Ein hugsun, sem gengur eins og rauður þráður um skáldskap og heimspeki á Vesturlöndum, er, að gildi lífsins verði ekki mælt eftir lengd þess, heldur hinu, hvernig því hafi verið varið.

Ein hugsun, sem gengur eins og rauður þráður um skáldskap og heimspeki á Vesturlöndum, er, að gildi lífsins verði ekki mælt eftir lengd þess, heldur hinu, hvernig því hafi verið varið. Þetta orðaði skáldið Jónas Hallgrímsson vel í minningarkvæði um séra Stefán Pálsson, sem lést 1841:

Margoft tvítugur

meir hefur lifað

svefnugum segg,

er sjötugur hjarði.

Langlífi væri ekki talið í árum að sögn Jónasar, heldur frjórri lífsnautn, aleflingu andans og athöfn þarfri.

Hugsanlega hafði Jónas þessa hugsun frá danska lögfræðingnum og rithöfundinum Jens Kragh Høst, sem skrifaði 1824 í tímaritinu Clio : „Et Tidsrums Vigtighed beror ikke paa dets Længde.“ Gildi tímabils veltur ekki á lengd þess.

Áður hafði Johann Wolfgang von Goethe sagt í leikritinu Iphigenie 1787: „Ein unnütz Leben ist ein früher Tod.“ Ónotað líf er ótímabær dauðdagi. Goethe sagði einnig í Maskenzug 1818: „So lang man leb, sei man lebendig!“ Á meðan menn eru á lífi, eiga þeir að vera lifandi!

Enn lengra má rekja þessa hugsun aftur. Franski siðfræðingurinn Michel de Montaigne skrifaði í ritgerðasafni (1580): „L'utilité du vivre n'est pas en l'espace, elle est en l'usage.“ Gildi lífsins liggur ekki í fjölda daganna, heldur notkun þeirra.

Einnig á ítalski listamaðurinn Leonardo da Vinci að hafa sagt, að vel notað líf væri langt.

Leiðrétting: Í sögu af orðaskiptum þeirra Magnúsar Torfasonar sýslumanns og Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, sem ég sagði frá á dögunum, hreykti Magnús sér af vera kominn í karllegg af Finni biskupi, og væri sá göfugri . Jón svaraði þá, að sinn leggur, kvenleggurinn, væri vissari.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is