Jón Þorláksson, verkfræðingur og forsætisráðherra, var orðheppinn án þess að vera orðmargur.

Jón Þorláksson, verkfræðingur og forsætisráðherra, var orðheppinn án þess að vera orðmargur. Gunnar Thoroddsen, sem þekkti hann vel, enda systursonur konu hans, sagði í útvarpserindi 1977, að Jón hefði eitt sinn verið þar við, er menn skröfuðu um, hvenær bylting gæti talist lögleg. „Bylting er lögleg, þegar hún lukkast!“ sagði þá Jón.

Jón Thor Haraldsson sagnfræðingur skrifaði greinarkorn um þessi orð Jóns Þorlákssonar í Sögu 1985. Fann hann hliðstæðu í endurminningum norska stjórnmálamannsins Trygve Bulls, sem kvað kennara sinn í menntaskóla, Sigurd Høst (1866-1939), eitt sinn hafa sagt í kennslustund, að bylting væri réttmæt, þegar hún heppnaðist.

Í Verklýðsblaðinu 25. apríl 1931 er hins vegar vitnað í sænska rithöfundinn Ágúst Strindberg um þetta: „Hvenær er bylting lögleg? Þegar hún heppnast.“ Ég fann þessi ummæli Strindbergs eftir nokkra leit í „Tal till svenska nationen“ frá 1910, sem prentuð er í heildarútgáfu verka Strindbergs, 68. bindi, en það kom út 1988. Hljóða ummælin svo á sænsku: „Detta kan endast ske genom vad man kallar en revolution, vilken, I fall den lyckas, blir sanktionerad.“ Þetta gerist aðeins með því, sem kalla má byltingu, og hún er lögleg, ef hún lukkast.

Hugsanlega hafa þessi orð fæðst af sjálfu sér í munni Jóns Þorlákssonar, en einnig getur verið, að hann hafi tekið eftir þessari tilvitnun í Strindberg í Verklýðsblaðinu og hugsunin meitlast í meðförum hans.

Það er síðan sitt hvað, uppruni orðanna og merking. Hvenær lukkast bylting, svo að hún verði lögleg? Væntanlega þegar hún ber góðan ávöxt. Í þeim skilningi voru byltingarnar í Bretlandi 1688 og Bandaríkjunum 1776 löglegar, því að með þeim var rutt burt hindrunum á þróun og vexti án verulegra blóðsúthellinga. En franska byltingin 1780 og hin rússneska 1917 voru samkvæmt sama mælikvarða ólöglegar, því að þeim lauk báðum með ósköpum.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is