Outlaws MC er bræðralag vélhjólamanna og gilda þar strangar innri reglur. Eru þær æðri landslögum?
Outlaws MC er bræðralag vélhjólamanna og gilda þar strangar innri reglur. Eru þær æðri landslögum? — Ljósmynd/Pressphotos.biz
Aðgerðir lögreglu gegn vélhjólasamtökunum Outlaws á dögunum vöktu mikla athygli enda óvenju vel í lagt. Nokkur umræða hefur í kjölfarið spunnist um eðli samtaka þessara og áform þeirra hér á landi. Stafar lögreglu og hinum almenna borgara ógn af þeim?

Aðgerðir lögreglu gegn vélhjólasamtökunum Outlaws á dögunum vöktu mikla athygli enda óvenju vel í lagt. Nokkur umræða hefur í kjölfarið spunnist um eðli samtaka þessara og áform þeirra hér á landi. Stafar lögreglu og hinum almenna borgara ógn af þeim? Það er mat heimildarmanna Morgunblaðsins, sem vel þekkja til, að svo sé ekki en brýnt sé að lögregla verði áfram á varðbergi. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Lögregla á Íslandi mun ekki líða hótanir í sinn garð og mun bregðast við þeim af fullum þunga. Það er hún sem heldur uppi lögum og reglum í þessu landi, engir aðrir. Þetta eru skilaboðin sem lögregla sendi út með umfangsmikilli aðgerð sinni gegn meðlimum vélhjólasamtakanna Outlaws á dögunum. Tilefni aðgerðanna var rökstuddur grunur lögreglu um hefndaraðgerðir af hálfu Outlaws-liða. Málið vakti mikla athygli enda tók óvenjufjölmennt lið lögreglu þátt í aðgerðinni, allt að áttatíu manns.

Það er ekki nýlunda að lögreglu sé hótað hér á landi, það er nánast daglegt brauð, í fæstum tilvikum hefur hún þó ástæðu til að ætla að alvara búi að baki. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur benti á í Morgunblaðinu í vikunni að það væri á hinn bóginn nýtt að skipulögð samtök væru þar að verki. „Ef það er rétt er sannarlega ástæða til að bregðast hart við. Hótanir og áætlanir um árásir á lögreglumenn vegna starfa þeirra fyrir okkur öll eru með öllu ólíðandi,“ sagði Helgi.

Lögreglumenn sem Morgunblaðið talaði við eru sammála Helga um að taka þurfi hótanir í garð lögreglu mjög alvarlega og bregðast hart við þeim. Það hafi einmitt verið gert með aðgerðinni á dögunum. Þeir lögreglumenn sem blaðið ræddi við leggja hins vegar áherslu á að ekki megi gera of mikið úr málum af þessu tagi. „Lögregla er ekki hrædd við Outlaws-samtökin, frekar en önnur samtök sem grunur leikur á að tengist glæpastarfsemi og treystir sér fyllilega til að halda þeim í skefjum. Þessi starfsemi er á byrjunarstigi hér og ég hygg að aðgerðir lögreglu tali sínu máli, fari þessi samtök ekki að lögum verður þeim mætt af fullri hörku. Hvergi verður slegið af,“ segir lögreglumaður.

Þetta eru uppörvandi orð, ekki viljum við lifa í samfélagi þar sem glæpagengi stjórna lögreglu.

Óttast ekki hótanir

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að lögreglumenn séu almennt ekki uggandi vegna meintra hótana Outlaws-liða. Vissulega eru dæmi um að lögreglumenn hafi orðið fyrir eignaspjöllum vegna starfa sinna en þau tilvik munu vera fá. Þrátt fyrir hótanir af ýmsu tagi eru skipulagðar árásir á lögreglumenn óþekktar á Íslandi, hvað þá á fjölskyldur þeirra. Á lögreglumönnum sem Morgunblaðið talaði við er að skilja að ótti vegna hótana Outlaws sé óverulegur og umræðan undanfarið hafi farið út fyrir skynsemismörk.

Þetta kemur heim og saman við orð Víðis Þorgeirssonar, leiðtoga Outlaws á Íslandi, í Morgunblaðinu í vikunni. Hann sagði eftirfarandi: „Það angrar mig mikið að fólk trúi því að við höfum ætlað að ráðast á konur og börn. Þetta er algjör fjarstæða að þetta hafi verið eitthvað sem átti að gera. Við erum sjálfir margir fjölskyldumenn.“

Erlendis eru Outlaws-samtökin þekkt fyrir vopnaburð og við húsleitir hjá félagsmönnum hérlendis hafa vopn verið gerð upptæk, bæði skot- og eggvopn. Að því er Morgunblaðið kemst næst eru þó engin dæmi um að félagsmenn hafi ógnað lögreglu með vopnum.

