30. nóvember 2012 | Minningargreinar | 2951 orð | 1 mynd

Stefán Björgvinsson

Stefán Björgvinsson fæddist í Hafnarfirði 7. desember 1945. Hann andaðist á líknardeild Landspítalans 22. nóvember 2012.

Foreldrar hans voru, Björgvin Sigmar Stefánsson vélstjóri, f. 1910, d. 1972, Kristín Böðvarsdóttir, f. 1920, d. 1949. Fósturmóðir Stefáns var Selma Böðvarsdóttir, f. 1918, d. 13. maí 2012. Systkini Stefáns eru Sigríður, f. 12. september 1940. Böðvar, f. 16. nóvember 1942, d. 26. október 1999. Guðný, f. 1. ágúst 1944.

Hinn 4. október 1969 giftist Stefán Huldu Karen Ólafsdóttur, f. 14. desember 1949. Foreldrar hennar eru Ólafur Karlsson, fyrrv. framkvæmdastjóri, f. 28. maí 1927, og Rósa Fjóla Hólm Guðjónsdóttir, f. 23. maí 1927. Börn þeirra hjóna eru; 1) Ólafur, hann starfar við vinnslu kjarnabora, k.h., er Lilja B. Eysteinsdóttir hárgreiðslukona, þau eiga tvö börn, Svanhvíti og Burkna. Þau eru búsett í Noregi. 2) Björgvin Sigmar, húsasmiður og framkvæmdastjóri í Hafnarfirði, k.h., er Steinunni Jóhanna Sigfúsdóttir leiðbeinandi, börn þeirra eru Stefán Ægir og Sigríður Karen. Sonur Steinunnar Jóhönnu er Jökull Steinan Jökulsson, sonur hans er Orri Oleví. 3) Stefán Karl, hann starfar sem leikari, k.h., er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona. Börn þeirra eru Júlía og Þorsteinn. Fyrir átti Steinunn Ólína, Bríeti Ólínu og Elínu Þóru. Þau eiga lögheimili í San Francisco.

Eftir hefðbundið skyldunám stundaði Stefán sjómennsku og almenna verkamannavinnu. Honum var umhugað um launakjör verkafólks í landinu og sat um tíma í stjórn Hlífar í Hafnarfirði. Hann starfaði einnig hjá Hval hf., bæði á hvalbátum og sem bílstjóri hjá frystihúsi fyrirtækisins í Hafnarfirði. Síðar vann hann hjá Síldarútvegsnefnd við eftirlitsstörf víða um land og erlendis. Þegar Síldarútvegsnefnd var lögð niður hóf hann störf hjá Saltkaupum. Síðustu árin vann hann hjá Þurrktækni ehf. í Hafnarfirði, þar vann hann við að bjarga húseignum vegna tjóna og sótti sér fræðslu um málefnið til Bandaríkjanna. Stefán unni knattspyrnu og sat hann um tíma í stjórn Knattspyrnufélagsins Hauka í Hafnarfirði.

Útför Stefáns Björgvinssonar verður gerð frá þjóðkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 30. nóvember 2012, klukkan 17.

Minn kæri vinur. Þú gafst mér svo mikið, ekki einungis vináttu og ást heldur tryggð þína og trúnað. Hugur minn verður alltaf hjá þér.

Ég vil þakka þeim sem veittu okkur hjónum stuðning í veikindum Stebba, fjölskyldu, vinum, vinnufélögum, en ekki síst heimahlynningu Landspítalans, þeirra stuðningur var okkur ómetanlegur.

Það má segja að lífið taki stundum aðra stefnu en við ætlum okkur og allt er í heiminum hverfult. Árin sem okkur eru gefin hér á jörð eru dýrmæt og mikilvægt að nýta tímann vel. Það vissi Stebbi, en hann var ekki alltaf að hugsa um sig heldur setti fjölskylduna ávallt í fyrsta sæti. Ég og strákarnir okkar eigum góðar minningar og þær getur enginn tekið frá okkur.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Þín

Hulda.

