11. nóvember 2012 | Sunnudagsblað | 364 orð | 2 myndir

Reglan um 72

Aurar og krónur

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Oft er erfitt að sjá fyrir sér hvernig vextir og vaxtavextir vinna í raun.
Oft er erfitt að sjá fyrir sér hvernig vextir og vaxtavextir vinna í raun. Nútíma þjóðsaga greinir frá því að Albert Einstein hafi sagt að vaxtavextir væru „áttunda undur veraldar, sá sem skilur hvernig þeir verka ávinnur sér þá, sá sem ekki skilur það, borgar þá“. Hvort sem Einstein sagði þetta eða ekki þá er undramáttur vaxtavaxta mikill. Reglan um 72 er mikilvæg en ofureinföld þumalputtaregla til þess að reikna út hvernig peningar vinna.

Tökum dæmi um 100.000 króna höfuðstól sem ber 5% ársvexti. Eftir eitt ár er upphæðin orðin 105.000 krónur, 5.000 krónurnar sem bættust við eru vextirnir af 100.000 krónunum. Árið eftir færðu hins vegar 5.250 krónur í vexti, því nú reiknast vextirnir af 105.000 krónum og svo koll af kolli. Upphæð sem ber 5% vexti er rúm 14 ár að tvöfaldast, eftir rúm 14 ár er upphæðin því orðin 200.000. Ef vextirnir eru 10% verður upphæðin orðin 200.000 eftir rúm 7 ár.

Reglan: Til að reikna árafjöldann sem tekur upphæð að tvöfaldast skaltu deila 72 með vaxtaprósentunni: 72/vextir = árafjöldi til tvöföldunar

Dæmi: Yfirdráttarlán bera um 12% vexti: 72/12=6. Upphæð yfirdráttarláns tvöfaldast á 6 árum sé hún ekki greidd niður. Líttu nú á hvað gerist í hvert sinn sem upphæð tvöfaldast:1 kr. ... 2 kr. ... 4 kr. ... 8 kr. ... 16 kr. ... 32 kr. ... 64 kr. ... 128 kr. ... 256 kr.

Þess vegna er svo mikilvægt að peningar sem þú átt tvöfaldist sem oftast og peningar sem þú skuldar geri það sem sjaldnast. En hversu oft mun upphæð tvöfaldast á tilteknum tíma? Til að komast að því skaltu deila árafjöldanum með útkomunni í dæminu hér að ofan.

Dæmi: Hversu oft tvöfaldast yfirdráttarlán á 20 ára tímabili? 20/6=3,3. Yfirdráttarlán tvöfaldast rúmlega þrisvar sinnum á 20 ára tímabili sé það ekki greitt niður. 250.000 króna yfirdráttarlán verður rúmar 2.000.000 króna.

Núna hefurðu lært undirstöðuatriði reglunnar um 72. Nýttu þér hana til að láta sparnað eða fjárfestingu tvöfaldast aðeins oftar yfir langan tíma og til dæmis gæti eftirlaunasjóðurinn orðið margfalt stærri. Hugsaðu líka um hversu hratt skuldir sem bera háa vexti vaxa. Það getur skipt sköpum við lántökur og fjárfestingu að gera sér grein fyrir tvöföldunartíma fjár.

Breki Karlsson

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.