Helga Pálsdóttir fæddist í Hnífsdal 19. september 1917. Hún andaðist á sjúkrahúsinu á Ísafirði 29. október 2012. Foreldrar hennar voru Páll Pálsson útvegsbóndi, f. 10. júlí 1883, d. 26. mars 1975, og Guðrún Guðríður Guðleifsdóttir húsmóðir, f. 4. júlí 1895, d. 3. mars 1923. Systkini Helgu eru: Páll, skipstjóri, f. 1. apríl 1914, d. 19. desember 1994, Jóakim, framkvæmdastjóri, f. 20. maí 1915, d. 8. september 1996, Halldór, f. 4. ágúst 1916, d. 6. júní 1917, Leifur Guðmundur, skipstjóri, f. 28. nóvember 1918, d. 22. júlí, 1999, Kristján, f. 25. maí 1920, d. 1. desember 1941, og Halldór Gunnar, verkstjóri, f. 5. nóvember 1921. Helga giftist 28. október 1939 Skúla Hermannssyni, sjómanni frá Ögurnesi við Ísafjarðardjúp, f. 5. maí 1918. Skúli lést af slysförum við veiðar á Nýfundnalandsmiðum 1. janúar 1959. Foreldrar Skúla voru Hermann Björnsson, útvegsbóndi, og Guðfinna Andrésdóttir, húsfreyja, í Ögurnesi. Börn Helgu og Skúla eru 1) Guðrún Kristín Skúladóttir, f. 3. apríl 1940, maki Carl Andreas Bergmann (d. 2. apríl 2011). Þau eiga fimm börn. 2) Hermann Kristinn, f. 24. mars 1943, d. 18. júní 2001, maki Sólveig Sigurjóna Gísladóttir. Þau eiga fimm börn. 3) Páll Skúlason, f. 8. desember 1945, maki Jóhanna Einarsdóttir. Þau eiga þrjú börn. 4) Guðfinna Skúladóttir, f. 7. október 1952, maki Kristján Guðmundsson. Þau eiga þrjá syni. 5) Helga Guðbjörg Skúladóttir, f. 31. mars 1955, maki Hilmar Rúnar Sigursteinsson. Þau eiga eina dóttur. Fyrri maki er Hjörtur Ágúst Helgason. Þau eiga þrjá syni. Helga var fædd og uppalin í Hnífsdal og bjó þar mestan hluta ævi sinnar. Hún nam við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði árið 1936. Hún varð ráðskona á heimili föður síns þegar Kristín Jónsdóttir (f. 17. mars 1883, d. 20. nóvember 1935) seinni kona hans fellur frá. Skúli og Helga bjuggu á Brekkunni hjá Páli föður hennar þegar Skúli ferst og hélt Helga heimili þar meðan hann var á lífi. Utan heimilisins starfaði Helga á símstöðinni, í kaupfélaginu og hraðfrystihúsinu í Hnífsdal. Hún var einnig ötull þátttakandi í starfi Kvenfélagsins Hvatar og heiðursfélagi í Slysavarnadeildinni í Hnífsdal. Síðustu árin bjó hún á Hlíf, íbúðum aldraðra á Ísafirði. Helga verður jarðsungin frá Ísafjarðarkirkju í dag, 10. nóvember 2012 og hefst athöfnin klukkan 13.