Elsku pabbi minn. Það er óhætt að segja að það hafi verið stuttur tími frá því þú veiktist og þar til þú kvaddir okkur fimmtudaginn 22. nóvember. Ég var á leiðinni til landsins vikuna á eftir og hlakkaði til að fá að sjá þig. En þá kom símtalið, þú hafðir kvatt þennan heim, elsku pabbi minn. Þú varst einn heiðarlegasti og besti maður sem ég hef kynnst á ævinni og kenndir mér svo margt. Reyndist mér ætíð vel og svo mörgum öðrum. Þú varst skemmtilegur, bjóst yfir miklum styrk og einstökum húmor. Tókst lífinu og sérstaklega veikindum þínum með algeru æðruleysi, alltaf léttur í lund þegar ég talaði við þig í símann, sem var nánast daglega. Við gátum rætt saman um allt, þú varst traustur maður og vinur minn.

Þú skilur eftir þig stórt tómarúm. Börnin okkar bræðra dýrkuðu þig, þú varst mikill afi. Ég hefði viljað að börnin mín hefðu séð þig oftar og ekki síst um jólin en þá ætluðum við Lilja, Burkni og Svanhvít að koma til ykkar mömmu.

Þú varst fyrirmyndin mín, takk elsku pabbi minn. Ég segi það sama við þig og þú sagði við mig þegar ég var lítill: Guð geymi þig.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

Eg veit einn

að aldrei deyr:

dómur um dauðan hvern.

(Úr Hávamálum)

Ólafur (Óli)

Það kemur fátt annað í huga mér en þakklæti þegar ég minnist þín, elsku pabbi minn. Það voru forréttindi að eiga þig fyrir pabba. Þú varst aldrei niðurlútur eða barst vonleysi á borð. Ég tók þér stundum sem sjálfsögðum hlut, en sá þó reglulega að það er ekki sjálfsagt að eiga pabba eins og þig. Þú kenndir mér svo margt alla tíð, allt þar til þú fórst. Æðruleysið og kjarkurinn var óbilandi í erfiðri baráttu síðustu mánuðina. Það hvarflaði aldrei að þér að lúta í lægra haldi.

Húmorinn og léttleikinn var verkfæri og vopn sem þú brýndir reglulega. Þau bitu á næstum hvað sem var. Að snúa depurð og vonleysi í léttleika og nýjan tilgang er fáum gefið. Jafnvel færustu þerapistar hefðu fölnað í samanburðinum. Þú áttir þinn æðri mátt sem þú barst í brjósti þínu þar til yfir lauk. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vinna við hlið þér. Nú hefur skarð myndast í múrinn sem erfitt verður að fylla. Ég fæ verkfærin þín lánuð og legg mig fram við að halda þeim beittum. Ég finn strax fyrir styrknum frá þér. Þú fannst þinn eigin tilgang með lífinu, þá tilgangurinn helgaði meðalið. Þú varst góður maður og besti pabbi sem hægt var að hugsa sér.

Nú kveð ég þig, elsku pabbi minn, og varðveiti þær góðu minningar sem ég á um þig.

Takk fyrir allt sem þú gafst mér.

Loks beygði þreytan þína dáð,

hið þýða fjör og augnaráð;

sú þraut var hörð – en hljóður nú

í hinsta draumi brosir þú.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Björgvin Sigmar Stefánsson.

Elsku pabbi minn, það er svo margt sem ég gæti sagt en þessi texti finnst mér fanga það sem mér fannst kærast í fari þínu.

Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.

Ó, pabbi minn, þú ávallt tókst mitt svar.

Aldrei var neinn svo ástúðlegur eins og þú.

Ó, pabbi minn, þú ætíð skildir allt.

Liðin er tíð, er leiddir þú mig lítið barn.

Brosandi blítt, þú breyttir sorg í gleði.

Ó, pabbi minn, ég dáði þína léttu lund.

Leikandi kátt, þú lékst þér á þinn hátt.

Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.

Æskunnar ómar ylja mér í dag.

(Þorsteinn Sveinsson)

Ég vil þakka þér fyrir allt og kveð þig með sömu orðum og þú mig þegar þú breiddir yfir mig sængina á kvöldin þegar ég var strákur.

„Góða nótt, sofðu rótt og guð geymi þig.“

Stefán Karl.

Í dag kveð ég með söknuði elskulegan tengdapabba minn, Stefán Björgvinsson, afa Stebba eins og hann var jafnan kallaður á heimili okkar Stefáns Karls. Tengdapabbi var maður sem aldrei unni sér hvíldar, vann erfiðisvinnu allt sitt líf og sparaði sig aldrei ef aðrir þurftu á aðstoð að halda. Ég hafði stundum áhyggjur af því að hann gerði ekki nægar kröfur fyrir sjálfan sig, kynni ekki að slaka á og njóta lífsins en það gerði hann nú á sinn hátt. En hann var alltaf að, leiddist að sitja kyrr og hafði megnustu óbeit á leti.

