kveðjur og vonum að minningin um góðan bróður og félaga megi lifa áfram í brjóstum okkar.
Bára, við sendum þér Maríu, Kristrúnu og Atla innilegar samúðarkveðjur. Megi góður guð vernda ykkur og styrkja í sorg ykkar.
Ég vil að lokum þakka félagsstörf Daða í þágu Breiðabliks, bæði í stjórn knattspyrnudeildar og aðalstjórnar.
Sigurjón Valdimarsson,
formaður Breiðabliks.