Ein frægasta teiknimynd Walts Disneys var „Mjallhvít og dvergarnir sjö“, sem frumsýnd var árið 1937. Þótti hún tækniundur á sínum tíma. Sá teiknari Disneys, sem mótaði útlit Mjallhvítar, var maður að nafni Charles Thorson. Hann fæddist í Winnipeg í Manitoba 1890 og lést í Vancouver í Bresku Kólumbíu 1966. En upphaflega hét hann Karl Gústaf Stefánsson og var af alíslenskum ættum, sonur hjónanna Stefáns Þórðarsonar og Sigríðar Þórarinsdóttur, sem bæði voru úr Biskupstungum. Thorson var þó ekki hrifinn af ættjörð foreldra sinna og olli hneykslun í Íslendingabyggðum vestan hafs, er hann birti ljóðið „Liceland“.
Thorson var mjög drátthagur og þegar hann sótti um starf hjá Disney-kvikmyndaverinu 1934, fékk hann það samstundis. En teiknarinn sjálfur var ekki aðeins alíslenskur, heldur líka stúlkan, sem hann teiknaði Mjallhvíti eftir. Hún hét Kristín Sölvadóttir, fæddist á Siglufirði 1905 og dvaldist um skeið í Íslendingabyggðum vestan hafs, þar sem hún kynntist Thorson, en sneri síðan til Íslands, giftist Garðari Þórhallssyni og lést 1982. Hún á afkomendur á Íslandi. Kristín var nauðalík þeirri Mjallhvíti, sem Charles Thorson dró upp.
Önnur fræg söguhetja á líka ættir að rekja til Íslands. Hún er engin önnur en breski leyniþjónustumaðurinn James Bond, Jakob bóndi, sem Ian Fleming skrifaði ófáar bækur um, en þær hafa flestar verið kvikmyndaðar. Fyrirmyndin að Bond er iðulega talin Kanadamaðurinn Sir William Samuel Stephensen. Hann fæddist í Winnipeg í Manitoba 1897, og var móðir hans, Guðfinna Jónsdóttir, íslensk, en faðirinn frá Orkneyjum. Hann ólst upp hjá íslenskum fósturforeldrum, Vigfúsi Stefánssyni og Kristínu Guðlaugsdóttur, og tók sér eftirnafn fósturföður síns.
Stephenson gat sér orð fyrir vasklega framgöngu í norðurálfuófriðnum mikla 1914-1918, sem seinna var nefndur heimsstyrjöldin fyrri, var skotinn niður, tekinn til fanga, en tókst að flýja. Hann settist að í Bretlandi og efnaðist, en annaðist margvísleg störf fyrir leyniþjónustu Breta og Bandaríkjamanna í heimsstyrjöldinni síðari. Þar kynntist hann líklega Fleming, en síðar urðu þeir nágrannar á Jamaíku. Stevenson lést 1989. Á íslensku kom út um hann bókin Dularfulli Kanadamaðurinn í þýðingu Hersteins Pálssonar 1963.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is