Magnús Torfason, sýslumaður í Norður-Ísafjarðarsýslu, var kunnur maður á sinni tíð og þótti forn í skapi. Hann sat um skeið á öndverðri tuttugustu öld á þingi með Jóni Þorlákssyni verkfræðingi, formanni Sjálfstæðisflokksins. Voru þeir Magnús báðir afkomendur Finns biskups Jónssonar. Magnús sagði eitt sinn drýgindalega við Jón: „Ég er kominn í beinan karllegg af Finni biskupi, en þú aðeins í kvenlegg, Jón. Minn er öruggari!“ Jón svaraði að bragði: „En minn er vissari!“
Sjálfur gekk Magnús hart fram í barnsfaðernismálum í sýslu sinni. Urðu ein ummæli hans við slíkt tækifæri fleyg. Kolbeinn Jakobsson hét maður og var bóndi og hreppstjóri í Unaðsdal á Snæfjallaströnd. Hann var karlmenni, vel greindur og harðskeyttur og kvennamaður mikill. Gerði hann vinnukonu sinni eitt sinn barn, þótt hún væri trúlofuð og hann kvæntur.
Sagan af viðbrögðum Magnúsar Torfasonar er til í mörgum útgáfum. Eina getur að líta í Þjóðviljanum 7. janúar 1972. Samkvæmt henni var stúlkan í fyrstu ófús að segja til faðernis barns síns, en þegar Magnús gekk á hana, kvað hún Kolbein bónda hafa flogið á sig í bæjargöngunum, er hún var að hita kaffi og kona Kolbeins ekki komin á fætur. Þá á Magnús að hafa mælt: „Kjarkmaður, Kolbeinn í Dal.“
Önnur útgáfa er í Morgunblaðinu 27. janúar 1996 og höfð beint eftir Magnúsi. Samkvæmt henni kenndi stúlkan Kolbeini barnið. Sýslumaður kallaði þá Kolbein fyrir sig. Játaði Kolbeinn eftir nokkurt þóf að hafa legið með henni. Hefði hann dvalist með henni og vinnumönnum sínum í sjóbúð, sem hann hefði reist við ströndina, og hefði stúlkan séð þar um matargerð og þvotta. Einn daginn hefði ekki verið farið á sjó vegna veðurs. Vinnumenn hefðu þá sýslað við veiðarfæri í suðurlofti sjóbúðarinnar, en Kolbeinn fengið stúlkuna til að bregða sér snöggvast með sér í norðurloftið, þar sem vinnumenn sváfu jafnan, og ekki einu sinni læst að sér, svo að piltana grunaði ekkert. Kvaðst Magnús þá hafa sagt: „Kjarkmaður, Kolbeinn í Dal.“
En nú var karlleggur hins nýfædda barns jafnviss kvenleggnum.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is