Sveinbjörn Jóhannesson fæddist að Heiðarbæ í Þingvallasveit 10. júlí 1937 og átti þar heima alla sína tíð. Hann varð bráðkvaddur 19. október 2012.

Foreldrar hans voru Margrét Þórðardóttir húsfreyja, f. 29. nóvember 1907, d. 31. desember 1974, og Jóhannes Sveinbjörnsson bóndi, f. 22. júlí 1905, d. 19. desember 1992. Sveinbjörn var næstyngstur fjögurra systkina. Systur hans eru þær Þórdís Jóhannesdóttir, f. 1934, Sigrún Jóhannesdóttir, f. 1936, og Jóhanna Jóhannesdóttir, f. 1944, d. 1999. Sveinbjörn kvæntist 22. október 1966 Steinunni Elínborgu Guðmundsdóttur, f. 12. júní 1940, frá Kollafirði á Kjalarnesi. Börn þeirra eru: 1) Margrét, f. 24. apríl 1967, sambýlismaður Auðunn Arnórsson, sonur þeirra er Oddur, f. 2004. 2) Jóhannes, f. 12. apríl 1970, eiginkona Ólöf Björg Einarsdóttir, börn þeirra eru Svanborg Signý, f. 1995, Sveinbjörn, f. 1998, og Steinunn Lilja, f. 2009. 3) Helga, f. 4. mars 1972, eiginmaður Guðmundur Helgi Vigfússon, börn þeirra eru Hlín, f. 1998, Hlynur, f. 2002, og Birta Hrund, f. 2011. 4) Kolbeinn, f. 19. október 1975, eiginkona Borghildur Guðmundsdóttir, börn þeirra eru Kristrún, f. 1998, Tryggvi, f. 1999, Guðmundur, f. 2007, og Hildur, f. 2011.

Sveinbjörn ólst upp við öll almenn sveitastörf og tók ungur við ábyrgð á búskapnum á Heiðarbæ vegna heilsubrests föður síns. Skólagangan í Barnaskólanum á Ljósafossi var ekki löng, en reyndist honum þó haldgott veganesti út í lífið. Seinna lauk hann búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri.

Sveinbjörn var bóndi og veiðimaður af lífi og sál. Sauðfjárrækt var hans aðalbúgrein en meðfram henni ræktaði hann kjúklinga og nautgripi, að ógleymdum gulrófum, svo það helsta sé nefnt. Hann stundaði alla tíð silungsveiðar í Þingvallavatni og síðustu árin, eftir að sonur hans og tengdadóttir tóku við sauðfjárbúskapnum, hafði hann meiri tíma til að stunda veiðina, sem jafnframt var eitt af hans helstu áhugamálum. Sveinbjörn var ástríkur eiginmaður, faðir, tengdafaðir og afi – og hann var í miklu uppáhaldi hjá barnabörnunum. Hann var vinur vina sinna og fór ekki í manngreinarálit.

Hann tók virkan þátt í félagsmálum í sinni sveit; var um árabil í stjórn Búnaðarfélags og Sauðfjárræktarfélags Þingvallahrepps, Veiðifélags Þingvallavatns, í hreppsnefnd og sóknarnefnd, auk þess sem hann var lengi meðhjálpari í Þingvallakirkju. Þá söng hann um áratugaskeið í Karlakórnum Stefni og Karlakór Kjalnesinga.

Sveinbjörn verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í Reykjavík í dag, 26. október 2012, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður í Þingvallakirkjugarði.

