<strong>Hagnaður</strong> Ragnar Árnason segir helming hagnaðar sem verður til í sjávarútvegi enda hjá ríkinu.
Hagnaður Ragnar Árnason segir helming hagnaðar sem verður til í sjávarútvegi enda hjá ríkinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Torf Einarsson kristjantorfi@gmail.com Ragnar segir ábatann af kvótakerfinu renna til samfélagsins á tvennan máta. Annars vegar í gegnum skatta, hlutdeild vinnuaflsins í hagnaði, áhrif á eftirspurn og gengi krónunnar.

Baksvið

Kristján Torf Einarsson

kristjantorfi@gmail.com

Ragnar segir ábatann af kvótakerfinu renna til samfélagsins á tvennan máta. Annars vegar í gegnum skatta, hlutdeild vinnuaflsins í hagnaði, áhrif á eftirspurn og gengi krónunnar. Hins vegar í gegnum langtímaáhrif af auknum fjárfestingum á hagvöxt.

Að sögn Ragnars snýr ein háværasta gagnrýnin á kvótakerfið að því að ábati sem af því hlýst renni óskiptur til eigenda kvótans. „Þessi gagnrýni hefur verið áberandi í umræðunni hér og því ákvað ég að skoða hvert ávinningurinn af kvótakerfinu fer. Þetta er spurning sem hagfræðingar rannsaka ekki oft skipulega af þeirri ástæðu að venjulega gera fræðin ráð fyrir að hagnaðaraukning streymi um allt hagkerfið. Þetta er byggt á sögulegri reynslu þar sem iðnbyltingin mikla er augljósasta dæmið þegar gríðarlegur hagnaður í verksmiðjuframleiðslu í Evrópu varð seinna undirstaðan undir velmegun nútímans,“ segir Ragnar.

Fimm leiðir til samfélagsins

Ragnar gerði grein fyrir niðurstöðum sínum á ráðstefnu sem Rannsóknasetur um nýsköpun og hagvöxt efndi til, undir yfirskriftinni Fiskveiðar: sjálfbærar og arðbærar, en Ragnar er formaður rannsóknaráðs stofnunarinnar.

„Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að ábatinn dreifist eftir ýmsum leiðum í gegnum hagkerfið en ég skoðaði sérstaklega fimm leiðir. Í fyrsta lagi skoðaði ég hver hlutdeild vinnuaflsins er í þeirri hagnaðaraukningu sem verður í greininni við upptöku kvótakerfisins. Hér er fyrst og fremst um sjómenn að ræða auk vinnuaflsins í fiskvinnslu og við dreifingu og markaðssetningu.

Það er áhugavert að skoða ávinning áhafnanna af kerfinu. Ef við gerum ráð fyrir að hlutdeild áhafnarinnar sé um 35% af lönduðu aflaverðmæti má gera ráð fyrir því að ábati áhafnanna sé liðlegur helmingur af ábata fyrirtækjanna. Útreikningar á hagnaðaraukningu fyrirtækjanna liggja fyrir og hljóða upp á tugi milljarða en hingað til hefur enginn mælt ávinning áhafnanna. En samkvæmt þessum útreikningum þá græðir áhöfnin um hálfa milljón þegar útgerðin hagnast um eina milljón. Þetta þýðir að tekjumöguleikar þeirra sem stunda sjóinn á góðu kvótaskipi eru miklu meiri en þeir voru áður.

Í öðru lagi dreifist ábatinn um hagkerfið í gegnum þá auknu eftirspurn sem myndast við aukinn hagnað í sjávarútveginum. Bæði eigendur kvótans og starfsfólk í sjávarútvegi spyr eftir ýmiskonar vöru og þjónustu og þessi aukna eftirspurn beinist að öllum hliðum hagkerfisins, allt frá smá- og heildsölu til menningarstarfsemi og þjónustu,“ segir Ragnar

Skattar, fjárfestingar og gengi

Þriðja leiðin sem Ragnar fjallaði um var ávinningur ríkis og sveitarfélaga sem fá tekjur í gegnum skatt og gjöld. „Hér er um ansi háar upphæðir að ræða,“ segir Ragnar og bætir við, „en samkvæmt útreikningum mínum rennur helmingurinn af þeim hagnaði sem myndast í sjávarútveginum nánast beint í opinbera sjóði.

Hér er ég að tala um hagnaðinn sem annars vegar rennur til útgerðarfyrirtækjanna sjálfra og hins vegar til vinnuaflsins. Mjög stór hluti þeirra sem vinna í sjávarútvegi er í hæsta tekjuskattsþrepinu sem er um 46%. Þegar þeir versla með vörur og þjónustu greiða þeir 25% í virðisaukaskatt og svo er meðalálagning vegna vöru- og innflutningsgjalda nær 10%.

Þá skoðaði ég einnig hver áhrif kerfisins eru á hagvöxt sem er fyrst og fremst rekinn áfram af fjárfestingum. Stór hluti af auknum tekjum í sjávarútvegi fer í fjárfestingar og nú um mundir eru þetta ansi háar upphæðir á mælikvarða þjóðhagsstærða eða um 50-80 milljarðar. Þetta er mikil viðbót við fjárfestingagetu þjóðarinnar og mun auka við hagvöxt til lengri tíma þar sem þetta er upphæð sem fellur til á hverju ári. Hér ber þó að athuga að þessar upphæðir miða við óbreytt kerfi en róttækar kerfisbreytingar eru mjög líklegar til þess að hafa áhrif á þessa mynd.

Til þess að sjá áhrif fjárfestinga sjávarútvegsins á hagvöxt reiknaði ég dæmi þar sem ég skoðaði muninn til lengri tíma þegar hagvöxtur er 2% í stað 2,5%, þ.e. þegar áhrif fjárfestinga sjávarútvegsins eru undanskilin í hagvextinum. Ef horft er tíu ár fram í tímann yrði munurinn 5% í landsframleiðslu, þ.e. landsframleiðslan væri 5% minni en ella, og að tuttugu árum liðnum væri munurinn 10% og þannig koll af kolli,“ segir Ragnar.

Að síðustu talaði Ragnar um áhrif kvótakerfisins á gjaldeyrissöfnun og gengi krónunnar. „Hagkvæmni kvótakerfisins felur það í sér að miklu minna er notað af aðföngum en áður. Og þótt maður geri ekki ráð fyrir að útflutningsverðmæti vaxi, sem það hefur þó svo sannarlega gert á undanförnum árum, þá felur þessi hagkvæmni í sér að það verður gríðarlega mikill gjaldeyrissparnaður. Þessi sparnaður leiðir svo aftur til hærra gengis krónunnar sem aftur lækkar innflutningsverð, öllum til ábata sem yfirhöfuð nota innfluttar vörur.

Útreikningar mínir sýna að aukin hagkvæmni í sjávarútvegi hefur haft áhrif á gengi krónunnar til styrkingar í kringum 4 til 12%,“ segir Ragnar.