Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri elli- og hjúkrunarheimilisins Grundar, fæddist í Reykjavík 29.10. 1907. Hann var sonur Sigurbjörns Ástvalds Gíslasonar, kennara, ritstjóra og prests á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund, og k.h.

Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri elli- og hjúkrunarheimilisins Grundar, fæddist í Reykjavík 29.10. 1907. Hann var sonur Sigurbjörns Ástvalds Gíslasonar, kennara, ritstjóra og prests á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund, og k.h., Guðrúnar Lárusdóttur, rithöfundar og alþm. Gísli missti móður sína og tvær systur í mjög sviplegu slysi sem frægt varð, er bifreið með þeim mæðgum rann út í Tungufljót í Biskupstungum 1938. Þetta var eitt fyrsta alvarlega bílslysið hér á landi.

Guðrún Lárusdóttir var önnur konan sem kjörin var á Alþingi. Auk þess dóu þrjú systkina Gísla í barnæsku. Alls urðu systkinin tíu en meðal þeirra voru Lárus, rithöfundur og minjavörður Reykjavíkurborgar, sem var öðrum fremur stofnandi Árbæjarsafns; Friðrik stórkaupmaður og Lára kennari, móðir Einars Þorsteins Ásgeirssonar arkitekts sem vann með Ólafí Elíassyni myndlistarmanni ytra byrðið stórfenglega á Hörpunni.

Gísli stundaði nám við Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan prófum 1927. Hann var um skeið frímerkjakaupmaður en stofnaði Elli- og hjúkrunarheimilið Grund 1934, var forstjóri þess og síðar jafnframt forstjóri Áss í Hveragerði frá 1952.

Auk þess að vinna brautryðjandastarf í þágu aldraðra sinnti Gísli mikið íþróttamálum, bindindismálum og ferðamálum alla tíð. Hann var einn af stofnendum Krabbameinsfélags Íslands og formaður knattspyrnufélagsins Víkings um skeið. Hann gegndi auk þess fjölda trúnaðar- og ábyrgðarstarfa á ýmsum vettvangi.

Gísli kvæntist Helgu Björnsdóttur húsfreyju og eignuðust þau fjórar dætur, Nínu Kristínu, sem hefur starfað lengi við Grund; Sigrúnu, sem lengi var kennari við FÁ; Guðrúnu, forstjóra elli- og hjúkrunarheimilisins Grundar, en sonur hennar er Gísli Páll Pálsson, forstjóri dvalarheimilisins Áss í Hveragerði, og Helgu, sem nú er látin.

Gísli lést 7.1. 1994.