Ánægðastur var hann í sveitinni sinni þar sem ég kynntist honum vel fyrst. Hulda og Stefán byggðu bústað frá grunni og ræktuðu land sem á sér vart hliðstæðu. Sannkölluð sumarhöll. Ef himnaríki er til þá er það einhver svona staður, þar sem allt er grænt og vænt og öllu haganlega fyrir komið.

Það fór ekki á milli mála að þar sem Hulda og Stebbi gerðu sér heimili bjuggu ástfangin hjón. Mér varð ljóst frá upphafi að Stebbi og Hulda áttu alveg sérlega ástríkt samband. Þau voru á stundum bara eins og ástfangnir krakkar. Þeim auðnaðist það sem sumir öðlast aldrei að eignast ástvin og sálufélaga hvort í öðru. Það var lærdómsríkt að verða vitni að því hvernig þau í sameiningu leystu alla hluti af yfirvegun og með jákvæðu hugarfari.

Afi Stebbi stappaði stálinu í alla sem stóðu honum nærri, honum leiddist sífur, úrtölur og neikvæðni. Hann var bjartsýnn og jákvæður að upplagi og hvatti mann ævinlega til dáða og stóð við hlið manns þegar á móti blés.

Þegar við Stefán Karl rugluðum saman reytum fyrir réttum tíu árum tóku hann og Hulda mér og stelpunum mínum opnum örmum frá fyrsta degi. Og mikið sem hann var kátur þegar litlu börnin Júlía og Þorsteinn bættust í hópinn.

Afi Stebbi var kátur og uppáfinningasamur en raungóður og blíður ef grenjur skullu á. Hans er nú sárt saknað á heimili okkar Stefáns Karls.

Harmur Huldu er mikill, að sjá á eftir kærastanum sínum, en það var hann sannarlega enn eftir 45 ára samfylgd þeirra hjóna.

Steinunn Ólína

Þorsteinsdóttir.

Hvað lífið getur oft verið ófyrirsjáanlegt og ósanngjarnt. Vinur okkar og mágur Stefán Björgvinsson lést að morgni 22. nóvember, aðeins 66 ára að aldri. Stebbi, eins og hann var yfirleitt kallaður, veiktist fyrir rúmum tveimur mánuðum. Og nú er Stebbi allur, hann hefði orðið 67 ára 7. desember. Hulda systir og mágkona orðin ekkja og börnin, barnabörnin, vinir og aðrir vandamenn með brostin hjörtu.

Minningarnar hrannast upp og allar góðu stundirnar sem við áttum með Stebba og Huldu. Ofarlega er okkur í huga þegar við hjónin vorum að bíða eftir að fá afhenta fyrstu íbúðina okkar og vorum húsnæðislaus. Þá voru það Stebbi og Hulda sem tóku okkur inn á sitt heimili á Selvogsgötunni með frumburð okkar Hörð. Þetta erum við ávallt þakklát fyrir og gleymist aldrei.

Líka þegar við fórum saman í sumarfrí á Bjöllunni þeirra með hvor með sitt tjaldið og tjölduðum m.a. í Þórdísarlundi í Vatnsdalnum. Það var skemmtilegt ferðalag. Góðar minningar eru margar og ætlum við að eiga þær í hjarta okkar.

Stebbi var mikill tónlistaráhugamaður. Var Elvis Presley í miklu uppáhaldi hjá honum eins og hjá okkur. Á góðum stundum tókum við oft fram Presley-safnið og hlustuðum fram á nótt og sungum með. Og þegar við hjónin komum heim eftir að hafa kvatt Stebba á banabeðnum settum við á lagið „Always on my mind“ með Elvis og tárin streymdu.

Stebbi var sérlega góður maður með hjarta úr gulli og væri heimurinn miklu betri ef fleiri Stebbar væru til. Hann var yndislegur eiginmaður, afi og langafi, var elskaður af öllum sem honum kynntust. Hann hafði skemmtilegan húmor og var auðvelt að koma honum til að hlæja.

Stebbi og Hulda kynntust á Seyðisfirði fyrir rúmlega 43 árum þar sem þau voru að vinna saman í síldinni, sem betur fer höguðu örlögin því svo að þau urðu ástfangin og var ætlað að eiga líf saman og eignast þessi yndislegu börn og barnabörn. En aftur kippa örlögin í taumana, en á verri veg og allt er breytt. En ég veit að yndisleg fjölskylda þeirra mun standa saman á þessum erfiða tíma eins og Stebbi vildi hafa það.

