Margir menntamenn hugga sig við áhrif sín til langs tíma litið þótt fáir taki mark á þeim hér og nú.

Margir menntamenn hugga sig við áhrif sín til langs tíma litið þótt fáir taki mark á þeim hér og nú. Þýska skáldið Heinrich Heine sagði til dæmis í bók um trúarbrögð og heimspeki í Þýskalandi, sem kom út 1853: „Takið vel eftir þessu, þér stoltu athafnamenn. Þér eruð án þess að vita af því aðeins handlangarar hugmyndasmiðanna.“ Heine tók dæmi um stjórnarbyltinguna frönsku: „Maximilian Robespierre var ekkert annað en höndin á Jean-Jacques Rousseau – sú hin blóðuga hönd, sem tók úr skauti tímans á móti líkama með sál frá Rousseau.“ Heine taldi eins og fleiri að Robespierre og aðrir byltingarmenn hefðu reynt að hrinda kenningu Rousseaus um almannaviljann í framkvæmd.

Breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes orðaði svipaða hugsun í hinu fræga riti sínu um Almennu kenninguna 1936: „Hugmyndir hagfræðinga og stjórnmálaheimspekinga eru áhrifameiri en menn almennt gera sér grein fyrir, bæði þegar þeir hafa rétt fyrir sér og rangt.“ Keynes hélt áfram: „Athafnamenn, sem álíta sig ósnortna af öllum fræðilegum áhrifum, eru venjulega þrælar einhvers afdankaðs hagfræðings. Og brjálæðingar í valdastólum, sem þykjast heyra raddir spámanna, eru raunverulega aðeins í hugarórum sínum að enduróma kenningar settar fram af einhverjum skólaskriffinnum nokkrum árum áður.“

Margt er eflaust til í skoðun Heines og Keynes. Stuðningsmenn auðlindaskatts í íslenskum sjávarútvegi gera sér áreiðanlega fæstir grein fyrir því að þeir enduróma sjónarmið bandaríska rithöfundarins Henrys Georges sem vildi leggja sérstakan skatt á afrakstur af náttúruauðlindum, aðallega jarðnæði, og átti marga fylgismenn á Íslandi á öndverðri tuttugustu öld. Og spádómar um yfirvofandi umhverfisvá eru iðulega sóttir í svipaða greiningu og breski hagfræðingurinn Thomas Malthus gerði í lok átjándu aldar á því að stærðir geta vaxið eftir ólíkum lögmálum.

Líklega ofmeta menntamenn þó oft mátt hugmynda, alveg eins og athafnamenn vanmeta hann ósjaldan. Hugmyndir eru eins og sáðkorn. Þær þurfa einhvern jarðveg, eigi þær að lifa. Breski heimspekingurinn John Stuart Mill komst ef til vill næst sanni, þegar hann sagði í grein í Edinburgh Review 1845: „Venjulega valda hugmyndir ekki hraðri eða snöggri breytingu á mannlífinu, nema ytri aðstæður leggist á sömu sveif.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is