Það var veturinn 1997 að fundum okkar Bangsa bar fyrst saman. Við Magga dóttir hans vorum farin að rugla saman reytum okkar í kjallaraíbúð í vesturbæ Reykjavíkur og nú stóð til að fara í heimsókn að Heiðarbæ. Þar sem vetrarfærð var á Mosfellsheiðinni og við Magga á lélegum bíl fór Bangsi – sjálfsagt að vinsamlegri beiðni Steinunnar sinnar – til móts við okkur. Fyrsta handaband okkar tilvonandi tengdafeðga átti sér því stað í skafrenningi í skjóli pallbíls hans, við Ferðamannahornið svonefnda austan Mosfellsheiðar. Mín meðalstóra skrifstofumannshönd hvarf inn í hlýjan og sigggróinn hramm Heiðarbæjarbóndans. Handaband þetta og þar með upphaf kynna okkar varð mér mjög minnisstætt og sagði mér strax margt um persónu Bangsa. Nánari kynni áttu síðan eftir að færa mér heim sanninn um að hlýrri, einlægari, traustari, sómakærari og samvizkusamari manneskja væri vandfundin. Ég fann til stolts og öryggis að eiga slíkan mann að, og betri afa fyrir Odd son okkar var varla hægt að hugsa sér. Það er því með sárum söknuði og trega sem ég kveð tengdaföður minn, öðlinginn Bangsa á Heiðarbæ.

Auðunn Arnórsson.

Sveinbjörn eða Bangsi eins og hann var kallaður var tengdafaðir minn. Það tók nokkra stund að venjast því að kalla fullorðinn mann Bangsa, en við nánari kynni breyttist það. Það mætti hafa mörg orð um þá miklu og góðu skapgerðareiginleika sem Bangsi bjó yfir; hlýju, gæsku, velvild, þolinmæði, nægjusemi, gamansemi, æðruleysi. Bangsi var einstaklega skemmtilegur, hafði góða nærveru og sýndi í verki virðingu fyrir öllu því sem í kringum hann var.

Bangsi lifði í sátt við sitt umhverfi og samferðafólk. Hann var einstaklega iðinn og ósérhlífinn. Hugur hans og hönd var hér á Heiðarbæ, enda enginn staður honum kærari. Búskapurinn og veiðin voru honum einkar hugleikin. Hann skildi betur en margur nauðsyn og ánægju þess að nytja það sem náttúran hafði að bjóða án ágangs. Bangsi var svo stór og mikilvægur hluti af þessum stað.

Hann hafði gott lag á að láta fólk vinna og læra handtökin. Það kom hvergi betur fram en á vatninu, en í bátnum sat enginn iðjulaus. Skemmtilegar sögur, fróðleikur um vatnið og nágrenni var ómissandi. Það var yfir honum stóísk ró úti á Þingvallavatni sem var engu lík. Það verður því aldrei fullþakkað það góða og mikla uppeldi sem þau Steinunn veittu börnum okkar, Svanborgu og Sveinbirni, ekki síst úti á vatni. Þau voru hásetar í mörg ár. Þó að Steinunn Lilja hafi fengið skemmri tíma fékk hún ómetanlegar stundir og vonandi er að þær varðveitist með henni. Hún kvaddi afa með kossi er hún hljóp inn í stofu um morguninn áður en hann fór á vatnið í síðasta sinn. Þá ber að þakka allan þann afla sem hann færði í soðið og á stóran þátt í hve vel börnin okkar hafa dafnað, nú eða rófurnar. Það var svo notalegt þegar hann kom í dyragættina og sagði: „Viltu ekki fá í soðið?“ Ekki eru síður þakkarverðar þær mörgu og góðu stundir sem hann lagði af mörkum við búskapinn og öll góðu ráðin eftir að við Jói tókum við.

Minningarnar eru svo margar og svo einstaklega góðar. Bara að hitta hann á hlaðinu og spjalla var ómissandi. Við þau tækifæri kom ein setning ævinlega: „Er eitthvað að frétta?“ Að rölta upp í kofa eða jarðhús var allaf notalegt. Eitt sinn tók ég með afganga af brauðsúpu og rjóma er hann var við gegningar. Bangsi var skemmtilega hissa á þessu uppátæki og svo innilega þakklátur.