En Stefán Björgvinsson gleymist aldrei, hann verður alltaf í huga okkar, eða eins og Elvis Presley söng „Always on my mind“.

Við hjónin viljum þakka Stebba yndisleg ár og vottum Huldu systur og mágkonu, börnum og barnabörnum, öðrum vinum og vandamönnum okkar hjartanlegar samúðarkveðjur.

Megi Guð vera með ykkur og blessa á þessum erfiða tíma.

Magnús Ólafsson og

Elísabet Sonja Harðardóttir.

Elsku bróðir minn.

Mikið er erfitt að kveðja þig, ég er ekki sátt við það.

Skrítið að eiga ekki eftir að heyra í þér í símanum í hverri viku, alltaf að stappa í mig stálinu. Þú varst alltaf svo góður og hjálpsamur. Ég hugsa til Huldu þinnar og fjölskyldu, söknuður þeirra er mikill. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú varst mér og gerðir fyrir mig. Ég ætla ekki að skrifa meira, en geyma allar góðar minningar um þig frá því þú varst barn í hjarta mínu. Ég kveð þig með þessu ljóði.

Ég stundum er á ferð um dimma dali

og dags og nætur veit ég ekki skil.

Mig dreymir þá um allt sem auðgar lífið

og óska þess að bráðum rofi til.

Þú styrkir mig, ég stend á hæstu tindum.

Þú styður mig í gegnum hverja þraut.

Þú gefur þyrstum veig af lífsins lindum.

Þú leiðir mig á gæfu minnar braut.

En stundum er ég undraljóma vafinn

og allt í kring er fagurt, bjart og milt.

Ég er sem upp í æðri heima hafinn

og hugsun mín er ást og gæsku fyllt.

(Þýð. Hjálmar Jónsson.)

Hafðu þökk fyrir allt, elsku bróðir.

Þín systir,

Sigríður Björgvinsdóttir (Sigga).

Á þessum degi vildi ég minnast Stefáns Björgvinssonar, þess mæta manns sem nú er fallinn frá um aldur fram. Við Stefán vorum feður og tengdafeður leikaranna og hjónakornanna Steinunnar Ólínu og Stefáns Karls. Við tókum hlutverkið alvarlega og lékum það nokkurn veginn skammlaust, held ég megi segja, þó að sjálfir værum við reyndar lítt leikaralega vaxnir. Sitthvað fleira áttum við Stefán sameiginlegt, til að mynda mikinn áhuga á djassi. En Stefán var dulur maður og ég get varla sagt að ég hafi kynnst honum mjög náið, en ætíð verður mér minnisstætt hvað hann var hlýr og örlátur, og umfram allt heilsteyptur maður. Blessuð sé minning hans. Ekkju Stefáns, Huldu Karenu Ólafsdóttur, og vandamönnum öllum sendi ég hugheilar samúðaróskir.

Þorsteinn Þorsteinsson.

Elsku Stebbi, besti frændi.

Mig langar að skrifa þér nokkrar línur, ég er ekki sátt við að kveðja þig strax. Allt er búið að gerast svo hratt og erfitt að trúa að þú sért farinn. Ég á svo margar fallegar og góðar minningar með þér og Huldu frá því ég var lítil stelpa og alla tíð síðan. Heimili ykkar var alltaf opið, þið reyndust mér alltaf vel og eruð stór hluti af mínu lífi. Faðmurinn þinn var hlýr og alltaf opinn, sálin falleg og góð. Ég brosi í gegnum tárin þegar ég hugsa um þig. Gleðistundirnar voru margar t.d. þegar þú söngst Prestley-lögin og Everly brothers við undirspil Bjössa og sagðir svo „I love'it“ sem enginn getur sagt eins og þú, þá brostum við allan hringinn.

Ég veit þú færð besta sætið á himnum, horfir á fólkið þitt og verður með okkur áfram.

Elsku Hulda, Óli, Björgvin, Stefán Karl og fjölskyldur, mamma og Guðný. Megi allir fallegu englarnir umvefja ykkur og styrkja. Fallega minningin um Stebba fylgir okkur alltaf og við getum brosað í gegnum tárin.

Sindri og Lára Rut senda þér kveðjur, þú varst þeim alltaf svo góður.

Bless elsku frændi, við hittumst síðar.

