4. nóvember 2012 | Sunnudagsblað | 357 orð | 2 myndir

Jóla-ráð í tíma tekið

Aurar og krónur

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er nóvember genginn í garð og margir eflaust farnir að huga að jólum. Verslanir voru strax í lok október farnar að auglýsa ýmsa afslætti tengda jólunum og um síðustu helgi voru margar þeirra fullar af fólki í jólahugleiðingum.
Nú er nóvember genginn í garð og margir eflaust farnir að huga að jólum. Verslanir voru strax í lok október farnar að auglýsa ýmsa afslætti tengda jólunum og um síðustu helgi voru margar þeirra fullar af fólki í jólahugleiðingum.

Desember er sá mánuður ársins þar sem útgjöld heimilanna eru mest. Samkvæmt Meniga-hagkerfinu voru meðalútgjöld á fjölskyldu 55.000 krónum hærri í desember en í meðalmánuði árið 2011. Upphæðin kemur þó nokkuð á óvart en hún gefur til kynna að spjaldtölva hafi kannski ekki verið aðaljólagjöfin í fyrra, eins og Rannsóknarsetur verslunarinnar spáði. Samkvæmt þessu ætti jólabónusinn að duga vel fyrir jólaútgjöldunum en í fyrra var algengasta upphæð desemberuppbótar 63.800 krónur fyrir skatt sem gera um 40.000 krónur eftir skatt. Vel má þó vera að þeir sem nota Meniga að staðaldri hafi betri yfirsýn yfir heimilisútgjöldin og séu nokkuð passasamir þegar kemur að heimilisfjármálunum. Ef til vill endurspegla þessar tölur því ekki alla þjóðina.

Ef tölur frá Meniga-hagkerfinu eru bornar saman við tölur frá öðrum þjóðum virðumst við Íslendingar langt frá því að vera á meðal þeirra þjóða heimsins sem eyða hvað mestu í jólahátíðina. Fyrir síðustu jól var áætlað að meðal Lúxemborgarbúi kæmi til með að eyða rúmlega 100.000 krónum (800 dollurum) í jólagjafir og meðal Bandaríkjamaður næstum 90.000 krónum (707 dollurum). Við virðumst jafnvel vera hófsamari en Svíar þegar kemur að jólahaldi en í fyrra var áætlað að sænsk heimili eyddu rúmlega 90.000 krónum (4.810 sænskum krónum) að meðaltali í jólahaldið.

Þrátt fyrir að þessar tölur gefi til kynna að við séum nokkuð skynsöm í kostnaði við jólahaldið er mikilvægt að skipuleggja fjármálin fyrir jólin. Nóvemberbyrjun er ágætur tími til að setjast niður og gera litla jóla-fjárhagsáætlun og ná þannig góðri yfirsýn yfir jólaútgjöldin. Þá er byrjað á að taka saman hversu mikla peninga heimilið hefur til þess að eyða í jólahaldið, síðan er gerður listi yfir það sem kaupa þarf fyrir jólin og kostnaður áætlaður. Að lokum eru áætluð útgjöld dregin frá þeirri peningaupphæð sem heimilið hefur til ráðstöfunar. Ef mismunurinn er neikvæður þarf að endurskoða útgjöldin og skoða hvar hægt er að draga úr kostnaði. Svo þarf bara að halda sig við áætlunina.

Áslaug Pálsdóttir

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.