Bangsi og Steinunn hafa einnig alið mig upp á svo margan veg og mótað og vona ég að Steinunn eigi eftir að halda því góða starfi áfram. Hjónaband þeirra var einstaklega fallegt og gott, í því var svo mikil hlýja. Við slíkar aðstæður geta ekki annað en góðir einstaklingar vaxið úr grasi. Þessi sómahjón eru því börnum, tengdabörnum og barnabörnum miklar fyrirmyndir. Betri tengdaföður get ég ekki hugsað mér, það að búa hér á Heiðarbæ með honum hefur verið mannbætandi. Það var viðeigandi að hann skildi við úti á vatni, með hugann við það sem var honum svo kært. Það kom því ekki til þess að hann færi í lifanda lífi frá þessum yndislega stað sem Heiðarbær er. Bangsi skildi við bæði sáttur við guð og menn.

Björg á Heiðarbæ.

Það eru 18 ár frá því að ég kom fyrst að Heiðarbæ og var mikið kvíðin því að hitta tilvonandi tengdaforeldra. Sá kvíði reyndist þó með öllu ástæðulaus, enda bæði Bangsi og Steinunn með einstaka nærveru og tóku mér strax vel. Við Kolbeinn vorum mikið inni á heimili tengdaforeldra minna fyrstu búskaparár okkar og alltaf vorum við velkomin.

Það fyrsta sem ég þurfti að læra var náttúrlega að meta silunginn; ég var ekki vön að borða silung, þó að ég hefði vissulega smakkað hann áður. Skildi ekki alveg hvernig Bangsi gat borðað silung jafnt í hádegismat sem kvöldmat. Ég var ekkert betri en börnin og hafði gaman af að sjá hann sporðrenna murtunni. Taldi mig góða að hreinsa tvær murtur og borða – en þá var komið fjall af beinum á diskinn hans Bangsa. Ég var svo lánsöm að ná aðeins að taka þátt í murtuvertíð og lærði að slægja. Fór nokkrar ferðir að vitja um og eru það allt góðar minningar.

Haustið sem við reistum húsið okkar á Heiðarási komu Bangsi og Steinunn gjarnan með mat handa vinnandi mönnum og máttu ekki heyra minnst á borgun fyrir. Hann var alltaf með hugann við að skaffa og taldi það ekki eftir sér að láta börnin sín njóta góðs af aflanum, sem og af kartöflu- og gulrófnaræktuninni. Hann var alltaf eitthvað að sýsla og hugsaði vel um skepnunar sínar. Nú á seinni árum dekraði hann vel við kindurnar sem voru uppi í afa fjárhúsi, enda minnast börnin mín þess að hafa farið með afa að gefa kindunum brauð – og nýi Spori fékk að gera ýmislegt sem gamli Spori fékk ekki.

Bangsi hafði gaman af að syngja og fá sér lögg. Nú síðast í vor á bjartri nóttu studdi ég hann yfir lækinn eftir mikla söng- og kjötsúpuveislu á Heiðarbæ II.

Hann var mjög barngóður og fylgdist vel með barnabörnunum í leik og starfi – og passaði upp á að þeim væri ekki kalt. Ég er mikið þakklát fyrir að hafa átt einstakan tengdaföður sem ég get litið upp til og lært af.

Borghildur Guðmundsdóttir.

Við systkinin munum vart eftir okkur öðruvísi en að hafa afa Bangsa og ömmu Steinunni í næsta húsi. Þau hafa átt stóran þátt í okkar uppeldi og hafa gert okkur að sterkari einstaklingum að mörgu leyti. Það er ýmislegt sem stendur upp úr á því sviði og má þá helst nefna þær ótalmörgu ferðir sem við höfum farið með þeim á vatnið. Í mörg ár höfum við skipst á að fara á vatnið með afa á sumrin og höfum heldur betur bætt í viskubankann á þeim tíma.

