11. desember 2012 | Aðsent efni | 788 orð | 1 mynd

Vísitölutenging lána

Eftir Svein Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir Svein Óskar Sigurðsson: "Má því færa bæði fjárhagsleg og hagfræðileg rök fyrir því að verðtryggð lán séu að stórum hluta gengistryggð."
Lán í krónum, sem tengjast vísitölum, hafa tíðkast í áratugi. Gengistryggð lán, þar sem skuldbindingar í krónum voru tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, tíðkuðust lengi vel og voru m.a. veitt aðilum í sjávarútvegi sem seldu afurðir sínar erlendis og fengu tekjur í erlendum myntum.

Hæstiréttur Íslands (HRÍ) dæmdi réttilega gengistryggingu krónulána ólögmæta árið 2010. En hvers vegna var þetta bannað árið 2001?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS)

Á löngu árabili, fyrir gildistöku vaxtalaga nr. 38/2001, gerðu sérfræðingar rannsóknir á íslensku hagkerfi með það að leiðarljósi að Seðlabanka Íslands (SÍ) yrði veitt aukið sjálfstæði, að horfið yrði frá fastgengisstefnu og tekið upp svokallað fljótandi gengi og verðbólgumarkmið.

Megináherslur AGS á þessum árum í kringum 2000 voru þær að ekki yrðu veitt svokölluð gengistryggð lán enda gætu slík lán að óbreyttu skapað verulega hættu á gjaldeyrisáfalli og stefnt fjármálastöðugleika í voða eftir að krónunni yrði fleytt.

AGS varaði því við þessu. Vaxtalögum var breytt þrátt fyrir að sérfræðingar, sem tjáðu sig við nefnd þá sem fór yfir frumvarpsdrög nýrra vaxtalaga fyrir 2001, vildu meira frelsi og aukið samræmi við Evrópurétt hvað frjálsan fjármagnsflutning varðar.

Þrátt fyrir þetta var bannið lögleitt og HRÍ hefur dæmt þessi lán ólögmæt.

Verðtrygging og vaxtalög

Árið 1998 ritaði einn ágætur sérfræðingur skýrslu fyrir SÍ um verðtryggingu fjárskuldbindinga og fjallaði hann m.a. um tilkomu Ólafslaga frá 1979. Óhætt er að segja að þarna fari afar áhugaverð úttekt og réttlæting á þessu fyrirkomulagi, m.a. varðandi það að tryggja beri það lánsfé sem lánað er í ólgu hins íslenska hagkerfis.

Það er vel skiljanlegt að erfitt er að óska eftir því við aðila, sem eiga fjármuni, að lána ef þeir fá ekki það sama til baka ásamt eðlilegri ávöxtun. Hér er m.a. átt við skuldabréf sem byggjast á lánveitingum til almennings á Íslandi eða til fyrirtækja. Hins vegar verða fjárfestar að horfast í augu við áhættu eins og aðrir og það gera þeir vissulega.

Líta ber til þess að það eru í gildi lög í landinu um SÍ nr. 36/2001 sem gera ráð fyrir verðbólgumarkmiði sem bankanum ber að fylgja. Þessum sjálfstæða banka ber að halda breytingu á verðlagi í 2,5% á 12 mánaða tímabili með 1,5% vikmörkum sitt í hvora átt.

Sá sem leggur fyrir sig framtíðina og tekur verðtryggt lán hlýtur að eiga að geta gert ráð fyrir því að SÍ nái að halda breytingu á verðlagi innan a.m.k. 4% á 12 mánaða tímabili þegar ætlunin er að greiða lánið upp á næstu 20 til 30 árum. Ekkert af þessu hefur staðist og lántaka gert að bera alla áhættuna af þenslunni hver svo sem henni veldur. Er slíkt eðlilegt og sanngjarnt? Er eðlilegt að lántakandi viti ekki við lántöku hvernig höfuðstóll láns þróast og greiðist niður?

Á árunum fyrir hrun miðluðust vextir ekki með þeim hætti um hagkerfið sem áætlanir SÍ gerðu ráð fyrir og ekkert gekk að hemja verðbólguna, m.a. vegna gerræðislegra fjárveitinga banka og fjárfestinga lífeyrissjóða. Þetta er svo sem ekki nýtt af nálinni en hverjum er lofað og hver er sá sem loforðið brýtur?

Eru verðtryggð lán ólögmæt?

Ef litið er til hlutfallslegrar skiptingar vísitölu neysluverðs má fullyrða að vel yfir 50% af henni hækka eða lækka vegna gengisþróunar íslensku krónunnar til skamms tíma. Reynslan sýnir að ef gengið styrkist taka smásalar oftast mismuninn en ekki ef veiking á sér stað. Þetta þekkja neytendur. Færa má fræðileg rök fyrir því að verðtryggð lán séu að stórum hluta gengistryggð.

Til viðbótar við þessa staðreynd bætast skattahækkanir sem áformaðar eru af hálfu ríkisstjórnar Íslands. Munu þær örugglega hækka lán landsmanna umtalvert og veikja íslensk heimili enn frekar.

Einnig má nefna 2,5% verðbólgumarkmið SÍ og hið lögbundna loforð að 12 mánaða verðlag skuli ekki hækka umfram 4%.

Er hægt að ætlast til þess að lántakendur, t.a.m. neytendur, beri þessar klyfjar áhættunnar einir? Er ekki rökrétt að umfram 4% verðlagshækkun á 12 mánaða tímabili beri lántakandi og lánveitandi jafna áhættu af verðlagshækkunum umfram efri vikmörk skv. lögum er varða peningastjórn á Íslandi? HRÍ ætti að svara þessu.

Aukin ábyrgð í kviku hagkerfi

Fjármagnseigendur eiga að gæta betur að sér við útþenslu á íslensku hagkerfi. Hér er aðallega átt við fagfjárfesta.

Ef HRÍ myndi fyrr eða síðar dæma inn breyttar áherslur m.t.t. framangreindra laga og meginmáls varðandi verðtryggðar fjárskuldbindingar, má ætla að miðlun vaxta um hagkerfið íslenska yrði greiðari.

Ef fjármunatryggingar (sbr. afleiður) eru taldar æskilegar ættu þær, m.a. til upplýsingar fyrir neytendur, að vera aðskildar í sérstökum pappírum í stað þess að spyrða þær saman við verðtryggt skuldabréf eins og tíðkast hefur.

Óheillaþróun peningamála, verðtryggðra og óverðtryggðra lána á Íslandi, er um að kenna ákvörðun stjórnvalda, þróun verðlags og vaxta. Hverjir eiga svo að deila áhættunni af virðisþróun þessara pappíra í þessu umhverfi? Þetta er stóra spurningin og varðar efnahagsstjórn.

Höfundur er MSc í fjármálum, MBA, BA í heimspeki og hagfræði.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.