Ester Guðjónsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 4. apríl 1934. Hún lést á Sjúkrahúsinu í Stykkishólmi 2. desember 2012. Foreldrar hennar voru Guðjón Hafliðason útgerðarmaður og Halldóra Kristín Þórólfsdóttir húsmóðir. Ester ólst upp á Skaftafelli, Vestmannabraut 62. Hún var næstyngst í hópi 11 systkina. Ester gekk í hjónaband 1. október 1955. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Benedikt Frímannsson f. í Fljótum í Skagafirði 27.7. 1930. Ester og Benedikt eignuðust 5 börn. Rebekka, f. 21.1. 1957, drengur andvana fæddur 16.4. 1958 , Rakel, f. 4.11. 1959, Kristín, f. 19.6. 1962 og Líney, f. 3.10. 1963. Barnabörnin eru 14 og barnabarnabörnin einnig 14. Ester og Benedikt hófu sinn búskap í Vestmannaeyjum. Þau fluttu til Reykjavíkur 1964. Árið 1971 hófu þau búskap að Stórholti í Dölum og bjuggu þar til ársins 1990. Þau byggðu sér hús í Stykkishólmi og bjuggu í Hólminum síðustu árin. Útför Esterar fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 8. desember 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Í barnæsku voru nokkrar mikilvægar stærðir sem römmuðu af hinn þekkta heim. Þetta voru foreldrar, systkin, afar og ömmur og aðrir nánir ættingjar. Ég hef verið svo heppinn að alast upp í nánu sambandi við skyldfólk mitt í báðum ættum. Nánast varð þó sambandið við fjölskyldu Esterar og Benna. Pabbi var yngstur ellefu systkina og Ester næst yngst og alla tíð hafa fjölskyldur þeirra verið eins og ein.

Sambúðin hófst í Vestmannaeyjum þar sem ég fæddist inn í þessa fjölskyldueiningu tveggja yngstu Skaftafellssystkinanna. Húsið var og er enn kallað Beggastaðir og þar deildu foreldrar mínir íbúð með Ester og Benna. Næst bjuggu fjölskyldurnar saman í Miðtúni 32 í Reykjavík, hvor á sinni hæðinni þó og þegar við fluttumst vestur í Dali, varð búskapurinn aftur náinn þegar við bjuggum öll í sama húsinu sem var í raun ein íbúð. Þó að Ester hafi ekki gengið heil til skógar eftir að hafa upplifað áþján berklanna í æsku, varð maður aldrei var við að það hefði áhrif á líf hennar og störf. Þó að líkaminn bæri merki þess voðaverks sem höggningin var, fundum við sem áttum dagleg og náin samskipti við hana ekki fyrir öðru hjá Ester en vinnusemi, dugnaði og glaðværð.

Það var einatt glatt á hjalla í Stórholti og mikilli vinnu og löngum dögum mætt með bjartsýni og uppbrettum ermum. Mamma og Ester skiptu með sér verkum, eða unnu saman að móður- og húsmóðurstörfum á stóru búi. Allir voru vinnumenn, háir sem lágir. Matmálstímar náðu oft saman hjá þeim sem unnu í eldhúsinu og alltaf var reglusemi á matmálstímum, nema þá einna helst í leitum á haustin. Í þeim minningum skipar kraftmikil kjötsúpan stóran sess. Í heyskap var mannskapurinn oft ekki kallaður inn í kaffi en húsmæðurnar komu þá með bakkelsi, mjólk og kaffi út á tún. Þetta voru sælar stundir. Líkamlegt erfiði styrkti okkur unglingana og pabbi sá um að kenna okkur rétt vinnubrögð. Þá var hvíldin fólgin í því að skipta frá rétthentri beitingu í örvhenta við rakstur, mokstur og að kasta böggum.

Þegar Arnbjörg systir var líklega þriggja ára, ákvað mamma að fara til Norðurlanda í söngferðalag með kór Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu, en fjórmenningarnir Ester og Benni og foreldrar mínir höfðu sungið árum saman í þeim kór. Þetta margra daga brotthvarf mömmu hafði ekki mikil áhrif því hin mamman var til staðar. Ester tók að sér ungviðið og okkur bræðurna sem þurftum næringu, vel útilátna á réttum tíma. Við, sem höfum átt Ester að í lífinu, höfum svo mikið að þakka fyrir. Ester heimtaði aldrei athygli en var á sinn hógværa hátt einskonar fótfesta og grunnur í lífi sinna nánustu.

Hjónaband Esterar og Benna hefur í mínum huga alltaf verið eins og gegnheill klettur. Samhent uppfylltu þau hvort annað með skýrri verkaskiptingu sem var aldrei rædd, svo ég viti. Það hefur verið mér alveg ljóst, alla mína ævi, að Ester og Benni eru eitt og nöfn þeirra oftar nefnd saman en  hvort í sínu lagi.