Skýringin á því að lögregla var jafn fjölmenn og raun bar vitni í aðgerðinni á dögunum er sú að öryggi lögreglumanna er alltaf sett á oddinn, gildir þá einu hvort félagar í Outlaws eða aðrir meintir brotamenn eiga í hlut.

Stóra aðgerðin þótti heppnast vel og heimildarmönnum blaðsins ber saman um að Outlaws-samtökin séu löskuð eftir aðgerðir lögreglu. Jafnvel verulega löskuð. Sama máli gegni um Hells Angels. Fylgst verður grannt með þessum samtökum áfram.

Vilja að fólk sé hrætt

Umræðan hefur verið fyrirferðarmikil og eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvort almennum borgurum stafi hætta af Outlaws-samtökunum. Því er ekki gott að svara enda ekki hægt að útiloka að félagsmenn tengist innheimtu skulda vegna ólöglegra viðskipta sem partur af öðru og stærra vandamáli. Einmitt þess vegna þykir mönnum mikilvægt að gera ekki meira úr styrk samtakanna en efni standa til. „Ali umræðan á ótta þjónar það þeirra hagsmunum. Outlaws-liðar vilja að fólk sé hrætt við þá, það styrkir ímyndina og þannig er auðveldara fyrir þá að ógna fólki, til dæmis þegar þeir innheimta skuldir,“ segir lögreglumaður.

Út frá þessu má velta fyrir sér hvort ógnin sem stendur af Outlaws sé meira í orði en á borði?

Gera má því skóna að fólk verði almennt hræddara þegar maður í fatnaði merktum Outlaws eða Hells Angels stendur á tröppunum hjá því til að innheimta meinta skuld en maður í Levi's-skyrtu eða Lacoste-bol.

Á að banna samtökin?

Í ljósi tengsla samtaka á borð við Outlaws og Hells Angels við glæpastarfsemi erlendis hafa ýmsir furðað sig á því að þeim hafi verið gert kleift að ná fótfestu hér á landi og vísa í 74. grein stjórnarskrár lýðveldisins máli sínu til stuðnings.

Þar segir: „Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.“

Bent hefur verið á, að stjórnvöldum sé með þessu í lófa lagið að leysa starfsemi téðra samtaka upp en það hefur enn sem komið er ekki verið gert. Heimildarmenn Morgunblaðsins eru ekki í vafa, eðlilegast væri að binda enda á starfsemina.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, tók ekki eins djúpt í árinni í Morgunblaðinu um síðustu helgi. „Ég tel að allar hugmyndir eigi að skoða í þessu samhengi, þar á meðal þessa [að banna glæpasamtök]. Það er þó engin töfralausn heldur ein leið af mörgum sem skoða þarf. Brýnasta verkefnið að mínu mati er að efla starfsemi lögreglu þannig að unnt sé að fylgja okkar starfi enn betur eftir á þessu sviði,“ sagði hann.

Lagaumhverfið þykir um margt gott hér á landi þegar kemur að því að bregðast við starfsemi meintra glæpasamtaka. Nefna má í því sambandi fjölmörg tilvik þar sem erlendum félögum í slíkum samtökum hefur verið snúið burt strax við komuna til landsins. Eftir slíkum málum hefur verið tekið víða og þykja þau bera viðbrögðum og staðfestu lögreglu á Íslandi gott vitni.

Sumir telja þetta þó ekki duga, t.a.m. lýsti Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna, því yfir á dögunum að bæta þyrfti lagaumhverfið. Þá hefur lögreglan vakið máls á því að heimildir hennar hér á landi verði færðar til samræmis við það sem þekkist á Norðurlöndum. Það hefur verið til skoðunar í innanríkisráðuneytinu.

Hvað eru 1%-samtök?

En hvers vegna óttast fólk Outlaws-samtökin?

Outlaws MC eru yfirlýst 1%-samtök en það er viðtekinn skilningur lögreglu, þar sem Outlaws hefur haslað sér völl, að það þýði að þau hafi sagt sig úr lögum við samfélagið og telji í raun bræðralagið æðra landslögum. 1%-skilgreiningin er dregin af því að lögregla lítur svo á að 99% allra vélhjólasamtaka hafi á að skipa venjulegum, löghlýðnum borgurum. 1% lýtur eigin lögum og reglum.

