Fyrir nokkru hélt ég því hér fram, að munurinn á ensku og bandarísku byltingunum annars vegar og frönsku og rússnesku byltingunum hins vegar væri, að hinar fyrrnefndu hefðu heppnast, en hinar síðarnefndu ekki.

Fyrir nokkru hélt ég því hér fram, að munurinn á ensku og bandarísku byltingunum annars vegar og frönsku og rússnesku byltingunum hins vegar væri, að hinar fyrrnefndu hefðu heppnast, en hinar síðarnefndu ekki. Örn Ólafsson bókmenntafræðingur andmælti mér um frönsku byltinguna. Þar hefði yfirstéttin verið svipt forréttindum sínum. Örn horfir fram hjá því, að sums staðar hefur tekist að afnema forréttindi án teljandi blóðsúthellinga. Frönsku byltingunni lauk hins vegar með ógnarstjórn Maximiliens Robespierres og síðan valdaráni Napóleons Bonapartes.

Margt hefur hins vegar verið sögulegt sagt um frönsku byltinguna. Fræg eru til dæmis orð Edmunds Burkes þegar árið 1790, fyrir daga ógnarstjórnarinnar: „In the groves of their academy, at the end of every vista, you see nothing but the gallows.“ Í skógarrjóðrum þessara skólaspekinga, alls staðar þar sem út fyrir sést, ber gálga við himin.

Spádómur Burkes rættist, nema hvað byltingarmennirnir tóku upp fljótvirkari aftökuvél en gálga, fallöxina. Þegar ein byltingarkonan, frú Roland, var leidd á höggstokkinn 8. nóvember 1793, var hún hvítklædd og með sítt, svart hár, slegið. Hún sneri sér að styttu af frelsisgyðjunni og mælti: „Ô liberté! Ô liberté! Que de crimes on commet en ton nom!“ Frelsi, ó, frelsi! Hversu margir glæpir hafa verið framdir í nafni þínu! Annar byltingarmaður, Pierre Vergniaud, sem einnig lét lífið á höggstokknum, sagði, að byltingin æti börnin sín, og hefur oft verið til þeirra orða verið vitnað síðan.

Hannes Pétursson orti um leið drottningarinnar frönsku, Marie Antoinette, á aftökustaðinn:

Er von hún skilji að allur þessi æsti

óhreini lýður, þetta grimma vopn

sem blikar þarna blóðugt, óseðjandi

sem bölvað skrímsli, sáir dauða og kvöl

sé hvítur draumur hugsuðanna, framtíð

hollari betri og eina völ

en hitt sem nú skal rifið upp með rótum;

hið rotna stjórnarfar og mikla böl

sé hún sem yfir hópinn orðlaus starir

hrein og föl.

Hér áttu líka við orð Halldórs Kiljans Laxness í Kristnihaldi undir Jökli , þegar hann talaði um hina „hörundslausu tröllskessu Byltíngu sem vildi mannblót“.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is