Þráinn Eggertsson
Þráinn Eggertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is „Við erum sennilega með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi og mestu afköstin. Verðmætasköpun íslenskra sjómanna er að meðaltali 50% meiri en þeirra norsku til dæmis.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

„Við erum sennilega með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi og mestu afköstin. Verðmætasköpun íslenskra sjómanna er að meðaltali 50% meiri en þeirra norsku til dæmis. Fiskveiðar standa undir lífskjörum okkar og því er illskiljanlegt að við séum að hverfa aftur til baka í smáum skerfum í átt að óhagkvæmu miðstjórnarkerfi, einmitt þegar við þurfum á hagvexti að halda til þess að geta staðið í skilum með erlend lán,“ segir Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. „Okkar hagkvæma og vel skipulagða fiskveiðikerfi er í bráðri hættu,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið

Alþjóðleg ráðstefna

Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um fiskveiðar í Öskju í Háskóla Íslands í dag og hefst hún klukkan eitt. Fiskveiðar verða skoðaðar frá sjónarhóli sjálfbærni og arðsemi. Þar verða fjölmargir fyrirlesarar, svo sem Þráinn, og ýmsir munu deila með fundinum viðbrögðum sínum við erindunum, þar á meðal Brian Carney, ritstjóri Wall Street Journal Europe.

Gunnar Haraldsson, sérfræðingur hjá OECD sem flytur erindi í dag, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé ekki sjálfgefið að fiskveiðar séu sjálfbærar; hvorki í efnahagslegu tilliti né líffræðilegu. Það sjáist þegar reynsla annarra landa er skoðuð. Reynsla OECD-landanna sé sú að það gefi góða raun, þegar litið er til sjálfbærni og vaxtar, að nýta auðlindir með stofnanakerfi sem byggist á réttindum, hvort sem það séu réttindi einstaklinga, hópa eða fyrirtækja. Sjávarútvegur sé ágætt dæmi um það. Ef rétt sé staðið að málum geti fiskistofnar verið sjálfbærir og gefið af sér um aldur og ævi. En þannig sé því ekki farið alls staðar í heiminum. Það þurfi því að huga vel að því hvernig stofnanaumgjörðin er.

„Víða eru fiskistofnar ofveiddir og útgerðirnar eru óhagkvæmar því þær binda of mikla fjármuni í bátum og tækjum,“ segir hann og nefnir Spán sem dæmi. Að smíða kerfi með þeim hætti að byggt sé á réttindum getur leitt til þess að álag á auðlindina minnki og hagkvæmni í veiðunum aukist.

Gunnar mun ekki einblína á fiskveiðar í erindi sínu heldur ræða um grænan hagvöxt og nýtingu auðlinda almennt. Grænn hagvöxtur þýðir að ekki sé nóg að auðlind sé sjálfbær, heldur sé vöxtur atvinnugreina einnig mikilvægur til að auka lífsgæði. Þessum vexti megi ná fram með aukinni þekkingu og tækniframförum og skynsamlegri stofnanauppbyggingu.

Skólabókardæmi

Þráinn segir að þær breytingar sem standi til að gera á fiskveiðistjórnunarkerfinu snúist meðal annars um að taka sífellt stærri hluta af leyfilegum heildarafla og setja í potta sem stjórnmálamenn eigi að úthluta úr. „Jafnframt er verið að skerða réttinn til að versla með kvóta og skapa óvissu hjá þeim sem hafa kvóta undir höndum í dag. Þeir vita ekki hver framtíðin verður. Enda þótt boðaðar séu stórfelldar breytingar á grunngrein þjóðarbúsins hefur ekki verið athugað hvaða áhrif breytingarnar hafa á þjóðarhag og hagvöxt. Fjölmargir sérfræðingar hafi þó bent á að breytingarnar hafi ýmis slæm áhrif áhrif á atvinnuveginn. Hann segir að þessar aðgerðir sem eigi að ráðast í séu skólabókardæmi í hagfræði um hvað eigi ekki að gera. „Hvernig stendur á því, að við förum út á þessa braut, að rífa niður sjávarútveginn sem við eigum nánast allt undir? Frumvörpin um breytingar á kerfinu snúast ekki aðeins um að láta ríkissjóð fá stærri hluta af fiskveiðirentunni heldur er tækifærið notað til að setja upp fáránlegt miðstjórnar- og haftakerfi.“

Fiskveiðiráðstefna
» Alþjóðleg ráðstefna um fiskveiðar verður haldin í Öskju í Háskóla Íslands í dag klukkan eitt og stendur til hálfsex.
» Fiskveiðar standa undir lífskjörum okkar og verið er að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu til verri vegar á erfiðum tímum í efnahagslífinu, að sögn prófessors í hagfræði.
» Ekki sjálfgefið að fiskveiðar séu sjálfbærar og arðbærar.