Innanríkisráðherrar Að loknum fundi ráðherranna sýndi Ögmundur Jónasson Kára Höjgaard og Anton Fredriksen efni í Morgunblaðinu.
Innanríkisráðherrar Að loknum fundi ráðherranna sýndi Ögmundur Jónasson Kára Höjgaard og Anton Fredriksen efni í Morgunblaðinu. — Mynd / Jóhannes Tómasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innanríkisráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands hafa handsalað samkomulag um nánara samstarf með formlegri þátttöku fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ráðherrarnir segja þessi þrjú vestnorrænu ríki eiga margt sameiginlegt, m.a.
Innanríkisráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands hafa handsalað samkomulag um nánara samstarf með formlegri þátttöku fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ráðherrarnir segja þessi þrjú vestnorrænu ríki eiga margt sameiginlegt, m.a. á sviði sveitarstjórnarmála, og hafa áhuga á að koma á nánara og formlegra samstarfi landanna.

Innanríkisráðherra Færeyja er Kári Höjgaard og innanríkisráðherra Grænlands Anton Fredriksen og hafa þeir ásamt Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra hist síðustu misseri á fundum sveitarstjórnarráðherra Norðurlandanna skv. upplýsingum innanríkisráðuneytisins. Hafa þeir átt viðræður um innflytjendamál, sveitarstjórnarmál, björgunar- og almannavarnamál o.fl.

,,Þetta hafa verið mjög gagnlegar og ánægjulegar viðræður og við höfum á þessum fundum okkar fundið þörf fyrir að við og sérfræðingar ráðuneytanna og þeir sem koma formlega að sveitarstjórnarmálum landanna eigi nánara samstarf um margt sem við eigum sameiginlegt,“ er haft eftir Ögmundi í frétt frá innanríkisráðuneytinu. Sér hann m.a. fyrir sér aukið samstarf á sviði viðbúnaðar- og björgunarmála í samræmi við aukna skipaumferð á Norðurslóðum.

Undir það tóku starfsbræður hans og Anton Fredriksen minnti á að á Grænlandi hefðu sveitarfélög sameinast og væru þau nú aðeins fjögur. Mikil umræða hefði farið fram um sjálfstæði sveitarfélaga og verkaskiptingu þeirra og ríkis. Kári Höjgaard sagði mikla umræðu í Færeyjum um verkaskiptingu og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Þjóðskrá í samstarf við Umhvørvisstovan

Þjóðskrá Íslands og systurstofnun hennar Umhvørvisstovan, í Færeyjum hafa gert með sér samkomulag um samstarf.

Samkomulagið felur í sér að stofnanirnar munu eiga með sér víðtækt samstarf næstu þrjú árin. Munu sérfræðingar hvorrar um sig kynna sér hliðstæða starfsemi hjá hinni auk þess að deila þekkingu og reynslu varðandi skráarhald og þróun kerfa.

Yfirlýsing um samkomulagið var undirrituð af forsvarsmönnum stofnananna á föstudag, að viðstöddum innanríkisráðherrum Íslands og Færeyja.