Ein meginkenningin í nýútkominni bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings, Íslensku ættarveldin. Frá Oddaverjum til Engeyinga , er, að nokkrar voldugar og auðugar ættir hafi stjórnað Íslandi frá öndverðu.

Ein meginkenningin í nýútkominni bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings, Íslensku ættarveldin. Frá Oddaverjum til Engeyinga , er, að nokkrar voldugar og auðugar ættir hafi stjórnað Íslandi frá öndverðu. Eitthvað er eflaust til í þessari kenningu, en hitt gerist líka stundum, að öflugir menn hafa styrk hver af öðrum, til dæmis Thors-bræður og Engeyjarbræður, og er þá ættarveldið frekar afleiðing af eðlilegum frama þeirra en orsök hans.

Margt hefur skemmtilegt verið sagt um íslenskar ættir. Guðrún Pétursdóttir frá Engey var eitt sinn beðin um að lýsa sonum sínum og Benedikts Sveinssonar, sem lengi voru hér áhrifamiklir, sérstaklega Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, laukur Engeyjarættarinnar. Hún svaraði: „Bjarni er stórgáfaður, Pétur stórskemmtilegur og Sveinn stór.“

Pétur Benediktsson var tengdasonur Ólafs Thors forsætisráðherra, sem kunnastur var Thorsaranna. Dóttir Péturs (og dótturdóttir Ólafs) var alnafna ömmu sinnar. Guðrún Pétursdóttir hin yngri var mjög andvíg smíði ráðhúss við Tjörnina, sem hófst 1987, og bað þess vegna um viðtal við Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóra. Hún hóf viðtalið á að spyrja: „Veistu, hverra manna ég er?“ Davíð svaraði: „Já, ég veit það. En veistu, hverra manna ég er?“ Guðrún sagði: „Nei.“ Davíð sagði þá: „Þarna sérðu.“

Davíð ólst upp hjá einstæðri móður sinni og ömmu, tveimur fátækum konum. En hann var í framætt Briemari, skyldur Hannesi Hafstein, Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi og Gunnari Thoroddsen. Briemarar eru afkomendur Gunnlaugs Briems sýslumanns.

Margir frammámenn eru síðan af Reykjahlíðarætt, þar á meðal ráðherrarnir Haraldur Guðmundsson, Geir Hallgrímsson, Jón Sigurðsson (Alþýðuflokksmaður) og Áki Jakobsson. Sú ætt er komin af Jóni Þorsteinssyni, presti í Reykjahlíð í Mývatnssveit, sem sagði eitt sinn: „Með Guðs hjálp hef ég komist yfir allar húsfreyjur í mínum sóknum nema tvær.“ Ættfræðingur einn, Haraldur Bjarnason, var einu sinni spurður um Reykjahlíðarættina. Svar hans varð fleygt: „Það var einu sinni ungur bílstjóri í einni af fyrstu ferðum sínum úr Mývatnssveit til Húsavíkur. Hann ók fjórum sinnum út af og hvolfdi tvisvar, en hann hélt alltaf áfram. Það er Reykjahlíðarættin.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is