Við vöknuðum snemma á hverjum morgni, gölluðum okkur upp og keyrðum með afa niður í bátaskúr. Þegar þangað var komið skottaðist maður að skúrshurðinni og tók úr lás og bar síðan dótið aftan úr bíl ofan í bátinn. Afi settist síðan niður og lét bátinn síga út í vatn. Allt var þetta gert með þvílíkri þolinmæði og ró sem fæstir geta tileinkað sér jafn vel og hann. Þegar komið var út á vatn var haldið af stað í fyrsta netið sem yfirleitt var fyrir austan Svínanesið. Í upphafi ferðar datt manni oft í hug að forvitnast um hversu mörg net væru í vatninu. Afi gaf alltaf fremur hikandi svar og brosti við, enda voru þau yfirleitt fleiri en hann hafði látið í ljós. Hlutverk okkar sem háseta var að greiða úr netum og slægja fiskinn sem við fengum góða leiðsögn við frá afa og ömmu. Hlutverk Bangsa afa var ætíð að stýra bátnum eins og gefur að skilja, leggja og draga netin. En í seinni tíð var hann farinn að leyfa okkur að spreyta okkur örlítið á þessum verkum. Það var þó yfirleitt aldrei hljóð stund á meðan á verkum stóð heldur fór sá tími iðulega í það að giska á fjölda fiska, stærð og allt er því tengist. Á okkar yngri árum gerði afi oft leik úr þessu og sagðist myndi gefa okkur sælgæti næst þegar hann færi í bæjarferð ef við næðum að giska á rétt og auðvitað stóð hann alltaf við þau orð sín.

Afi fræddi okkur einnig um fólk er hafði búið við vatnið og sagði okkur margar sögur er tengdust vatninu. Hann kenndi okkur að unna vatninu en á sama tíma fræddi hann okkur um hættur þess og bað okkur að varast það. Þegar veiðin var hálfnuð var yfirleitt höfð kaffipása fyrir vaska veiðimenn og þá sátum við saman og borðuðum í blíðunni þar til afi fór að hlusta á veðrið í útvarpinu sem alls ekki mátti missa af. Afi hugsaði mikið út í veður og tungl áður en farið var að veiða og hafði hann hinar ýmsu kenningar um það, sem yfirleitt stóðust alltaf. Að veiði lokinni var haldið í land og bátnum lagt í sleðann. Fiskurinn var færður aftan í skottið á bílnum og búist til heimferðar. En áður en maður settist upp í bíl bað afi mann alltaf að tékka á lásnum í annað sinn, svona til öryggis. Afi unni vatninu alveg óskaplega mikið og þess vegna hefur honum eflaust þótt vænt um að fá að eyða sínum síðustu augnablikum á bátnum sínum. Afi er og verður alltaf höfðingi vatnsins. Hans verður sárt saknað og er hans brotthvarf mikill missir fyrir alla þá er hann þekktu. Eitt erum við þó viss um og það er að afi verður aldrei langt undan enda vildi hann hvergi annars staðar vera en á Heiðarbæ.

Svanborg og Sveinbjörn.

Afi Bangsi var glaður og góður. Hann var mjög duglegur að leika við okkur barnabörnin, var oft kominn á fjóra fætur áður en við vissum af, hvort sem var á gólfinu eða úti á túni. Hann þóttist vera hestur og lét okkur skríða á bak. Hann tók okkur mjög oft „í flugvél“ þegar við vorum minni og lét okkur svífa fyrir ofan sig í sófanum. Stundum komum við með hugmyndir sem hann hjálpaði okkur að framkvæma, t.d. við að búa til boga og örvar. Skemmtilegast fannst okkur að fara með honum út á vatn og á hestbak. Við brostum út að eyrum þegar hann birtist með brauð í poka því það þýddi að það ætti að beisla hest. Hann sagði okkur líka ýmislegt um sínar uppáhaldskindur og kenndi okkur sumt frá því í gamla daga. Svo notaði hann stundum orð sem maður heyrir hvergi annars staðar. Mamma fletti meira að segja stundum upp í orðabók til að skilja hvað hann væri að meina. En hann hafði alltaf rétt fyrir sér, þótt mamma væri ekki alltaf viss, en þetta var nú bara til gamans hjá honum.

Elsku amma Steinunn, okkur þykir alveg óendanlega vænt um þig og ætlum að hugsa vel um þig. Nú er afi kominn upp til himna og er vonandi búinn að hitta Hönnu systur sína og mömmu sína og pabba.

Hlín og Hlynur.