Þín frænka,

María Björg Klemensdóttir (Maja).

Elsku Stebbi minn.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Um fagra slóð þú ferðast hér,

er fæðist dimmur vetur,

í leit að því sem lætur þér

líða miklu betur.

(Kristján Hreinsson.)

Þín verður sárt saknað. Takk fyrir allt og allt.

Elsku Hulda og fjölskylda, Guð gefi ykkur styrk í sorginni, hugur minn er hjá ykkur.

Arnar Klemensson.

Kær vinur hefur lotið í lægra haldi fyrir manninum með ljáinn eftir stutta en harða baráttu við krabbamein. Huldu hans Stebba kynntist ég á skólaárum mínum í sjúkraliðanáminu fyrir tuttugu og sjö árum. Upp úr þeim hóp myndaðist strax traustur vinkvennahópur sem haldið hefur saman allt til dagsins í dag. Eiginmenn okkar urðu fljótt partur af hópnum. Á hverju ári höfum við átt margar ljúfar samverustundir saman. Farið saman til útlanda, haldið sameiginleg matarboð og síðast en ekki síst á hverju ári farið í svokallaða útilegu. Margar okkar eiga sumarhús og árlega hittumst við í kringum Jónsmessuna í sumarhúsi einhverra okkar þar sem plantað er tjöldum, tjaldvögnum, húsbílum eða gist innan dyra. Þessi sumarsamverustund er eitt það skemmtilegasta sem við gerum saman. Við gleymum aldrei „blautu“ helginni eins og við köllum hana oft vinkonurnar. Það sumarið vorum við í sumarhúsi Huldu og Stebba með tjöld og tjaldvagna. Það rigndi látlaust alla helgina og allt var á floti. En við létum það ekki aftra okkur, áfram skyldi haldið í gleðinni. Hulda og Stebbi stóðu í ströngu við að þurrka fötin af mannskapnum. Síðastliðið sumar áttum við svo yndislega helgi saman á Laugarbakka hjá Hlíf vinkonu okkar og Stefáni í brakandi sumarblíðu. Ekki hafði okkur grunað að það yrði síðasta árlega útilegan okkar með Stebba. Hans verður sárt saknað í hópnum okkar og næst þegar við komum saman þá verður skrýtið að hafa ekki Stebba þar. Minningin um ljúfan vin lifir í huga okkar. Elsku Hulda, hugur okkar er og hefur verið hjá þér. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til þín og fjölskyldu þinnar.

Sigríður og Guðjón.

Einhvers staðar í minningunni er sólríkur dagur á Hraunbrúninni hjá tengdaforeldrum mínum. Þetta var seint á sjöunda áratugnum og Stebbi var órólegur og eftirvæntingarfullur. „Ég er að bíða eftir stúlkunni sem ég elska,“ sagði hann. Svo kom stúlkan, keyrandi á svörtum Benz!

Síðan þá hafa Hulda og Stebbi gengið saman um götur lífsins í blíðu og stríðu. Nöfn þeirra verða ekki aðskilin, ef þú nefnir annað fylgir hitt; Stebbi og Hulda. Samband þeirra var einstakt.

Í lífi þeirra hafa skipst á skin og skúrir rétt eins og hjá öðrum sem hafa verið saman í meira en fjörutíu ár. Strákarnir þeirra, fjörkálfarnir Óli, Björgvin og Stefán Karl héldu þeim við efnið og það var oft mikið fjör. Þau hafa alltaf búið í Hafnarfirði, Stebbi vildi hvergi annars staðar vera, borinn og barnfæddur Gaflarinn. Hann var örlátur, ljúfur og brosmildur prakkari með afskaplega notalega nærveru sem allir sem þekktu hann fundu fyrir og hann var vinsæll. Hann var músíkalskur og skemmtilegur, dáði jafnt Presley og Pavarotti og naut þess mjög að hlusta á góða tónlist. Stebbi var líka maðurinn sem alltaf var til staðar fyrir alla þá sem þurftu á honum að halda. Það munu margir sakna vinar í stað. Minningarnar eru óteljandi og alls staðar er Stebbi glettinn á svipinn, hægur og rólegur en staðfastur eins og klettur. Stebbi var góður maður.

Fyrir mína hönd og barna minna þakka ég Stefáni Björgvinssyni samfylgdina og óska honum góðrar heimferðar. Elsku Hulda, hugur okkar er hjá þér og fjölskyldunni.

Nína Stefnisdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.