Nú eru systkinin frá Skaftafelli í Vestmannaeyjum þrjú eftir af ellefu. Þessi hávaxni og tígulegi systkinahópur hefur sett mark sitt á samferðamenn og mikilvæg spor hafa þau skilið eftir sig í starfi Hvítasunnuhreyfingarinnar á Íslandi. Þau lærðu það við móðurkné að bænin og náið samband við frelsarann er haldreipi sem maður sleppir ekki hvað sem á dynur. Ég er þakklátur fyrir ástina og væntumþykjuna sem ég og systkini mín höfum alla tíð fundið fyrir frá Ester og Benna og enn og aftur finn ég hvað það er erfitt að tala um annað þeirra án hins.

Benni minn! Við Hafliða-hópurinn sameinumst enn og aftur, þér og dætrum þínum, nú í söknuði og fögrum minningum um hana elsku Ester. Nú er henni að  nýju léttur andardrátturinn eftir langvarandi heilsubrest. Nú baðar hún sig í birtunni frá frelsaranum og upplifir fyllingu þessa magnaða fyrirheitis sem við öll eigum í trúnni á Jesú.

Elsku Benni, Rebekka, Rakel, Kristín, Líney og fjölskyldur. Þið eigið okkur alltaf að og hjarta okkar, hugur okkar og ást okkar er hjá ykkur. Foreldrar mínir, Gyða og Hafliði, ásamt Ómari, Arnbjörgu og fjölskyldum okkar taka undir þessa kveðju.

Ykkar elskandi frændi,

Guðjón Hafliðason.

Þótt aðdragandinn hafi verið langur var það sjokk þegar símtalið kom. Tilfinningin er óraunveruleg, sár, nístandi en í senn léttir fyrir hönd ömmu og gleði yfir þeim fallegu minningum sem við áttum saman.
Ég var mikið á heimili ömmu og afa þegar ég var lítil. Ég minnist helst stundanna í Stórholti og svo í Búðarnesi í Stykkishólmi. Allt var svo hreint og fallegt, með handbragð ömmu um allt. Hún var mikil handavinnukona sem gerði allt svo fallega. Ég minnist þess svo vel að það var alltaf svo mikil ró í kringum ömmu, einstök nærvera.
Amma kenndi mér að prjóna þegar ég var fjögurra ára og hafði endalausa þolinmæði til að aðstoða mig með fallnar lykkjur og vitleysu sem ég var búin að gera. Alltaf átti hún auka spotta og prjóna til að lána mér eða efnisbút, nál og tvinna.
Þau er svo mörg minningabrotin sem ylja mér þessa stundina. Jólin í Stórholti, pítsuveislur, afmælissímtölin og símtölin þegar ég hringdi stolt til að tilkynna einkunnirnar mínar, fléttukórónur, morgunmatur í rúmið um helgar, öskupokar, heimsóknir í Hólminn, Stórholtið og til Vestmannaeyja. Hjónabands-ælan, döðlukaka, hveitikökur, fölbleikur gloss og margt margt fleira.
Það er svo skrítið hvernig hlutirnir eru. Helgina fyrir andlát ömmu fann ég teppi sem hún hafði prjónað handa einu af börnunum mínum. Ég tók það upp, lagði það að andlitinu og reyndi að finna lyktina af ömmu. Fann svo sterka tilfinningu fyrir því að geyma og varðveita vel það sem hún hefur gefið mér. Bæði alla fallegu munina og þá ást og hlýju sem hún gaf af sér.
Mér finnst ég svo heppin að hafa fengið það hlutverk að vera hjá afa nóttina fyrir jarðarför og næstu nótt á eftir. Þar fékk ég að gista í ömmu holu með sængina hennar og koddann. Það gaf mér svo mikið að fá að finna lyktina hennar ömmu og vera afa til stuðnings. Viðtalið sem Ester Helga tók við hana var spilað aftur og aftur. Þetta viðtal er ómetanlegt nú þegar amma er látin. Frásögn með hennar eigin rödd og orðum um líf ömmu og afa.
Stórt skarð er höggvið í fjölskylduna, það hefur þjappað henni saman og fallegt hvað mikil samvinna hefur einkennt sérstaklega þær systur og afa á þessum erfiðu stundum. Ég sendi ást, kærleika og hlýju til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls ömmu Esterar.

Þær stundir sem að minnast hér,
mig dreymir flestar nætur.
Minningar er gafst þú mér,
þær ylja um hjartarætur.
,
Þó dauði sé staðreynd sú,
og öllum fylgt til grafa.
Þá trúi ég því heitast nú,
að þú sért enn hjá afa.

Emilía Lilja.