Hann afi minn var sko alls enginn rugludallur, eins og Mikki refur segir annars gjarnan um afa. Langt frá því. Hann var mjög vitur maður sem notaði oft skemmtileg orð um hluti sem ég skildi kannski ekki alveg – hann Bangsi afi kunni nefnilega að tala góða íslensku. Hann var líka alltaf að spá í veðrið og oftast var veðurspáin hans réttari en hjá veðurfréttamönnunum. Hann sagði líka mörg skemmtileg orð einmitt um veðrið og nú vildi ég óska þess að hafa skrifað þau niður. Þegar ég fer að hugsa um það þá finnst mér samt að afi hefði örugglega ekki viljað deyja á neinum öðrum stað en á bátnum úti á vatni, nema þá kannski hjá ömmu. Þar leið honum best.

Ég held að afi og Þingvallavatn hafi verið bestu vinir, þó að það sé nú erfitt að útskýra af hverju. Það er bara svoleiðis. Hann bjó líka alla sína ævi á Heiðarbæ og var alla sína ævi að veiða á vatninu. Afi var líka mjög góður maður og leyfði okkur alltaf að fylgjast með því þegar hann var að gera allt það sem hann gerði við fiskana. Ég man nú ekki heitin á þessu öllu en það er líklega vegna þess að ég leit alltaf undan og gat ekki horft á þegar hann fór að skera aumingja litlu fiskana. Núna vildi ég óska þess að ég hefði farið oftar með honum á vatnið og jafnvel lært eitthvað meira um veiðar. Í vor var hann samt búinn að ná að kenna mér að stýra bátnum, og það er ég mjög ánægð með.

Þegar ég var lítil og kom í heimsókn til afa og ömmu í sveitina bauð afi mér alltaf að koma og leggjast í krikann hjá sér, sem mér fannst mjög notalegt. Það var alveg yndislegt að fá að liggja í krikanum á afa í afasófa. Þegar við vorum saman í sófanum sagði hann mér oft sögur eða las fyrir mig bók, og það er ein bók sem ég man alveg sérstaklega vel eftir. Hún heitir Thor og ég held að öll elstu barnabörnin muni eftir henni. Amma og afi lásu hana mjög oft fyrir okkur.

Svo er það auðvitað kveðjan sem afi bjó til og hann kallaði að „nebbast“. Það fannst mér alveg rosalega gaman. Ég væri til í að kveðja afa nú í síðasta skipti með því að nebbast við hann og knúsa hann. Ég vona að honum líði vel uppi hjá Guði og sé glaður. Ég sakna hans eins og margir aðrir, en ég verð þá bara að hugsa um þessar fallegu minningar um hann og brosa.

Kristrún Kolbeinsdóttir.

Fyrst og fremst var Bangsi mjög góður afi. Hann afi var eiginlega svolítill hluti af Þingvallavatni. Hann kenndi mér margt á vatninu; á mótorinn og að stýra bátnum. Hann var oft að segja mér og Sveinbirni einhverjar sögur úti á vatni. Ég man líka alltaf þegar hann var að kenna mér að slægja fiskinn, hann var alltaf svo fljótur en ég svo lengi. Það var líka mjög gott að koma til afa um helgar og fá að kúra á bumbunni hans. Hann gaf sér oft góðan tíma úti í fjárhúsum við að gefa kindunum brauð og murtu. Ég hefði viljað gera meira með honum. Hann lifir í minningu minni. Guð blessi hann.

Láttu smátt, en hyggðu hátt.

Heilsa kátt, ef áttu bágt.

Leik ei grátt við minni mátt.

Mæltu fátt og hlæðu lágt.

(Einar Benediktsson)

Tryggvi Kolbeinsson.

Ókrýndur höfðingi og elskulegur móðurbróðir er látinn. Snöggt og óvænt. Alltof fljótt. Vissulega var Bangsi ekki jafn frár á fæti og áður. Víst voru hreyfingarnar orðnar hægari og augun í meitluðu andlitinu þreytuleg. En inneignin var ekki nærri búin.

