28. október 2012 | Sunnudagsblað | 703 orð | 4 myndir

Frumvarp um smálán

Smálán í óláni

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ófáir lántakendur hafa farið flatt á smálánum. Í nýju frumvarpi eru auknar kröfur gerðar til smálánafyrirtækja um að kanna greiðslugetu þeirra sem taka lánin. Breki Karlsson breki@breki.com
Samkvæmt frumvarpi til laga sem liggur fyrir alþingi verða í fyrsta sinn sett lög um smálán. Nái frumvarpið fram að ganga verður sett þak á kostnað vegna lánveitinga. Árleg hlutfallstala kostnaðar neytendalána mætti ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Þetta yrði afar mikil breyting frá því sem nú er. Í umsókn Samkeppniseftirlitsins um frumvarpið kemur fram að tiltekin teikn séu á lofti um að þessi markaður sé ekki sérlega virkur því fyrirtækin sem á honum starfa virðast einkum keppast um að veita sem greiðast aðgengi að lánum í stað þess að keppa á grundvelli verðs og vörueiginleika líkt og almennt gerist á mörkuðum þar sem samkeppni er virk. Að mati Fjármálaeftirlitsins ætti lánveitandi sem rekur heilbrigt fyrirtæki ekki að þurfa að leggja á hærri vexti en sem nema allt að 50% eða 100% af árlegri hlutfallstölu kostnaðar að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands.

Líkt og Íslendingar hafa mörg ríki brugðist við uppgangi smálánafyrirtækja á undanförnum árum með lagasetningu. Hefur nú um það bil helmingur af aðildarríkjum Evrópusambandsins ákvæði um hámarksvexti í löggjöf sinni. Finnar lögðu nú á haustþingi fram frumvarp sem kveður á um hámarksvexti á smálánum og Danir hafa tilkynnt að þeir muni gera slíkt hið sama.

Finnar finna að smálánum

Finnska frumvarpið er mjög svipað því íslenska það er að segja að sett verður hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK) lána. Munurinn er að samkvæmt finnska frumvarpinu á þetta hámark við öll lán, hvort sem þau eru eins skiptis lán, viðvarandi lán, tryggð með veði eða ekki. Fyrirhugaðar takmarkanir í Finnlandi ná ekki til lána vegna vörusölu (að því gefnu að enginn möguleiki sé á að fá reiðufé út úr viðskiptunum). Eins ná takmarkanirnar ekki til lána með höfuðstól hærri en 2.000 evrur eða sem svara rúmum 320.000 íslenskum krónum. Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar vegna lána 50 prósentustigum hærra en viðmiðunarvextir samkvæmt finnsku vaxtalögunum, en þeir eru nú 1%. Þannig yrði hámarks ÁHK smálána nú 51%. Finnar ganga enn lengra en Íslendingar því einnig stendur til breyta finnsku vaxtalögunum þannig að heildaráfallinn kostnaður, svo sem dráttarvextir, innheimtukostnaður og þess háttar fari ekki umfram fyrrgreint hámarks ÁHK. Ennfremur verður innheimta annars kostnaðar, svo sem fyrir textaskilaboð eða önnur samskipti milli lánþega og lánveitanda bönnuð með þeim rökum að auka gegnsæi og getu neytenda til að meta heildarlántökukostnað.

Eins verða lagðar auknar skyldur á herðar lánveitenda um lánshæfimat lántakenda og á í framtíðinni að taka til tekna og annarra fjárhagsaðstæðna væntanlegra lántaka.

Í frumvarpinu er tekið fram að vaxtaþakið nái einungis til lána sem veitt eru eftir að lögin taka gildi, það er, að lögin séu ekki afturvirk, að undanskildu því að frá og með gildistöku þeirra verður óheimilt að krefjast gjalda fyrir samskipti svo sem smáskilaboð og þess háttar vegna lána sem veitt eru fyrir gildistöku laganna.

ÞAK Á VEXTI SMÁLÁNA

Helmingur Evrópuríkja er með lög um hámarksvexti

Í þrettán Evrópulöndum eru þegar lög í gildi um hámarksvexti sem lánveitandi getur krafist af lántökum. Þrjú landanna, Grikkland, Írland og Malta, hafa svokallað algert vaxtahámark, en önnur, Belgía, Eistland, Frakkland, Holland, Ítalía, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Sóvenía, Spánn og Þýskaland, hafa hlutfallslegt eða breytilegt vaxtaþak svipað því sem lagt er til í frumvarpinu sem liggur fyrir alþingi Íslendinga. Þannig mega til dæmis vextir skammtímalána í Frakklandi upp að 1.524 evrum ekki vera hærri en 20,56% um þessar mundir.

Bannað í Bandaríkjunum

Í þriðjungi ríkja Bandaríkjanna eru smálán (sem þar í landi ganga undir nafninu Payday loans) beinlínis bönnuð eða ekki fýsileg vegna laga um okurvexti. Árið 2007 voru ennfremur samþykkt alríkislög sem kveða á um að ekki megi lána bandarískum hermönnum á hærri vöxtum en 36%. Í Kanada er árleg hámarkshlutfallstala kostnaðar lána 60%.

Árleg hlutfallstala kostnaðar

Árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) mælir heildarkostnað við lántöku. ÁHK mælir ekki bara vaxtakostnað heldur innifelur hún allan annan kostnað, s.s. lántökugjald og seðil- og innheimtukostnað (þó ekki vegna vanskila eða vanefnda). ÁHK er notuð til að bera saman mismunandi lánakjör.

Smálánavextir:

Dæmi: 10.000 kr. lán sem tekið er í 15 daga.

Núverandi dæmigerður kostnaður smálána: 2.500 kr. Sé kostnaðurinn umreiknaður í ÁHK er hann 21.176% [ 1,25 í veldinu 360/15].

Hámarksvextir samkvæmt nýju frumvarpi eru 50% auk stýrivaxta sem nú eru 5,75% = 57,75% ÁHK. Því mætti innheimta 208 króna kostnað af sama láni.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.