Kveð ömmu mína Helgu Pálsdóttir með söknuði í hjarta. Eins og margir á ég mínar bestu minningar með henni þegar ég var að alast upp og sendur vestur með flugi á Ísafjörð, veit ekki hvernig því var arinserað en alltaf var einhver að ná í mann útá flugvöll en oftast kom þá Hermann Skúlason út á flugvöll á vínrauðu Kortínunni að sækja mig, það er að segja þegar hann var ekki á sjó. Það voru engin smáforréttindi að fá að fara í Hnífsdal úr borginni í þá daga. Ég var varla fyrr kominn inn í bíslagið að maður vildi fara úr ferðafötunum og út að leika, og þegar ég kom út á hlað mætti ég annað hvort Venna gamla eða Júllu í búð, Venni vildi senda mig beint suður aftur, og þá í stórum póstpoka sem var nóg til af á símstöðinni hjá Ingu Jóns. En í þá poka vildi ég ekki fara, svo var hlaupið niður trampinn og þá mætti maður Júllu og fékk einn blautan, ja ekki á kinnina heldur beint á munninn, en ekki var maður kysstur aftur yfir sumarið hjá henni, því eitt af því skemmtilega sem ég ásamt öðrum prökkurum í dalnum gerði var að stríða henni. En alltaf fékk maður blautan vorið eftir svo skrítið sem það var, sú gamla var trúlega búin að gleyma síðasta sumri. Friggi í Hrauni kom gangandi fyrir framan hestinn með hestvagninn aftaní  með mjólkina á vagninum á leið í kaupfélagið, stundum rölti maður með honum niður trampinn, nú þegar niður trampinn var komið blasti við stefnið á Stundvís bundin á hallandi sliskju í bili á steyptum vegg í fjörunni. Þessi trilla Stundvís átti maður eftir að fara nokkra túra á með afa Páli bæði á færi og grásleppu, ja allavegana var verið að reyna að ala mann upp eins og það er kallað og átti amma stóran þátt í því. Nú frá kaupfélaginu var oftast ferðinni heitið uppá bakka til Palla Skúla frænda, og jafnvel með honum að ná í póst og bera hann út, og síðan eitthvað að bralla. Og lækurinn uppi á brekkunni var þvílíkt aðdráttarafl, smíðaðir voru ófáir trébátar sem notaðir voru í þessum læk. Ekki veit ég hvað amma þurfti að opna hlerann oft niður í kjallara til að þvo eða þurrka af manni blaut föt, man eftir að þegar ég kom í þriðja sinn heim blautur á sama deginum sagði hún að næst ef ég blotnaði fengi ég ekki að fara aftur út og háttaður niður í rúm. Man ekki eftir hvort ég blotnaði í það fjórða, en þorði ekki allavega inn nema þurr um kvöldið, en allavegana var fullt af stöðum til að blotna á, lækurinn á brekkunni, fjaran, Hnífsdalsáinn, jesúss hvað var gaman að blotna. Og alltaf vissi hún þegar maður var inní fjósi hjá Venna gamla, skildi aldrei hvernig hún fattaði það, en fjósalykt var ekki í uppáhaldi hjá henni, og alls ekki af fötunum mínum.

Þegar ég kom fyrst á brekkuna í Pálshús bjuggu þar afi Páll, Helga amma, Guffa frænka og Helga frænka, á efri hæðinni var saumaherbergi, herbergið hennar ömmu, herbergið hennar Guffu og svo herbergið mitt eins og ég kallaði það þegar ég var þar, og þaðan sá ég yfir dalinn og út á djúpið, ekkert smá útsýni.

Á neðri hæðinni var stofa, eldhús, herbergið hans afa Páls og stærsta klósett í heimi, já þeir vita hvað ég er að tala um sem hafa komið á það, og svo kjallari sem var bæði þvottahús, búr og olíufíringinn.

Ég vaknaði á morgnana það var algert atriði að bursta tennur og þvo sér í framan með þvottapoka, í morgunmat var hafragrautur, svo hádegismatur, miðdegis kaffi, snúðar, vinarbrauð, kleinur, besta meðlæti í heimi, kvöldmatur, allir þessir matmálstímar ekki málið. Svo var maður baðaður á kvöldin, þá var það sko þvottapoki, naglabursti og alles, enda eins og ný sleginn túnskildingur þegar öllu þessu var lokið. Svo bað hún með mér bænirnar og boðið góða nótt elsku vinurinn minn.
Alltaf var hún vel til höfð og flott, blótaðir aldrei nema bara þá asskorin og það var ekki oft. Og aldrei man ég eftir að nokkur maður talaði illa um hana. Amma mín dvaldi á Hlíf á Ísafirði síðustu æviárin, og líkaði vel, þegar hún kom suður, vildi hún stoppa sem allra styðst, hennar staður var fyrir vestan.
Svo kom að því að hún kvaddi þennan heim og fékk að fara til sinna nánustu. Nú hvílir hún við hlið afa míns Skúla Hermannssonar í Hnífsdalskirkjugarði með útsýni yfir djúpið og dalinn. Hvíl í friði elsku amma mín.
Kveðja

Skúli Bergmann.