Bangsi var einn af máttarstólpunum í tilverunni, grunnstoð margra í stóru samhengi og smáu. Fjölskyldu sinnar og sveitarinnar: samfélagsins litla í kringum Þingvallavatn. Mikilvæg tenging við mínar eigin rætur.

Bangsi var einkar auðugur maður. Að minnsta kosti í augum þeirra sem ekki mæla ríkidæmi í veraldlegum gæðum. Hann naut þeirra forréttinda að alast upp, búa og starfa alla tíð í einni fallegustu og sögufrægustu sveit landsins, Þingvallasveit. Þar voru tengsl hans við stórbrotið umhverfi og náttúru afar náin. Já – og tengslin við vatnið. Þegar Ari, systursonur minn, spurði frænda sinn eftir bátsferð á vatninu fyrir allnokkrum árum, af hverju hann væri ekki í björgunarvesti, var svarið einfalt: „Ég er hluti af vatninu“. Og þannig var það.

Ríkidæmi Bangsa fólst ekki síður í stóru fjölskyldunni hans; Steinunni, hans elskulega lífsförunaut og börnum þeirra Möggu, Jóa, Helgu og Kolbeini, sem hvarvetna vekja athygli fyrir mannkosti, dugnað og myndarskap; mökum og barnabörnum.

Bangsi var sjálfur mikill mannkostamaður. Gæddur einstakri auðmýkt, næmi fyrir lífinu og fordómaleysi. Rósemi og spekt var yfir honum en svo ákaflega stutt í stráksskapinn og kímni. Það gat hvesst, en ekki oft. Bangsi var góður húsbóndi, kröfuharður en sanngjarn. Það vissum við Gerður systir og allir unglingarnir sem dvöldu á sumrin við störf á Heiðarbæ.

Það bregður fyrir ljúfum minningabrotum: Bangsi og Sveinki að syngja við raust í réttunum; Bangsi í útreiðartúr; í hlutverki meðhjálpara í Þingvallakirkju; Bangsi að gæla við Lubba gamla og síðar Spora; Bangsi með börnin sín lítil í kjöltunni, svo allt í einu barnabörnin. Bangsi að gantast við systur sínar, Hönnu, Rúnu og Dísu. Bangsi í fríðum hóp á sjötugsafmælinu í hlöðunni á Heiðarbæ. Bangsi og afi að kýta um vasahnífinn. Bangsi á vatninu. Dýrmætastar eru þó minningarnar um mjúkar strokur um vanga, hlýja kossa á kinn og kankvíst augnaráð sem yljaði um hjartarætur.

Og nú er komið að kveðjustund. Óvenju farsælli ævi er lokið. Bangsi kvaddi á sinn hátt, hægt og hljótt, þegar Þingvallasveitin skartaði sínu fegursta á fallegum haustdegi. Á vatninu. Í bátnum. Í félagsskap himbrimans og öldugjálfurs. Á staðnum sem honum þótti svo vænt um og við starfið sem hann unni. Er hægt að hugsa sér fallegri ævilok?

Nú taka á móti Bangsa ástvinir sem þegar hafa kvatt. Þar veit ég að fara fremst í flokki Margrét amma og Jóhannes afi sem þótti svo undur vænt um einkasoninn og Hanna frænka.

Elsku Steinunn, Magga, Jói, Helga, Kolbeinn og fjölskyldur. Megi minningin um einstakan öðling með glettni í augum, létta sorgina og hjálpa ykkur við að brosa í gegnum tárin. Ég er þess fullviss að andi hans svífur yfir vatninu um ókomna tíð í fylgd með himbrimanum.

Margrét Gunnarsdóttir.

Sveinbjörn Jóhannesson á Heiðarbæ er látinn. Hann lést úti á Þingvallavatni við veiðiskap í faðmi náttúrunnar. Það er mjög táknrænt svo tengdur sem hann var þessu vatni og öllum heimkynnum sínum á Heiðarbæ. Bangsi, eins og hann var oftast kallaður, kvæntist Steinunni systur okkar og mágkonu árið 1966. Fljótlega hófu þau búskap á Heiðarbæ, fyrst í samvinnu við foreldra Sveinbjörns. Bangsi og Steinunn eignuðust sitt fyrsta barn, Margréti, árið eftir og síðan þau Jóhannes, Helgu og Kolbein sem öll eru mikið mannkostafólk.