Hugtakið 1% var fyrst notað af landssamtökum vélhjólafólks í Bandaríkjunum seint á fimmta áratug síðustu aldar til að skilgreina öfgamenn innan sinna vébanda. Voru þeir sagðir harðskeytt partíljón með tilhneigingu til að synda á móti straumnum. Hvergi var minnst á lögbrot á þeim tíma en lögregla tók þá skilgreiningu upp síðar, líklega á níunda áratugnum. Halda ber því til haga að 1%-klúbbarnir hafa aldrei fallist opinberlega á skilgreiningu lögreglu og segja hana diktaða upp í því skyni að slá ryki í augu almennings og dómstóla. Menn kalli sig einfaldlega „1%-ara“ til að undirstrika köllun sína og tryggð við vélhjólin og bræðralagið. Þannig hefur Outlaws MC aldrei gengist við því opinberlega að vera glæpasamtök, heldur bara vélhjólaklúbbur.

Saga Outlaws á Íslandi er ekki löng. Í maí á síðasta ári fékk hópur vélhjólamanna inngöngu í „fjölskyldu“ Outlaws undir nafninu Black Pistons og skömmu síðar gekk annar hópur, Berserkir í Hafnarfirði, í Black Pistons. Í ágúst 2011 tóku samtökin upp nafnið Probationary Outlaws, það er Útlagar á skilorði. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ástæða sé til að ætla að sá hluti Probationary Outlaws sem áður hét Berserkir verði fullgilt félag í Outlaws MC á næstu mánuðum. Samkvæmt sömu heimildum fer á hinn bóginn lítið fyrir starfsemi hins upprunalega Black Pistons-hóps um þessar mundir.

Hvort fullgilding aðildar breytir einhverju fyrir Outlaws á Íslandi, lögreglu og íbúa þessa lands mun tíminn leiða í ljós.

RÓTGRÓIN SAMTÖK

„Guð fyrirgefur en Útlagar ekki“

The McCook Outlaws Motorcycle Club var stofnaður í McCook, Illinois, árið 1935. Rólegt var yfir starfinu fyrstu árin en eftir að samtökin fluttu sig um set til Chicago 1950 fór þeim að vaxa fiskur um hrygg. Á sama tíma varð höfuðkúpa helsta tákn félagsins. Árið 1963 gekk Outlaws í bræðralag 1%-samtaka vélhjólamanna og árið 1969 varð mottó til: „Guð fyrirgefur en Útlagar ekki.“

Outlaws færðu jafnt og þétt út kvíarnar í Bandaríkjunum og árið 1978 var fyrsta aðildarfélagið sett á laggirnar erlendis, í Iowa í Kanada. Fyrsta vígi Outlaws í Evrópu varð til í Frakklandi 1993 og skömmu síðar hösluðu samtökin sér einnig völl í Noregi, Bretlandi, Belgíu og víðar í álfunni.

Enda þótt Outlaws MC segist ekki vera glæpasamtök hafa margir meðlimir í samtökunum átt aðild að sakamálum víðsvegar um heim á umliðnum árum. Skoðum dæmi:

Árið 2000 var Kevin O'Neill, forseti Outlaws í Wisconsin, dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir ítrekuð brot. Sama ár voru þrír Outlaws-liðar í Belgíu dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða félaga sinn á knæpu.

Árið 2006 voru nokkrir Outlaws-liðar í Mosbach í Þýskalandi dæmdir í fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Eftir það var félagsdeildin í Mosbach leyst upp.

Árið 2008 voru sjö Outlaws-liðar í Lundúnum dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir morð á félaga í Hells Angels árið áður.

Árið 2010 fann dómstóll í Milwaukee forseta Outlaws í Bandaríkjunum, Jack Rosga, sekan um fjárglæfrastarfsemi og samsæri um að beita ofbeldi. Þótti það mikið högg fyrir samtökin. „Það að hjóla á Harley gerir menn ekki að glæpamönnum en menn fara yfir strikið þegar þeir beita ofbeldi í viðskiptaskyni,“ sagði Neil MacBride saksóknari Virginiu-ríkis. Við réttarhaldið yfir Rosga komu fram gögn sem þóttu sýna, svo ekki verður um villst, að Outlaws-samtökin séu skipulögð glæpasamtök. Sama ár týndi Thomas Mayne, meðlimur í Outlaws, lífi í skotbardaga við sérsveit lögreglu í Maine.

Outlaws MC og Hells Angels hafa lengi eldað grátt silfur saman og hafa samtökin víða borist á banaspjót um yfirráð yfir tilteknum svæðum. Skemmst er að minnast þess að einn fullgildur meðlimur Outlaws í Belgíu, enn upprennandi meðlimur, og félagi þeirra voru myrtir af liðsmönnum Hells Angels í fyrra. Fjöldi manna hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins en enginn dæmdur ennþá enda er þagnarskylda, svonefnd „omerta“, við lýði bæði innan vébanda Outlaws og Hells Angels.