Börnin á Heiðarbæ og börnin okkar hinna voru á líkum aldri. Strax mynduðust sterk tengsl við Heiðarbæ og mörg af börnum okkar voru þar í lengri eða skemmri tíma sem sumarvinnufólk. Margar voru ferðirnar austur þar sem heimili þeirra hjóna var miðstöð fjölda fólks sem gerði sér ferð þangað í ýmsum erindum. Hlýtt viðmót þeirra hjóna var einstakt og gestrisni að sama skapi. Við eldhúsborðið varð til sú sérstaka menning þar sem heimagerðar og góðar veitingar og umræða um fólk og málefni var í hávegum höfð. Bangsi lagði alltaf gott til málanna því hann var orðvar maður.

Tryggvi hefur átt sitt annað heimili hjá þeim hjónum. Honum finnst að Bangsi og Steinunn hafi verið haldreipi sitt í lífinu og er hann innilega þakklátur fyrir það.

Bangsa var mjög umhugað um að fólk lærði til verka og allir sem umgengust hann lærðu iðjusemi sem þau búa að alla ævi. Fyrir allt þetta þökkum við honum.

Á Heiðarbæ hefur alltaf verið stórt fjárbú. Veiðiskapur hefur verið stundaður í vatninu. Bangsi var bæði góður fjármaður og mikill veiðimaður. Hann þekkti ærnar sínar og oft heyrðust skemmtileg nöfn á þeim svo sem Nesjavallahvít, Dala-Grána og Kolrassa.

Nú síðustu árin eftir að Jói og Björg tóku við búinu hafði hann sinn fjárhúskofa í brekkunni fyrir ofan bæinn. Þar stundaði hann sinn fjárbúskap á þann hátt sem hann hafði alltaf gert.

Í Bangsa varð manneskjan og náttúran að einu, það skynjaði maður best þegar maður tók í höndina á honum. Vegna sinna mannkosta laðaðist fólk að honum. Bak við þennan mann stóð Steinunn. Ótrúleg samvinna þeirra í öllum störfum var einstök, hvort heldur var að fara út á vatn eldsnemma á morgnana eða vinna fiskinn heima á eftir. En þetta var hlutskipti þeirra seinni árin. Bangsi var afskaplega söngelskur maður og hafði fallega rödd, stundaði kórstarf um langan tíma og ef haldnar voru afmælisveislur var söngur þar í fyrirrúmi.

Við söknum samverustunda með öðlingnum Bangsa og þökkum honum samfylgdina. Hann verður okkur alltaf minnisstæður.

Steinunni og allri fjölskyldunni vottum við okkar dýpstu samúð.

Guðrún og Þórir, Tryggvi, Kristín og Gísli, Kolbeinn

og Árný.

Stóri, tryggi, ljúfi, góði, rólyndi og bangsalegi frændinn minn er farinn, horfinn okkur, svo ótrúlega óvænt. Alltaf hefur hann verið þarna, verið sem klettur í mínu lífi.

Bangsi og Himmi bróðir brölluðu margt og Bangsi sagði mér fyrir örfáum vikum af hættuför þeirra frændanna á vatninu, á bíl á ísnum; engu munaði að þeir færu niður en upp komu þeir í það skiptið. Ég svitnaði og margt flaug um hugann. Ungt fólk, það brallar, tekur áhættu og sleppur sem betur fer oftast. Þeir sluppu þá.

Bangsi var svo ljúfur, hann var á einhvern yndislegan hátt sameiningartákn fjölskyldunnar allrar og kannski sveitarinnar.

Fjölskyldur okkar, á litlu bæjunum í Þingvallasveitinni, voru alltaf að hittast, fara á milli bæjanna þriggja, Skálabrekku og Heiðarbæjanna; keyra, ganga, ríða eða róa á milli, fara á skautum jafnvel; á morgnana, á daginn, á kvöldin og oft á nóttunni, allt í rólegheitunum. Sveitin var tímalaus. Alltaf var hægt að eiga góða stund; til að spjalla, spila, deila skoðunum, hlæja, vinna verkin, lána og skila, hjálpast að, halda hátíð og umfram allt var oft sungið, öllum stundum var sungið. Og það var gaman. Endalausar hátíðir. Fyrir það má þakka, og það geri ég.

Tengslin á milli bæjanna voru einstök, fólkið mitt deildi öllu, hittist oft; ef ekki var hægt að fara á milli gerði síminn sitt gagn, eftir að hann kom, þrjár stuttar og ein löng, tvær stuttar og tvær langar og ein stutt. Hátíðarstundirnar voru ógleymanlegar, alltaf nógur matur, kökur, pönnukökur, flatkökur, svið, slátur, kjötsúpa, lambalæri, kartöflur, silungur og murta, hangikjöt, og ávextir á jólum. Og söngurinn. Hann lifir í minningu allra sem voru á þessum hátíðum. Sönggleðin og hamingjan, ómæld.

Ótal minningar koma upp í hugann. Það var gott að vita af Bangsa á næsta bæ, í næsta nágrenni, í lífinu. Ég er full þakklætis fyrir að hafa þekkt Bangsa og átt hann að alla tíð.

Guðrún Þóra

Guðmannsdóttir.

Sveinbjörn Jóhannesson var af öllum kunnugum þekktur sem Bangsi á Heiðarbæ, fæddur þar og uppalinn ásamt þrem systrum af góðum foreldrum og afa sem var marghertur í lífsins skóla allt frá því að hann missti foreldra sína með fárra mánaða millibili, aðeins sex ára að aldri. Hans leiðsögn var ljúft að hlíta og voru þeir nafnar mjög nánir. Ennþá þykist ég vita af honum aftan við hægri öxlina og er það ljúf samfylgd.

Faðirinn, Jóhannes, hörku dugnaðarmaður, varð snemma heilsulítill eða eftir að hann fékk Akureyrarveikina svokölluðu, sem var í ætt við lömunarveiki.

Móðirin, Margrét, var hetja sem haggaðist hvergi, heilsuhraust framan af ævi en stríddi síðan lengi við sykursýki.

Á herðar drengsins lagðist snemma mikið erfiði og búsumstang, löngu áður en hann hafði aldur til. Engu brást hann af því sem honum var trúað fyrir, hvorki fjölskyldu né samferðamönnum. Alltaf var Bangsi sami trausti, glaði og ljúfi drengurinn sem tók öllu því sem lífið rétti honum af dugnaði og festu. Hann bókstaflega var Þingvallasveitin og er nú skarð fyrir skildi.

Hann var í heimavistarskóla á Ljósafossi og lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri. Bangsi eignaðist samhenta eiginkonu, Steinunni, og með henni fjögur börn sem öll hafa sannað sig að greind og dugnaði, hvert í sinni stöðu. Hann átti gott sauðfjárbú og stundaði jafnframt silungs- og murtuveiði í Þingvallavatni. Mörg sumardvalarbörn og unglingar minnast góðra daga hjá þeim hjónum við leik og störf. Eftir að eldri sonurinn Jóhannes og kona hans Björg tóku við búinu snéru þau hjón sér eingöngu að silungsveiði í Þingvallavatni og minnast þeirra margir þar sem þau seldu nýjan og reyktan silung á markaðnum í Mosfellsdal. Bangsi hafði mikið yndi af tónlist og söng með karlakórnum Stefni í fjöldamörg ár. Seinna söng hann lengi með Kjalnesingakórnum.

Bangsi var veiðimaður af lífi og sál og enginn þekkti betur Þingvallavatn en hann og vinur hans Jói í Mjóanesi eftir að Guðmann á Skálabrekku féll frá.

Á haustdegi eins og þeir gerast fegurstir við Þingvallavatn mætti hann örlögum sínum, sitjandi í bát sínum með fagra veiði í skut. Hann rak hægt í átt að landi. Hann dó inn í fegurðina.

Þórdís.